Við þurfum að standa saman.

Í morgun bankaði upp á hjá mér maður sem ég hafði aldrei séð áður. Hann var með svarta plastpoka og spurði hvort ég ætti tómar gosflöskur.

Þar sem að fjölskyldan þambar gosdrykki í lítratali, þá safnast fljótt upp haugur af tómum gosflöskum á mínu heimili, þannig að ég kvaðst geta útvegað nokkrar, spurði manninn fyrir hverja væri verið að safna.

Hann sagðist vilja vera hreinskilinn við mig, þetta væri fyrir hann sjálfan, því hann hefur verið atvinnulaus ansi lengi.

Vitanlega fékk maðurinn tvo troðfulla svarta plastpoka af tómum gosflöskum og mér fannst gott að geta gefið honum þá. Ekki fann ég til vorkunnar gagnvart manninum, heldur fannst mér hann maður að meiri, fyrir að hafa kjark til að banka upp á hjá bláókunnugu fólki og leita eftir aðstoð.

Við horfumst í augu við erfiða tíma, margir eru án atvinnu og það ríkir fátækt og vonleysi á mörgum heimilum. Þess vegna er mikilvægt að við, sem erum aflögufær, leggjum okkar af mörkum til hjálpa þeim, sem ekki eru eins lánsamir og við.

Ef við þekkjum einhvern í okkar nærumhverfi sem er í erfiðleikum, þá ber okkur skylda til að hjálpa. Því við berum öll ábyrgð á hvert öðru, við erum öll á sama báti þótt aðstæður okkar séu mismunandi.

Með því að víkja litlu að fólki, þá gerum við gagn og ef margir gefa lítið þá verður það að lokum ansi stórt.

Við eigum ekki að ætlast til þess að ríkið bjargi öllum, heldur eigum við að standa saman og hjálpast að.

Sá sem er gefandi í dag, getur orðið þiggjandi á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Flott hjá manninum að koma heiðarlega fram, og er algjörlega sammála öllu í þessum pistli þínum.

Jóhanna Magnúsdóttir, 4.9.2011 kl. 15:44

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Já Jóhanna, þetta virtist ósköp venjulegur maður, kurteis og bauð af sér góðan þokka.

Jón Ríkharðsson, 4.9.2011 kl. 15:46

3 identicon

Sæll; fornvinur Jón, jafnan - sem aðrir gestir, þínir !

Vel mælt; Jón minn - og lýsir bezt, þínum innra manni, að verðskulduðu.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason 4.9.2011 kl. 16:01

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Óskar minn Helgi, minn fornvinur kæri frá Suðurlandsundirlendi.

Ekki veit ég hvort minn innri maður er betri en annarra, en ég hef reynt ýmislegt og það mótar persónuleikann.

Mér er ennþá í fersku minni, þegar ég starfaði sem róni á götum Reykjavíkurborgar, þá þurfti ég að sníkja fyrir kardóglösum og ýmsum nauðsynjavörum.

Mörgum féll illa við sníkjurnar hjá mér, ég gat svo sem skilið það, en mikið leið mér þá illa. Það er erfitt að finna fyrirlitningu frá fólki og ég hét sjálfum mér því, eftir að ég hætti samstarfi við Bakkus, að ég mundi alltaf hjálpa öllum, ef ég mögulega gæti og aldrei sýna neinum lítilsvirðingu.

Ég verð að geta góðra kvenna sem unnu í SS búðinni á móti Hlemmi. Þær gáfu mér samloku og mjólk, þegar ég birtist þar til að kaupa Kardimommudropa mér til hressingar. Svona nokkuð gleymist aldrei og alltaf hugsa ég með hlýhug til þessara heiðurskvenna, þótt ég hafi ekki hugmynd um nöfn þeirra né hvar þær eru niðurkomnar í dag.

Jón Ríkharðsson, 4.9.2011 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband