Laugardagur, 27. ágúst 2011
Óþverrapólitík vinstri manna.
Í stjórnmálum eiga menn að takast á um ólíkar skoðanir og í þeim umræðum getur oft verið sótt hart að mönnum. Það er óhjákvæmilegt að ýmis orð séu látin flakka í hita umræðunnar, slíkt er hægt að fyrirgefa.
En þegar vegið er að pólitískum andstæðingi með óþverra hætti og hann þarf að líða fyrir það mánuðum saman, þá eru það aðeins sjálfstæðismenn sem geta hugsanlega fyrirgefið slíkt, því það þarf mikla auðmýkt og mikið drenglyndi til að svo geti orðið. Flestir vinstri menn eru ekki þekktir af slíku, þótt einhverjir þeirrar gerðar geti leynst í þeirra röðum.
Geir H. Haarde hefur þurft að bíða lengi eftir dómi í sínu máli, það er óásættanlegt að búa við slíkt. En þar sem að Geir er sérstaklega vandaður og sterkur maður, þá ber hann væntanlega minni skaða af því heldur en margir aðrir, en þetta er engu að síður ótréttlætanlegur gjörningur í alla staði.
Jón Steinsson hagfræðingur, er enginn sérstakur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann fylgdist náið með aðgerðum í kjölfar hrunsins hér á landi. Jón skrifar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann lýsir því, hversu vel Geir og hans samstarfsfólk vann og þau spöruðuð þjóðinn nokkur þúsund milljarða. En var það auðveld ákvörðun?
Jón segir m.a.; "Ef horft er yfir sögu síðustu áratuga hefur það gerst ítrekað að bankakerfi landa hafa lent í vandræðum. Viðbrögð stjórnvalda hafa nánast án undantekninga verið þau að hlaupa undir bagga með bankakerfinu, óháð þeim kostnaði sem neyðaraðstoðin kallar yfir venjulega skattgreiðendur í viðkomandi landi."
Og svo segir Jón einnig frá frægum ummælum yfirmanns Seðlabanka Evrópu, en hann sagði að bönkum yrði aldrei leyft að fara á hausinn.
Og svo fyrir bullukollanna sem segja að íslendingar hafi neyðst til að fara þessa leið, þá segir Jón í grein sinni; "Þegar kreppan skall á var ríkissjóður nánast skuldlaus og í aðstöðu til að veita bönkunum hundruð milljarða í fyrirgreiðslu". Það var einmitt leiðin sem Már Guðmundsson vildi fara og hún hefði verið farin, ef Samfylkingin hefði fengið að ráða, en SF vildi fá Má í stað Davíðs Oddssonar.
Þegar fjármálakerfi heimsins hrundi, þá var það íslenska ríkisstjórnin sem tók réttu ákvörðunina, um það er ekki lengur deilt.
Hvergi í hinum vestræna heimi bíður fyrrum ráðherra dóms fyrir athafnir sínar í aðdraganda hrunsins, nema á Íslandi.
Og það á að sakfella forsætisráðherrann sem tók bestu ákvörðunina, er nokkur furða þótt efast sé um hæfni núverandi ríkisstjórnar?
Athugasemdir
Ég held nú samt sem áður að ríkisstjórnin þáverandi hafi ekki haft annan valkost, t.d. að fara "írsku leiðina", til þess var einfaldlega gjaldeyrisvaraforðinn ekki nógu stór og engin lönd voru tilbúin að lána okkur meiri gjaldeyri.
Einar Karl, 27.8.2011 kl. 12:06
Jú ríkisstjórnin hafði klárlega annan valkost, ef þú lest sjöunda bindi rannsóknarskýrslunnar þá kemur fram að það voru margir valkostir í stöðunni, en þessi var valin.
Einnig kemur fram í grein Jóns, að tveir breskir hagfræðingar hefðu ráðlagt íslendingum að veðsetja t.a.m. auðlindirnar fyrir láni, því allir voru á því að bjarga skyldi bönkunum. Einnig kemur fram í greininni hjá Jóni, að þeir hjá AGS hafi ekki verið hrifnir af þessari hugmynd, því þeir gerðu sér ekki grein fyrir hvað hún var góð.
Það sem eftir stendur er staðreyndin og hún segir, að rétt ákvörðun var tekin. Það er mjög sjaldan bara ein ákvörðun í boði, yfirleitt eru nokkrir valkostir í öllum stöðum.
Þekkti Már Guðmundsson þá ekki stöðuna hér á landi þegar hann vildi að ríkið styddi bankana og ekki heldur Þorvaldur Gylfason sem vildi slíkt hið sama?
Jón Ríkharðsson, 27.8.2011 kl. 12:18
Ég er búinn að lesa gaumgæfilega kafla í þessarri skýrslu og rifjaði rétt í þessu upp bls. 66-10. Ég sé hvergi að ríkisstjórnin hafi átt þann valkost að reyna að "bjarga" bankakerfinu, heldur rætt í byrjun okt. mismunandi leiðir til að skera það niður.
En endilega bentu mér á þá staði í skýrslunni sem styðja þessa söguskoðun Jóns Steinssonar.
Einar Karl, 27.8.2011 kl. 13:02
Í sjöunda kafla kemur fram að rætt hafi verið um Írsku leiðina á bls. 78 eða 80, ég man það ekki alveg, en hún þótti ekki fær, sökum stærðar bankakerfisins og fjárhagsstöðu ríkissjóðs, það er rétt. En menn ræddu ekki þann möguleika, sem Bresku hagfræðingarnir bentu á, að veðsetja auðlindir. Hafi menn farið eftir skoðun yfirmanns Seðlabanka Evrópu, að bankar mættu ekki fara á hausinn, þá hefði þessi leið hugsanlega verið skoðuð.
Einnig var fjallað í minnisblöðum um Norsku leiðina, Sænsku leiðina og Finnsku leiðina, ekkert segir að nein af þessum leiðum hafi beinlýnis verið ófærar, ég hef reyndar ekki skýrsluna fyrir framan mig,hún er víst um borð, það er stundum óvarlegt að treysta á minnið, en það þarf víst að nægja í bili. Það kann vel að vera að komið hafi fram að allar leiðir væru klárlega ófærar, en ég man ekki eftir að það hafi verið sagt með óyggjandi hætti.
Það var haft samband við sérfræðinga frá JP Morgan, að frumkvæði íslendinga og þeir bentu á þá leið sem farin var og samkvæmt því sem Jón Steinsson segir og engar forsendur hef ég til að draga það í efa, þá voru þeir frá AGS ekki sáttir við þá leið.
Annars má hártoga þetta endalaust og fátt leiðist mér meira heldur en hártoganir. Það sem stendur eftir er sú staðreynd, sem viðurkennd er víða, að tekin var rétt ákvörðun. Fyrst þeir hjá AGS voru svona óhressir með ákvörðunina, þá má draga þá ályktun að þeir hafi haft ráð til að hjálpa okkur að fara Írsku leiðina.
Af ofangreindum ástæðum get ég ekki bent á neitt sem styður frásögn Jóns, en rannsóknarskýrslan er að mínu mati engan veginn tæmandi uppgjör. Það vantar umfjöllun um andmæli Davíðs Oddssonar og fleiri, það skilur eftir ansi margar spurningar að mínu mati og slíkt er óþægilegt í þeim kringumstæðum sem ríkja hér á landi. En það er ekkert sem bendir til þess að Jón Steinsson sé að segja rangt frá að mínu mati, en sjálfsagt að skoða það ef ástæða þykir til.
Jón Ríkharðsson, 27.8.2011 kl. 16:56
Geir og félagar (+Davíð?)virðast hafa hitt á bestu lausnina fyrir Ísland, á örlagastund, þegar tíminn skipti öllu og engan tíma mátti missa í erlendum fjármálasamskiptum.
Steingrímur, allt of hræddur við útlendinga eyðilagði ávinning heimila og fyrirtækja, eyðilagði það sem hafði áunnist og gaf útlendum rukkurum opið veiðileyfi á Ísland! Landráð?
Grikkirnir klikkuðu líka, þeir áttu að neita að borga frá krísubyrjun og heimta endursamninga og lækkun lána fyrir meira en ári síðan.
Kolbeinn Pálsson, 27.8.2011 kl. 20:01
Þetta er allt satt og rétt hjá þér Kolbeinn, nema að ég vil ekki kalla þetta landráð.
Mönnum eru mislagðar hendur, en ég hygg að allir geri sitt besta, stundum er vitið ekki meira en Guð gaf.
Það voru mótmælendur og kjósendur, væntanlega úr þeirra hópi, sem bera ábyrgð á þessari ríkisstjórn, en þeir töldu sig líka vera að gera sitt besta.
Umræðan má aldrei fara út í persónulegar árásir, þá fer hún í tóma vitleysu sem ekki sér fyrir endann á.
Jón Ríkharðsson, 27.8.2011 kl. 21:07
Ég fór ofan í saumana á málinu og setti saman pistil. Söguskoðun Jóns er einfaldlega ekki rétt. Með því er ég ekkert að gera lítið úr því sem var gert, en það er RANGT að menn hafi hafi þann "valkost" að bjarga bönkunum með saman hætti og gert var á Írlandi.
Sjá hér:
http://bloggheimar.is/einarkarl/2011/08/27/stenst-soguskodun-jon-steinssonar/
Einar Karl, 28.8.2011 kl. 11:16
Það kallast varla djúp rannsóknarvinna að vitna eingöngu í einar heimildir.
Tilvitnun þín í skýrsluna á síðunni staðfestir einmitt rétta ákvörðun Geirs og félaga, stjórnvöld höfðu frumkvæði að því, að fá hingað til lands fulltrúa frá JP Morgan, þannig að þau tóku rétta ákvörðun.
Það vantar ýmislegt í þína rannsóknarvinnu, engin umfjöllun er um tillögur hagfræðingana frá Bretlandi, en þeir vildu að við leituðum allra ráða til að bjarga bönkunum, t.a.m. veðsetja auðlindir þjóðarinnar, einnig kemur ekkert fram, hvort AGS hafi haft einhverjar tillögur varðandi Írsku leiðina, Jón Steinsson sagði að þeim hafi litist illa á hugmyndir stjórnsýslunnar.
En ég hef sent Jóni Steinssyni tölvupóst, það er nauðsynlegt að hann fái tækifæri til að útskýra sitt mál.
Rannsóknarskýrslan er engan veginn tæmandi umfjöllun um þessi mál, ef fólk vill rannsaka þá þarf að skoða allar hliðar.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.