Miðvikudagur, 27. júlí 2011
Hvernig á góður stjórnmálamaður að vera?
Góður stjórnmálamaður á fyrst og fremst að varðveita sinn eigin karakter og ekki láta valdið breyta sér að neinu leiti. Góður stjórnmálamaður á að skynja hjartslátt eigin þjóðar og tala til hennar, á máli sem hún skilur.
Góður stjórnmálamaður þarf ekkert að vera gáfaðri en gengur og gerist, en hann þarf að hafa næmt auga fyrir því sem skynsamlegt er og hyggilegt.
Ólafur Thors er af mörgum talinn mesti stjórnmálaforingi þjóðarinnar, hann var fyrst og fremst mikilmenni.
En hann var ekki gáfaðri en gengur og gerist, þótt hann hafi vissulega verið afskaplega greindur. En hann var ekkert afburðagáfumenni. Þegar talað er um Ólaf Thors, þá má ekki gleyma Bjarna heitnum Benediktssyni, en hann var afburðagreindur og reyndist Ólafi mjög vel í þeirra samstarfi. Ekki er vafi á því, að Bjarni var heiðarlegur og vandaður maður í alla staði og ávalt sjálfum sér samkvæmur.
En þeir voru ólíkir að því leiti, að Ólafur var meiri æringi og óx aldrei upp úr því að vera strákslegur í tilsvörum og tali. Mikilmenni varðveita barnið í sér og kannast við alla sína kosti og galla, á meðan minni spámenn í pólitík leitast við að telja sjálfum sér og öðrum trú um, að þeir séu merkilegri en aðrir. Slíkt er vitanlega ekki stórmannlegt, eins og allir vita.
Ævisaga Ólafs Thors er merkileg lesning og í síðari hluta bókarinnar er birt viðtal sem dönsk blaðakona átti við Ólaf. Viðtalið lýsir vel hinum mikla stjórnmálaleiðtoga og langar mig til að birta glefsur úr því, til að fólk geti séð, hvernig sönn mikilmenni hugsa.
Um góða stjórnmálamenn sagði Ólafur: "Góður stjórnmálamaður á að vera miklu heiðarlegri en aðrir stjórnmálamenn eru, hann á einfaldlega að taka sannleikann framyfir lygina. Hann á að vera hugrakkur, vinnusamur og hafa hjartað á réttu stað, og helst ekki allt of heimskur. Hann verður að vita að enginn vex á því að sitja í stól, heldur af því að vinna starf sitt."
Blaðakonan danska sagðist hafa heyrt að hann sé góður ræðumaður. Þá sagðist Ólafur verða feiminn þegar honum er hrósað"ég roðna jafnvel þegar fólk er gott við mig, ég er vanari því að vera skammaður". Þetta ber vott um einlægni þá sem mikilmenni hafa til að bera, en litla fólkið þekkir ekki.
Danska blaðakonan spurði hann um skoðun hans á Danmörku, hvort það sé rétt að íslendingar hati Dani. Ólafur svarar; Danahatur er ekki til, við hötum hvern annan og elskum Dani".
Svo segir hann í sömu orðræðu;"Ég elska Danmörku. Þið eruð engir englar, en indælt fólk og mér þykir afar vænt um ykkur, en nú verðið þér að vera svo góðar að skilja á milli þess, hvenær ég er einlægur og hvenær ég er skúrkur, því ég er hvorttveggja".
Ólafur er spurður að því, hvers vegna séu svona margir kommúnistar á Íslandi, ég hef undrast það líka, en Ólafur svaraði því nokkuð vel;"Þeir eiga duglega foringja, en kjósendur þeirra eru ekki kommúnistar frekar en ég".
Þetta var rétt hjá Ólafi Thors, hann þekkti dugnað vinstri manna varðandi það, að ljúga að fólki og laða það þannig til fylgilags við sig.
Sjálfur varð hann fyrir barðinu á óheiðarlegum málflutningi vinstri manna, en þeir náðu aldrei höggstað á honum.
Hann kunni að verja sig, en sú kunnátta hefur því miður dáið með honum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.