Þjóðstjórn gengur aldrei upp.

Eftir að hrunið varð á fjármálamörkuðum heimsins, þá hefur þerri umræðu vaxið fiskur um hrygg hér á landi, að samvinna allra stjórnmálaflokka sé nauðsynleg og best væri að mynda þjóðstjórn.

Slíkt er vitanlega reginfirra, því það getur aldrei orðið til langs tíma.

Vissulega var það gott framtak hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að stuðla að samstarfi allra flokka í borgarstjórn, á þeim tímapunkti var það nauðsynlegt, því samfélagsástandið kallaði eftir því.

Einnig hefði hugsanlega verið gott í kjölfar hrunsins, að allir flokkar ynnu saman að björgunaraðgerðum og slíðruðu sverðin um stund.

Þjóðstjórn er eingöngu möguleg í skamman tíma, til þess að vinna að ákveðnu markmiði. Þá sættast stjórnmálaflokkarnir á ákveðna leið út úr tímabundnum vanda og reka samfélagið eins og fyrirtæki. Þá næst samkomulag um nauðsynlegar aðgerðir sem virka.

En slíkt fyrirkomulag gengur aldrei til lengdar, því eðli mannsins kemur í veg fyrir það. Við höfum ólíkar væntingar um lífið og stjórnmálaflokkar endurspegla þær.

Þjóðin er stórt samfélag, hjónaband er lítið samfélag sem myndað er af tveimur einstaklingum. Nauðsynlegt er að hjón hafi svipaða lífssýn til að hjónabandið geti gengið upp.

Fjölmörg dæmi eru til um hjónabönd sem ganga ekki upp, einfaldlega vegna þess að hjónin komast að því, að þeirra væntingar fara ekki saman lengur, þá er ekki hægt að vera í hjónabandi.

Hvernig dettur fólki þá í hug, að fjöldahreyfingar með ólíka sýn á lífið og leiðir að bættu samfélagi geti unnið saman?

Félagshyggju og jafnaðarmenn geta aldrei hugsað sér að búa í þjóðfélagi sem fylgir frjálshyggjustefnunni að málum, sama má segja um frjálshyggjumenn, leiðir félagshyggju og jafnaðarmennsku henta þeim einfaldlega ekki.

Þess vegna þurfa að vera til skýrir valkostir fyrir kjósendur og flokkarnir verða að kynna kjósendum nákvæmlega, hvaða stefnu þeir standa fyrir.

Sjálfsagt er að standa fyrir breytingum og skoða allar leiðir sem talið er að séu til góðs. En það er eitt sem að okkur tekst aldrei, sama hvaða leiðir við förum.

Við getum aldrei komið í veg fyrir það, að fólk hafi ólíka sýn á lífið og þar af leiðandi kosið ólíkar leiðir að sama markinu.

Þess vegna getur þjóðstjórn aldrei gengið upp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband