Þriðjudagur, 26. júlí 2011
"Lengi býr að fyrstu gerð".
Allir íslenindingar hljóta að vera hugsi yfir hryllingnum sem átti sér stað í Noregi og fólk veltir því fyrir sér, hvað fær mann til að gera svona hræðilega hluti, drepa saklaust fólk, með köldu blóði.
Enginn er þess umkominn að skilja til fulls, hvað hrærist í huga illvirkjans, en augljóst er, að þessi maður hefur fyrirgert öllum sínum rétti, hann á engan rétt lengur og enginn má láta sér detta til hugar, að réttlæta þessi illvirki hans.
En getum við eitthvað lært af þessu og leitast við að bæta okkur?
Komið hefur fram að illvirkinn var lagður í einelti í æsku, vinur hans upplýsti það.
Einelti er birtingarmynd vanþroska mannsins. Ef einhver er öðruvísi og fellur ekki í hópinn, þá er hann ýmist útilokaður eða hæddur af samferðarmönnunum, þetta þekkist meðal fullorðina jafnt sem barna, en skoðum börnin.
Börn geta komið brotin í skóla, minnimáttakennd vegna útlitslýtis, vegna erfiðra heimilisaðstæðna og sum börn eru látin gjalda þess, að foreldrar þeirra falla ekki inn í fjöldann.
Öll börn eiga rétt á vinsemd og hlýju, við erum öll skyldug til að sýna börnum vinarþel, sú skylda er okkur í blóð borin. Við þurfum að þroska með okkur skilning á fjölbreytileika mannlegs eðlis, en ekki vera stöðugt að dæma hvert annað.
Við getum spurt okkur að því, þótt það sé að sönnu erfið og krefjandi spurning, einnig mjög ósanngjörn, því enginn getur svarað henni.
En spurningin er, hvort hefði verið hægt að koma í veg fyrir voðaverkin, ef illvirkinn hefði mætt meiri skilning í æsku og samfélagið hefði sýnt honum vinsemd, skólafélagar tekið hann í hópinn og tekið honum eins og hann var. Það er erfitt að umgangast marga, en við verðum samt, því öll erum við bræður og systur og líf okkar allra er það sama.
Ef einn klikkar og fremur illvirki, þá bitnar það á heiminum öllum.
Við megum aldrei fyrirgefa þessum manni, því þá höfum við tekið þá áhættu, að illmenni sem sækjast eftir athygli og frægð, fá hana og geta átt von á að komast í sögubækur.
þess vegna væri við hæfi, að hunsa öll illmenni sögunnar og hætta að fjalla um þau, fyrir sumum er nafn Hitlers sveipað hetjuljóma, svo dæmi sé tekið. Og það er alltaf verið að tala um hann annað slagið.
Við eigum að fordæma menn sem gera svona og þurrka þá úr minningunni.
Á sama tíma eigum við að hlúa að hvert öðru, gæta þess að engin sé einmanna, jafnvel þótt viðkomandi sé hundleiðinlegur og óþolandi, slíkir einstaklingar eiga líka rétt á vinrðingu, eins og allir aðrir,
Umfram allt eigum við að hafa vakandi auga með öllum börnum þessa lands. Ef við sjáum barn sem er dapurt og hugsi, þá eigum við að hvetja það til að tjá sig og hlusta af athygli.
Fara varlega í nöldur og skammir, heldur að hrósa og leiðbeina um leið, það eiga allir skilið hrós og þeir sem verðskulda það ekki á eigin forsendum, þeir þurfa meira hrós en aðrir. Allir hafa einhverja kosti, við megum aldrei gleyma því.
Hlúum að hvert öðru og látum engan í okkar nærumhverfi einan og yfirgefinn og umfram allt, sláum skjaldborg um börnin.
Því lengi býr að fyrstu gerð.
Athugasemdir
Vel mælt!
Óli Jón, 27.7.2011 kl. 01:23
Þakka þér fyrir Óli Jón.
Jón Ríkharðsson, 27.7.2011 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.