Föstudagur, 19. ágúst 2011
Stjórnlagaráðið þurfti lengri tíma.
Hinir hugsjónaríku mannvinir sem skipuðu hið margrómaða stjórnlagaráð hefðu gjarna mátt fá lengri frest til þess að koma fleiri nauðsynlegum ákvæðum í tillögur sínar að stjórnarskrá lýðveldisins.
Tíunda grein frumvarpsins mótmælir harðlega hverskyns ofbeldi á heimilum og þar sem stjórnarskráin er öllum lögum æðri, þá má ætla að ofbeldisinnaðir heimilisfeður staldri við og hætti við að meiða konurnar sínar.
Enginn vill vera sekur um stjórnarskrárbrot og það að beita ofbeldi á heimilum verður brot á stjórnarskrá, ef tillögurnar fá náð fyrir augum yfirvalda.
Hefði stjórnlagaráðið haft lengri tíma, þá hefði verið hægt að setja skiptingu heimilisverka í stjórnarskrána líka.
Nú er það svo að konur vinna utan heimilis til jafns við karla. Hvaða réttlæti er í því að konur sjái um heimilisverkin líka?
Hægt hefði verið að setja í frumvarpið ákvæði þess efnis, að báðir aðilar öxluðu jafna ábyrgð á tiltekt og þrifum á heimilum.
Ef karlmenn ætla sér að setjast í sófann eftir erfiðan vinnudag, þá getur eiginkonan veifað stjórnarskránni og þá um leið rís eiginmaðurinn á fætur og þýtur um húsið eins og hvítur stormsveipur, annars er hann sekur um stjórnarskrárbrot, hvorki meira né minna.
Góð og vönduð stjórnarskrá getur leyst allan vanda eins og stjórnlagaráðsfólkið veit fullvel.
Athugasemdir
Ég held að greindarvísitala þessa "stjórnlagaráðsfólks" sem tókst að troða þessu inní pappírinn sé eitthvað lægri en hjá meðalmanneskjum...
Það þarf ekki að breyta núverandi stjórnarskrá svo mikið til að hún teljist góð fyrir alla enda er hún á vel skylanlegu máli...
Það þarf kanski að taka bara allann doðrantinn sem hegningarlögin eru og setja í stjórnarskránna???
Það væri til að sýna endanlega hve gáfnfar stjórnlaga"ó"ráðsfólksins er lítið...
Með kveðju
Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 19.8.2011 kl. 18:44
Þakka þér fyrir Ólafur.
Ég er hjartanlega sammála öllu sem þú segir.
Jón Ríkharðsson, 19.8.2011 kl. 19:11
Það hefði verið einfaldara að stjórnlagaráðið hefði lagt til eftirfarandi breytingu á stjórnarskránni: "Karlar skulu vera góðir við konur sínar og konur við menn sína utan sem innan heimilis en þó sérstaklega á heimilinu". eða jafnvel ennþá betra. "Allir skulu vera góðir við alla alltaf."
Það er alveg rétt athugað hjá þér nafni að margar af þessum tillögum eru ekki boðlegar, en hvernig átti annað að vera eins og til þessarar samkundu var stofnað.
Jón Magnússon, 19.8.2011 kl. 21:54
Já nafni, það hefði örugglega verið gott að setja ákvæði í stjórnarskrána þess efnis að allir ættu að vera góðir við alla.
Ef sett hefði verið inn að karlar ættu að vera góðir við konurnar sínar, þá er nú hætt við að konur í röðum femínista hefðu notað tækifærið og danglað hressilega í sína menn.
Það er náttúrulega fáránlegt að taka fólk af götunni til að vinna verk fagmanna.
Jón Ríkharðsson, 19.8.2011 kl. 22:41
Þegar Bastían bæjarstjóri las upp sína stjórnarskrá fyrir Hálsaskóg var fyrsta setningin þessi:
"Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".
Það var meira vit í þeirri stjórnarskrá en þessu plaggi sem "stjórnlagaráðið" lagði fram.
Gunnar Heiðarsson, 20.8.2011 kl. 03:22
Það er rétt hjá þér Gunnar minn , ef við gætum nú öll verið vinir og skilið hvert annað, þá væri auðveldara að lifa.
En svo er það spurning, hvort lífið eigi endilega að vera auðvelt.
Fyrirgefðu smámunasemina, en þar sem þú vitnaðir í heimsbókmenntirnar, þá langar mig að leiðrétta þig, Bangsapabbi var leiðtogi dýranna í skóginum, Bastían mun hafa verið bæjarfógeti í Kardemommubæ.
En ég skildi vel hvað þú áttir við Gunnar og ég er þér fyllilega sammálaþ
Jón Ríkharðsson, 20.8.2011 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.