Fimmtudagur, 13. október 2011
"Sameinaðir stöndur vér, sundraðir föllum vér".
Þeir sem fylgjandi eru sjálfstæðisstefnunni og telja hana virka best við stjórn landsins, eiga að sjálfsögðu að berjast saman innan raða Sjálfstæðisflokksins.
Könnun sem gerð var á Bylgjunni í sumar, gaf það til kynna að 70% íslendinga aðhyltust hægri sinnaða stjórnmálastefnu. Vígstaða okkar hægri manna í baráttunni við vinstri öflin verður vitanlega sterkari ef við erum öll í einum flokki.
Það að stofna nýja flokka hefur því miður ekki gefist vel hér á landi, enda er sagan og stefnan til staðar í gömlu flokkunum. Það hefur mikið að segja.
Vissulega er hægt að skilja óánægju margra hægri manna með Sjálfstæðisflokkinn, forysta hans hefur hvorki staðið sig nógu vel í stjórnarandstöðu né heldur varið stefnu flokksins og kynnt hana fyrir þjóðinni.
En ég er ekki Sjálfstæðisflokkurinn og heldur ekki þeir sem á þingi sitja, Sjálfstæðisflokkurinn er vitanlega það fólk sem er í honum hverju sinni. Ef að fólk er óánægt með eitthvað, þá ber að færa það til betri vegar.
Við þurfum að tala saman, hægri menn eiga að setja sig í samband við forystu flokksins og láta óánægju sína í ljós. Það breytir enginn Sjálfstæðisflokknum nema þeir sem í honum eru.
Við sem erum í Sjálfstæðisflokknum ráðum því hverjir komast í framlínuna og við ráðum öllu sem að flokknum snýr, eina sem þarf er að mæta og tala.
Vitanlega þarf að taka yfirvegaðar ákvarðanir, við þurfum að átta okkur á því, hvort raunveruleg nauðsyn sé til mikilla breytinga á framvarðarsveitinni osfrv., slíkar ákvarðanir verða teknar eftir að hafa rætt og íhugað málin í góðan tíma.
Það að fara úr Sjálfstæðisflokknum vegna óánægju, án þess að segja skilið við sjálfstæðisstefnuna bætir vígstöðu vinstri manna. Slíkt býr til deilur, það tekur tíma að þróa nýja flokka, afla fylgis osfrv.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur langa sögu og visst fastafylgi sem hægt er að byggja á. Við þurfum stöðugt að veita kjörnum fulltrúum aðhald og gæta þess að þeir fari ekki út af því spori sem við mörkum fyrir þá. Þeir eru í vinnu hjá okkur en ekki við hjá þeim.
Sameinaður öflugur Sjálfstæðisflokkur gerir okkur hægri mönnum kleyft, að stýra landinu eftir okkar leiðum. Við vitum að okkar leið er best, sagan staðfestir það með óyggjandi hætti.
Notum vopnin til að berja á okkar andstæðingum en höggvum ekki innan okkar eigin raða.
Hin spaklegu orð Jóns Sigurðssonar;"sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér", þau falla aldrei úr gildi, við skulum muna þessi góðu orð og fara eftir þeim.
Þá þarf þjóðin engar áhyggjur að hafa af framtíðinni, hún verður góð ef sjálfstæðisstefnan fær að ráða okkar för.
Athugasemdir
Við sem erum í Sjálfstæðisflokknum ráðum því hverjir komast í framlínuna og við ráðum öllu sem að flokknum snýr, eina sem þarf er að mæta og tala.
ertu að meina þetta í alvöru Jón minn? Þið ráðið nefnilega ekki miklu um það , því þá væru ekki hrunkóngar og styrkjakóngar í framvarðarsveitinni.
Ég þekki nokkra sjálfstæðismenn sem eru öðlingsmenn sem vilja breyta sjálfstæðsflokknum innanfrá. En ég held að það sé borin von. Því miður. Því þar er fjármagnið og peningakóngarnir sem ráða því sem þeir vilja, sem og í öðrum rótgrónum stjórnmálaflokkum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.10.2011 kl. 18:55
Jú elsku Ásthildur mín, við ráðum því alfarið, hverjir eru í framlínunni.
Það eru haldin prófkjör, hver sem er getur gefið kost á sér í þau. Síðan kjósa flokksmenn í prófkjörum og velja þá sem þeir treysta best.
Ég fer mjög varlega í að tala um "hrunkónga", því það er svo erfitt að dæma í þessu máli, varðandi hrunið. Það var allur heimurinn á öðrum endanum, fólk var fast í hugarfari græðgi og veruleikafirringar, stjórnmálamenn eru vitanlega bara hluti þjóðarinnar og haga sér á svipaðan hátt.
Svo þetta með styrkjakónganna,það er villandi umræða að mínu mati. Það muna allir eftir hugarfarinu sem ríkti með prófkjörið fór fram fyrir kosningarnar árið 2007, allir frambjóðendur voru á fullu að leita eftir styrkjum.
Ef hægt er að benda á marga frambjóðendur sem gátu fengið háa styrki, en neituðu þeim, þá skal ég fúslega endurskoða mína afstöðu. En háu styrkirnir eru liðin tíð, þeir koma aldrei aftur því sjálfstæðismenn settu lög um hámark styrkja. Mig minnir að það sé hámark 300.000 sem hver og einn má styrkja frambóðendur og flokka um.
Sjálfstæðisflokkurinn á að læra af mistökum fortíðar og gera betur, þar geta almennir flokksmenn veitt mikið aðhald.
Grasrót Sjálfstæðisflokksins mótmælti málamiðlun forystunnar varðandi ESB, við vildum ekkert ESB og forystan hlýddi.
Forystan var á öndverðum meiði við meirihluta flokksmanna varðandi Icesave. Þess vegna ákváðu þau að láta þjóðina kjósa um samninganna og héldu sig til hlés í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Óbreittir flokksmenn hafa öll völd í flokknum sem þeir vilja, enda eiga þeir flokkinn, ásamt forystunni að sjálfsögðu, en óbreyttir flokksmenn eru fleiri, þess vegna höfum við meira vægi en forystan, Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðisflokkur.
Allir flokkar ganga í gegn um erfiðleika á einhverjum tímapunkti. Mér finnst þinn flokkur, Frjálslyndi flokkurinn ágætis flokkur með heiðarlegan málflutning og ágæta stefnu.
Þið lentuð í hressilegri ágjöf út af ranglátri umræðu um innflytjendamál, flokkurinn þinn var talinn óstjórntækur af flestum eins og þú manst.
Svo lentuð þið í allskonar deilum eins og þú veist vel og fjölmiðlar rökkuðu ykkur niður.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert spilltari en aðrir flokkar, en það er auðvelt að ráðast á hann því hann hefur jú borið ábyrgð á landsstjórninni ansi lengi og vafalaust hefði margt mátt gera betur.
Það er erfitt að fara með mikið vald og hætt er við að menn sofni á verðinum ef þeir halda lengi um valdataumanna, þess vegna var það sennilega hollt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að byggja sig upp eitt kjörtímabil og vera í stjórnarandstöðu.
Jón Ríkharðsson, 13.10.2011 kl. 21:16
Á meðan Bjarni Vafningur, Þorgerður sem veit ekki hvað maðurinn hennar gerir og ýmsir aðrir frammámenn í flokkinum sem hafa tekið sér allskonar forréttindi á kostnað annarra skattgreiðenda, eru það sem fólki er boðið uppá er ekki von á góðu.....
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.10.2011 kl. 02:22
Það er mikið starf framundan og erfitt Jóna Kolbrún.
Við þurfum að skoða vel öll mál, vilji flokksmanna ræður að lokum.
Svo leiðir tíminn í ljós hvort ákvörðun flokksmanna reynist rétt eður ei.
Jón Ríkharðsson, 14.10.2011 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.