Þriðjudagur, 17. maí 2011
Steingrímur og Jóhanna klúðruðu sínu besta tækifæri.
Það hefði ekki verið hægt að velja betri aðstæður, heldur en það ástand sem ríkti í kjölfar hrunsins hér á landi, fyrir vinstri flokkanna til að sanna sig og efla fylgið.
En Steingrímur og Jóhanna klúðruðu því svo gjörsamlega að óvíst er hvort þau nái nokkurn tíma kjöri aftur.
Ef þau hefðu haldið rétt á spilunum í upphafi stjórnarsetu sinnar, þá hefðu þau fengið þjóðina á sitt band.
Lánasöfn bankanna voru yfirtekin með 60% afföllum, þá hefði verið prýðishugmynd að lækka höfuðstól allra lána um ca. 15% og gefa það út, að þetta væri gert til að koma til móts við fólk vegna þeirra forsendubreytinga sem áttu sér stað.
Síðan hefði átt að setja allar framkvæmdir á fullt, álver osfrv., VG hefði getað sagt við sína kjósendur að í því neyðarástandi sem ríkti, þá væri miklvægt að auka framleiðsluna og skapa atvinnu og tekjur, jafnframt hefði verið hægt að friða kjósendur VG og segjast vera að skoða aðrar leiðir, ekki yrðu fleiri álver.
Kannski hefðu allir fylgjendur VG gleypt þetta, en vafalaust hefði þetta bætt ímynd forystunnar hjá þjóðinni.
Samfylkingin hefði getað sagt við sína kjósendur að nú væri ekki tímabært að sækja um aðild að ESB, því það þyrfti að ræða þau mál frekar og afla því stuðnings, ennfremur væri ekki heppilegt að setja stórfé í umsóknarferlið á meðan ástandið væri svona, en SF hefði jafnframt getað sannfært sína kjósendur um, að engin stefnubreyting hefði átt sér stað.
Ímynd Jóhönnu og Samfylkingarinnar hefði stórbatnað við þetta og jafnvel orðið nokkuð góð.
Steingrímur hefði getað áréttað þá skoðun sína, sem hann setti fram í stjórnarandstöðu, að okkur bæri ekki að greiða Icesave og í framhaldinu fengið harðsnúna erlenda samningamenn í lið með sér og gefið fyrirmæli um, að neita öllum greiðslum, nema þeim sem kæmu úr þrotabúi Landsbankans.
Þau hefðu átt að benda á allan kostnaðinn sem væri í utanríkisþjónustunni og víðar og sagt þjóðinni, að þau stæðu með fólkinu í landinu og myndu fyrst skera niður allan óþarfa.
Þau hefðu getað haft virkt samtal við þjóðina, með blaðamannafundum, og sagt að það yrði síðast af öllu ráðist í skattahækkanir, fyrst yrði skoðað hvar hægt væri að skera niður og allra leiða leitað til þess.
Menn hefðu alveg horft framhjá einu og einu orði um "helævítis íhaldið", þau hefðu getað sagt að allt of miklum peningum hafi verið eytt í óþarfa í þeirra tíð og nú yrði beitt aðhaldssemi á þessum erfiðu tímum, skjaldborg yrði sannarlega slegið um almenning í þessu landi.
Skattlagningu séreignarsparnaðar hefðu þau átt að taka fagnandi og segja að nú væri þörf á minni skattalækkunum. Þau hefðu getað sagst vera öðruvísi en sjálfstæðismenn, því þau tækju við góðum hugmyndum sama hvaðan þær kæmu.
Það hefði nú aldeilis bætt þeirra ímynd til muna og meiri sátt skapast í samfélaginu.
Utanríkisráðherra hefði átt að senda lið út um allan heim til að kynna okkar málstað og afla okkur vina.
Hægt er að tína fleiri atriði, en látið skal nú staðar numið að sinni.
Í staðinn fyrir að nota þetta gullna tækifæri til að sýna þjóðinni, hversu gott væri að búa við vinstri stjórn, þá ákváðu þau að gera allt kolvitlaust, enda eru þau svo sem góðu vön.
Vinstri menn stjórnuðu borginni í tólf ár og komust upp með að kenna sjálfstæðismönnum um allt sem miður fór.
Það hefur verið nóg að senda fræðimenn út af örkinni og bölva sjálfstæðismönnum ásamt því að föndra einhverjar tölur til að rökstyðja vafasaman málstað, þjóðin kokgleypti alla vitleysuna.
En málið horfir öðruvísi við þegar þau eru sjálf í eldlínunni, þá sést það svo vel, hversu vanhæf þau eru.
En eitt almesta bull í vinstri mönnum er, að vinstri stjórnin hafi tekið við á versta tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.