Á að hjálpa öllum?

Eftir að hafa spjallað við ágætan kunningja minn, sem ég hef þekkt ansi lengi, þá varð ég mjög hugsi yfir opinberri aðstoð við fólk í fjárhagserfiðleikum.

Þessi ágæti maður starfar sjálfstætt sem iðnaðarmaður og hann hefur oftast haft ágætar tekjur, því hann er duglegur að vinna og góður verkmaður, en með peninga hefur hann aldrei kunnað að fara.

Hann byggði sér einbýlishús og missti það, einnig hefur hann misst bæði og neyðst til að selja íbúðir sem hann hefur búið í og sl. 3 ár hefur hann verið í leiguhúsnæði.

Í gegn um tíðina hefur hann verið snarvitlaus út í hið opinbera, því skattayfirvöld hafa sýnt honum takmarkaðan skilning. Utanlandsferðir, dýrir jeppar og annar lúxus hefur verið það stór kostnaðarliður hjá honum, þannig að opinber gjöld hafa orðið að sitja á hakanum. Hann hefur fárast yfir þessum háu vöxtum sem vanskil á virðisaukaskatti bera auk kostnaðar, allar skuldir hans við skattinn hafa margfaldast, því lengur sem hann hefur trassað að borga.

En nú kveður við anna tón hjá mínum manni, þegar ég hitti hann á dögunum var hann glaðari en ég hef nokkru sinni séð hann, nú loksins er hið opinbera farið að sýna hans sjónarmiðum skilning.

Þeir hjá umboðsmanni skuldara vilja gera allt fyrir hann og nú sér hann fram á að verða skuldlaus maður eftir örfá ár, án þess að hafa svo mikið fyrir því.

Umboðsmaður skuldara heimtar reyndar að hann selji Land-cruserinn, en honum finnst það í lagi, hann getur vel sætt sig við smábíl tímabundið. Umboðsmaður skuldara hefur samið við skattinn fyrir hann og nú þarf hann að borga 5-10.000 kr. á mánuði í einhver ár, svo verður restin afskrifuð.

Eitthvað eru bankarnir tregari í taumi en ríkið finnst honum, en það ergir hann ekki neitt, hann verður bara gjaldþrota í tvö ár, svo byrjar hann upp á nýtt.

Þar sem hann hefur alltaf farið til sólarlanda á hverju ári, þá spurði ég hann hvernig honum þætti að vera á klakanum í sumar. Ekki skyldi hann spurningu mína í fyrstu, en þá spurði ég hann hvort hann hefði nokkuð efni á að fara til sólarlanda þetta árið, þá kvaðst hann nú hafa ráð undir rifi hverju.

Hann hafði unnið talsvert í svartri vinnu á árinu og var nú búinn að nurla saman fyrir utanlandsreisu og hann vann fyrir einhvern sem átti nóg af gjaldeyri, þannig að hann fékk víst greitt fyrir vinnuna í Evrum, þannig að nú áti hann fyrir ferðinni og smá gjaldeyri til að taka með sér.

Ekki var nú laust við að gleði hans ylli smá ergelsi hjá mér, þótt ég hafi "kyngt ælunni" og samglaðst honum í orði. Ég fór að hugsa til þess, að ég hafi alltaf unnið mikið, í erfiðisvinnu og yfirleitt þénað ágætlega.

Ég hef alltaf borgað mínar skuldir og farið ágætlega með peninga, reyndar kostar sitt að koma upp fimm börnum, en það er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka.

Strákunum mínum hefur lengi langað til sólarlanda, þannig að ég ákvað að láta það eftir þeim og ætla að skreppa, í fyrsta skiptið á ævinni, á sólarströnd næsta sumar og njóta þess að eiga góða tíma með fjölskyldunni í sólinni á Portúgal eða Spáni.

Ég hef leikandi efni á því, en ég hef ekki getað leyft mér að gera eins og minn skuldum vafði vinur, að fara einu sinni til tvisvar á ári, mín fjárráð hefðu ekki leyft það, samt hef ég oftast þénað meira en hann.

En ég velti því fyrir mér, hvort umboðsmaður skuldara ætti ekki að kynna sér forsögu sinna skjólstæðinga aðeins betur, fólk þarf náttúrulega að axla ábyrgð á sínum gjörðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæll Jón. Það er ekki erfitt að skilja þitt ergelsi, sem fljótt á litið er mjög eðlilegt. Svo fór ég að velta fyrir mér hver gæti verið skýringin. 

Það eru svo margar, misjafnar og illa þekktar ástæður fyrir því, að fólk kann ekki að fara með peninga. Hluti þjóðarinnar er t.d. illa læs, og jafnvel nánast ólæs, þótt það megi helst ekki tala um þá staðreynd á Íslandi. Það er smánarblettur á skólayfirvöldum og kerfinu, að taka ekki tillit til allra jafnt, óháð getu til að lesa og læra á bókina. Þeir eru verðlaunaðir í skólakerfinu, sem eiga auðvelt með að passa inn í lestrarkassa-þjóðfélagið, og hinir lenda stundum á jaðri samfélagsins, eða utangarðs, og ekki verðlaunaðir fyrir sína styrkleika á öðrum sviðum, nema í sárafáum tilfellum. Þetta er nú sem betur fer aðeins að breytast, og fólk er hætt að skammast sín eins mikið og áður, fyrir að geta ekki lesið almennilega.

Þessir einstaklingar þurfa að bögglast í gegnum lífið eins og vel læsa fólkið, á einhvern brösugan og fyrirhafnarsaman hátt. Þessu fólki finnst ósanngjarnt að samfélagið sé byggt upp eins og allir séu vel læsir, og ekki tekið tillit til að illa læsir og ólæsir þurfa að hafa meira fyrir hlutunum, vegna þessa vanda, og fá sjaldan aðstoð við það, nema á sínum eigin vegum og kostnað.

Ég veit ekki með kunningja þinn, hvað olli hans vandræðum í peningamálum. Það getur verið eitthvað allt annað en lestrarvandi, og eitthvað sem ég hef ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug.

Bendi bara á þetta dæmi til að vekja fólk til umhugsunar. Opin umræða er alltaf til bóta, og eykur víðsýni og þekkingu.

Mjög margir, sem eiga erfitt með að stjórna peningamálunum, myndu fagna því ef einhver í kerfinu myndi skoða forsögu og ástæður fyrir óreiðunni. Þá yrði kannski farið að taka tillit til hvað illa læsir/ólæsir þurfa að glíma við margar hindranir, sem vel læsir vita ekki af, og dettur ekki í hug að séu mögulega til. Þessi vandi er oft þaggaður niður, í staðinn fyrir að gera eitthvað með hann. Þessi samfélagshópur á erfiðast með að vara sig á fjármálablekkingum ýmiskonar, vegna þessa vanda.

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum, um hvernig forsaga getur í raun litið út, og samfélagskerfið þarf að taka jafnt tillit til allra ólíkra, eftir bestu þekkingu, vitund og getu. Það myndi spara samfélaginu mikið, og viðkomandi gífurlegt aukaálag og óréttlæti. Þöggun og þekkingarleysi um þessa staðreynd og fleiri, skapa fordóma og skilningsleysi milli ólíkra hópa samfélagsins, engum til gagns en mörgum til erfiðleika, og, eins og þú bendir svo réttilega á, reiði sem er ekki nokkrum til gagns, og öllum til bölvunar, að burðast með í gegnum lífið.

Það er svo margt í mörgu, og maður er alltaf að læra, sem betur fer.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 21.7.2011 kl. 15:01

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Anna Sigríður.

Ég er sammála þér, við eigum alltaf að stunda opna umræðu og leyfa öllum sjónarmiðum að njóta sín til fulls, svo komumst við að málamiðlun sem flestir geta sætt sig við.

Þessi ágæti maður hefur sennilega ekki verið eins heppinn og ég, að einu leiti, en ég átti góða ömmu sem var dugleg að siða mig til.

Hún var eins og fólk af hennar kynslóð, fæddist snemma á síðustu öld, hún og afi unnu sig bæði upp úr engu, hann var fátækur piltur að vestan sem kostaði sig í stýrimannaskólan og varð farsæll skipstjóri.

Amma sagði mér það, þegar ég var mjög ungur, að maður ætti alltaf að gera meiri kröfur til sín en annarra. Hún sagði það svo oft, að það festist í mér og ég hef alltaf fylgt þeirri reglu, stundum kannski um of að mati eiginkonu minnar, en ég geri engar kröfur á aðra.

Ég hagaði mér eins og fífl fyrir fjölmörgum árum, keypti mér trillu og lifði á lánum, það fiskaðist ekki mikið á þessum tíma fyrir norðan, þannig að á endanum missti ég allt, bátinn, húsið og eftir stóðu einhverjar milljónir í skuld hjá mér.

Ég varð náttúrulega öskuillur út í sjálfan mig, djöflaðist á frystitogara og tók mér nánast aldrei frí í tvö ár, lifði spart og greiddi niður allar skuldir.Síðan þá, hefur mér verið meinilla við lán, enda skulda ég ekkert í dag, fyrir utan íbúðina sem ég bý í.En ég varð aldrei reiður út í lánastofnanir fyrir að vilja að ég stæði við mitt.

Vinur minn hefur aftur alltaf vælt utan í öðrum og fengið samúð, hann hefur aldrei tekið höggið, heldur haldið sér á floti. Hann getur aldrei neitað sér um neitt, ég held að það sé ástæðan.

En ég er ekki reiður út í hann, við ætlum að skreppa saman á kaffihús á morgun, þannig að við erum góðir vinir eftir sem áður. Ég hitti hann í gærkveldi, þannig að ég var svolítið pirraður þegar ég skrifaði pistilinn, en það er oft ágætt að tala um hlutina ef maður er argur, eða skrifa um þá, manni líður betur á eftir.

Ég finn ekki fyrir neinni reiði Anna mín, ekki út í nokkurn mann. Ég hugsa t.a.m. hlýlega til Jóhönnu og Steingríms og allra útrásarvíkinga, ég finn ekki vott af reiði í garð þesa fólks.

En það breytir því ekki, að Jóhanna og Steingrímur kunna ekki að stjórna og útrásarvíkingarnir settu hér allt á annan endann, þessir einstaklingar hafa gert mistök, en við gerum öll mistök.

Svo er það dómstóla að skera úr um, hvort menn eru sekir eður ei.

Veistu það Anna Sigríður, að ef ég er reiður út í einhvern og læt reiðina ná tökum á mér, þá líður mér illa og það bitnar á konu minni og börnum, en ég hef lítinn tíma með þeim, því ég er alltaf úti á sjó.

Ekki vil ég valda sjálfum mér og minni fjölskyldu vanlíðan, vegna heimskupara annarra.

Jón Ríkharðsson, 21.7.2011 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband