Þriðjudagur, 22. mars 2011
Er þá hægt að tala um Fimmflokkinn?
Það sjónarmið heyrist víða í samfélaginu, að enginn munur sé á þeim fjórum flokkum, sem lengst hafa farið með völdin hér á landi.
Margir tala þess vegna um "Fjórflokkinn" í ofangreindu samhengi og þar sem hæstvirtur forsætisráðherra er afar næmur á það sem kemur frá fjölmiðlunum, þá hefur hún einnig tekið sér þetta orð í munn.
Staðreyndin er hins vegar sú, að fjórir ofangreindir flokkar hafa ólíkar stefnur jafnt sem starfsaðferðir, en færa má rök fyrir því, að þeir eigi það helst sameiginlegt, að verja sín verk fram í rauðan dauðann.
Nýr flokkur, Besti flokkurinn spratt upp, og sigraði í borgarstjórnarkosningum sl. vor.
Samkvæmt skilgreiningu þeirra sem tala um "Fjórflokkinn" þá er hægt að bæta Besta flokknum í hópinn og tala um Fimmflokkinn.
Í Silfri Egils sl. sunnudag voru skólamál borgarinnar rædd og Óttar nokkur Proppé varði verk Besta flokksins á sama hátt og forsvarsmenn hinna flokkanna hafa gert svo lengi sem elstu menn muna, þegar kemur að því að fjalla um þeirra störf og stefnur.
Sigurður Harðarson rekstrarhagfræðingur bauð fram krafta sína og fullyrti að fleiri foreldrar væru tilbúnir til, að koma með betur útfærðar tillögur varðandi niðurskurð í borgarkerfinu.
Margir hefðu átt von á, að fulltrúi nýs framboðs sem boðar ný vinnubrögð, myndi taka slíku boði með opnum huga og vera tilbúinn til að endurskoða sína afstöðu.
En hann kom með nákvæmlega sömu rulluna og allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa gera, þegar einhver kemur með nýjar hugmyndir sem stangast á við hugmyndir "flokksins".
Hann sagði að það væri búið að vinna svo vel og mikið í þessum tillögum, að hann efaðist um að nokkru væri við þær að bæta.
Gamlir pönkarar læra furðu fljótt að tileinka sér hlutverk kerfiskalla þegar þeir finna hversu vel valdastólar ylja mönnum, þegar þeir eru sestir í þá.
Nú er besti flokkurinn, samkvæmt skilgreiningu margra, orðinn hluti af Fimmflokknum, sömu vinnubrögðin og sama hugsunin, eina breytingin er breytt útlit og breyttur klæðaburður.
Athugasemdir
Jón, er ekki "besti" bara deild í Samfó, Reykjavík?
Þegar við tölum um fjórflokkinn þá eigum við alltaf við fjórflokkinn á landsvísu. Þar eiga hvorki sæti Besti né L-bróðir hans á Akureyri.
Kolbrún Hilmars, 22.3.2011 kl. 16:27
Þakka þér fyrir Kolbrún, þetta er rétt hjá þér.
Það sem ég á við í þessum pistli er, að sama hver kemst til valda, þá spillir valdið honum eða henni.
Þess vegna þurfum við að efla beint lýðræði, við alþýðufólkið erum á engan hátt vanhæfari en þeir sem sitja á þingi, til að taka ákvarðanir sem okkur varða.
Jón Ríkharðsson, 22.3.2011 kl. 19:43
Sammála þessu, Jón, það kemur eitthvað fyrir suma þegar þeir setjast í valdastóla. Þó ekki alla - það yrði verðugt verkefni að greina það "vísindalega" hverjir eru líklegir til þess að halda heilindum sínum og hverjir ekki.
Eftir því mætti svo ef til vill "gæðaflokka" á framboðslistunum? :)
Kolbrún Hilmars, 23.3.2011 kl. 15:47
Ég er ansi hræddur um að erfitt sé að finna þann sem ekki spillist af valdi, sennilega spillast þeir mest sem þykjast spillast minnst.
Fólk þarf að leggja á sig mikla vinnu og djúpa naflaskoðun til þess að halda í heilindin, þegar það fær völd í hendur.
Jón Ríkharðsson, 25.3.2011 kl. 07:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.