Laugardagur, 3. september 2011
Óásættanlegur árangur ríkisstjórnarinnar.
Árangur af tveggja ára starfi "hinnar tæru vinstri stjórnar" er gjöramlega óásættanlegur með öllu, staðreyndin er sú að þeim hefur ekkert miðað áfram í efnahagsmálum.
Sá efnahagsbati sem þau stæra sig af er ýmist tekin að láni eða með skatttekjum sem eru að sliga flest heimili og fyrirtæki í landinu.
Steingrímur og Jóhanna töluðu um neikvæðni stjórnarandstöðunnar og Jóhanna sagði að stjórnarandstaðan væri mesti efnahagsvandinn. Þessi ummæli lýsa slæmri dómgreind, því ríkisstjórnin er mesti efnahagsvandinn sem við búum við.
Það eina sem þjóðin þarf til að vinna sig út úr efnahagsvandanum eru auknar gjaldeyristekjur og þessi ríkisstjórn hefur einmitt komið í veg fyrir auknar gjaldeyristekjur. Ef það þykir góður árangur, þá væri gaman að heyra þau lýsa slæmum árangri í efnahagsstjórn.
Strax eftir hrunið var búið að leggja drög að álveri í Helguvík. Það hefði átt að vera fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar, að keyra það verkefni áfram til að efla bjartsýni og von.
Síðan hefði átt að sjálfsögðu að halda áfram með hugmyndir að einkarekna sjúkrahúsinu á suðurnesjum, allar svona aðgerðir auka tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda, þótt þær leysi ekki allan vandann.
Utanríkisráðuneytið hefði átt að vera á fullu, með aðstoð allra bestu viðskiptamanna sem völ er á, innlendum jafnt sem erlendum, við að afla viðskiptasambanda út um allan heim.
Varðandi Icesave, þá hefðu reyndir stjórnmálamenn átt að vita að Svavar Gestsson væri ekki heppilegur samningamaður, best hefði verið að fá harðsnúið lið erlendra lögfræðinga, með mikla reynslu af milliríkjasamningum til starfans. Það hefði átt að gerast strax, þá hefðu deilurnar ekki orðið eins harðar og þær voru, en deilur magna reiði og hamla framförum.
Sannur leiðtogi hefði lesið í þjóðarsálina og komist að því, að nú væri tími til að færa umræðuna niður á hófstillt plan, lægja þurfti reiðiöldurnar sem mögnuðust í búsáhaldabyltingunni. Í stað þess að lægja öldurnar bjó ríkisstjórnin til bullandi brotsjói sem skullu á þjóðarskútunni og hefðu getað grandað henni, ef sjálfstæðismenn hefðu ekki byggt traust og vandað skip til að standa af sér brotin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.