Fimmtudagur, 16. júní 2011
Eru vinstri menn friðarsinnar?
Vinstri menn hafa mótmælt hernaði og aðild okkar að NATÓ, en eru þeir endilega meiri friðarsinnar en hægri menn?
Þótt ekki sé verið að tala um alla vinstri menn, því vissulega eru til einlægir friðarsinnar í þeirra hópi, þá virðast hægri menn vera ólíkt friðsamari en þeir sem halla sér að vinstri hlið stjórnmálavængsins.
Þegar efnt hefur verið til blóðugra bardaga hér á landi, þá hafa vinstri menn verið þar í fararbroddi, Gúttóslagurinn, mótmælin vegna NATÓ inngöngunnar og búsáhaldabyltingin eru skýr dæmi um bardagagleði vinstri manna.
Þegar hægri stjórnin ríkti í aðdraganda hrunsins, (Samfylkingin var hægri flokkur þar til hrunið varð), þá studdi VG búsáhaldabyltinguna með ráðum og dáð, frést hefur af þingmanni þeirra, Álfheiði Ingadóttur, leiðbeina mótmælendum um, hvernig best væri að forðast lögregluna.
Ekki þurftu löghlýðnir mótmælendur að forðast lögregluna, því þeir höfðu ekkert að óttast.
Hvernig má það vera, að eftir allt sem á undan er gengið í tíð vinstri stjórnarinnar, þá hafa engin almennileg mótmæli verið?
Ætli það sé vegna þess, að Vinstri hreyfingin grænt framboð skipuleggur ekki mótmæli gegn eigin ríkisstjórn?
Einnig má benda á, að í opinberri umræðu, eru vinstri menn mun árásargjarnari en hægri menn, enginn af formönnum Sjálfstæðisflokksins hefur ráðist að andstæðingi sínum í pólitík og slegið hann þéttingsfast, eins og Steingrímur Joð gerði við Geir H. Haarde.
Benda má á, að hægt er að heyja stríð með orðum og þar eru vinstri menn skæðari en hægri menn og ósvífnari.
Engan hægri mann þekki ég, sem myndi vilja skaða vinstri menn á nokkurn hátt, við tölum aldrei um að setja stjórnarliða í fangelsi fyrir mistök í starfi, en vinstri mönnum þykir sjálfsagt að stuðla að því, þ.e.a.s. ef um er að ræða hægri menn.
Óhætt er að upplýsa orð sem féllu á fundi einum í Valhöll, þegar vinstri stjórnin var búinn að klúðra nokkrum málum.
Þá kom einn fundarmanna með þá hugmynd, að við myndum efna til mótmæla, en honum var þá strax bent á það, að svona höguðu sjálfstæðismenn sér ekki. Þá varð viðkomandi hálf skömmustulegur og viðurkenndi vitleysuna í sér.
Sannur hægri maður mun aldrei stuðla að eða standa fyrir því, að meiða nokkurn mann, þá er ég að tala um hægri menn hér á landi, því þvargarar til vinstri eru svo fyrirséðir, að ég veit að þeim dettur strax í hug að nefna Hitler og Mussolini, en það er ekki verið að vitna til annarra landa, svo það sé áhreinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.