Lögmál orsaka og afleiðinga.

Seint mun ég þykja spámannlega vaxinn, en þó get ég hrósað mér af því, að hafa einu sinni séð eitthvað nákvæmlega fyrir. það voru afleiðingar búsáhaldabyltingarinnar frægu.

Það tókst mér með því að notast við lögmál orsaka og afleiðinga, það er nær óbrigðult. Búsáhaldabyltingin skapaði gjörsamlega vanhæfa ríkisstjórn með tilheyrandi vandræðum fyrir þjóðina. Það var vegna þess að ótti og reiði voru drifkraftar fólksins á Austurvelli.

Eina leiðin út úr vandanum er bjartsýni, vinnusemi og gleði.

Vinnusemin er æðst allra dyggða, því hún orsakar framfarir öllum til handa, en það þurfa allir að leggjast á eitt, það má enginn skorast undan.

Við þurfum ríkisstjórn sem ryður braut til hagvaxtar, útflutningsdrifins hagvaxtar, því ekkert annað dugar nú um stundir, einnig þurfum við að laða hingað erlenda fjárfesta og gera landið að fýsilegum kosti fyrir þá.

Atvinnurekendur verða að hafa vakandi auga og grípa öll tækifæri, launþegastéttin kemur svo og hámarkar afköstin eins mikið og kostur er.

Ekkert samfélag getur talist siðmenntað nema það sjái fyrir þörfum þeirra sem geta ekki bjargað sér sjálfir, en allir þurfa að hafa vakandi auga fyrir því, að enginn misnoti velferðarkerfið.

Þjóðin þarf að standa saman og sjá til þess, að allir geri sitt besta og vinni eins og þeir hafa getu til.

Þjóðfundir, stjórnlagaþing og erlendar lántökur gera ekkert gagn nú um stundir.

Það eina sem dugar er vinna og ekkert annað, öðruvísi komumst við aldrei upp úr hjólförunum og verðum aldrei sjálfbjarga þjóð.

Því fyrr sem þjóðin áttar sig á þessum einfalda sannleik, því betra og umfram allt, enga leiðinda byltingu aftur, reiðin er vita gagnslaus í svona aðstæðum. Það er alveg nóg fyrir fólk að berjast við kvíðann yfir eigin afkomu svo reiðin fari ekki að bætast við og virka eins og flugvélabensín á eld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband