Laugardagur, 2. júlí 2011
Sögulegar staðreyndir um verk Sjálfstæðisflokksins.
Lygamerðir vinstri vængsins hafa farið mikinn síðustu misseri og því miður, næstum því tekist að eyðileggja hið góða orðspor sem sjálfstæðismenn hafa getið sér í gegn um tíðina.
En sem sönnum hægri manni er mér ljúft og skylt að geta þess, að sjálfstæðismenn hafa gert mistök og átt einnig stóran þátt, eins og vinstri menn, í slæmri hagstjórn hér á landi.
Vinstri menn eru ólíkir sjálfstæðismönnum að þesu leiti, þeir þora ekki að viðurkenna mistök, því þeir óttast sannleikann, en hann sigrar alltaf að lokum.
Öll alvöru verðmætasköpun hér á landi hefur verið tilkomin vegna Sjálfstæðisflokksins, því hann hefur alltaf beitt sér í þágu þjóðarinnar. Það var vegna harðfylgis Thors Thors, bróður Ólafs Thors, að við fengum ríflegri Marshall aðstoð heldur en okkur bar, vegna þess að Bandaríkjamenn þurftu á okkur að halda. Þeir peningar voru nýttir til kaupa á nýsköpunartogurum, sem mörkuðu tímamót í fiskveiðum á þessum árum.
Nú dettur kannski einhverjum vinstri manni í hug gott grín og ætlar að koma með sniðuga athugasemd þess efnis, að þarna væru sjálfstæðismenn ekki samkvæmir sjálfum sér, að láta ríkið kaupa togara.
Ólafur Thors var alltaf andstæðingur ríkisreksturs, hann var meður einkaframtaksins.
Ástæðan fyrir því að hann beitti sér fyrir kaupum á skipunum var sú, að það var enginn einkaaðili tilbúinn í þessar fjárfestingar, á þessum árum ríkti önnur hugsun en í dag. Það var sem sagt búið að athuga hvort einhver útgerðarmaður væri tilbúinn í þessar fjárfestingar.
Svo má ekki gleyma kjarabótunum sem verkamenn fengu með tilkomu hersins, en ástæðan fyrir því var vitanlega sú að sjálfstæðismenn sýndi Bandaríkjamönnum mikla velvild sem var gagnkvæm á þessum árum, enda samstarfið báðum þjóðum í hag.
Svo var það vitanlega álverið í Straumsvík, þá fengu verkamenn meiri hlunnindi og hærri laun en þeir höfðu áður þekkt.
Svo má náttúrulega nefna EFTA og EES, sjálfstæðismenn stuðluðu að báðum samningunum ásamt krötum svo sanngirni sé gætt.
Vinstri menn hafa ægilega gaman af að ljúga upp á sjálfstæðismenn hinu ýmsu varðandi hrunið, en það var einmitt hárréttum viðbrögðum Geirs H. Haarde og fyrri ríkisstjórnar að þakka að við stöndum nokkurn veginn í lappirnar í dag.
Vinstri menn eru læsir og þeir vita að erlendir fjölmiðlar hrósa íslendingum fyrir að hafa látið bankanna falla í stað þess að dæla í þá peningum eins og aðrar þjóðir álpuðust til að gera.
Þá grípa þeir til lyginnar og segja að það hafi ekki verið hægt að gera neitt annað, Seðlabankinn og ríkið gat ekki veitt þeim fjármagn.
"Mesta bankarán sögunnar" sagði Jón Ásgeir þegar Glitnir var látinn falla, Jón Ásgeir vissi sem var, að peningar voru til staðar til þess að dæla í bankann.
Það var Seðlabankinn sem neitaði að setja meira fjármagn í Glitni, ekki vegna þess að það væri ekki til staðarm heldur vegna þess að það þótti ekki skynsamlegt og það var rétt ákvörðun eins og komið hefur í ljós.
Vegna réttra viðbragða og útsjónarsemi stjórnsýslunnar, þá tókst að halda opinni greiðslumiðlun við útlönd.
Lánasöfn bankann voru tekin með afföllum, til þess að mæta þörfum skuldsettra einstaklinga og heimila, það var gert með faglegum hætti og samþykki AGS og allra sem hlut áttu að máli.
Það var lagður grunnur að álveri í Helguvík, sem hefði verið ágæt vítamínsprauta inn í lamað atvinnulíf. Vinstri menn ljúga því að orka hafi ekki verið til staðar, en hún er næg í neðri hluta Þjórsár.
Lygin er lævís og lipur, hún smígur allsstaðar inn ef enginn er til að andæfa henni. Uppgjörið við hrunið verður aldrei endanlegt og alls ekki víst að sú uppgjörsleið sem við höfum farið sé til góðs.
Við þurfum að horfa til framtíðar og styðja þá stefnu sem hefur reynst best, sjálfstæðisstefnuna.
Athugasemdir
Og það er rakin lygi "vinstri manna" að Björgólfar með hjálp Davíðs, beri nokkra sök á því hvernig komið er...
Helvítis kommúnistarnir....
hilmar jónsson, 2.7.2011 kl. 00:57
Á hvaða hátt hjálpaði Davíð Bjöggunum?
Kristinn Karl Brynjarsson, 2.7.2011 kl. 01:26
Hilmar minn, hafir þú lesið pistilinn allan, þá tek ég það fram að sjálfstæðismenn hafa gert mistök og eftir á að hyggja, þá var eflaust hægt að gera margt öðruvísi varðandi einkavæðingu bankanna.
Þú manst það kannski ekki, en Samfylkingarfólkið lagðist eindregið gegn hugmyndum sjálfstæðismanna varðandi dreifða eignaraðild.
En enginn vissi það á þeim tíma, að bankarnir færu svona illa og það er nú í besta falli hálfsannleikur og tæplega þó, að kenna einkavæðingu bankanna um hrunið.
Allir bankarnir hrundu, líka Glitnir, en sjálfstæðismenn höfðu ekkert með hann að gera, þ.e.a.s. þeir "völdu" enga eigendur þar og ekki heldur sparisjóðina.
Sjálfstæðisflokkurinn kom ekki svo vitað sé, nálægt Lehman Brothers bankanum, en fall hans átti sinn þátt í hvernig fór, að mati bankasérfræðingsins finnska.
Græðgin þekkist vissulega í Sjálfstæðisflokknum eins og hjá flestum mönnum, það var græðgin sem olli hruninu í mismunandi birtingarmyndum.
Það er mikil afbökun á sannleikanum að halda því fram að einkavæðing bankanna hafi valdið hruninu ein og sér.
Ef þú getur ekki hrakið það sem ég segi í pistlinum, heldur talið upp eitthvað sem telja má til mistaka, þá ert þú búinn að samþykkja það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert mest fyrir íslenskt samfélag.
Ég er alveg tilbúinn til að gefa eftir og hlusta á mótrök, það er ekkert sjálfgefið að ég hafi sannleikann frekar heldur en aðrir.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 01:51
Þakka þér fyrir Kristinn Karl, Hilmar getur vitanlega ekki svarað þesari spurningu, enda hefur ekkert komið fram, með óyggjandi hætti, að Davíð hafi hjálpað Bjöggunum.
Hilmar veit það örugglega ekki, að Bjöggarnir fengu bankann, vegna þess að þeim var treyst fyrir honum og eflaust hefur Davíð treyst þeim um of, en þjóðin var ægilega ánægð með Bjöggana á sínum tíma eins og hægt er að lesa um í greinarsafni Moggans meðal annars í umfjöllun frá 2002 og 2003, einnig ef menn hafa rúmlega gullfiskaminni, þá ættu þeir að muna eftir aðdáun í slendinga á dugnaði Björgólfsfeðga á árunum fyrir hrun.
Þegar hrunið varð, ég efast um að Hilmar muni þetta heldur, þá var Björgólfur yngri að þrýsta á stjórnvöld, að fá að taka yfir hina bankanna ásamt rausnarlegri meðgjöf frá ríkinu, á það var vitanlega ekki hlustað.
Svo var Landsbankinn látin falla, en Kaupþingi hjálpað, vegna þess að stjórnvöld töldu Kaupþing standa áfallið af sér.
Kaupþingsmenn voru aldrei í uppáhaldi hjá Davíð, þeir vildu m.a. gera upp í Evrum, en það mislíkaði Davíð mjög mikið eins og vitað er, Sigurður Einarsson sakaði hann m.a. um hótanir í sinn garð.
Það voru eingöngu hagkvæmnissjónarmið látin ráða för í hruninu og einkavæðingu bankanna, ekkert hefur komið fram sem sannar með óyggjandi hætti að ólöglega hafi verið að málum staðið frá hendi Sjálfstæðsiflokksins. Einkavæðingin var rannsökuð af Ríkisendurskoðun og þrátt fyrir nokkrar athugasemdir, þá dæmdi stofnunin hana fyllilega lögmæta, þannig að ef menn telja einkavæðingu bankanna stangast á við lög, þá hefur Ríkisendurskoðun gert stórkostleg mistök, en enginn hefur haft uppi grunsemdir um slíkt hjá stofnuninni.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 02:02
Rétt um aldamótin síðustu, þegar innistæðutryggingarkerfið var tekið upp, þá þótti nú þremur þingmönnum í það minnsta, full lítið í lagt að hafa trygginguna ,,bara" rúmlega 20.000 evrur. Vildu þessir þingmenn hafa trygginguna ótakmarkaða.
Þetta voru þau Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson.
En sé hrun bankana skoðað eða öllu heldur síðustu mánuðurnir fyrir hrun, þá er eins og margur gleymi því að nánast þangað til korter fyrir hrun, þá framvísuðu bankarnir ársreikningum og árshlutauppgjörum, uppáskrifuðum af endurskoðunnarfyrirtækjum, sem sýndu stönduga banka sem væru þó í lausafjárkreppu, eins og reyndar flestir aðrir bankar heimsins. Á sama tíma kepptust svo matsfyrirtækin við að melda lánshæfismat bankanna á heimsmælikvarða.
Það hefði nú eitthvað heyrst, ef Seðlabankinn hefði lokað á bankana, við þær aðstæður. Seðlabankinn vildi hætta þessum viðskiptum með ástarbréfin strax vorið 2008. Það var þó ákveðið eftir fundarhöld með fjármálastofnunum, FME og eflaust fleirum að fresta slíku fram á haustið. Siðustu veð bankana fyrir hrun þeirra, voru líka ekki þessi ástarbréf.
Kaupþing lagði fram bréf í FIH-bankanum danska, en Glitnir lagði fram einhvern lánavöndul eða lánasafn sem í voru að mestu bílalán og önnur áþekk lán, sem Seðlabankinn treysti sér svo ekki til að taka við. Var Glitnir því tekinn yfir á endanum.
En í sjálfu sér voru þessi ástarbréf ekki verðlaus, fyrr en við setningu neyðarlaganna, sem færðu innistæður í bönkunum, fram fyrir allar aðrar kröfur í bankana.
En það hefði eflaust kætt þá ógurlega, er hamast hafa hvað mest á Seðlabankanum og flutt okkur boðskap um gjaldþrot hans, ef að innistæður fólkisins í landinu hefðu verið látnar sigla sinn sjó, svo hægt yrði að innheimta þessi ástarbréf að fullu úr þrotabúum bankana. Ásamt því sem slíkt hefði kostað bankaáhlaup og greiðslukerfi bankana hefði hrunið og eflaust verið mörgum, raun að verða sér út um nauðsynjar.
Hins vegar má alveg deila um, hvort að rétt hafi verið að tryggja allar innistæður, án tillit til upphæðar þeirra og setja þess í stað einhver takmörk á innistæðuupphæðum.
Það hlýtur því að teljast nokkuð undarlegt, hversu lítið hefur verið talað um þátt endurskoðunarfyrirtækjana og hann rannsakaður. PWC var reyndar tekið með stefnum á eigendur og stjórnendur Glitnis og Landsbankans. Það hindraði hins vegar ekki FME í því að láta PWC vinna fyrir sig varðandi fall Ssp-KEF.
Kristinn Karl Brynjarsson, 2.7.2011 kl. 10:33
Þakka þér fyrir Kristinn Karl, þetta er allt saman satt og rétt hjá þér og nú vona ég að vinstri menn fari að taka okkur hægri menn til fyrirmyndar og skoða staðreyndir með opnum huga í það minnsta.
Það er ekkert athugavert við það að hatast út í sjálfstæðismenn og láta Davíð Oddsson fara í taugarnar á sér, en það þarf að vera á réttum forsendum.
Það eru margir sem ég á bágt með að þola og þeir fara virkilega í taugarnar á mér, en ég fer ekki að kenna þeim um hrunið á fjármálamörkuðum heimsins né heldur að lögsækja þá fyrir engar sakir.
Ég einfaldlega reyni að komast hjá því að umgangast þetta lið og læt það í friði.
Vinstri menn láta nefnilega tilfinningarnar gjörsamlega ná tökum á sér, en skynsemin þarf nú að vera með, því annars getur farið ansi illa.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 13:17
HAHAHAhahahahah.....alltaf gaman að lesa góða brandara, en endirinn (punch line-ið) á honum er með þeim lélegri sem ég hef heyrt/lesið.
Þessi "eftirá" söguskýring þín hlýtur að vera í besta falli óskhyggja hjá þér. Mér segir svo hugur að sýn þín á sannleikann sé svipuð og hjá pípulagningamanni sem sendir myndavél ofaní eldgömul og kolstífluð klóakrör og kveður svo upp þann úrskurð að "allt sé í fína lagi".
Að moka flór er sannkallað SKÍTAbjobb, en einnig algjörlega nauðsynlegt, og jafnvel skemmtilegt, ef maður á sjálfur sinn eigin flór (sbr. bændur).
En að moka flórinn eftir aðra, og skipta um ALLT klóak-kerfið, sem var illa stíflað af Sjálfstæðismannasaur, er ömurlegt verkefni, en nauðsynlegt samt.
Ég er viss um að ef þú kastar upp 10kalli og biður um loðnuna en landvættirnir koma upp, þá munt þú samt sem áður bara sjá loðnuna. Pistill þinn segir mér allt sem segja þarf um menn eins og þig.
Dexter Morgan, 2.7.2011 kl. 13:30
Heill og sæll Jón minn; æfinlega - líka sem og, aðrir gestir, þínir !
Því miður; er flokkur þinn, samsekur öðrum miðju- og vinstri flokkum öllum, í hryðjuverkum sínum, gagnvart Íslandi - og íslenzkum hagsmunum, Jón minn.
Ég hygg þig; vera einan örfárra manna, sem gætu viðsnúið ríkjandi viðhorfum þíns flokks, og veit fyrir víst, að einlægni þín, til allra góðra verka, í þágu Íslands, er skrum- og fölskvalaus.
Okkur vantar einmitt; fleirri menn, af þinni andans stærðargráðu, Jón Ríkharðsson, fornvinur kæri.
Með beztu kveðjum; sem jafan, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 2.7.2011 kl. 14:34
Dexter Morgan, þetta eru engin rök hjá þér, þú kemur ekki með nein dæmi sem hrekja það sem ég segi hér að ofan.
Ef þú myndir t.a.m. halda því fram, að vinstri flokkarnir hefðu staðið sig betur en Sjálfstæðisflokkurinn þá væri það ekki að segja mér neitt um þig, þú getur ekki þekkt menn eftir að hafa lesið eitthvað sem þeir skrifa. Ég get rökstutt það með því, að það tekur mörg ár fyrir venjulegt fólk að þekkja sjálft sig til fulls og vitanlega lengri tíma að þekkja aðra manneskju.
Það eina sem ég get sagt með sanni er, að við erum ekki sammála í pólitík, en að öðru leit veit ég ekkert um þig.
En ef þú héldir því fram að vinstri flokkarnir hafi staðið sig betur en Sjálfstæðisflokkurinn, þá myndi ég væntanlega svara því til, að vinstri flokkarnir voru á móti hersetunni, þannig að íslenskir verkamenn hefðu ekki grætt á Bretavinnunni og síðar kananum. Síðan er það söguleg staðreynd, að vinstri menn voru á móti álveri í Straumsvík, þannig að íslenskir verkamenn hefðu þá ekki fengið að njóta þeirra hlunninda sem álverið bauð upp á, en þau voru vitanlega betri en þau kjör sem verkalýðurinn bjó við á þessum árum.
Þá myndir þú kannski segja að vinstri menn hefðu þá komið með eitthvað annað, en það stenst ekki, því þeir hafa haft tækifæri til að hafa áhrif á þjóðfélagið án þess að nýta sér þau.
Mestallan lýðveldistímann hafa vinstri flokkarnir stjórnað ásamt Sjálfstæðisflokknum, það hefur aldrei verið einn flokkur í stjórn á Íslandi.
Ef að men eru ósáttir við stjórnarfarið hér á landi og ástandið, þá er það ekki Sjálfstæðisflokknum að kenna einum og sér, enda spila margir þættir inn í þjóðfélagsmálin aðrir heldur en stjórnmálalegir.
Það kann vel að vera Dexter, að þú sér fluggreindur og víðsýnn maður, en þú ert þó ekkert að flagga þeim eiginleikum í athugasemdinni þinni, þetta eru svona klassísk gífuryrði sem vinstri menn nota þegar þeir verða rökþrota.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 14:46
Þakka þér fyrir Óskar Helgi, fornvinur kær.
Því miður er það víst svo, að allsstaðar í hinni víðu veröld er það er almenningur sem blæðir mest þegar illa gengur, þetta eru hlutir sem sannarlega þarf að laga, en við erum því miður ekki að vinna vel í því.
Það þarf að skapast sátt milli þings og þjóðar og það þarf samstöðu allra til þess að svo geti orðið, einnig er gagnkvæmur skilningur beggja hópa nauðsynlegur.
Íslenskum stjórnvöldum, frá lýðveldisstofnun hafa verið mislagðar hendur í efnahagsstjórn, þar bera allir flokkar sömu sök.
Við þurfum að finna samiginlega skilgreiningu á heiðarleika og réttlæti, síðan þurfum við að vinna saman að því að ná okkar markmiðum fram.
Það gerist best með beinu lýðræði, þar sem þjóðin getur veitt stjórnmálamönnum raunverulegt aðhald, því stíft og gott aðhald ásamt yfirvegun og skynsemi allra er lykill að fyrirmyndarsamfélagi.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 14:54
Eitt er greindarmerki á Dexter (þó fleiri séu sem benda í aðra átt), hann hefur vit á að skrifa ekki undir réttu nafni.
Hólmgeir Guðmundsson, 2.7.2011 kl. 15:00
Þakka þér fyrir Hólmgeir, það er rétt hjá þér, það er greindarmerki að skrifa undir dulnefni þegar menn eru með aulalegan málflutning.
Kannski er Dexter greindur mjög, en það er oft einkenni hógværra manna að fara frekar dult með sína hæfileika.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 15:29
Hef aldrei verið harðari Sjálfstæðismaður en eftir bankahrun, það gerir fyrst og fremst málflutningur vinstri manna og að Samfylkingin tók strax til fótanna á flótta frá vandanum. Þó Sjálfstæðisfólk sé yfir leitt skynsamt þá get ég ekki ætlast til þess að það sjái og skynji atburði mörg ár fram í tímann,en ég veit að allir gera meiri kröfur til Sjálfstæðismanna en annarra og er það besta mál.
Ragnar Gunnlaugsson, 2.7.2011 kl. 17:29
Ég get sagt það sama og þú Ragnar, þótt ég sé búin að vera skráður í flokkinn ansi lengi, þá fór ég ekkert að beita mér fyrr en eftir hrunið, því þá skynjaði ég með óyggjandi hætti óbilgirni vinstri manna og óþverrahátt þeirra í samskiptum þeirra við sjálfstæðismenn.
Þess vegna fannst mér ég ekki geta setið og þagað, vinstri mennirnir eru margoft, síðan hrunið varð, gjörsamlega búnir að misbjóða minni réttlætiskennd, alveg svakalega.
Svona í framhjáhlaupi langar mig að segja þér frá því, að ég er nú bara ósköp venjulegur háseti á togara og hef ekkert vakið á mér athygli, ég er ekki tengdur í neinar hagsmunaklíkur og allt sem ég skrifa eru mínar persónulegu skoðanir, ég er kominn af verkamönnum sjómönnum og bændum langt aftur í ættir, þannig að ég er ósköp venjulegur Jón úti í bæ sem er mestan hluta ársins úti á sjó.
Samt er ég farinn að lesa hinar ýmsu samsæriskenningar um mig á netinu, eyjumenn hafa titlað mig sem samstarfsmann AMX, Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddsonar, en ég þekki engan úr þessum hópi, þótt ég hafi ágætar mætur á þeim.
Svona eru vinstri menn margir, þeir þvaðra tóma vitleysu sem engin fótur er fyrir og það undarlega er, furðulega margir trúa þeim.
Jón Ríkharðsson, 2.7.2011 kl. 18:28
Þú bjargar deginum Jón R. Gott að geta hlegið innilega öðru hvoru...
hilmar jónsson, 2.7.2011 kl. 20:46
Það þykir mér vænt um að heyra Hilmar, hláturinn er hollur hverjum manni.
Jón Ríkharðsson, 3.7.2011 kl. 00:39
Mér skilst að vinstrimenn hafi lært sagfræðileg vinnubrögð í skóla Jósefs nokkurs Stalín. Hans mottó var ef við umorðum Ara Fróða : Hafa skal það sem hentugra reynist.
kallpungur, 3.7.2011 kl. 02:32
Takk Jón, fyrir látlausa samantekt á staðreyndum, sem allir vita sem vilja að er sönn.
Gífuryrðamafía vinstri manna fer yfirleitt í yfirsnúning þegar þeir eru beðnir að koma rök en ekki slagorð eða aulafyndni.
Almenningur er hægt og sígandi að hætta að nenna að hlusta á "krossfestingarraus" þessara manna eins og sjá má á fylginu í skoðanakönnunum - VG orðinn minnstur flokka á Alþingi (Hreyfingin er ómarktæk) og Samfylkingin hangir á ESB fylginu sem hverfur um leið og aðildarumsóknin verður dregin tilbaka.
Sveinn Egill Úlfarsson, 3.7.2011 kl. 08:10
Jón þakka þér fyrir þinn góða pistil, og ég vona að Sjálfstæðismenn taki sem fyrst við stjórnartaumunum, svo eitthvað vitrænt fari nú að gerast í þessu þjóðfélagi! kveðja Bláskjár.
Eyjólfur G Svavarsson, 3.7.2011 kl. 16:04
Heilir; að nýju !
Eyjólfur G. (Bláskjár) !
Nei; þakka þér fyrir. Ekki meira; af grútarhætti og andstyggðar vinnubrögðum stjórnmálamanna, hér á landi.
Utanþingsstjórn; Bænda - Sjómanna - Verkamanna og Iðnaðarmanna, er næsta skref, Eyjólfur minn.
Nógsamlega komið; af kargaþýfi hvitflibba- og blúndukerlinga stjórnarfarsins, ágæti drengur !!!
Með; sízt lakari kveðjum, en öðrum fyrri /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 3.7.2011 kl. 17:57
Já kallpungur, sennilega er það rétt hjá þér, með vinstri mennina, þeir hafa tileinkað sér afskaplega óhefðbundna sagnfræði.
Jón Ríkharðsson, 4.7.2011 kl. 02:55
Þakka þér fyrir Sveinn Egill, stundum held ég að það þurfi kraftaverk til að leiðrétta umræðuna.
Ég heimsótti mjög góðan vin minn í dag, við höfum þekkst í aldarfjórðung og náð mjög innilegu vináttusambandi sem hefur þróast í gegn um öll þessi ár.
Þessi góði maður er haldinn þeirri þráhyggju, að trúa öllu illu upp á Sjálfstæðisflokkinn.
Hann bankaði upp á hjá mér og ég fagnaði honum vitanlega innilega, því við höfum hist of sjaldan í seinni tíð. Vitanlega byrjaði hann að rakka niður helvítis íhaldið og vonaði að Geir H. Haarde yrði settur í æfilangt fangelsi og helst í klefa með Davíð Oddsyni, svo fór hann að fræða mig um voðaverk sjálfstæðismanna í áranna rás með dramatískum tilburðum, því hann er skapheitur mjög.
Ég hlustaði af athygli á allt sem hann sagði, kveikti á tölvunni minni og týndi til ýmislegt sem ég hef prentað út, svona gögn sem ég styðst við þegar ég er að skrifa.
Ég fletti ýmsu upp í tövuni sem hrakti hans röksemdarfærslu algerlega, svo sýndi ég honum ræður og ummæli vinstri manna sem ég hef prentað út og bar það saman við raunveruleikann.
Ekki gat hann hrakið neitt af mínum rökum, hann kom með einhver dæmi sem ég sýndi honum fram á að stæðust ekki.
Hann var orðinn frekar rólegur og hugsi á svip, því hann er að eðlisfari greindur mjög.
Hann sagði að ekkert væri að marka þetta sem ég var að sýna honum, það vissu það allir hvað sjálfstæðismenn væru spilltir og siðblindir, þeir höfðu jú keyrt allt í kaldakol og rústað þjóðfélaginu á átján árum.
Þá sagði ég honum endilega að berjast fyrir því að alþjóðastofnanir á borð við OECD yrðu ákærðar fyrir að hafa staðið með Sjálfstæðisflokknum í allri lyginni og einnig ætti hann að kæra Greco, þ.e.a.s. stofnunina sem rannsakar spillingu í V-Evrópu, því þeir sögðu að spilling væri einna minnst hér á landi og hrósuðu sjálfstæðismönnum árið 2006 fyrir að hafa sett lög á styrki stjórnmálaflokka.
Lánshæfismatsfyrirtækin ætti hann líka að kæra, því þau gáfu okkur alltaf fyrstu einkunn, eiginlega þyrfti hann að fara í stríð við allar stofnanir heimsins, því þær væru þá greinilega á bandi Sjálfstæðisflokksins, miðað við hans rannsóknir.
Hann varð þá frekar fúll út í mig og sagði að það væri ekkert að marka þetta drasl allt saman.
Við spjölluðum síðan á vinsamlegri nótum um gamla skipsfélaga og skiptumst á skemmtilegum sögum.
Lygaþvættingur vinstri manna hefur fests svo mikið í sessi, hjá mörgu skynsömu fólki, að það þarf virkilega sterkan áróður til að leiðrétta umræðuna. Ég vil sanngjarnar umræður með rökum, en hana er mjög erfitt að nálgast um þessar mundir.
Jón Ríkharðsson, 4.7.2011 kl. 03:13
Sammála þér Eyjólfur minn.
Jón Ríkharðsson, 4.7.2011 kl. 03:13
Þakka þér fyrir fornvinur góður Óskar minn Helgi.
Ég fer að fara í samningaviðræður við mína ektakvinnu varðandi fararleyfi austur fyrir fjall eina kvöldstund og ef dagskráin þessa viku verður ekki þéttskipuð verkefnum mér til handa eða einhver samkvæmi sem hún hefur gleymt að segja mér frá, þá vonast ég til að leyfið verði auðfengið.
Ég er búinn að vera helvíti duglegur við uppvask og eldamennsku upp á síðkastið, þannig að ég er búinn að vinna mér inn nokkur prik.
Þá skulum við ræða dýpri hluti en pólitík og dægurmál, þótt það beri eflaust eitthvað á góma.
Jón Ríkharðsson, 4.7.2011 kl. 03:17
Fyrirgefðu Sveinn Egill, ég hef verið eitthvað utangátta í svarinu til þín, þannig að ég virka tvísaga.
Það var vinur minn sem heimsótti mig í dag en ekki ég hann svo það sé á hreinu.
Jón Ríkharðsson, 4.7.2011 kl. 03:20
Komið þið sælir; að nýju !
Jón !
Sértu velkominn; austur yfir fjallgarð, láttu mig bara vita, þá; nær dregur, komu þinni.
Með; ekki lakari kveðjum, en þeim fyrri /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 4.7.2011 kl. 21:17
Jón og Óskar, Ég óska ykkur góðrar skemmtunar ef af fundi verður, kær kveðja Bláskjár.
Eyjólfur G Svavarsson, 6.7.2011 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.