Föstudagur, 4. mars 2011
Snarvitlaus ríkisstjórn.
Ef farið er lauslega yfir verk núverandi ríkisstjórnar, þá gæti raunveruleikinn í dag, verið ágætis gamanleikur, ef ástandið væri eðlilegt hér á landi.
Fyrsta verk stjórnarliða var að henda stjórn Seðlabankans út á hafsauga, því það átti að bæta ímynd landsins á erlendum vettvangi. Þegar þeim svo tókst ætlunarverk sitt, var fenginn sakleysislegur Norðmaður í stöðu Seðlabankastjóra. Þótt það samrýmdist ekki algerlega stjórnarskrá að ráða útlending til starfans, þá voru þau ekkert að velta sér upp úr því og fjölmiðlar ekki heldur, allir vildu að þjóðin rétti úr kútnum.
Svo var íslenskur hagspekingur lokkaður hingað til lands, til að taka við stöðunni af nojaranum. Íslendingnum voru boðnir gull og grænir skógar, en fjölmiðlar eyðilögðu það. Kallræfillinn þurfti að sætta sig við þau laun sem í boði voru, jafnvel þótt það væri vandræðalegt fyrir hann í seðlabankaheiminum, að hans eigin sögn.
Þvínæst voru ráðnir reynslulausir samningamenn til að gera erfiðustu samninga sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir, Icesave.
Aðalsamningamaðurinn sagði í viðtali við morgunblaðið, að ef samningarnir hans yrðu samþykktir, þá þyrfti ekki að loka einni einustu sjúkrastofu né heldur kennslustofu í landinu, í a.m.k. sjö ár, við værum alveg í skjóli allan þann tíma og gætum lifað í vellystingum. Fjármálaráðherrann sagði líka að vinir sínir myndu "landa stórkostlegum samningum", er hann var í viðtali á mbl.is.
Framhaldið þekkja allir og vitað er, að blessuðum mönnunum skjátlaðist illilega varðandi þessa samninga, en fjölmiðlar eru nú ekki mikið að velta þeim upp úr því.
Utanríkisráðherrann skoppaði því næst sveittur um Brusselsali, á fullu við að sannfæra menn um að íslendingar væru alveg að fara að átta sig á ágæti aðildar. Það kom reyndar í ljós að þetta var hugarburður hjá honum, en sökum þess að þetta er gæðasál og skemmtilegur kall, þá þykir Brusselmönnum vænt um hann og eru ekkert að núa honum sannlekanum um nasir, ekkert sérstaklega.
Hingað kom auðmaður frá Kanada og vildi kaupa HS orku. Honum er bent á að það sé ekki gerlegt, nema fyrirtækið starfi á EES svæðinu. Hann kippti því í liðinn, stofnaði skúffufyrirtæki í Svíþjóð og keypti hlutinn.
Kaupin voru samþykkt í ríkisstjórninni og friður ríkti á stjórnarheimilinu um stundarsakir, allt þar til fjölmiðlamenn fóru að fræða almenning um skúffuna í Svíþjóð.
Þá vöknuðu sumir stjórnarliðar upp og skömmuðust yfir skúffufyrirtækinu, jafnvel þótt augljóst væri að Magma þyrfti að gera eitthvað þessu líkt, til að geta keypt.
En þetta var ekki í fyrsta skiptið sem fjölmiðlar upplýstu stjórnaliða um eigin verk.
Forsætisráðherra, hæstvirtur, svaraði því til í Kastljósviðtali, að hún hefði heyrt ýmislegt í fjölmiðlum, varðandi framgöngu ríkisbankanna, gott ef að hún ætlaði ekki að skoða málið í næstu viku, en eins og allir vita, þá notast hún við sama tímatal og Guð almáttugur, þannig að vikan kemur ekki fyrr en eftir sjö þúsund ár.
Hægt væri að skrifa heilu ritsöfnin um aulagang ríkisstjórnarinnar, en óvíst er hvort nokkur nennti að lesa.
Þeir sem upplifa verk núverandi ríkisstjórnar og finna þau á eigin skinni, þeim er ekki skemmt.
Það verður aldrei nein endurreisn hér á landi, nema þessi stjórn hverfi frá völdum.
Athugasemdir
Það er greinilegt að fjórflokkurinn hefur sömu hagsmuna að gæta, spillingarliðið er ennþá við völd. Því miður..... Fólk virðist hafa gleymt því að Sampillingin var aðili að hrunstjórninni, í valdatíð hennar var tjónið allavega tvöfaldað vegna erlendra skulda.....
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.3.2011 kl. 02:01
Einu sinni hélt ég líka að Össur væri gæðasál. En það var fyrir langa löngu. En hann er lyginn og útsmoginn og svífst einskis við að draga okkur nauðug viljug inn í Evrópuríkið, ekki af því hann haldi að við viljum þangað, Jón.
Líka faldi hann 2 lögmannaskýrslur undir stól, skýrslur sem voru hliðhollar okkur í málinu. Össur er hættulegur stjórnmálamaður og ætti að rannaka gerðir hans varðand þessi 2 mál og banna hann í stjórn landsins.
Elle_, 5.3.2011 kl. 00:11
Jón, í seinni liðnum var ég að tala um ICESAVE.
Elle_, 5.3.2011 kl. 00:17
Þakka þér fyrir Jóna Kolbrún, ég er ekki alveg sammála þér í þessu máli.
Hægt er að vera á móti öllum flokkunum fjórum, en þeir eru alls ekki eins.
Færa má rök fyrir því að allir sem komast til valda, eru ansi berskjaldaðir fyrir allri umræðu varðandi spillingu, en sannanir eru fáar.
Ég er ekki viss um að vinstri menn séu spilltir, en mér finnst þeir fara kolvitlausa leið í endurreisn samfélagsins.
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru báðir flokkar sem leggja meiri áheyrslu á atvinnu og hafa alltaf gert, vinstri flokkarnir eru í einhverskonar útópíu sem fáir skilja.
Jón Ríkharðsson, 5.3.2011 kl. 00:45
Ég er ekki endilega á þeirri skoðun að Össur sé slæmur maður, en hann er ansi mikill klaufi.
Hann trúir því að ESB sé það eina rétta fyrir okkur, jafnvel þótt ég sé alls ekki sammála því, þá hefur hann þessa skoðun.
Icesave málflutningur hans ræðst af því, að hann vill ólmur koma okkur í ESB og hann vill halda Hollendingum og Bretum góðum.
Mér finnst hann og ríkisstjórnin kolómöguleg, það er rétt, þau ljúga ansi stíft.
Það gera flestir sem eru að verja slæman málstað, enda ekki hægt að verja hann á heiðarlegan hátt.
Mér finnst stór munur á heimsku og illmennsku, ríkisstjórnin er samansett af óttalegum aulum.
En ég er sammála þér í seinni liðnum, það á að rannsaka Icesave málið frá upphafi og til dagsins í dag.
Jón Ríkharðsson, 5.3.2011 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.