Sunnudagur, 28. ágúst 2011
Að ganga óhræddur til móts við eigin ótta.
Sá sem ætlar sér að verða leiðtogi, þarf að ganga óhræddur til móts við eigin ótta og sigrast á honum.
Af langri reynslu af sjómennsku hef ég kynnst nokkrum skipstjórum. Þeir sem bera af eru óhræddir við að taka ákvarðanir og þeir læra að sigrast á eigin ótta.
Það þarf oft að tefla á tæpasta vað þegar stundaðar eru fiskveiðar við Íslandsstrendur og það þarf kjark bæði og leikni, til að meta aðstæður rétt.
Sumir hræðast veðrin um of og leita vars í veðrum sem aðrir fiska í. Þeir sem sigrast á óttanum bera meira úr bítum en aðrir.
Sama er um stjórnmálamenn, þeir sem láta óttann ekki ná tökum á sér, verða oftast farsælir leiðtogar á meðan aðrir láta óttan ráða för, slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Einu hef ég tekið eftir með góða skipstjóra, þeir segja oftast fátt um eigin afrek. En hinir sem ekki eru eins góðir og jafnvel slakir eru stöðugt að segja sögur af hinum ýmsu afrekum sem þeir hafa unnið, oft skreyta þeir sögur sínar talsvert til að sannfæra aðra um ágæti sitt.
Ekki þarf að efast um að Geir H. Haarde hafi fundið fyrir ótta þegar þeir frá AGS lýstu því yfir, að leiðin sem hann valdi væri snargalin. Á svona örlagastundum er auðvelt að fá menn til að efast, en Geir stóð í lappirnar og tók afdrifaríkar ákvarðanir, sem ekki var ljóst að yrðu farsælar á þeim tímapunkti sem þær voru teknar, en Geir framkvæmdi í stað þess að láta óttan stjórna sér.
Geir H. Haarde er hógvær maður og lítillátur, hann hefur lítið grobbað sig í gegn um tíðina.
Svo er annar stjórnmálaleiðtogi, Steingrímur J. Sigfússon. Hann hefur árum saman gortað af því, að vera kjarkmaður mikill og ekki hefur hann dulið þá sannfæringu sína, að hann væri einnig staðfastur maður með afbrigðum.
Svo reyndi á þá mannkosti sem hann hafði lengi gortað af.
Meðan hann var í stjórnarandstöðu, þá sagði hann það sína bjargföstu sannfæringu að ekki bæri að borga Icesave, en svo var þrýst á hann að utan.
Þá snarbreyttist hann og vildi nú af ölu hjarta gangast undir allt sem hinir erlendu viðsemjendur fóru fram á. Hann fullyrti það, að allt færi hér á annan endann ef við greiddum ekki hina ólögvörðu skuld.
Allir þekkja framhaldið, Icesave var ekki samþykkt, en við stöndum ekkert ver og engin af hans heimsendaspám rættist.
Steingrímur og fleiri hans líkar fara mikinn og gefa stórar yfirlýsingar, en þegar á hólminn er komið, þá er kjarkurinn hvorki mikill né stór.
Þjóðin á að velja sér leiðtoga sem standa með henni í blíðu og stríðu, hvetja hana á erfiðum stundum og gleðjast með henni þegar vel gengur.
Leiðtoginn þarf að treysta þjóðinni og hafa trú á möguleikum hennar og getu til að bjarga sér út úr hverskyns vanda.
Þeir leiðtogar sem við höfum í dag treysta ekki þjóðinni, enda treysta þeir ekki sjálfum sér. Það þýðir ekkert að gorta af einhverju sem tilkomið er eingöngu vegna hagræðingar og lána, við þurfum meira fjármagn til landsins, fjármagn sem tilkomið er vegna framleiðslu. Þess vegna þurfum við t.a.m. álver eða aðra stóriðju.
En annar stjórnarflokkurinn berst gegn álverum á meðan hinn er klofinn í málinu.
Við höfum ekkert að óttast, dýrmætar auðlindir eru til staðar, það þarf bara að nýta þær. Einnig höfum við margar vinnufúsar hendur og mikinn auð í huga þeirra sem góða menntun hafa hlotið.
Okkur er ekkert að vanbúnaði, við þurfum bara ríkisstjórn sem hefur trú á og treystir eigin þjóð til góðra verka.
Athugasemdir
Góð hugvekja hjá þér, félagi, byrjar vel og er fylgt eftir af krafti.
Rétt hygg ég þig mæla hér um Geir Haarde, samanber ÞETTA!
En Steingríms hlutur úr úr Icesave-skiptum hans er harla rýr. Þó er hann einmitt enn á floti sem fjármálaráðherra, af því að forsetinn og þjóðin tóku fram fyrir hendurnar á honum, dauðhræddum, paníkerandi manninum.
Það gengur illa í ríkissjóði að hafa fyrir einu fangelsi 53 fanga, upp á eitthvað 2-3 milljarða, og að borga lögreglumönnum mannsæmandi laun eða yfirtíð ella. Ekki væri nú björgulegt í búi Steingríms, ef Icesave-1 hefði náð fram að ganga, með yfir 40 milljarða greiðslum árlega þessi árin!
Jón Valur Jensson, 28.8.2011 kl. 04:20
Þakka þér nafni minn, allir sem komu að stjórnsýslunni í kjölfar hrunsins unnu kraftaverk.
Sumir eru kannski búnir að gleyma því, að það var ástæða til að óttast skort á innfluttum varningi, en það tókst að halda greiðslumiðlun við útlönd opinni.
Sem betur fer tókst að stöðva Icesave, en það var ekki honum að þakka, það væri ástæða til að geta þín, Ómars, Lofts og fleiri í sögubókum, þá meina alla þá sem unnu að þessari farsælu niðurstöðu í Icesave.
Ef stefna Steingríms hefði fengið að ráða, þá þyrfti nú fleiri en Geir í bænahóp, til að biðja Guð um að blessa Ísland.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 10:04
Heill og sæll Jón,
það er ekki annað hægt en að taka undir hvert orð hjá þér í þessum pistli, vel framsett og heiðarleg umfjöllun. Auðvitað er það rétt hjá þér að skipstjórinn á þjóðarskútunni þarf að vera gerður úr sama efnivið og bestu sjósækjendur okkar, harðgerðir, klókir og glöggir á veðrabrigði.
Á þessa mannkosti eru fáir dómbærri en þú, enda byggt líf þitt á þeim.
Sveinn Úlfarsson 28.8.2011 kl. 10:31
Sæll Sveinn minn og þakka þér fyrir þitt innlegg.
Mig langar að segja örlítið frá því skipi sem ég er á, en þar hef ég verið í nokkur ár.
Í brúnni skiptast skipstjóri og fyrsti stýrimaður á að stjórna skipinu, eins og flestir vita. Í togaranum sem ég er á, eru þeir afburðarmenn báðir tveir. En hvernig eru þeir í viðkinningu?
Ekkert nema ljúfmennskan og hógværðin uppmáluð, hvorugur þeirra fengist til að segja frægðarsögur af sjálfum sér.
Við lentum í því fyrir nokkru síðan að það drapst á vélinni og þótt flestir væru búnir að vera nokkuð lengi á sjó, þá höfðum við verið það heppnir, að við höfum aldrei áður lent í því að vera dregnir af öðru skipi.
Skipstjórinn kom út á dekk og sagði; "helvítis vesen, þessu hef ég aldrei lent í áður". Eftir að hann hafði sleppt orðinu, þá gaf hann skýr fyrirmæli og stjórnaði með styrk og glæsibrag. Það var leiðindaveður og veltingur, en okkur tókst í sameiningu, undir styrkri stjórn kapteinsins, að klára verkið. Ekkert var öskrað og ekkert panikk átti sér stað.
Svona eru alvöru leiðtogar Sveinn, þeir láta lítið yfir sér alla jafna, eru félagar þeirra sem þeir stjórna og geta tekið af skarið þegar á þarf að halda og taka réttar ákvarðanir.
Þess háttar fólk þurfum við í pólitíkina, það er gott að "Haardera".
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 11:05
Jón R., Jón Valur og fleiri. Söguskoðun Jóns Steinssonar stenst ekki. Ég rökstyð þetta hér, með tilvitnanir í orð þeirra manna sem voru með honum í innsta hring örlagahelgina í október:
http://bloggheimar.is/einarkarl/2011/08/27/stenst-soguskodun-jon-steinssonar/
Ég get ekki sett athugasemd við pistil Jóns Vals, þar sem hann leyfir mér ekki að setja komment á síðu sína. Óttast greinilega gagnrýni, blogggarpurinn mikli.
Einar Karl, 28.8.2011 kl. 11:23
Það kemur einmitt fram í endurbirtingu úr rannsóknarskýrslunni á síðunni þinni, að ákvörðunin var tekin vegna ráða frá JP Morgan, þeir voru komnir hingað til lands að frumkvæði stjórnvalda. Það eitt og sér staðfestir rétta ákvörðun stjórnvalda á þessum tíma, því þegar menn lenda í miklum krísum, þá er skynsamlegt að leita ráða hjá hæfum aðilum, en það kom fram að JP Morgan hafði góða þekkingu á íslensku efnahagslífi.
Þú hrekur ekki það sem Jón segir í grein sinni, að stjórnvöld hafi neitað Landsbankanum um stuðning, ekki heldur að ríkið hefði haft efni á að láta Landsbankann fá það fé sem þeir fóru fram á.
Einnig kemur ekki fram, að stjórnvöld hafi virt heilræði hagfræðingana Bresku, en þeir vildu að við veðsettum auðlindirnar.
Gagnrýni á skrif Jóns eru ómöguleg, nema að hann fái tækifæri til að tjá sig og útskýra sitt mál.
Ég trúi Jóni, en þú ekki. Það er niðurstaðan í þessum umræðum.
Við komumst ekkert áfram, nema að Jón Steinsson fái tækifæri til andsvara og nú mun ég rita honum tölvupóst og leita svara frá honum.
Mér leiðist nefnilega þras, ég vil fá sannleikann.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 12:18
Hvaða vitleysa er þetta hjá þér Einar Karl. Allt sem þú "bloggar" um þetta rennir stoðum undir það sem Jón Steinarsson skrifar. Geir H.Haarde sat ekki einn útí horni og velti fyrir sér hvað hann ætti til bragðs að taka. Hann er fyrir það fyrsta hagfræðimenntaður með áratuga reynslu í hagstjórn og nútíma stjórnadi sem leitar umsagna allra færustu manna sem kostur er á í stöðunni. Það var byrjað að vinna neyðaráætlun fyrir mögulegar krísur mánuðum áður en hrunið fór af stað og ákvarðanatakan í föstum farvegi. í öðru lagi var tekin UPPLÝST ákvörðun, eftir að hafa vegið og metið alla kosti, af Geir H Haarde, hann tók stefnuna og hann sagði - þetta er leiðin sem við förum- það var leið sem var þvert á hefðbundnar leiðir og sýndi styrk Geirs á ögurstundu.
Hann valdi hag þjóðarinnar fram yfir banka og kröfuhafa öfugt við það sem Steingrímur J Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir hafa gert æ síðan.
Sveinn Úlfarsson 28.8.2011 kl. 12:43
Sveinn minn, ég er búinn að senda Jóni Steinssyni tölvupóst og biðja hann um nánari útskýringar.
Ég spurði hann um hvaða leiðir AGS hefði bent á, þegar þeir efuðust um aðgerðir ríkisstjórnarinnar, einnig spurði ég hann hvort leið sú sem hagfræðingarnir Bresku hefðu bent á, þ.e.a.s. veðsetja auðlindirnar, hefði verið rædd og hvaða skoðanir menn hefðu haft á því, vitanlega var það galin leið.
En það er gott hjá þér að benda á skjaldborgina sem Steingrímur afhenti vogunarsjóðunum.
En ég vona að Jón Steinsson svari mér fljótt, hann getur líka sett innlegg á síðuna ef hann kýs svo.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 12:49
Margt satt og rétt hjá þér í þessu Jón. En málið er að þið sjáfstæðismenn hafið ekki gert hreint upp við ykkar þátt í hruninu. Þess vegna vantreysta margir flokknum og vilja ekki að hann komist til valda á ný. Meðan ekki hefur verið gert upp við Davíðstímann og óheilbrigar ákvarðanir bæði í tíð ríkisstjórnar hans og síðan ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar.
Einhvers ótta hlýtur því að gæta meðal forystumanna Sjálfstæðisflokksins að ekki skuli gert hreint fyrir sínum dyrum og þeir sem bera ábyrgðina látnir sæta henni. Þetta á reyndar við um allan fjórflokkinn, þó hefur Framsóknarflokkurinn gengið lengst í endurnýjun. En sagan hvílir samt enn á baki hans.
Málið er að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði gert upp sín mál af heiðarleika, þá sæti þessi ríkisstjórn ekki lengur við völd. Mann óttast það sem mun koma ennþá meira en þessa verklausu ríkisstjórn. Það er nú heila málið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.8.2011 kl. 13:20
Ég get tekið undir það sem þú segir Ásthildur, sjálfstæðismenn eru ógurlega slakir við að útskýra sína hlið á málum, en það stendur vonandi til bóta.
Fyrir mér er málið tiltölulega einfalt, við treystum því að bankarnir væru að gera góða hluti og sáum ekki í gegnum blekkinguna. Þannig var víst ansi víða í hinum vestræna heimi. En það þarf allt að koma fram, það er alveg rétt.
Mér finnst merkilegt að fjölmiðlar skuli ekki hafa náð að sanna alvöru spillingu á Sjálfstæðisflokkinn og vinstri flokkarnir hafa heldur ekki náð því. Þingmenn hafa sakað sjálfstæðismenn um mútur, en ef einhver hefur grun um að stjórnmálamaður hafi þegið mútur, þá á að kæra það. Ég veit ekkert um sannindi þessara ásakanna, það kemur ekki í ljós fyrr en eftir að rannsókn hefur farið fram.
Það er í lagi að ákæra Geir H. Haarde eins og alla menn, en enginn veit hvað hann hefur til saka unnið.
Það eru engin fordæmi fyrir því, í hinum vestræna heimi, að stjórnmálamaður hafi verið ákærður fyrir að taka ekki alveg réttar ákvarðanir. Ef svo væri gert, þá væri það sennilega aðalatvinna allra dómstóla í heiminum að dæma í þesskonar málum. Svo eins og grein Jóns gefur til kynna, þá virðist Geir hafa tekið betri ákvarðanir en aðrir stjórnmálamenn í öðrum löndum.
Ásakanir á hendur Geir eru byggðar á svo veikum grunni, að ekkert bendir til annars en að um pólitískar ofsóknir sé að ræða.
Eins og ég hef áður sagt frá, þá reyndu vinstri menn að knésetja ólaf Thors, en hann kunni það sem arftakar hans kunna ekki, hann kunni að svara fyrir sig.
Ef ég verð sakaður um nauðgun, þá er mjög erfitt fyrir mig að bera það af mér, sama er um stjórnmálamenn, sérstaklega sjálfstæðismenn, ef þeir eru sakaðir um spillingu, þá er ansi snúið að afsanna það.
Umræðan er svo gölluð hjá okkur, við horfum aldrei á heildarmyndina því miður.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 13:40
Það kemur reyndar fram einhvers staðar í skýrslunni að Landsbankamenn hafi dregið lappirnar varðandi það að flytja Icesave-reikningana úr landi. En hafi að lokum gert ríkinu tilboð um að þeir gerðu það, gegn greiðslu ákveðinnar upphæðar.
Ríkið sem slíkt gat aldrei látið bankann flytja reikningana úr landi og tæplega gátu stjórnvöld, borgað bankanum eða eigendum hans fyrir ,,greiðann" , að flytja út reikningana.
Hvað kæruna á Geir varðar, þá er það eiginlega borðleggjandi, sé hér farið að lögum, að málinu verði vísað frá. Málið var afgreitt á tveimur þingum, þ.e. saksóknarinn, var kosinn á þinginu eftir að ákveðið var að kæra.
Samkvæmt lögum um þingmál, þá þarf að taka upp að nýju, frá upphafi, frá fyrstu/fyrri umræðu, takist ekki að klára þau fyrir þingslit, þingsins á undan.
Kristinn Karl Brynjarsson, 28.8.2011 kl. 14:33
Þakka þér kærlega stuðninginn Kristinn Karl og góðar ábendingar.
Svona menn eins og þú eru mikilvægir, því ég hef lítinn tíma til að kynna mér alla hluti, en það er nauðsynlegt að allt komi fram. Þú ert vel inn í þessum málum og flott hjá þér að koma því á framfæri sem þú hefur kynnt þér.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 14:38
Þetta síðartalda sem ég benti á varðandi ákæruna á Geir, bendir til þess að ekki hafi það mál verið unnið af þeim heilindum og virðingu sem dómsmál, eiga skilið, heldur hafi einhvers konar hungur fólks í pólitískt uppgjör í réttarsölum, ráðið meiru þar um, en viljinn eða getan til þess að gera hlutina rétt og vel.
Kristinn Karl Brynjarsson, 28.8.2011 kl. 14:55
Það er sennilega rétt hjá þér, þetta virðist snúast um pólitík en ekki réttlæti.
Jón Ríkharðsson, 28.8.2011 kl. 15:01
Sveinn Úlfarsson segir:
"Það var byrjað að vinna neyðaráætlun fyrir mögulegar krísur mánuðum áður en hrunið fór af stað og ákvarðanatakan í föstum farvegi. "
Sveinn, þú hefur greinlega ekki lesið rannsóknarskýrsluna. Hún fer mjög ítarlega yfir það hvað ákvarðanataka var fálmkennd og "krísustjórn" ómarkviss. Og þegar loksins menn sáu að allt gæti fallið á hliðina var hlaupið til og menn unnu sitt í hvoru horni, Seðlabankinn og stjórnarráðið hlaupandi þvers og kruss, menn utan úr bæ kallaðir til í óskilgreinda hópa, samstarfsflokknum ekki treyst, og Neyðarlögin ákveðin þegar öll önnur sund voru lokuð og Landsbankinn í raun fallinn, lánalínur að utan lokuðust og allt á suðupunkti í London enda gátu bresk stjórnvöld ekki treyst orði sem kom frá íslenskum bönkum né íslenskum stjórnvöldum.
Þetta stendur í skýrslunni, Ég er ekkert að búa þetta til.
Kostur við skýrsluna er hvað hún fer ítarlega yfir atburði og greinir skilmerkilega frá vitnisburðum fjölda manna. Ókostur er að hún verður mjög löng, og fjöldi manna leiðir hjá sér það sem í henni stendur, þ.á.m. Sveinn Úlfarsson og Jón Steinsson.
Einar Karl, 28.8.2011 kl. 16:53
Einar Karl, ég ætla að leyfa Sveini að svara fyrir sig, hann er fullfær um það, en borist hefur svar Jóns Steinssonar við fyrirspurn minni, varðandi aðra möguleika íslendinga varðandi aðstoð við bankanna í kjölfar hrunsins.
Þú fullyrðir að það hafi ekki verið neitt annað að gera í stöðunni, en Jón segir; "Ríkisskuldabref og innistæðubréf voru veðhæf í Seðlabanka Evrópu. Því hefði verið hægt að gefa út glás af slíkum bréfum og þannig skuldsetja ríkið mjög verulega á skömmum tíma. Það var ekki gert." Svo bætir Jón við, að það sé einmitt oftast gert í svona aðstæðum, allt reynt til þrautar að bjarga bönkum, en stjórnvöld kusu að gera það ekki.
Það segir sig sjálft, að eigið fé ríkissjóðs, þótt hann hefði staðið vel á þessum tíma, dugði aldrei til að bjarga bönkunum. En miðað við það sem nafni minn segir, þá var augljóslega möguleiki á því að fá lán, með veðsetningu ríkisskuldabréfa og innistæðubréfa.
Það sem Jón Steinsson hefur fram yfir okkur tvo er, að hann var þátttakandi í þessu öllu, haustið 2008. Ekki hef ég heyrt neitt sem bendir til óheiðarleika hjá honum, hann virðist virtur fræðimaður, annars er ólíklegt að hann myndi gegna prófessorsstöðu við erlendan háskóla.
Sem betur fer var Geir Haarde varfærinn í lántökum, hann vildi ekki nýta lán sem buðust sumarið 2008, en þó þrýsti stjórnarandstaðan mjög á stjórnvöld, að taka lánið til að styrkja gjaldeyrisforðann, stjórnvöldum þótti það of kostnaðarsamt.
Jón Ríkharðsson, 29.8.2011 kl. 09:08
Var ekki Seðlabankinn búinn að vera á höttunum eftir lánum til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, en ekki fengið?
Mér finnst einfaldlega þessar skýringar Jóns ekki passa við vitnisburði og ítarlega frásögn Rannsóknarskýrslunnar af hrunhelginni.
Jón er mætur fræðimaður en engu að síður leyfi ég mér að efast um að hann sé hlutlaus í því að greina söguna frá 4.-6. okt 2008, einmitt af því að hann var eins og þú segir "þátttakandi í þessu öllu" og að auki virðist þekkja Geir ansi vel persónulega, skv. orðum Geirs sjálfs í rannsóknarskýrslunni.
Einar Karl, 29.8.2011 kl. 09:59
Það er nauðsynlegt að skoða öll mál í víðu samhengi, þegar verið er að dæma verk annarra. Augljóst er að Geir Haarde hefur alltaf verið mikið á móti óhóflegum lántökum, hann vildi frekar greiða niður skuldir.
Rannsóknarskýrslan segir margt, en ekki allt. Hún svarar hvergi þeirri fullyrðingu Jóns, að mögulegt hafi verið að veðsetja ríkisskuldabréf og innistæðubréf fyrir láni, ekki heldur fjallar hún um hugmynd hagfræðinganna Bresku.
Ef farið er í greinasafn moggans og umræðan skoðuð, frá því fyrir október, þá kemur fram að ríkið átti kost á lánum, þau þóttu of dýr, en margir kröfðust þess að lánin yrðu tekin.
Þann 9. ágúst er haft eftir Árna Matthíassyni, að "eins og staðan er í dag, þá er það of dýrt fyrir íslenska ríkið að taka lán til að styrkja gjaldeyrisforðann". Sem betur fer voru menn varkárir í lántökum á þessum tíma.
Laugardaginn 30. ágúst kemur fram, að núverandi fjármálaráðherra heimtar það, að gjaldeyrisforðinn verði syrktur, væntanlega með lántökum og mánudaginn 3. september segir mogginn frá því, að Gylfi Magnússon vilji að gjaldeyrisforðinn verði allt að að 1000. milljarðar króna.
Varfærni Geirs Haarde og ábyrg hugsun varðandi lántökur, sem voru örugglega mögulegar mánuðina fyrir hrun, átti stóran þátt í því, að við fórum betur út úr kreppunni en við hefðum getað farið.
Það þarf að leita víðar fanga en í einni skýrslu, þótt ágæt sé, en gölluð eins og öll mannanna verk.
Þessi umræða er að mínu viti fulltæmd, nema þú finnir heimildir sem staðfesta það að Jón Steinarsson hafi rangt fyrir sér.
Raunverulega sagðir þú það strax í upphafi, en engin ný rök hafa komið fram önnur en tilvitnun í rannsóknarskýrsluna.
Jón Ríkharðsson, 29.8.2011 kl. 11:21
Það var í lagi að taka lán til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Ég studdi það.
En að lána allan gjaldeyrinn? Hverjum datt það eiginlega í hug, og að lána hann allan?
Þetta voru skrýtnir tímar. Reynslulausir menn sem vissu ekki hvað hvar að gerast.
Því miður.
Stefán Júlíusson 29.8.2011 kl. 12:08
Þú ert að tala um alvöru menn Jón. Svona kalla eins Cary Cooper í High Noon. Fámálir, mannlegir sem stjórna eigin ótta en ekki bullukallar eða grobbarar, sem míga undir þegar harðnar a dalnum . Ég held að við báðir séum búnir að þekkja nóg af slíkum köllum til að láta ekki glepjast af innantómum grobbhænsnunm. En maður virðir þá sem þykjast ekki meiri en þeir eru því þeir eru yfirleitt mun meiri en þeir halda sjálfir.
Halldór Jónsson, 31.8.2011 kl. 00:05
Þú hefur staðið þig vel hér, nafni minn kær.
Jón Valur Jensson, 31.8.2011 kl. 00:43
Stefán minn, fyrirgefðu töfina á svari.
Ég man ekki til þess að allur gjaldeyririnn hafi verið lánaður, kannski hefur einhver fengið þá hugmynd en hún var ekki framkvæmd.
Á svona erfiðum stundum og ekki hjálpaði óttin í samfélaginu til, þá er ekkert óeðlilegt að menn hugsi ekki alveg rökrétt.
En eins og ég sagði Einari Karli, þá er helvítis skýrslan um borð, þannig að ég hef ekki komist í hana, en ég man að bent var á það, að ekkert hafi tapast af gjaldeyrisforðanum á meðan aðrar þjóðir hafi tapað 10-15% af sínum.
Þetta kemur fram í andmælum Davíðs Oddssonar, sem skýrsluhöfundar virðast ekki hafa lesið, allavega gerðu þeir ekkert í að hvorki hrekja andmælin né staðfest.
Fræðimenn eru ekki sammála um nauðsyn öflugs gjaldeyrisforða, ég held að það hefði mátt skoða það mál aðeins betur, en ég hef ekki næga þekkingu til að tjá mig um það mál.
Jón Ríkharðsson, 31.8.2011 kl. 12:09
Já Halldór minn, oft hef ég rekið mig á það, að þeir sem gapa hæst eru oftast frekar litlir bógar þegar á reynir.
Ég hef tekið eftir því á þeim skipum sem ég hef verið á, að þegar það koma menn um borð sem segjast vera ógurlega öflugir og miklir jaxlar, þeir eru oftast óttalegir vesalingar þegar reynir á þá.
Mig langar að segja eina sögu af skipstjóranum mínum, en ég gat hans aðeins í pistlinum.
Við erum búnir að fylla skipið á mjög skömmum tíma undanfarið, reyndar fiskum við alltaf nokkuð vel.
Einn túrinn fylltum við á tveimur sólahringum, en það er ansi gott. Ég spjalla oft við kafteininn, enda er hann ósköp þægilegur og viðræðurgóður maður, með athyglisverðar skoðanir á öllum málum. Ég sagði við hann, þegar við vorum búnir að fylla að þetta hafi verið nokkuð vel af sér vikið hjá honum.
Aldrei þessu vant, varð hann frekar þurr á manninn og hann svaraði mér varla, muldraði já, finnst þér það, eða eitthvað í þá átt. Hann talar aldrei um eigin afrek, þótt þau séu mörg. Svona er Geir líka.
Jón Ríkharðsson, 31.8.2011 kl. 12:18
Þakka þér hólið nafni.
Jón Ríkharðsson, 31.8.2011 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.