Er Jóhanna að þóknast þjóðhetjunni?

Hæstvirtur forsætisráðherra, eða aðstoðarmaður hennar, býr yfir afskaplega frjóu ímyndunarafli.

Mynd sú sem þjóðin hefur af þjóðhetjunni Jóni Sigurðssyni er sú, að hann hafi viljað frelsi og fullveldi Íslands ofar öllu, þannig að varla hefði aðildarumsóknin að ESB verið honum kærkomin afmælisgjöf í fyrra.

En Jóhanna eða ræðuritari hennar og aðstoðarmaður, er á fullu við að skekkja mynd þjóðarinnar af Jóni Sigurðssyni, hún vill meina að stjórnlagaþingið muni heiðra minningu hans.

Það er afskaplega langsótt að telja það heiður við minningu manns, sem vildi sjálfstæði og fullveldi íslendingum til handa, að semja stjórnarskrá sem miðar m.a. að því, að deila fullveldi með öðrum þjóðum.

Jón Sigurðsson var greindur maður og yfirvegaður, fúskið í kring um kosningar til Stjórnlagaþings, gegn vilja meirihluta þjóðarinna, hefði ekki verið honum að skapi ef litið er til rannsókna á hans karakter.

Jóhanna gaf það í skyn, að ef andi Jóns byggi í styttunni á Austurvelli, þá myndi hann gleðjast yfir verkum þessarar ríkisstjórnar og gleðjast yfir stofnun stjórnlagaráðsins.

Ef andi Jóns býr í styttunni, sem telst nú frekar hæpið, þá er Jóhanna heppinn að hann geti ekki talað til hennar.

Miðað við lýsingar á skapgerð og mælskuþrótti þjóðhetjunnar, þá er nú hætt við að Jóhanna Sigurðardóttir fengi harðorðar skammir á hreinni og tærri vestfirsku, en ekkert þakklæti frá Jóni Sigurðssyni.


mbl.is Draumur Jóns um stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Jón þú ert nú kominn út af braut með stjórnlagaráð. Þjóðin talaði og skilaboðin voru skýr.

Bæði þjóðþingið og stjórnlagaráð eru í anda Jóns Sigurðssonar. Hegðun Hæstaréttar var hneyksli sem skrifast á spillingar öflin í kringum fyrrum formann sjálfstæðisflokksins. 

Beint lýðræði er krafa nútímans. Að hafna beinu lýðræði eða draga lappirnar í því að treysta fólkinu fyrir stærri ákvarðanartökum er tímaskekkja sem hrjáir fjórflokkinn. 

Fjárdráttur, einokun og hagsmuna pot eru hvorki í anda Jón Sigurðssonar né Sjálfstæðisflokksins. 

Ólafur Örn Jónsson, 17.6.2011 kl. 22:41

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Nei Ólafur, ég er alls ekki kominn út af brautinni og ég skal rökstyðja það aðeins nánar.

Það sem mér finnst helst athugavert við stjórnlagaráðið, á þessum tímapunkti er kostnaðurinn við það, auk þess er ekki full samstaða um breytingar á stjórnarskránni meðal þjóðarinnar.

Það að setja hundruðir milljóna í aðgerð, sem valdið hefur deilum finnst mér rangt, ég vil frekar nota peninganna í þarfari hluti á meðan við erum að endurreisa okkur.

Fyrsta skrefið er að mínu mati, að það þarf almenna hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni, við þurfum að standa saman og komast að samkomulagi um sameiginleg gildi. Á meðan verið er að gagnrýna stjórnmálamenn,sem er fyllilega réttmætt, þá má þjóðin ekki fara á svig við lög varðandi kaup og sölu á svartri atvinnustarfsemi og að þiggja bætur úr ríkissjóði án þess að þurfa á því að halda, en ég þekki nokkur raunveruleg dæmi um hvort tveggja.

En varðandi beina lýðræðið Ólafur, þá erum við hjartanlega sammála um það, í síðasta mánuði stóð ég fyrir opnum fundi í Valhöll, þar sem ég ásamt Jóni Magnússyni, Styrmi Gunnarssyni og Tómasi Hafliðasyni, sem er formaður Verkalýðsráðsins, töluðum fyrir beinu lýðræði.

Ef það er einhver stjórnskipan sem mögulega getur skapað sátt og komið í veg fyrir tortryggni, þá er það beint og milliliðalaust lýðræði.

Ég vil hvorki að forsetinn né stjórnarandstaðan geti krafist þjóðaratkvæðis, slíkt getur nýst sem vopn í pólitískri baráttu, ég vil að einhver prósent þjóðarinnar geti krafist þess og horfi til Sviss í því samhengi, en þar velur þjóðin fulltrúa, í framhaldi af kröfu um þjóðaratkvæði, til þess að semja við þingið. Oftast næst samkomulag, en ef það næst ekki, þá kýs þjóðin.

Þar sem ég er einnig einarður andstæðingur ESB aðildar, því ég vil að íslenska þjóðin nái að blómstra á eigin forsendum, þá er ég óhress með ýmsa aðila í stjórnlagaráðinu, mér finnst of mikið af ESB sinnum í því, en það er vitanlega mín skoðun.

Ég efast um að Jón Sigurðsson hafi viljað stjórnarskrá sem takmarkaði fullveldið okkar eða deildi því með öðrum þjóðum.

Í ræðu sem Ólafur Thors flutti á eins árs afmæli lýðveldisins sagði hann m.a. að það væri óhugsandi að nokkur íslendingur gæti hugsað sér, að láta aðrar þjóðir sjá um okkar utanríkismál, ég er sammála Ólafi Thors, við eigum að sjá um okkar mál sjálf.

Ég er sammála því, að láta fulltrúa þjóðarinnar koma að mótun stjórnarskrár, en mér finnst að það mætti vera breiðari hópur með ólíkari skoðanir á málinu, það er mín helsta gagnrýni á stjórnlagaráðið en kannski ekki aðferðarfræðina sem slíka.

En varðandi beina lýðræðið Ólafur minn, þar eru við á sömu línu, hundrað prósent og ég mun berjast fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins og er byrjaður á því.

Jón Ríkharðsson, 18.6.2011 kl. 00:19

3 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þakka þér Jón en Það skiptir ekki máli hvað breytingar á stjórnarskránni kosta ef þær forða okkur frá að fá annan Davíð svo ekki sé minnst á Halldór.

Ef ég á velja milli kvótakerfis og ESB þá vel ég ESB. Allt betra en það kerfi sem er hér í dag. Það sem hefur farið fram til að tryggja þetta kerfi í sessi og áframhaldandi valda pot manna innan geirans endar með að þvinga okkur ESB. 

Ef hér væri aftur á móti heilbrigt markaðs stýrt kerfi að hætti Matthíasar Bjarnasonar sem gerði öllum jafn hátt undir höfði við veiðar og síðan aðgengi að lönduðum fiski höfum við ekkert erindi í ESB nema við þurfum að sjálfsögðu að losna við krónuna og verðbæturnar. Ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta arðrán lengur. 

Af hverju býður þú þig ekki fram til formensku í flokknum Jón. Sé ekki að BB sé að gera það með tunguna ....... best að segja ekki meir. 

Ólafur Örn Jónsson, 18.6.2011 kl. 01:23

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ekki veit ég hvort þú flýir kvótakerfið með því að ganga í ESB, sambandið virðist vera ógurlega hrifið af íslenska kvótakerfinu og viðrist vilja taka það upp, en núverandi kerfi Evrópusambandsins er sannarlega ekki til fyrirmyndir, með leyfilegu brottkasti osfrv.

Við skulum berjast saman fyrir beinu lýðræði Ólafur, þá er ég sannfærður um að það kemur meiri friður í samfélagið, smátt og smátt, því það má búast við átökum og vandræðagangi í byrjun, þegar stjórnskipan landsins verður umbylt á þennan hátt.

En á móti kemur, að þjóði þroskast þegar hún lærir að hugsa sjálfstætt og þarf að taka mikilvægar ákvarðanir.

Vandræði krónunnar eru vitanlega vegna rangrar hagstjórnar allan lýðveldistímans, við höfum verið að eyða meira en við höfum afla og íslendingar hafa til þessa ekki kunnað vel til evrka varðandi peningamál, ekki virðist Evran hafa gert mikið fyrir Spánverja og Grikki.

Þetta með verðtrygginguna, hana þarf að endurskoða og finna út leið, sem verður til þess að dreifa áhættunni á milli lántakanda og lánþega, það gengur ekki upp að lánþeginn sé alltaf með alla áhættuna sín megin, á meðan fjármálafyrirtækin eru margtryggð í bak og fyrir. En það hefur enginn viljað taka á verðtryggingunni.

Benda má á það, að hættan á fjöldagjaldrotum einstaklinga fer vaxandi, fólk gefst upp á að borga, það getur ekki verið bönkunum í hag.

Það er ekkert réttlæti í því, að fjármálastofnanir hagnist á meðan almenningi blæðir út.

Ég kann bara svo vel við mig á sjónum, þetta eru miklar tarnir eins og þú veist, þú þekkir fjöllin, oft er dálítil netavinna, þótt kafteinninn sé nú ansi nettur, miðað við botn og aðstæður, svo fiskum við alltaf vel.

Svo eru það þessi góðu frí á milli, þá getur maður gert hvað sem er og enginn að agnúast í manni.

Ég hugsa að allt yrði snarvitlaust ef ég byði mig fram, ómenntuð hásetablók á togara, svo hef ég engan áhuga á þessu andskotans áreiti og argaþrasi, það er ágætt að þvarga stundum í bloggheimum, en að hafa það að atvinnu, ég held ekki svei mér þá.

Svo myndi ég snarlækka í launum, þannig að hvatinn er enginn fyrir mig, samt sé ég húmorinn í þessu, að bjóða mig fram á næsta landsfundi og verða vitni að viðbrögðunum, þú getur rétt ímyndað þér hvða allt yrði vitlaust.

Jón Ríkharðsson, 18.6.2011 kl. 02:35

5 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Já Jón sjómanns starfið er gott starf og þar finnst besta fólkið í þessum heimi. Í samfélagi skips kemst enginn upp með hræsni og fals svoleiðis fólk þrífst ekki á skipi til lengri tíma.

Það voru stærstu viðbrigðin við að fara í land og þurfa stanslaus að líta sér um öxl útaf fals hundum sem leynast við hvert horn. Ég hef því miður orðið fyrir barðinu á nokkrum þeirra og kann ekki að varast þá eftir að hafa unnið á vernduðum vinnustað í 25 ár.

Konan kom með mér í siglingu einu sinni og eftir það var skipið kallað verndaður vinnustaður og öll forréttindi mín á heimilinu þegar ég var í landi afnumin.

Ólafur Örn Jónsson, 18.6.2011 kl. 07:55

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég er sammála þér með sjómennskuna, það er sterk og einlæg vináta sem myndast á milli skipsfélaga.

Ég hef þess vegna verið að reyna að færa sjómannamóralinn upp á land, það hefðu margir gott af því að taka margt þaðan til fyrirmyndar.

Það er aginn, menn rökræða aldrei við skipstjórann, heldur hlýða möglunarlaust, menn gera það sem þarf að gera og öll sérhlífni er algerlega bönnuð, þeir sem sýna slíka tilburði, ja þó þeir sleppi kannski við brottrekstur, þá ná þeir aldrei að tengjast hópnum.

Þú skilur alveg hvert ég er að fara.

Já ég hef tekið eftir því í pólitíkinni, það er að mörgu leiti falskur heimur og því þarf að breyta.

Ef einhverjir geta kennt þjóðinni einlægni, aga og heiðarleik, þá eru það sjómenn , þess vegna þurfa þeir að láta í sér heyra.

Sumum finnast þetta stór orð, en þeir hafa ekki þá verið mikið til sjós.

Jón Ríkharðsson, 18.6.2011 kl. 11:54

7 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Ef andi Jóns hefði búið í styttunni hefði styttan fallið af stalli sínum og á Hvítu Nornina um leið og hún átti leið hjá.

Óskar Guðmundsson, 18.6.2011 kl. 13:49

8 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Það vill svo til að "Kerlingin í Brúnni" er meiri leiðtogi en leiðtogi Sjálfstæðisflokksins er að sanna sig að vera sleikjandi r***gatið á Kvótapúkanum.

Ofurafl spillinarafla sem stendur vörð um hálf gjaldþrota útgerð og steingelda fiskveiðistefnu hefur verið að þvælast í skrúfu kerlingar en sjáum til hvernig hún á eftir að sigla undan hruni Davíð-ismans nú þegar með 2% hagvöxt í lestinni. 

 Fyrirgefðu Jón gat ekki setið á mér að kasta þegar svo vel lóðaði á sónarinn.

Ólafur Örn Jónsson, 18.6.2011 kl. 14:04

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þú þerft ekkert að biðja mig fyrirgefningar á neinu Ólafur minn, það eiga allir að segja sínar skoðanir umbúðarlaust.

Þeir sem að þora ekki að segja sínar skoðanir og eru stöðugt að þóknast öðrum, þeir ná seint góðum þroska.

Ég virði alltaf fólk sem er einlægt í sínum skoðunum og heiðarlegt, jafnvel þótt ég sé ekki alltaf sammála því.

Það hefur sennilega enginn hinn endanlega sannleika á stærri málum, en eflaust er broddur í öllum skoðunum sem settar eru fram á heiðarlegan hátt.

Þú setur hlutina fram á skýru máli, umbúðarlaust og það kann ég vel að meta.

Jón Ríkharðsson, 18.6.2011 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband