Sjálfsögð mannréttindi?

Alltaf hef ég verið hissa á því, þegar fólk talar um að það hafi hin og þessi sjálfsögðu réttindi, mér hefur aldrei fundist ég hafa nein sérstök "sjálfsögð réttindi".

Reyndar er ég ósköp kátur yfir því að hafa fæðst hér á Íslandi, því snemma varð mér sú staðreynd ljós, að heimurinn er stærri en landið okkar og þær þjóðir sem við oftast berum okkur saman við.

Réttindi eru aldrei, hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Ástæða þess að við njótum meiri fríðinda en margar aðrar þjóðir er sú, að þeir sem á undan okkur gengu voru duglegir og framtakssamir einstaklingar, sem voru góðviljaðir mjög.

Ekki nutu íslendingar neinna réttinda hér fyrr á öldum, þá þurfti nokkuð gott að sofna ekki mjög svangur og mikil hamingja var í því fólgin að sjá blessuð börnin lifa af veturinn. Sumir voru nefnilega svo ólánsamir að þurfa að horfa upp á börnin sín deyja sökum hungurs og ills aðbúnaðar, fjölmargir sofnuðu oft með gaulandi garnir, eftir erfiðan og langan vinnudag.

Það er kominn tími til að fólk hætti að væla yfir einhverju sem er ekki sjálfgefið og þakka fyrir það sem við höfum hlotið í arf, frá dugmiklum forfeðrum okkar og mæðrum.

Það er vitanlega sárt til þess að vita, að fólk skuli eiga um sárt að binda nú um stundir, sökum fátæktar. Það er ástand sem við þurfum að laga.

En við lögum það ekki með neinum öskrum og látum, heldur með vinnusemi og dugnaði.

Stöðugt þurfum við að gæta þess að sofna ekki á verðinum, réttindi okkar eru hvorki sjálfgefin né sjálfsögð.

Vel gæti verið að ég, eða hver sem er, lendi í því fljótlega að verða ósjálfbjarga sökum alvarlegra veikinda, jafnvel gæti ég dottið niður steindauður eftir að hafa lamið þessi orð á lyklaborðið.

Þess vegna þurfum við að beita skynsemi og almennri dómgreind til að sjá veruleikann, vera þakklát fyrir hverja stund sem við lifum heilbrigðu lífi.

Í þessum heimi er ekkert til sem heitir "sjálfsögð mannréttindi", við þurfum stöðugt að vinna fyrir þessu öllu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Góður og raunsær pistill. Takk fyrir. Kveðja, BB

Björn Birgisson, 5.3.2011 kl. 20:05

2 identicon

Ágætur pistill.

En ef þú dyttir niður og yrðir ósjálfbjarga um ókomin ár.

Hver verður afkoman og hver á að sjá fyrir þér?

Sigrún Jóna 5.3.2011 kl. 21:06

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Björn.

Jón Ríkharðsson, 5.3.2011 kl. 22:35

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Sigrún Jóna.

Það er erfitt að svara þessari spurningu, eflaust yrði ég að treysta á að mér yrði hjálpað, en það yrði ekki sjálfgefið.

Því miður eru margir í miklum raunir og lítið um hjálp þeim til handa.

Heimurinn sem við lifum í er ekkert sérstaklega góður, það er mannanna verk. 

Við getum bætt hann, en þá verða allir að standa saman og enginn má skorast undan. Þetta er allt í okkar höndum.

Aldrei hef ég gert neinar kröfur mér til handa, ég vænti einskis af öðrum. En mér þykir vænt um allt það sem mér er gefið og vænst þykir mér um vináttu fólks.

Sem betur fer hef ég alltaf verið hraustur og sjálfbjarga með alla hluti, ég veit ekkert hvort ég verð það til frambúðar eður ei.

Þess vegna þakka ég fyrir hvern dag sem ég vakna heill og finn til með þeim sem eru ekki eins heppnir og ég.

Jón Ríkharðsson, 5.3.2011 kl. 22:44

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég ritaði vitlaust í þriðju línu, vitanlega átti að standa "í miklum raunum".

Jón Ríkharðsson, 5.3.2011 kl. 22:45

6 Smámynd: Jón Magnússon

Það er einmitt þungamiðjan ágæti nafni að mannréttindin eru ekki sjálfsögð það þarf að vinna fyrir þeim. Ef við gleymum að vera á vaðbergi þá eru niðurrifsöflin fljót að koma sér fyrir. 

Jón Magnússon, 5.3.2011 kl. 22:59

7 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir nafni minn, það er rétt, við megum aldrei sofna á verðinum, því ekkert er sjálfgefið í þessum heimi.

Jón Ríkharðsson, 5.3.2011 kl. 23:23

8 Smámynd: Björn Birgisson

Jón Ragnar Ríkharðsson, haltu því striki sem þessi færsla byggist á. Striki skynseminnar. Ég hef lesið margt af því sem þú hefur skrifað. Hér ertu á nótum sem mér falla í geð. Nótum skynseminnar og nótum umburðarlyndisins. Nákvæmlega þeim nótum sem okkar þjóð þarf nú. Burtséð frá allri pólitík.

Úr brúnni sérðu sívinnandi karlana á dekkinu og í myndavélum skipsins sérðu sívinnandi karlana á millidekkinu.

Allir eiga þeir rétt til hins sama. Sama hvað þeir kjósa á kjördag.

Sleppum öllum öfgum, en sameinust um að skipa skynseminni í öndveg öllum stundum.

Þá mun okkur farnast betur.

Bestu kveðjur, Björn.

Björn Birgisson, 5.3.2011 kl. 23:56

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þaka þér fyrir Björn minn, ég þarf aðeins að leiðrétta smá misskilning hjá þér.

Ég er nú bara óbreytt hásetablók, þannig að ég stend alltaf á dekkinu og læt þá í brúnni horfa á mig.

Þessi pistill endurspeglar allt sem ég hef sagt og það sem mér hefur alltaf fundist.

Þótt ég sé eindreginn sjálfstæðismaður, eins og allir vita sem eitthvað hafa lesið eftir mig, þá er mér alls ekki illa við þá sem hafa ekki sömu skoðanir og ég.

Öfga hef ég aldrei þekkt í mínu fari, reglulega fer ég yfir mína pólitísku afstöðu og athuga hvort ég sé á réttri leið.

Það sem mér finnst göfugast við sjálfstæðisstefnuna er það, að þar eru allir jafnir og hafa jafna möguleika. Hinar stefnurnar segja hið sama, en skammast svo út í vissar stéttir, það mislíkar mér mjög mikið, öll erum við eins hvaða hlutverki sem við annars gegnum í samfélaginu.

Ég er svo mikill jafnaðarmaður í eðli mínu, að ég virði strætisróna alveg til jafns við æðstu menn þjóðarinnar, við getum ekki án hvers annars verið.

Ég vill að allir hafi frelsi til athafna, en enginn má troða öðrum um tær.

Það má vel vera að í einhverjum pistlum hafi ég vegið of nærri persónum pólitískra andstæðinga, en ég reyni samt alltaf að komast hjá því.

Ég er sannfærður um að bæði Jóhann og Steingrímur eru ágætar og vel meinandi manneskjur í eðli sínu og þau vilja gera vel. Enga trú hef ég á því, að nokkur maður eða kona fari út í pólitík af öðrum ástæðum, en þeim, að vilja bæta samfélagið.

Svo er fólki bara mislagðar hendur við að stjórna landinu. Oft er ég hundóánægður með mína menn á þingi, suma hverja, mér finnst menn stundum ekki átta sig á raunveruleikanum.

Enda er ég ekki stuðningsmaður allra sjálfstæðismanna, fyrst og fremst er ég stuðningsmaður sjálfstæðisstefnunnar og þeirra sem fylgja henni í hvívetna.

En þeir mættu gjarna vera fleiri.

Jón Ríkharðsson, 6.3.2011 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband