Er vinstri stjórnin betri en "helvítis íhaldið"?

Sá sem að svarar þessari spurningu játandi, fylgist annað hvort ekki vel með þjóðfélagsmálum, eða er gjörsamlega blindaður af kolsvörtum flokksgleraugum.

En það þarf að færa rök fyrir sínu máli, ekki slá upp æsifyrirsögnum eins og vinstri menn og koma með innihaldslaus gífuryrði, slíkt er heftir vitræna umræðu.

Rökin fyrir ofangreindri fullyrðingu minni eru þau, að þegar hrunið skall á og allt varð á hvolfi hér á landi, þá fór það ekki á milli mála, að sjálfstæðismenn horfðu mjög í eigin barm og leituðu skýringa.

Nú hváir eflaust einhver, en minna skal á, að Geir H. Haarde hafði frumkvæði að því, að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir það, hvað raunverulega gerðist. Hann vissi það, eins og flestir hugsandi menn, að hann er algerlega vanhæfur til að meta eigin verk á óhlutdrægan hátt.

Þegar þjóðin heimtaði kosningar bað hann um frest, þar til rannsóknarnefndin hefði lokið störfum. Í orðum hans lá, að hann væri tilbúinn til að leggja sín verk í hendur þjóðarinnar og engin haldbær rök hafa enn komið fram, sem hrekja það.

Vinstri stjórnin neitar alfarið að leggja sín verk í dóm þjóðarinnar og enn síður, vill hún að þau verði rannsökuð.

Þrátt fyrir takmarkað vit, þá gera þau sér sennilega grein fyrir því, að þau hafa ekki staðið sig sem skyldi, en eru nú að reyna að klóra í bakkann.

En varðandi Geir, þá má vel vera að hann hafi ekki treyst vinstri flokkunum til að sjá um landsmálin og það var hárrétt mat hjá honum, eins og síðar kom í ljós.

Það eina sem vinstri stjórnin getur gert, er að reyna að sverta sjálfstæðismenn með innihaldslausum ásökunum um mútur og meinta spillingu.

Ekki skal vinstri stjórnin vera sökuð um spillingu, þar sem engar sannanir liggja fyrir, en það verður að teljast klaufaleg framgangan varðandi ráðningu seðlabankastjórans.

Það voru fleiri sem sóttu um, en Már var ráðinn. Hvers vegna var staðan auglýst, þegar vitað er að Ingibjörg Sólrún lagði það til við Geir, að hann ræki Davíð og réði Má Guðmundsson, sem síðar var ráðinn, án þess að ótvírætt hefði komið í ljós, að hann væri hæfasti umsækjandinn.

Einhver hefði sagt svona vinnubrögð vera einkavinavæðingu og spillingu, ef sjálfstæðismenn ættu í hlut.

En sjálfstæðismenn ásaka yfirleitt ekki fólk um glæpi, nema sannanir liggja fyrir.

Ég hef enn þá skoðun, að þessi ríkisstjórn sé samansafn fábjána, sem ekkert vita hvað þau eru að gera, enginn hefur hrakið þá fullyrðingu enn sem komið er. Reyndar skal viðurkennt, til að gæta sannmælis, að Katrín Júlíusdóttir er sú eina sem telst ágætlega hæf í þessum hópi, en þeir finnast varla fleiri enn sem komið er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ég er svo hjartanlega smmála þér Jón. Hvernig geta þessir menn farið og komið fram fyrir Hollendinga og Breta, með allt niður um sig og ekkert á bak við sig nema tóma þvælu, það hefur ekki verið takandi mark á einu orði sem þeir hafa sagt! Þarna úti er bara hlegið að þeim. Ef við segjum nei fer allt til fjandans og lánshæfismat lækkar, sögðu þeir. Nú  segja þeir að það sé mjög óréttlatt að lækka þegar búið er að segja nei. það er auðvitað alveg rétt, en það áttu þeir að vita fyrir 2 árum. þá væri betra ástand hér í dag! Viðskiptaráðherra setti reglugerð eða lög við útreikning gengistrygðra lána, en getur ekki skilið þau sjálfur að eigin sögn. ( I Bítið á Bylgjunni) hvernig er þetta hægt. Mar mar  mar maður skilur nú ekki svona lagað. Ragnar Reykás!!!!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 18.4.2011 kl. 15:20

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Já Eyjólfur minn, það er lítils að vænta af fábjánum eins og við vitum.

Ég efast um að Bretar og Hollendingar taki mikið mark á þeim, en vonandi ber okkur gæfa til að fá almennilega málssvara í nánustu framtíð.

Jón Ríkharðsson, 18.4.2011 kl. 15:40

3 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Því miður Jón með KVÓTAPÚKANN á öxlinni er Sjálfstæðisflokkurinn skrípa mynd af hægriflokk sem enginn ætti að líta til í því að skapa réttlátt hagkvæmt þjóðfélag.

Eða er það ekki það sem viljum? 

AFNEMUM KVÓTAKERFIÐ OG SETJUM HÉR SÓKNARMARK AÐ HÆTTI MATTHÍASAR BJARNASONAR SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRA SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS!

Ólafur Örn Jónsson, 18.4.2011 kl. 16:00

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Ólafur.

Mér finnst umræðan um kvótakerfið hafa einkennst um of af tilfinningum. Sjálfur var ég harður andstæðingur þess, en eftir að hafa lesið umfjöllun varðandi hagkvæmni þess, frá mörgum virtum hagfræðingum tók ég það í sátt, upp að vissu marki.

Vitanlega var gróði manna af því að leigja kvóta og hafa skipin bundið við bryggju út í hött og svo mætti tína til fleiri galla á þessu kerfi.

Þar sem ég hef verið lengi til sjós og talsvert á togurum, þá veit ég hver þú ert og þú þóttir farsæll og fiskinn skipstjóri.

Mér finnst að stjórnvöld hefðu gjarna mátt hafa meira samráð við þig og fleiri góða skipstjóra varðandi fiskveiðar.

Mín skoðun er sú, að hafrannsóknir við Ísland hafi verið að stærstum hluta meingallaðar, Jón Kristjánsson hefur haft margt gott fram að færa, en ekkert verið hlustað á hann.

Að mínu mati hefði mátt veiða mikið meira en gert hefur verið. Einn gamall skipstjóri sagði mér, að eitt sinn hafi hann verið að toga nálægt skipi sem var á togararalli fyrir Hafró.

Hann sagði að togstefna skipsins, miðað við aðstæður hafi verið kolröng, þess vegna hafi þeir ekki fengið upp á hund. Þú þekkir þá staðreynd, að nauðsynlegt er að toga í samræmi við strauma og allt þetta, ég er hásetablók og skil þetta ekki til fulls, en átta mig á heildarmyndinni.

Mín skoðun er sú, að kerfið utan um veiðarnar sé ekki alslæmt, en aftur þykja mér rannsóknaraðferðirnar og tryggð stjórnvalda við Hafró keyra um þverbak.

En það er nauðsynlegt að ræða þessi mál á opinskáan hátt, án öfga og reyna að komast að niðurstöðu sem flestir geta sætt sig við.

Mér finst stórundarlegt, að við þurfum að forðast karfa og þorsk og reyna að veiða ufsa, sem erfiðara er að finna, en ufsinn er nú ansi hrekkjóttur eins og þú þekkir manna best.

Svo held ég að flottrollinn hafi gert mikinn óskunda, því þau raska viðkvæmu lífkerfi uppi í sjó, lítil umræða hefur verið um það.

Menn þurfa að setjast niður og ræða þessi mál, þannig að öll sjónarmið komi fram og hagsmunir allra.

En ég get sagt þér það, að ef kvótamál eru rædd í flokknum, þá verður allt vitlaust, á landsfundum er skelt hurðum og menn fara næstum í hár saman, þetta eru svo mikil tilfinningamál, þannig að langur vegur er frá, að það sé einhugur í sjálfstæðismönnum með þetta kerfi.

Jón Ríkharðsson, 18.4.2011 kl. 17:37

5 identicon

Það er aldrei gott að taka við stjórnartaumunum eftir hrun og allt í brunarústum.

Það þarf að taka til.  Til þess að kraft og þor.

Auðvitað er ekki hægt að skelle alltaf skuldinni á þá sem stjórnuðu á undan.

Það þarf að taka á erfiðum málum en einhvern veginn hefur það verið erfitt fyrir VG að taka á þeim.

Þeir velta erifðu verkefnunum á undan sér og þegar á að taka á, þá hætta menn bara í þingflokknum.

Þetta eru auðvitað lélegt af mönnum sem þurfa að taka erfiðar ákvarðanir.  Ef menn þora ekki að taka erfiðar ákvarðanir og taka afleiðingunum af óvinsælum verkefnum, þá eiga þeir ekki að vera í ríkisstjórn.

VG þarf virkilega að taka sig á.

Ég er ekki svo viss um að Sjálfstæðisflokkurinn væri að starfa miklu öðruvísi en núverandi ríkisstjórnarflokkar.  Aðstæðurnar eru það erfiðar.  Það sést best ef maður fer á veg Hagstofunar eða á vef Seðlabankans.

Allt tal um skattalækkanir o.þ.h. er auðvitað ekki í spilunum. 

Var það ekki annars hann Friðrik Sophusson sem hækkaði skatta og vexti þegar hann tók við fjármálaráðuneytinu?  Það var góð ávörðun á sínum tíma.  Það sjáum við í dag.

Stefán Júlíusson 18.4.2011 kl. 17:57

6 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Já Jón gaman að heyra það. En þar sem ég var í þagnar bindindi í 12 ár fjarlægðist ég umræðuna og hafði ekki heyrt rök Ragnars Árnasonar háskólaprófessors sem þú ert sennilega að vitna til. En ég var svo heppinn að vera á landinu núna um daginn þegar hann hélt ráðstefnur um Hagkvæmni Kvótakerfisins. Í stuttu máli varð ég agndofa á röksemdarfærslunni. Útúr snúningar og rangtúlkanir staðreynda var á öllum sviðum. Þú sem vanur sjómaður hefðir sennilega orðið eins og ég sem gat varla haldið mér hlustandi á lygina og misfærslurnar sem ultu uppúr mönnunum. Þetta var bara vel skipulagður fíflagangur. 

Þarna eru á ferðinni menn sem fá "sponsor" fé frá LÍÚ til að fara fram með árðóður sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. 

Ef við lítum svo á Kvótaveðin Jón kemur síðan í ljós hvað hékk á spítunni. Hér var sett af stað rúlletta þar sem Kvóti var settur í veð sem um skíra gull væri að ræða og síðan búið til margfeldi eins og Kvótinn væri inn eign í gulli! Þessu var síðan velt áfram  og ekki hætt þar til allir voru komir í "game"ið. Eftir að þetta fór af stað áttum við aldrei möguleika hrunið var óhjákvæmilegt. Og nú vilja þeir endurtaka sama leikinn. Þess vegna er heiftin svona mikil. 

Ólafur Örn Jónsson, 18.4.2011 kl. 18:12

7 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Engum dettur í hug að segja, að hér væri allt miklu betra ef sjálfstæðismenn réðu ríkjum, í ljósi sögunnar þá væri ástandið hugsanlegra skárra.

En það er augljóst mál, að meiri áheyrsla hefði verið lögð á atvinnu og verðmætasköpun. Álversuppbygging í Helguvík væri sennilega komin á fullt, það skapaði störf, tekjur og vissa bjartsýni.

Ég býst líka við að forgangsröðunin hafi verið önnur, ég gæti trúað að þeir fjarmunir sem farið hafa í ESB, stjórnlagaþing og ýmislegt sem hefði mátt bíða, hefðu farið í annað, vonandi nauðsynlegri verkefni.

Annars er frekar erfitt og hæpið að segja nákvæmlega til um hvað hefði orðið, en í ljósi sögunnar hefur landinu verið stjórnað á hagkvæmari hátt þegar sjálfstæðismenn hafa verið við völd.

Nefna má niðurgreiðslu erlendra skulda á sama tíma og vinstri flokkarnir vildu eyða meira fé osfrv.

Skatta og gjaldahækkanir hefðu eflaust ekki orðið eins miklar, því þótt Friðrik hafi gert þetta á sínum tíma, þá eru háir skattar eitur í beinum sjálfstæðismanna og algerlega á skjön við þeirra stefnu.

Jón Ríkharðsson, 18.4.2011 kl. 18:19

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ólafur, við höfum að mestu leiti sömu skoðanir á þessum málum.

Veðsetning á kvóta var náttúrulega út í hött og allt þetta brask.

Þeir hefðu átt að skylda skip til að veiða, annars hefðu þau átt að skila því sem þau gátu ekki veitt.

Sjálfsagt var að leyfa að kaupa kvóta af mönnum sem voru að hætta, en láta þar við sitja. Það að menn skyldu hafa grætt stórfé á að hafa skipin bundin við bryggju var náttúrulega út í hött.

Ég var ekki bara að vitna í Ragnar, þeir voru fleiri en ég man ekki nöfnin í svipinn, einhverjir útlendingar líka.

Annars hef ég alltaf átt vont með að skilja fræðinga, enda óbreyttur togarasjómaður sem kann nokkurn veginn skil á þeim verkefnum sem mér eru falin um borð. Fræðingar hafa heldur ekki alltaf rétt fyrir sér, þetta er allt saman spurning um að vega og meta, gefa sér tíma, en því nenna allt of fáir.

Jón Ríkharðsson, 18.4.2011 kl. 18:27

9 identicon

Jón:  Þetta með Helguvík er hluti af því sem ég var að nefna áðan.  Það hefði þurft að fara á fullt að virkja fyrir Helguvík strax, en það var allt stoppað.  Án orku, ekkert álver.  Það eru ýmis mál sem áttu strax að fara í framkvæmd.  En svo var ekki.  Þetta tefur auðvitað fyrir uppbyggingu og því get ég verið sammála þér að líklega væri ástandið á landinu og sérstaklega á Suðurnesjum "betra" en það er.

Stefán Júlíusson 18.4.2011 kl. 18:59

10 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þar sem við erum hallir undir báða fyrrum stjórnarflokkanna, ég Sjálfstæðisflokkinn og þú Samfylkinguna, þá getum við verið sammála um, að endurreisnin hefði gengið hraðar ef þeir hefðu starfað áfram saman.

Það hefði líka verið meiri sátt um atvinnuskapandi verkefni en núna ríkir.

Jón Ríkharðsson, 18.4.2011 kl. 19:23

11 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það er nú samt ekki svo að Samfylkingin getur ekki kennt Vinstri grænum um allt sem miður fer í stjórnarsamstarfinu.  Ábyrgð Samfylkingarinnar hlýtur að vera mikil á því að hanga í stjórnarsamstarfi sem að henni finnst ekki skila tilætluðum árangri, vegna samskiptaörðuleika við samstarfsflokkinn.

Kristinn Karl Brynjarsson, 18.4.2011 kl. 19:38

12 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Svarið við spurningu þinni Jón, er einfallt: NEI og aftur NEI

Aldrei heyrði maður "helvítis íhaldið" kenna vinstri flokkunum um eigin mistök. Þetta er þó hellsta aðferð vinstriflokkanna. Allt sem þeim mistekst, sem er reyndar flest, er "helvítis íhaldinu" að kenna. Svo þegar eitthvað slysast til að ganga upp eru þessir flokkar fljótir til að eigna sér heiðurinn, jafnvel þó þeir hafi hvergi komið nálægt.

Þegar þetta ekki dugar er gripið til einfaldra og gamalla frasa, eins og "auðlindirnar í eigu þjóðarinnar". Eins mikil öfugmæli er þó vart hægt að hugsa sér, þar sem þessir sömu flokkar stefna að því að koma þessum auðlindum undir yfirráð þeirra sem kendir eru við Brussel.

Auðvitað er margt sem hægt er að segja kvótakerfinu til vansa, þó vil ég frekar að nokkrir Íslendingar ráði þar en evrópuþingið! Kvótakerfið hefur verið deilumál innan þjóðarinnar frá því það var tekið upp og tími til kominn að sátt náist um það mál. Þeirri sátt verður einungis náð með aðkomu allra aðila. Þetta var gert síðasta sumar, þegar nefnd allra flokka og hagsmunaaðila var sett á stofn. Þessi nefnd komst að sameiginlegri tillögu og því var í raun ekkert eftir annað en að setja saman lagafrumvarp um þá niðurstöðu og leggja fyrir þingið. Þessi niðurstaða var þó ekki Jóhönnu að skapi svo ekkert varð úr þeirri sátt sem hægt var að ná.

Maður spyr sig hvort það hafi kannski ekki þjónað hagsmunum Jóhönnu að þetta mál yrði leyst með sátt, hvort hún hafi ekki getað hugsað sér að hafa ekki þetta deilumál til að hræða landsmenn með!!

En aftur að vinstri og hægri. Ég vil frekar kalla þetta afturhald og framsýni. Það lýsir betur þeim mun sem er milli þessara pólitísku póla.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur sannarlega sannað þetta. Ekki einungis hefur hún staðið gegn allri uppbyggingu hefur einnig verið markvisst unnið að því að gera fólki og fyrirtækjum erfiðara fyrir en þörf var á. Þó varð algert stílbrot vinstri stjórnarinnar þegar kom að bönkum og fjármagnseigendum. Þar var tekinn skýr stefna með þessum aðilum og þeirra réttur varinn langt útfyrir lög og rétt. Svo langt gengu vinstriflokkarnir í þessu máli að jafnvel hörðustu kapítalistar skammast sín og hefðu aldrei þorað hálfa þá leið sem vinstri flokkarnir hafa farið!!

Það varð bankahrun, það dylst engum. Ástæðurnar má að hlutatil rekja til lélegrar stjórnunar og eftirlits. Stæðsta ástæðan er þó það siðleysi og dólgsháttur sem eigendur og stjórnendur bankanna viðhöfðu, sérstaklega eftir að þeim varð ljóst hvert stefndi. Vinstri flokkarnir eru duglegir við að eigna einum flokki þetta hrun, þó vissulega annar vinstriflokkanna hafi einnig verið við stjórn síðustu ár fyrir hrun! Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að einmitt sá flokkur á kannski stæðstan hlut í því hvernig fór.

Það var vegna EES samningsins sem bankarnir gátu farið í óhefta útrás. Hverjir stóðu að því að við gerðumst aðilar að því bandalagi?

Það var Samfylkingin sem stóð vörð Baugs í dómsmáli því er þeir lentu í vegna ásakana um að fara ekki eftir lögum. Því máli var að mestu vikið frá dómi, sem kunnugt er. Þar voru gefin skýr skilaboð til "auðmanna" um að yfirráð yfir peningum væru jafnframt yfirráð yfir dómstólum. Þeir þyrftu ekki að fara að lögum, þeir ættu dómstólana!!

Það var Samfylkingin sem stóð helst í vegi þess að tekið yrði í taumanna fyrr, áður en bankarnir færu á hausinn.

Það er Samfylkingin sem enn stendur vörð þess aðila sem sennilega stæðstan þátt á í því hvernig fór, með því að láta átölulaust að bankar afskrifi skuldir þess manns. Sá maður ræður enn yfir stæðsta fjölmiðlarisanum, svo ótrúlegt sem það nú er!!

Því er svarið við spurningu þinni skýrt, Jón. Þó "helvítis íhaldið" hafi vissulega gert mistök, hafa vinstri flokkarnir gert mörg önnur og verri mistök. Þeir flokkar höfðu þó söguna að baki sér og hefðu því getað varast það sem miður fór fyrir hrun. Staðreyndin er að þessir flokkar hafa ekkert lært og engin von til að svo verði. Þeir gera allt það sem hrunskýrslan taldi verst fyrir hrun, þar við bætist svo algert afturhald í uppbyggngu atvinnu og gengdarlaus skattpíning!!

Kosningar til alþingis strax, áður en það verður of seint fyrir land og þjóð!

Gunnar Heiðarsson, 18.4.2011 kl. 19:38

13 identicon

Heill og sæll; fornvinur minn Jón - og aðrir gestir, þínir !

Ég hygg; að auðveldast sé, að taka af þér ómakið Jón minn, í svari mínu, við fyrirsögn greinar þinnar - og benda þér á, sem öðrum, að FULLREYNT er, með mengun stjórnmála manna, í meðförum valda og áhrifa, í landinu - og löngu tímabært, að til komi bezta fólk, úr framleiðslu- og þjónustugreinum, að landsstjórninni.

Alþingi; sem slíku, á að gefa 1000 - 2000 ára fríið, Jón minn.

Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi 

Óskar Helgi Helgason 18.4.2011 kl. 19:44

14 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Heill og sæll fornvinur góður, Óskar Helgi.

Ég tel að besta leiðin til framfara sé almenn hugarfarsbreyting.

Það breytast allflestir þegar þeir fá völd, þannig er nú bara eðli mannsins.

Mörgum finnst þeir nefnilega forframast svo mikið ef þeir fá einhverja athygli, svo ekki sé nú talað um traust.

Þess vegna held ég að beint lýðræði, eins og tíðkast í Sviss sé einna skást.

En það er ekki fullkomið, enda er þetta ákaflega ófullkominn heimur sem við lifum í Óskar minn.

Með bestu kveðjum frá Suðvestur miðum..

Jón Ríkharðsson, 19.4.2011 kl. 00:40

15 identicon

Ekki gleyma því að þegar menn fá völd, þá breytist starfslýsing viðkomandi.

Ætli við báðir þekkjum ekki illa talið um "kallinn í brúnni".

Hann hefur allt annað hlutverk en hinn venjulegi sjómaður.

Stefán Júlíusson 19.4.2011 kl. 07:37

16 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Jú það er mikið til í þessu hjá þér Stefán, því miður eru fáir leiðtogar til, sem standa undir nafni, hvort sem það ,er "karlinn í brúnni" eða forsætisráðherra.

Ég hef verið með mörgum ágætis skipstjórum, sumir eru engir sérstakir leiðtogar og ekki nógu öryggir í starfi, það er oft hnýtt í þá, "helvítis kallinn" osfrv.

En ég er svo heppinn núna, að vera einmitt með skipstjóra sem er leiðtogi.

Þegar eitthvað kemur upp á, þá stendur hann okkur alltaf framar, varðandi lausnir og hann fiskar mjög vel, það sem má fiska.

Þessi maður er einn af okkur strákunum, hann þarf ekki að vara með neinn sérstakan front til þess að halda fjarlægð.

Í borðsalnum er hann ósköp venjulegur, við getum þrasað og verið ósammála, stundum viðurkennir hann að ég hafi rétt fyrir mér og stundum viðurkenni ég að ég hafi rangt fyrir mér.

Svo þegar á dekkið er komið, þá rökræði ég ekki, enda þekki ég engan sem hefur eins mikla þekkingu á því sem snýr að trolli og er eins fljótur að finna lausnir.

Reyndar má segja að erfitt sé að gera upp á milli hans og fyrsta stýrimanns, sem leysir af sem skipstjóri.

En þeir eiga það báðir sameiginlegt, að hvorugur þeirra heldur okkur í neinni fjarlægð, það er í lagi að atast í þeim og þeir fíflast á móti osfrv.

Svona eru sannir leiðtogar og því miður er vöntun á svona mönnum í pólitík.

Jón Ríkharðsson, 19.4.2011 kl. 13:29

17 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Fyrirgefðu Stefán minn, ég hald að ég hafi alveg skilið hvað þú varst að meina, sennilega muninn á því að vera í stjórn og stjórnarandstöðu.

Menn geta vissulega leyft sér að tala meira í stjórnarandstöðu og þar bera menn ekki eins mikla ábyrgð, það er alveg rétt.

En sagan hefur sýnt það, þrátt fyrir ýmis mistök, mörg hver ansi klaufaleg, þá hefur stjórnarseta sjálfstæðismanna verið farsæl, svona á heildina litið.

Ég leitast alltaf við að lesa mér til og kynna mér málin áður en ég mynda mér skoðanir.

Ekki segi ég að mín skoðun sé endilega sú eina rétta, en ég hef það á tilfinningunni að allt of fáir nenni að kynna sér málin áður en þeir mynda sér skoðanir. Það þykir mér neikvætt, en það er alltaf gaman að skiptast á skoðunum við fólk í öðrum flokkum, það er hægt að læra margt á því.

Jón Ríkharðsson, 19.4.2011 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband