Íslenskt samfélag án "hrunflokkanna".

Gaman er að velta fyrir sér ástandinu hér á landi ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu aldrei verið til. Eingöngu skal leitast við að ræða sögulegar staðreyndir og fara hratt yfir sögu um ástand þjóðarinnar ef eingöngu vinstri menn hefðu ráðið hér ríkjum og miðað er við að allt annað sé til staðar.

Vitað er að Kommúnistaflokkurinn var hallur undir Sovétríkin á fyrri hluta síðustu aldar a.m.k. og ekkert hefur bent til þess að Sjálfstæðisflokknum sé þar um að kenna né Framsóknarflokknum.

Ekki skal fullyrt að við hefðum endilega orðið hluti að Sovétríkjunum, því það er svo fjári dapurlegt, en allavega hefðum við verið í fremur nánu samneyti við þau varðandi vöruskipti og vafalaust hefðu menn þegið ráð frá þeim varðandi landsstjórnina og óvíst væri að mikil gleði ríkti með framkvæmd þeirra.

Þar sem vinstri menn hatast við auðvaldið, þá er líklegt að togarar væru í einhvers konar samvinnufélögum og gefum okkur að það hefði gengið ágætlega, því maður þarf líka að vera bjartsýnn. Enginn hefði grætt mikið, en flestir haft nóg að borða og þak yfir höfuðið.

Ólíklegt er að erlend stóriðja hefði fengið náð fyrir augum ríkjandi aðila, þannig að við hefðum þurft að treysta á fiskveiðar fyrst og fremst. Það hefði væntanlega komið "eitthvað annað", þannig að Indriði H. væri eflaust glaðari en hann er í dag.

Það má vel vera að "eitthvað annað" hafi getað skapað tekjur sem væru viðbót við fiskinn.

Svo átti sér stað viss þróun hjá krötunum, Jón Baldvin varð markaðssinnaður og frekar til hægri og vel á minnst, gefum okkur það að Gylfi Þ. hafi hætt öllum haftabúskap og innleitt visst markaðsfrelsi á sama tíma og Viðreisnarstjórnin kom.

Vissulega hefðu verið tekin erlend lán og landið haft ágætt lánstraust og rausnarlegri velferðaraðstoð væri hér á landi.

Jón Baldvin hefði vitanlega verið sami ESB sinnin og vafalaust hefði hann kippt okkur í ESB og við væntanlega tekið upp evru.

Jafnaðarmenn stuðluðu að opnun fjármálamarkaða, þannig að bankar hefðu verið einkavæddir hér á landi.

Þótt "hrunflokkarnir" væru ekki til staðar, þá er viðbúið að íslendingar væru eins og þeir eru, þannig að útrásin hefði átt sér stað ásamt öllu tilheyrandi. Ríkissjóður hefði bólgnað út, eins og hann gerði og velferðarkerfið hefði vitanlega þanist út, því Jóhanna hefði fengið að blómstra í þessu árferði.

Erlendar skuldir hefðu sennilega ekki verið greiddar niður, því það var verk sjálfstæðismanna og í þessari heimsmynd eru þeir ekki til, þannig að skuldastaðan væri hugsanlega verri.

Hrunið á fjármálamörkuðum heimsins hefði orðið, því varla trúir því nokkur í alvöru að það hafi verið sjálfstæðis og framsóknarmönnum að kenna.

Þá hefði verið farið út í að styrkja gjaldeyrisforðann eins og vinstri menn vildu, að  hluta með lántökum og gefum okur að bindisskylda hafi verið tekin upp eins og þorvaldur Gylfason vildi, hún hefði samt ekki haft áhrif á erlenda starfsemi bankanna og þeir þá lánað meira til vildarvina sinna en hefðbundinna viðskiptavina.

Svo þegar hrunið skall á, þá héldu bæði þorvaldur og Már að þetta væri lausafjárvandi. Þeir hefðu þá látið dæla fé í eitrað bankakerfi með þeim afleiðingum að skuldir ríkisins væru einhverjum þúsund milljörðum hærri en þær eru nú.

Icesave hefði verið stofnað og Bretar og Hollendingar gert sínar kröfur. Við værum í ESB, þannig að við værum nú þegar löngu byrjuð að borga skuldina. 

Ekki kom ESB í veg fyrir slæmt ástand í Grikklandi og Írlandi, þannig að vafasamt er að halda að sambandið hefði stöðvað nokkuð hér á landi.

Sjávarútvegurinn nyti ekki veikingar krónunnar, þannig að fiskverð hefði lækkað og þá hefðum við ekki sambærilegan viðskiptajöfnuð og við höfum í dag.

Skuldir ríkisins væru margfalt hærri sem og atvinnuleysi væri meira.

Nú getur fólk hugsað hvort "hrunflokkarnir" hafi verið eins slæmir og menn vilja vera láta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Góðan Daginn Jón.Athyglisverð grein hjá þér.Þetta eitthvað annað" er fyrirtæki sem farið hefur huldu höfði í 10-15 ár og hefur ekki skilað neinu í þjóðarbúið svo ég viti. svo að það væru, 0 kr. Nú væntanlega værum við í ESB, svo að það væri búið að ryksuga allt landgrunnið og meyra til af ESB Ríkjunum. Svo að samtals yrði það kr. 0,00. Engin stóriðja væri hér.kr.0,00. Þar! Segjum þá að ferða manna batteríið sem VG dásamar svo mikið hafi gengið upp hjá þeim, þá hefði þjóðin væntanlega atvinnu af því að tína upp skeinispappír upp um fjöll og firnindi. Yfir veturinn mætti svo dunda sér við að endurvinna pappírinn! Ekkert velferðarkerfi væri í landinu því að það væri of dýrt, Kannski yrði pensillín niðurgreitt!v/ pappírstínslu! Nei mér datt þetta svona í hug!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 25.1.2011 kl. 13:45

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Góðan daginn Eyjólfur minn.

Þín kenning er mjög góð, ég vildi bara hafa aðstæður eins jákvæðar og þær hefðu getað hugsanlega orðið með vinstri menn við völd, en óvíst er hvort hámarksbjartsýni gangi nokkurn tíma upp.

Þú setur fram virkilega áhugaverðar pælingar og gaman væri að sjá hvernig fleiri sjá fyrir Ísland ef engir hefðu verið "hrunflokkarnir".

Jón Ríkharðsson, 25.1.2011 kl. 14:05

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Jón.

Oft hef ég nú gaman að greinunum þínum og kröftugum skrifum þínum gegn ESB rétttrúnaðinum og þar erum við hjartanlega sammála.

En þessar fabúleringar þínar ganga nú full langt í ímyndarveikinni finnst mér. Það er nefnilega svo margt líkt með okkur íslenska mannfólkinu þegar allt kemur til alls sama hvaða flokkum og eða stjórnmálastefnum við fylgjum í heildina yfir ævina eða skiptum kannski um eunu sinni eða oftar.  Það er eins og skáldið Tómas Guðmundsson sagði eitthvað á þennan hátt í einu ljóða sinna: "ja mikið svipar þeim til hjörtum mannanna í Súdan og Grímsnesinu"

Sjálfur tel ég mig alltaf að upplagi vera vinstri mann en hef svo staðið mig að því að sjá margt ágætt og spennandi við aðrar stjórnmálaskoðanir líka og þá styð ég þau mál heils hugar.

En í seinni tíð hef ég þó algerlega verið bólusóttur fyrir því að geta nokkurn tímann það sem eftir er af ævi minni stutt Samfylkinguna, mesta og óheiðarlegasta hentistefnu flokk íslenskra stjórnmála fyrr og síðar ! 

Góðar stundir.

Gunnlaugur I., 25.1.2011 kl. 14:29

4 Smámynd: Áslaug Friðriksdóttir

Takk fyrir þetta, sniðug pæling.

Áslaug Friðriksdóttir, 25.1.2011 kl. 14:57

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sæll Gunnlaugur, mig langar til að leitast við að útskýra hvað fyrir mér vakti við skrif þessarar greinar.

Margir tala sem svo að sjálfstæðis og framsóknarmenn hafi valdið hruninu, ég get engan veginn fallist á það, þótt vissulega hefðu þeir átt að vera meira vakandi yfir því sem var að gerast á fjármálamarkaði. Einnig finnst mér fólk ekki nægjanlega meðvitað um þær framfarir hér á landi sem urðu til fyrir tilstuðlan þessara tveggja flokka.

Þú segist vera vinstri maður, það er ekkert slæmt við það í sjálfu sér. Það sem mér hefur helst mislíkað við marga vinstri menn er hversu herskáir þeir eru og oft á tíðum um of tilbúnir í baráttu sem leiðir af sér ofbeldi. En vissulega eru til friðsamir vinstri menn og ég gef mér að þeir séu í meirihluta.

Þú mátt heldur ekki halda að ég hafi ekkert gott um vinstri flokkanna að segja, vissulega haf þeir gert margt gott.

Nefna má endurbætur almannatryggingakerfilsins, vinstri menn höfðu frumkvæði að því árið 1944. Alþýðuflokksmenn ásamt Sósíalistum höfðu frumkvæðið og sjálfstæðismenn samþykktu, þessir flokkar voru í ríkisstjórn á þessum tíma sem kölluð var nýsköpunarstjórnin.

Svo bætti Magnús Kjartansson um betur, mig minnir að hann hafi verið í Alþýðubandalaginu, og færði velferðarkerfið nær því sem gerist á hinum norðurlöndunum. Það voru vissulega framfaraskref.

En ekki má gleyma því, að sjálfstæðismenn stóðu ekki gegn þessum málum er þeir voru í ríkisstjórn, Bjarni heitinn Ben. hóf undirbúning að þeim lífeyrissjóðum sem við þekkjum í dag, sjálfstæðismenn vilja nefnilega ekki síður að fólk njóti velferðar.

Sagan hefur sýnt það, að sjálfstæðismenn hafa haft meira frumkvæði til verðmætasköpunar og ekki verið jafn mótfallnir því að menn högnuðust, það má vel vera að vinstri menn geti bent á einhverjar góðar og raunhæfar lausnir sem virka skjótt til sköpunar gjaldeyristekna, en það hefur ekki enn komið fram.

Ég er í stjórn Heimssýnar og þar er prýðisgóður formaður sem er í VG eins og þú veist. Á þeim vettvangi starfa ég í mikilli sátt með vinstri mönnum.

Ég er nú ekki það þröngsýnn að ég sjái ekkert gott við vinstri menn, þeir eru vitanlega sömu gerðar og ég, þótt þeir hafi aðrar skoðanir. Ég hef svona aðallega verið að berjast gegn óhæfuverkum ríkisstjórnarinnar og þá nefnt vinstri menn allskyns nöfnum, en taka ber það með fyrirvara, vinir mínir margir sem eru vinstri sinnaðir hafa nú sagt ýmislegt miður um mína persónu, en ég veit að þeim er ekkert illa við mig, stundum eru notuð sterk orð þegar barist er fyrir ákveðnum málstað.

Og góðar stundir til þín sömuleiðis Gunnlaugur.

Jón Ríkharðsson, 25.1.2011 kl. 15:13

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir innlitið Áslaug mín.

Jón Ríkharðsson, 25.1.2011 kl. 15:15

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Þetta er stórmerkilegur pistill Jón Ríkharðsson og þér til mikils sóma. Það er fengur að svona vangaveltum ..... sem vitaskuld geta aldrei orðið en einmitt það: vangaveltur .... því að þær auðvelda manni að setja samfélagsþróunin í skýrt ljós og fókusera á viss lykilatriði í henni. Enn og aftur: kæra þökk fyrir þennan góða pistil. Það eru ekki allir færir til þess að nálgast söguna úr svo frumlegri átt sem þú gerir núna.

Baldur Hermannsson, 25.1.2011 kl. 15:34

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég þakka þér fyrir Baldur og met hól þitt mikils, því eflaust hef ég fylgst lengur með þér heldur en þú með mér.

Þú hefur gert marga mjög góða hluti og ég vil nota tækifærið og hrósa þér fyrir það.

Jón Ríkharðsson, 25.1.2011 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband