Á að reka ESB sinna úr Sjálfstæðisflokknum?

Annað slagið sést það sjónarmið framsett í netheimum, að víkja beri Þorgerði Katrínu og Ragnheiði Ríkharðsdóttur úr flokknum vegna afstöðu þeirra til ESB.

Vonandi er þetta ekki sett fram í fullri alvöru, því Sjálfstæðisflokkurinn á alltaf að virða skoðanir allra sem í honum eru, það er hans aðalsmerki.

Eins og flestir vita sem lesa pistlana mína, þá er ég stjónrarmaður í Heimssýn og virkur í því ágæta félagi, eftir því sem aðstæður mínar leyfa. Það eitt og sér ætti að segja, hvaða skoðun ég hef á inngöngu í ESB, ég vil það alls ekki og geri aldrei neina málamiðlun í því.

Mér finnst gott hjá landsfundinum að gefa afgerandi yfirlýsingu og flott hjá Bjarna Benediktssyni að segja það umbúðarlaust, að hann vilji ekki ganga inn og að hann vilji draga umsóknuna til baka hið snarasta.

Það vill ég líka, ég og Bjarni tölum sem einn maður í þessu máli.

En það á ekki að vera sjálfgefið að mínar skoðanir ráði, því við búum í lýðræðisríki.

Ég hitti Jórunni vinkonu mína Frímannsdóttur í hádeginu og átti við hana gott spjall. Jórunn er prýðis kona og virkilega gaman að ræða við hana. Hún er í hópi þeirra sjálfstæðismanna sem vilja skoða aðild að Evrópusambandinu og við ræddum það mál.

Ég hvatti hana til þess að ESB sinnar í Sjálfstæðisflokknum yrðu duglegri við að halda sínum sjónarmiðum á lofti og berjast fyrir þeim, ekki vegna þess að það þjónaði mínum hagsmunum, heldur er það sjálfsagt og eðlilegt í lýðræðissinnuðum flokki, að allir hafi jafnan rétt til að tjá sínar skoðanir og berjast fyrir þeim.

Vissulega tók Jórunn vel í mína hugmynd og sagði mér að það væri verið að skoða þetta, hjá ESB sinnum í Sjálfstæðisflokknum.

Ef að ein skoðun á að ráða í stjórnmálaflokki, þá er það hættuleg þróun. Ég mun að sjálfsögðu berjast gegn ESB aðild og halda mínum sjónarmiðum á lofti.

En ég kann samt mjög vel við þessar yndislegu konur og mér finnst Benedikt Jóhannesson, sem líka er mikill ESB sinni, ósköp notalegur náungi.

Deilur eiga að snúast um málefni en ekki persónur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Það þarf ekkert Nonni minn. Flokkurinn mun hjálparlaust liðast....

hilmar jónsson, 15.9.2011 kl. 17:22

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er nú ekki mjög líklegt Hilmar minn.

Jón Ríkharðsson, 15.9.2011 kl. 17:50

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið rekinn úr aðildarsinnum þá má vel velta þessari spurningu fyrir sér.

Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda. Það verða þeir ávalt að muna. Þeir geta ekki látið vera að fylgja einungis aðalmálum flokksins eftir í kosningabaráttu hans - en svo aðhafast allt annað þegar á Alþingi er komið. Þannig stjórnmál eru ávísun á upplausn flokksins og allra stjórnmála. Þannig stjórnmál láta kjósendur sitja uppi með Svarta Pétur. Þeir kjósa vorið en fá svo vetur. Kosningasvik.

Kjósendur fara ekki á miðilsfund þegar þeir fara á kosningafund eða inn í kosningaklefann. Þeir lesa ekki hugsanir.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.9.2011 kl. 18:42

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég er algerlega sammála þér varðandi ESB málin og ég man ekki til þess að hafa verið ósammála þér Gunnar. Þú rökstyður þitt mál mjög vel og setur það skemmtilega fram.

Kannski er áherslumunur á sjónarmiði okkar varðandi Sjálfstæðisflokkinn, en það varður þá að hafa það.

Mín skoðun er sú, að allir eigi að hafa rétt til þess að tjá sínar skoðanir og þá skiptir ekki máli hvort ég er sammála þeim eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn á að þola skiptar skoðanir á öllum málum.

Reyndar er það mín skoðun og bjargföst sannfæring, að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki samþykkt aðild að ESB, vegna þess að hann var stofnaður til þess að varðveita sjálfstæði og fullveldi Íslands, það er sú skoðun sem ég hef alltaf haldið á lofti og bakka ekki með. ESB sinnarnir vilja aftur meina að þetta sé ekki rétt hjá mér, ESB aðild skerði alls ekki, hvorki fullveldi né sjálfstæði landsins.

Þetta minnir mig stundum á deilur ýmissa kristinna manna varðandi giftingu samkynhneigðra.

Biblían viðurkennir ekkert annað hjónaband, en hjónaband milli karls og konu. Samt eru margir biblíufróðir einstaklingar á annarri skoðun, því þeir túlka biblíuna öðruvísi en hinir.

Annars finnst mér hæpið að við förum í ESB, flestir eru á að gera það ekki sem betur fer.

En við sem erum í Heimssýn og aðrir andstæðingar aðildar, við þurfum að berjast fyrir okkar hugsjón og þar ert þú fremstur í flokki sökum þekkingar þinnar á þessum málum.

Það eru vitanlega flokksmenn sem velja á lista, það vita allir hverjir eru með og á móti ESB og meðan það liggur fyrir, þá er þetta í ágætis málum. En ég er sammála því, stjórnmálamenn verða að vera stefnufastir og mega ekki taka u-beygju í mikilvægum málum eins og ESB, þar verða þeir að gefa upp afstöðu og halda henni.

Jón Ríkharðsson, 15.9.2011 kl. 20:32

5 identicon

Það er ekki rétt að reka fólk úr stjórmálflokkum vegna skoðana, en hinsvegar ættu flokkarnir að taka upp aðrar aðferðir við val á framboðslistum og gera kröfu um það að þeir sem hafi athvæðisrétt hafi verið meðlimur í flokknum í einhvern tiltekinn tíma til þess að ekki streymi inn gestir og gangandi tímabundið úr öðrum stjórnmálaflokkum til að kjósa trójuhesta, gleggsta dæmið um einn slíkan er Guðmundur Steingrímsson hann er ekki framsóknarmaður frekar hundurinn í næsta húsi, það er miklvægt að flokkar hafi ekki slíka laumufarþega í framboðslistum sínum.  

Kristján B Kristinsson 15.9.2011 kl. 20:43

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk Jón.  

Sem betur fer þekki ég enga leið til að stjórna eða stýra hugsunum manna. 

En vilji Sjálfstæðiflokkurinn komast í ríkisstjórn og þar með veita stefnu flokksins farbraut yfir í raunveruleikann, þá þurfa þingmenn hans að lúta yfirstjórn þeirri sem af grasrótinni var kosin til að framfylgja stefnu þeirri sem kom þeim einmitt inn á þing fyrir tilstilli kjósenda sem trúðu á framburðinn í framboði þeirra.

Allir flokkar eru klofnir að einhverju leyti. En Sjálfstæðisflokkurinn getur aldrei verið klofinn í baráttunni fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands. Það er ekki hægt. Og kjósnedur lesa ekki hugsanir. Þeir hlusta, lesa og sjá.

Gunnar Rögnvaldsson, 15.9.2011 kl. 21:20

7 Smámynd: Jón Ríkharðsson

þakka þér fyrir Kristján, þú kemur með mjög athyglisvert sjónarmið sem heilmikið vit er í.

Jón Ríkharðsson, 15.9.2011 kl. 23:23

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég er sammála þér Gunnar, vissulega væri best ef allir sjálfstæðismenn væru á sömu línu varðandi ESB, því það er mjög stórt og mikilvægt mál.

Ég tel meiri líkur á því en minni, að Bandaríki ESB verði stofnuð og þá verðum við pínulítið þorp í ESB. Þú þekir þessa umræðu,það þarf að koma á fót sameiginlegri hagstjórn, hugmyndir eru uppi um sameiginlegan her osfrv., það er augljóslega ákveðin hættumerki þótt ekki sé hægt að fullyrða að það verði að veruleika. 

Jón Ríkharðsson, 15.9.2011 kl. 23:28

9 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég er þeirrar skoðunar að flokkarnir hafi flestir gert afdrifarík mistök um leið og umræður fóru af alvöru að snúast um hvort sækja ætti um aðild að ESB eða ekki. Ég segi flestir, ekki af því að ég eigi 'minn flokk' sem hafi ekki gert slík mistök, bara svo það sé á hreinu.

En það er varla umdeilt að Samfylkingin er eini flokkurinn sem ekki hefur klofnað í tvær hatramlega andstæðar fylkingar. Allir aðrir flokkar reyna að birtast út á við sem samstæð heild með eina 'rétta' niðurstöðu í þessu máli, en það viðurkenna vonandi flestir að það er hálfsannleikur og í raun engin samstaða til staðar innan flokkanna.

Borgarahreyfingin hvarf, en þar á bæ voru hreinlega sviknar yfirlýsingar sem gefnar voru fyrir kosningar. Til varð Hreyfingin (manni fátækari), sem setti sig síðan á móti aðildarumsókninni. Eini maðurinn sem vildi halda til streitu kosningaloforði þeirra allra gekk til liðs við VG, þar sem ekki er mikil ánægja með þá sem styðja aðildarumsóknina þó þeir neyðist til að sýnast styðja hana vegna samstarfsflokksins.

Í Sjálfstæðisflokknum var núverandi formaður neyddur til þess að skipta um skoðun til þess að hann gæti átt von til þess að ná formannssætinu. Þar er engin sátt á milli andstæðra fylkinga í sjónmáli, en ég verð að segja að það er hressandi að sjá sáttatóninn í þeim ESB andstæðingi sem þessa síðu skrifar.

Framsókn fékk til liðs við sig Svarta-Pétur í líki flóttaþingmanns úr VG. Ekki er víst að það hafi verið heillasending og er í raun sorglegt að sjá hversu þjóðernissinnaður sá flokkur er farinn að líta út. Ekki virðist mikið rými fyrir þá sem er hlynntir aðildarumsókninni þar og þeir virðast ætla að taka pokann sinn.

Nú og svo vita svo sem allir hver afstaða VG manna er, en þó eru til þingmenn þar sem líta út fyrir að vera heilir í stuðningi sínum við að aðildarumsóknarferlið verði klárað og þjóðinni leyft að taka síðan sína ákvörðun.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að allir flokkar hefðu í upphafi átt að gefa ESB atkvæðið frjálst innan sinna raða (það sem menn kalla 'Free vote' í breska þinginu, andstætt við það sem kallað er 'party whip', eða flokkssvipan).

Ef menn hefðu borið gæfu til þessa, er ekki víst einu sinni að aðildarumsóknin hefði fengist samþykkt. Hefði hún hins vegar hlotið samþykki hefðu flokkarnir hver fyrir sig hins vegar getað átt miklu heilbrigðari rökræður innan sinna raða um málið, án þess að til vinslita og klofnings þyrfti að koma. Ég spyr líka hvor aðferðin þykir mönnum lýðræðislegri, frjálst atkvæði þingmanna (eftir eigin sannfæringu) eða flokkssvipan?

Allt tal um að draga til baka umsóknina með öllum þeim rökum og gerfirökum sem beitt hefur verið í þeirri umræðu get ég ekki skilið. Af hverju er ekki hægt að sammælast um það að klára málið í eitt skipti fyrir öll, með atkvæðagreiðslu um aðildarsamning? Af hverju má ekki treysta þjóðinni? Nei niðurstaða myndi þýða að málið væri dautt (alla vega í 10-15 ár geri ég ráð fyrir). Að draga umsóknina til baka verður bara til þess að næstu og þarnæstu kosningar og allar kosningar þar á eftir myndu snúast um þetta mál. Engin niðurstaða fengist með því.

Ég ætla svo sem ekki að fara út í neinar frekari rökræður um þetta, alla vega ekki ef einu viðbrögðin við þessu verða föðurlegar umvandanir um að það þurfi ekkert að vera að skoða aðild, það geti ekkert gott komið út úr því, þjóðin vilji þetta ekki og radíra... Ég vil bara fá að taka mína ákvörðun í málinu út frá mínu mati á því sem aðildarsamningur kemur til með að fela í sér. Það er minn réttur, út frá því sem Alþingi Íslendinga ákvað (eins lýðræðislega og Alþingi okkar býður upp á). Punktur.

Karl Ólafsson, 16.9.2011 kl. 01:36

10 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Karl, þú setur þínar skoðanir mjög vel fram og það er hið besta mál.

Ég veit ekki hvort það er beinlínis sáttatónn hjá mér, ég hef ekki trú á að það verði sátt um þessi mál nokkurntíma.

Ég er ekki sáttur við umsóknina og ég er ekki sáttur við að til séu sjálfstæðismenn sem vilja ganga í ESB, en ég þarf þó að sætta mig við það, að til eru ólíkar skoðanir á öllum málum.

Ég er lýðræðissinni, þess vegna verð ég að vera sjálfum mér samkvæmur og hvetja alla til að halda sínum sjónarmiðum á lofti.

Ef fólk er þvingað til að þegja, þá skapast undirliggjandi ólga, sem brýst fram með neikvæðum afleiðingum.

Mér finnst best að ræða öll mál af yfirvegun og án þess að fara út í persónulegar deilur, mér er ekki illa við nokkurn mann né nokkra konu, en verð þó að viðurkenna að mér líður misvel í návist fólks, en það fer eftir nálgun þess í umræðum en ekki eftir skoðunum þeim sem viðkomandi hefur.

Ég á móðurbróður og við höfum verið mjög nánir frá því að ég fæddist. Hann er mikill ESB sinni og við erum á öndverðum meiði í þeim efnum. Við ræðum ESB, þrætum, skiptumst á skoðunum og erum algerlega ósammála, en sækjum alltaf eftir félagsskap hvers annars. Hann er alltaf að reyna að sannfæra mig og ég hann, en við vitum báðir að það er tilgangslaust.

Jón Ríkharðsson, 16.9.2011 kl. 10:55

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda. Umsóknin var gerræðisleg aðför að lýðræði á Íslandi. Hún algerlega er án umboðs frá þjóðinni. Ég sætti mig ekki við að þjóðkjörnir þingmenn lýðveldis okkar sýni kjósendum rassinn og telji að framtíð, sjálfstæði og fullvedi þjóðarinnar sé þeirra einkamál. Hvað næst? Hverju munu þessir menn finna upp á næst? Sækja um innngöngu í Kína án umboðs frá kjósendum?
 
Þeir þingmenn lýðveldisins sem sótt hafa um óafturkallanlega inngöngu Íslands í efnahagslegt og mannlegt svarthol framtíðarinnar í Evrópusambandinu til eilífðar, eru þessir; (The enlargement process is irreversible)

Álfheiður Ingadóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Árni Páll Árnason
 
Árni Þór Sigurðsson (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Ásta R. Jóhannesdóttir
 
Birkir Jón Jónsson (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Bjarkey Gunnarsdóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Björgvin G. Sigurðsson
 
Guðbjartur Hannesson 
 
Guðmundur Steingrímsson (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Helgi Hjörvar
 
Jóhanna Sigurðardóttir
 
Jónína Rós Guðmundsdóttir
 
Katrín Jakobsdóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Katrín Júlíusdóttir

Kristján L. Möller
 
Lilja Mósesdóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Magnús Orri Schram

Oddný G. Harðardóttir
 
Ólína Þorvarðardóttir
 
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Róbert Marshall
 
Sigmundur Ernir Rúnarsson
 
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
 
Siv Friðleifsdóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Skúli Helgason
 
Steingrímur J. Sigfússon (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
 
Svandís Svavarsdóttir (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Valgerður Bjarnadóttir
 
Þórunn Sveinbjarnardóttir
 
Þráinn Bertelsson (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Ögmundur Jónasson (hafði ekkert umboð frá kjósendum)
 
Össur Skarphéðinsson
 
Kosningasvik, þegar að sjálfstæði og fullveldi lýðveldis okkar kemur, eru meira en grafalvarlegur hlutur.
 
Þeir þingmenn lýðveldisins sem brugðust skyldum sínum við að koma umboði og vilja kjósenda sinna á framfæri, eru þessir:
 
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir  
 
Þeir þingmenn lýðveldisins  sem sögðu nei og voru trúir umboði því sem þeir sóttu til kjósenda, eru þessir:
 
Atli Gíslason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari, Þuríður Backman
 
 

Gunnar Rögnvaldsson, 16.9.2011 kl. 11:54

12 identicon

Það er nú ekki rétt að segja að ákveðnir þingmenn hafi ekki umboð frá kjósendum þó þeir styðji aðildarviðræður við ESB.  Eins og Jón bendir réttilega á í grein sinni þá á að virða skoðanir fólks í þessu máli.  Í 48. grein stjórnarskrárinnar stendur: "Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum."  Innan allra flokka eru þingmenn sem hafa mismunandi skoðanir á málinu og þær ber að virða.

Skúli 16.9.2011 kl. 20:27

13 Smámynd: Karl Ólafsson

Gunnar, ég vil síður fara út í langar rökræður við þig, því ég veit af fyrri reynslu að við verðum seint sammála :-)

En ég verð að mótmæla þinni framsetningu hér fyrir ofan. Hún er einfaldlega röng og það er ekki með nokkru móti hægt að rökstyðja þær fullyrðingar og þau stóru orð sem þú setur fram. Þetta er vissulega þín skoðun og þér er frjálst að hafa hana, en ég geri ráð fyrir þú gerir þér líka grein fyrir því að skoðanir annarra eru jafn réttháar þínum skoðunum, svo hér eru mínar skoðanir :-)

"Hún algerlega er án umboðs frá þjóðinni."

Rangt. Þingmenn eru kjörnir af þjóðinni til þess að fylgja eigin sannfæringu, engu öðru, eins og Skúli minnir á hér fyrir ofan. Ákvörðun Alþingis er ávallt í umboði þjóðarinnar. Enda þótt deila megi um í mörgum tilfellum hvort ákvörðunin sé fengin í samræmi við eigin sannfæringu allra þingmanna, þá eru þetta hins vegar þær leikreglur sem okkar lýðræðisþjóðfélag starfar eftir. Eins og alls staðar annars staðar í þjóðfélaginu, viðskiptalífinu sem annars staðar fást raunverulegar niðurstöður með frjálsum samningum og málamiðlunum. Síðan eru öryggisventlar til staðar (neitun forseta/þjóðaratkvæði, refsing í næstu kosningum, o.s.frv.).

"Þeir þingmenn lýðveldisins sem sótt hafa um óafturkallanlega inngöngu Íslands í efnahagslegt og mannlegt svarthol framtíðarinnar í Evrópusambandinu til eilífðar, eru þessir;"

Rétt. Þ.e. það er listinn er væntanlega réttur, en lýsing þín á gerðum þeirra er vanstillt og röng. Samþykkt var að sækja um aðild að ESB og skyldi aðildarsamningur sem næðist borinn undir þjóðina. Þessir þingmenn ákváðu ekki að ganga í ESB, þjóðin mun hafna eða samþykkja aðildarsamning. 

"Þeir þingmenn lýðveldisins sem brugðust skyldum sínum við að koma umboði og vilja kjósenda sinna á framfæri, eru þessir:"

Rangt.  Þessir þingmenn mátu það svo að þeir gætu best verið trúir sinni sannfæringu með því að sitja hjá. Kjósendur þeirra treystu þeim til að til að gæta hagsmuna sinna og munu dæma þá af verkum þeirra í næstu kosningum, eins og aðra þingmenn.

"Þeir þingmenn lýðveldisins sem sögðu nei og voru trúir umboði því sem þeir sóttu til kjósenda, eru þessir:"

Rangt. Og þarna ertu kominn í mótsögn við sjálfan þig, því í þessum lista eru þingmenn sem sögðu sínum kjósendum að þeir væru hlynntir því að sótt yrði um aðild að ESB og væntanlega hafa einhverjir kjósendur greitt þeirra lista atkvæði sitt af þeim ástæðum. Brugðust þeir þá umboði sínu? Mér finnst freistand að segja já við því, en ég verð líka að reyna að vera samkvæmur sjálfum mér og sætta mig við að þeirra sannfæring bauð þeim að breyta sinni afstöðu til málsins. Þessir þingmenn voru því ekki trúir sínu umboði nema þeir hafi greitt atkvæði samkvæmt sinni eigin sannfæringu. Ég ætla ekkert endilega að fullyrða að þeir hafi allir gert það, en látum það liggja á milli hluta hér.

Karl Ólafsson, 16.9.2011 kl. 22:36

14 Smámynd: Karl Ólafsson

Gunnar, ég verð að bæta einu við.´

Mér yfirsást þessi setning hjá þér:

"Kosningasvik, þegar að sjálfstæði og fullveldi lýðveldis okkar kemur, eru meira en grafalvarlegur hlutur."

Kosningasvik eru vissulega grafalvarlegur hlutur, en hér átti sér ekki neitt stað sem með nokkru hugsanlegu móti er hægt að kalla kosningasvik. Aftur röng og vanstillt fullyrðing sem ekki stenst rök.

Ég vil taka undir sjónarmið síðuritara og leggja til að við leyfum öllum sjónarmiðum að heyrast og ræðum málefnin en ekki persónurnar. Af hverju ættum við að vera að velta okkur upp úr afgreiðslu þingsins á ákvörðun um hvort og hvernig staðið skyldi að umsókn um aðild að ESB? Af hverju getum við ekki komið okkur saman um að hætta að karpa um hvernig við komumst þangað sem við erum stödd í dag og rætt þess í stað hvert framhaldið verður? Og þá á ég ekki við með því að draga til baka umsóknina, heldur klára ferlið og leiða það til niðurstöðu sem þjóðin hefur ákveðið í atkvæðagreiðslu, ekki í skoðanakönnunum.

Af hverju er enn látið að því liggja að allir sem vilja halda áfram ferlinu og klára málið séu ESB-sinnar sem séu að svíkja þjóð sína? Ég heyri mjög marga andstæðinga aðildar halda fram því sjónarmiði að rétt sé að klára málið og hafna svo aðild í þjóðaratkvæði, eins og Norðmenn hafa jú gert. Það hafa engin kosningasvik eða landráð verið framin ennþá af nokkrum manni í þessu sambandi, hættum þeirri orðræðu (tek fram að þú Gunnar minnist ekki á landráð hér fyrir ofan; nógir aðrir hafa verið ósparir á það orð), en það hafa verið gerðar tilraunir til að leggja stein í götu lýðræðisins. Sama hver niðurstaða þjóðaratkvæðis verður, ef við komumst upp úr þeim hjólförum sem umræðan er í núna, þá eygjum við e.t.v. tækifæri til þess að leysa úr ágreiningsefnum okkar í framtíðinni með rökræðum og samningum og lýðræðislegum ákvörðunum, en ekki persónuárásum og níði.

Karl Ólafsson, 17.9.2011 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband