Föstudagur, 2. september 2011
Hver verður þróun ESB?.
Evrópusambandið er sannarlega athyglisverður félagsskapur.
Brusslemenn hafa tekið því með æðruleysi sl. tvö ár, að íslendingar væru ekki með það á hreinu, hvort þeir vilji ganga í sambandið og ekki veit þessi sérstæða þjóð í norðri, hvers vegna hún vill fara þangað inn.
Hætt er við að mörg félög myndu missa þolinmæðina, en það gerir ESB ekki. Heldur borgar 230. milljónir til að kynna sig fyrir íslendingum.
Þótt aðdáendur og stuðningsmenn ESB hér á landi telji sig hafa svör við öllum spurningum, þá er erfitt að taka þau góð og gild, vegna þess að ýmislegt er nú plottað í pólitík og ekki er almenningur í ESB upplýstur um allt plottið sem þar fer fram, sumir halda eflaust að "reykfyllt bakherbergi" séu einungis til á Íslandi, en þau þekkjast ansi víða.
Ekki er óeðlilegt, svona ef litið er til reynslu heimsins af pólitík, að Evrópusambandið stefni í að verða eitt ríki, það er hagur embættismanna í Brussel, en ekki endilega hagsmunir almennings. Sameiginleg hagstjórn vegna Evrunnar virðist vera ósk margra þungavigtamanna innan sambandsins.
Íslendingar hafa miklar auðlindir upp á að bjóða, Evrópusambandið veit af því. ESB gæti sannarlega fengið verkefni fyrir flota sinn í íslensku lögsögunni, ef þeim sýnist svo.
En það er einn galli við þessa umræðu, eingöngu er verið að spá í framtíðina, en hún er víst öllum hulin.
Enginn getur fullyrt nokkuð um þróun ESB, en hægt er að setja fram kenningar. Kenningin um að ESB verði eitt ríki hljómar sennilega hjá mörgum, öðrum finnst það vera bull.
Enginn getur sannað hvoruga kenninguna, en á meðan íslendingar hafa möguleika á að standa á eigin fótum, þá eigum við að sjálfsögðu að standa utan við ESB.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.