Allt of mikill bölmóður.

Það er allt of mikill bölmóður í gangi um þessar mundir, m.a. vegna þess að margir nota óþarflega sterk lýsingarorð til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Þótt það yrði vinstri stjórn hér á landi næstu árin, þá fer ekkert allt til fjandans. Það er vegna þess að íslenska þjóðin er lánsöm að svo mörgu leiti.

Við höfum alltaf fiskinn í sjónum og hann einn og sér getur séð til þess að við höfum nóg að borða, íslendingar eiga kost á nægu húsnæði og ódýrri upphitun. Á meðan við getum selt fiskinn okkar, þá er alltaf hægt að öngla saman aurum til þess að halda okkur á floti.

Íslenska þjóðin hefur ágæta menntun og þekkingu til þess að komast af.

Það er ábyrgðarleysi hjá þeim sem tjá sig á opinberum vettvangi að vera með meiri svartsýni heldur en tilefni er til, við verðum að íhuga brot úr "Einræðum Starkaðar" eftir Einar Benediktsson, það eru hin fögru og sönnu orð; "aðgát skal höfð í nærveru sálar".

Nú vitum við það, að margir þurfa að takast á við mikinn kvíða og mikla angist, sumir hafa misst allt sitt og sjá ekkert nema dökkt framundan.

Þetta ágæta fólk þarf ekki á því að halda, að besservisar í netheimum séu að tala um að bráðum fari allt til fjandans, við breytumst í N-Kóreu osfrv.

Við eigum nefnilega alltaf vonina og við verðum að vekja upp von og trú hjá þeim sem í erfiðleikum standa.

Kreppan upp úr 1930 tók enda, þessi kreppa mun líka taka enda. Við vitum það að þótt stormurinn geysi og allt leiki á reiðiskjálfi þegar verstu vetrarveðrin ganga yfir, þá kemur lognið aftur. Við megum aldrei missa vonina, heldur verðum við að ríghalda í hana, því vonirn hjálpar okkur til að sjá í gegn um svartnættið.

Við megum heldur ekki gleyma því, að margir sem sitja við tölvuna dögum saman og lesa bloggin, eiga við alvarlegt þunglyndi að stríða og sjúklegan kvíða.

Stundum, í verstu kvíðaköstunum, hefur fólk enga skynsemi og það er hrætt.

Þegar þessir einstaklingar lesa það svo á netinu, að við séum að nálgast þjóðargjaldþrot, þá getur óttinn orðið óyfirstíganlegur.

Þótt ég deili oft ansi harkalega á ríkisstjórnina og telji hana standa í vegi fyrir framþróun, þá óttast ég ekki mikla afturför, vegna þess að þjóðin er svo sterk.

Við höfum unnið okkur út úr meiri erfiðleikum en þessari kreppu.

Á erfiðum tímum þurfum við að hugsa til þeirra sem í erfiðleikum eru og gæta þess að gera þá ekki þungbærari.

Og við ykkur sem þunglynd eruð vil ég segja, að einhvers staðar las ég að þunglyndi legðist helst á mjög greinda einstaklinga og snillinga, Winston Churchill þjáðist af þunglyndi og hann kallaði það "svarta hundinn" eins og frægt er.

Það er erfitt að vera jákvæður þegar maður er neikvæður og erfitt að verða glaður þegar maður er hryggur.

Þess vegna, þegar þunglyndur einstaklingur finnið gleðitilfinningu í hjarta sínu vegna þess að hann skapaði hana sjálfur, þá hefur hann unnið stærri sigra en mestu hetjur sögunnar.

Alexander mikli sagði einhverntíma á þann veg, að það væru hetjur sem sigruðu borgir, en mikilmeni sem sigruðu sjálfa sig.

Þegar þunglyndur einstaklingur finnur gleðina, þá er hann að vinna einn af stærstu sigrum mankynsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Gott að vera bjársýnn Jón en þú ferð í kringum einn hlut. Jú sannanlega höfum við farið í gegnum kreppur og komið standandi út. En þá hafði þjóðin sjávarútveg!

Nú er eitt mesta góðæri búið að vera tvö síðustu ár í veiðum og á mörkuðum  sem verið hefur. Af hverju siglum við ekki út úr kreppunni? Af hverju hafa eignir fólksins horfið í 110 % skuldir eða meira? Yfir 2000 íbúiðir fólks i eigu fjármála stofnanna?

Einokun á SJÁVARÚTVEGI kemur í veg fyrir að þjóðin njóti lengur arðsins af greininni og Sjálfstæðisflokkurinn vinnur að því fjarlægja auðlindina enn lengra frá þjóðinni.

Því miður þrátt fyrir lífróður Jóhönnu Sigurðardóttur virðist þjóðin ekki ætla að ná rétti sínum gegn spillingar öflunum studdum af forystu Sjálfstæðisflokksins og völdum LÍÚ sem alltaf eru að verða augljósari í þjóðfélaginu.    

Um að gera að hvetja fólk til dáða Jón og hætta með barlóminn en 

taktu olíuna af Noregi, Kuveit og Saudi Arabíu eða kjötið af Argentínu og ferðamennina af Spánverjum og segðu fólkinu svo að vera bjartsýnt og  fara að bjarga sér!                                           

Ólafur Örn Jónsson, 1.7.2011 kl. 08:55

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég veit ekki hvort þú hafir misskilið mig eitthvað Óli minn, en við höfum rætt þessi sjávarútvegsmál og verið sammála að mestu leiti.

Það er alveg rétt hjá þér, við getum veitt og eigum að veiða mikið meiri fisk.

Þetta þekkir þú sem gamalreyndur og farsæll skipstjóri sem gjörþekkir hegðun og atferli fiska betur en margir aðrir, sem telja sig þó vita mikið.

Þetta þekki ég líka, því ég eyði meiri tíma á fiskimiðunum heldur en heima hjá mér.

Enda eigum við að berjast fyrir því, að fiskveiðimálin verði skoðuð upp á nýtt og að fram fari raunveruleg og opin umræða aðila sem hafa skoðanir og þekkingu á þessum málum.

Vitanlega finnst mér fáránlegt að við skulum þurfa að forðast karfann, hægt væri að fylla skipið á einum til einum og hálfum sólahring af karfa, það er líka auðvelt að ná í þorsk.

En Óli minn, pistillinn var aðallega áminning til okkar allra, varðandi það að huga að fólki sem býr við mikla sálarangist, það eru margir í því ástandi um þessar mundir.

Þrátt fyrir allt þá eigum við möguleika og við búum þó allavega ekki við tilfinnanlegt hungur eins og margar þjóðir þurfa að búa við.

Svo skulum við í sameiningu, ásamt sem flestum finna leiðir til að hámarka arðsemi fiskveiða og byggja hér upp samfélag sátta, því sundurlyndisfjandinn leiðir ekki til góðs, það vitum við báðir.

Það tekur óhjákvæmilegra lengri tíma að finna lausnir eftir friðsamlegum leiðum, en ég er viss um að til langs tíma litið, þá ber það meiri árangur.

Jón Ríkharðsson, 1.7.2011 kl. 11:41

3 Smámynd: Björn Emilsson

Lesandi um allan þennan bölmóð fram og tilbaka, kemur manni til hugar svör drottningar einnar, um kvartanir þegnanna að þeir ættu ekki brauð, af hverju borða þeir ekki kökur!

Nú er því fyrir að fara , að sildin hafi ´horfið´ Engin afsökun lengur. Það er vaðandi fiskur á öllum miðum sem ekki má veiða af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Væri ekki nær að bretta hendur fram úr ermum og drífa síg uppá dekk. Eg er handviss um að 500.000 tonn af góðfiski er betri en betlileið til óprúttinna stofnana erlendra. Ekki skaðaði að nota ylinn úr jórðinni til ylræktar fersks grænmetis. Tómatar eru góðir með fiski.

Björn Emilsson, 1.7.2011 kl. 13:26

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Björn, ég er hjartanlega sammála þér, við eigum að nýta allan þann fisk sem við getum.

Já og ég er sammála því, tómatar eru mjög góðir með soðinni ýsu, kartöflum og miklu sméri.

Jón Ríkharðsson, 1.7.2011 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband