Hvað með málefni transfólks?

Grunnhyggni og hugsunarleysi stjórnlagaráðs er með ólíkindum. Silja Bára Ómarsdóttir vildi skerpa á réttindum transfólks í hinni nýju stjórnarskrá, en það fékk takmarkaðan hljómgrunn hinna í ráðinu.

Taka skal fram, að sjálfur er ég er gagnkynhneigður karlmaður og hef enga löngun til þess að vera kona og engan þekki ég sem hefur löngun til að breyta um kyn. Það breytir því þó ekki að ég hef bæði samúð og skilning á sjónarmiðum transfólksins og það ætti að vera lágmarks krafa upplýstu nútímasamfélagi, að fólk ráði því í hvaða kynhlutverki það vill lifa.

Því fylgir óverulegur kostnaður fyrir ríkið að lofa fólki að breyta um nafn í þjóðskrá, komið hefur fram að mörgum transgender einstaklingum myndi nægja að fá nafn tengt því kyni sem viðkomandi vill tilheyra. Við eigum heldur ekki að hæðast að karlmönnum sem kjósa að klæðast kvenmannsfötum, það ætti að vera sjálfsögð og eðlileg mannréttindi, sama máli gegnir vitaskuld um konur sem vilja líta út eins og karlar.

Öðru máli gegnir um kostnaðarþátttöku ríkisins í dýrum kynskiptiaðgerðum. Það þarf að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu og finna þarf út, hvort rétlætanlegt sé að gera rándýrar aðgerðir á kostnað annarra sem mikilvægari eru.

En umfram allt, þá eigum við að sjálfsögðu að virða rétt fólks til að gegna því kynhlutverki sem það kýs sjálft og alls ekki vera með fordóma á því sviði.

Ekki má gleyma þeirri sálarangist sem fylgir því að passa ekki inn í rammann, við þurfum að henda út þessum ramma og búa til nýjan, þar sem allir passa inn, sem ekki skaða aðra með framferði sínu.

Og erfitt er að sjá að karl klæddur sem kona skaði samborgara sína að einhverju leiti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

þú ert fínn "penni" nafni ... klárlega dáist að þér að leggja út í og ljá máls á þessu málefni ... svo sannarlega rétt sem þú skrifar hér fyrir ofan sem og að það þarf að "forgangsraða" allstaðar !

hér er grafalvarlegt mál á ferð fyrir einstaklinga sem og fjölskyldur þeirra og ekki nema á fárra færi að "tækla" hér svo vel fari tel ég, ég verð að treysta heilbrigðiskerfinu til að gera rétt hér ... eflaust er sjaldan eða nóg gert þannig er það svo oft ......

Jón Snæbjörnsson, 16.8.2011 kl. 14:19

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Gott mál Jón Ríkharðsson. 

Hrólfur Þ Hraundal, 16.8.2011 kl. 14:32

3 Smámynd: Gunnar Waage

Mæltu manna heilastur Jón minn.

Gunnar Waage, 16.8.2011 kl. 15:56

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir nafni minn Snæbjörnsson, það ætti ekki að vera mikið afrek að vekja máls á svona sjálfsögðu mannréttindamáli.

Því miður hafa einhverjir framið sjálfsvíg vegna þess að fordómarnir eru svo miklir.

Fyrsta skrefið er vitanlega að viðurkenna og virða þarfir þessa fólks, því við megum ekki horfa upp á það þegjandi, að meðbræður okar þjáist vegna þess að þeir fái ekki að vera eins og þeir eru skapaðir til.

Jón Ríkharðsson, 16.8.2011 kl. 19:18

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Hrólfur.

Jón Ríkharðsson, 16.8.2011 kl. 19:18

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér góðar undirtektir Gunni minn.

Jón Ríkharðsson, 16.8.2011 kl. 19:18

7 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Jaaaa, hérna hérna, það er ljótt að vera ekki fæddur eins og maður á að vera. Hvern fjandann er skaparinn að meina með þessu??

Eyjólfur G Svavarsson, 16.8.2011 kl. 23:57

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, ágæti nafni minn. Nú spyr ég þig hreint út: Viltu eða viltu ekki láta samfélagið standa undir þeim mikla kostnaði sem það felur í sér að reyna að "breyta kyni" manna og undir þeim varanlega kostnaði sem slík umbreyting útheimtir til að geta haldizt við? Svo ráðandi er nefnilega upprunalegt kyn, að þetta val útheimtir hormónagjöf alla ævi, ef þetta á ekki að snúast allt til baka í útliti viðkomandi manneskju.

Eins er ljóst, að ef viðkomandi yrði klónaður eftir aðgerðina og breytingarnar, þá yrði nýja eintakið með upprunalegt kyn viðkomandi. Það virðist því alveg sama hvernig sálin upplifir kynhlutverk eða kyn sitt: grunnkynið er alltaf til staðar, eins og viðkomandi persóna var sköpuð.

Án efa er þarna um erfiða upplifn viðkomandi að ræða, en ef þetta er spurning um val mikilvægs atriðis eða keppikeflis í lífinu, eigum við þá ekki öll einhverja óska-valkosti -- hvort sem það er dýr menntun eða Mustang, sumarbústaður eða rándýrt áhugamál -- og getum við ætlazt til þess, að aðrir standi undir okkar sérkostnaði?

Til að hafa þetta einfalt: Viltu að skattborgarar taki þátt í kostnaði við þessar aðgerðir og allt annað sem þessu fylgir, m.a. hormónagjöf til lífstíðar, og hve mikinn hlut í þessu? Og ef viðkomandi vill láta breyta sér aftur, hvað um þann nýja kostnað?

Ég veit þú vilt vera frjálslyndur, en veit ekki síður hitt, að þú efast ekki um, að það er Guð sem skapaði okkur eins og við fæddumst. Eiga allir að taka þátt í að reyna að umbreyta því? Og hvaða réttartilkall eiga menn til okkar skattpeninga til slíkra hluta?

Jón Valur Jensson, 17.8.2011 kl. 12:05

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er örugglega mjög erfitt fyrir fólk að vera fætt svona Eyjólfur minn, þess vegna eigum við að sýna því skilning.

Jón Ríkharðsson, 17.8.2011 kl. 21:28

10 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Minn kæri nafni, ég tók það fram í pistlinum, að við ættum að setja spurningamerki við kostnaðarþátttöku ríkisins, en svona til að svara hreint út þá er ég á móti því að ríkið greiði fyrir aðgerðir sem ekki eru lífsnauðsynlegar og ég tel kynskiptiaðgerð ekki lífsnauðsynlega.

Það sem ég átti við var, að við ættum að sýna transfólkinu skilning og ekki láta það mæta fordómum. 

Allir hljóta að sýna því skilning að kynskiptiaðgerðir eru það dýrar sem og hormónagjöfin alla ævi, að ríkið ætti ekki að taka þátt í því, velferðarkerfið er of dýrt nú þegar.

Þetta er ekki spurning um að vilja vera frjálslyndur, heldur að sýna fólki skilning. Það kostar ekki neitt.

Jón Ríkharðsson, 17.8.2011 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband