Föstudagur, 14. október 2011
Lærum af mistökunum og horfum til framtíðar.
Árin fyrir hrun fjármálamarkaða heimsins einkenndust fyrst og fremst af óraunsæi, hugsunarleysi og græðgi og þar bera allir hópar samfélagsins ábyrgð.
Stjórnmálamenn báru lotningarfulla virðingu fyrir öllum sem virtust ríkir, þeir slógust um að komast í vinfengi við þá. Stjórnmálamenn voru að leita eftir styrkjum fyrir sig og sína flokka og einnig glöddust þeir yfir fólki sem borgaði stórar upphæðir í ríkissjóð.
Ríkissjóður bólgnaði út og stjórnmálamenn eyddu hægri vinstri í misgáfuleg verkefni. Stjórnsýslan öll taldi allt vera í lagi og segja má að sofnað hafi verið á verðinum, auðmönnum var treyst í blindni.
Atvinnurekendur fjárfestu umfram eigin efnahag og það gerði almenningur líka.
Segja má að þeir sem fóru fram úr sér og urðu blindaðir af græðgi, settu miklar byrðar á þá sem fóru gætilega með fé. Sameiginlegir sjóðir þjóðarinnar eru notaðir til að bjarga þeim sem höguðu sér með óábyrgum hætti og ábyrgt fólk greiðir stöðugt hærri hluta af sínum tekjum í sameiginlega sjóði.
Björgunaraðgerðirnar eru mjög dýrar, en þó skila þær litlum árangri, skaðinn er svo stór.
Við þurfum að gera gott úr þesu öllu, sætta okkur við orðinn hlut, því fortíðinni er ekki hægt að breyta. Segja má að árin fyrir hrun hafi verið að mörgu leiti fordæmalaus fyrir okkur, þannig að við þurfum að komast í gegn um þetta saman.
Þeir sem ekki tóku þátt í vitleysunni þurfa að sætta sig við, að hjálpa þeim sem fóru fram úr sér, en sjá þarf til þess að slíkt gerist aldrei aftur.
Stjórnmálamönnum ber skylda til að sjá til þess, að gjaldeyrismálin verði í viðunandi horfi og finna lausn sem leiðir til þess, að lán af húsnæði stökkbreytist ekki á ný. Fólk þarf að safna fyrir útborgun í íbúð og eiga meira eigið fé til eigin neyslu, því of mikil lántaka er slæm fyrir hagkerfið í heild.
Sjórnmálamenn verða að aka til í eigin ranni og tala við þjóðina, viðurkenna mistök og lofa bót og betrun, með sannfærandi hætti.
Skuldbindingar eru orsök áhættu, því ber að sníða sérstakk eftir vexti. Eftir að við höfum komist í gegn um núverandi erfiðleika, þá þarf fólk að gera sér grein fyrir því, að ef það eyðir um of og tekur lán umfram greiðslugetu, þá er voðinn vís. Ríkið á aldrei aftur að bjarga fólki sem kemur sér í vandræði, slíkar björgunaraðgerðir eru bæði dýrar og þær koma í veg fyrir þroska.
Við þurfum að horfa til framtíðar og búa til þjóðfélag sem boðar frelsi til athafna og takmörkun ríkisumsvifa.
Hver og einn má gera það sem hann vill, innan löglegra marka, og verður að taka afleiðingum gjörða sina.
Ef vel gengur, þá græðir viðkomandi, ef illa gengur þá tapar fólk. Við eigum ekki að láta fólk borga háa skatta, heldur hafa þá í lágmarki.
Við eigum hvorki að þjóðnýta tap né gróða landsmanna, hver og einn á það sem hann aflar og tapar því sem hann tapar.
Við þurfum að gera upp fortíðina og leggja hana til hliðar. Það gerum við með því að fyrirgefa mistök sem framin voru vegna heimskunnar sem gekk yfir heiminn, ef lögbrot voru framin þá skera dómsstólar úr um refsingu. En ekki er hægt að refsa fyrir heimsku, þótt hún geti verið ansi dýr.
Ef við höldum áfram að festast í dómhörjku og reiði, þá verður engin hugarfarsleg endurreisn, þótt við mögulega öðlumst efnahagslegan bata.
En efnahagsbatinn verður tímabundinn ef hugarfarið breytist ekki.
Athugasemdir
nafni minn .. sem áður þá bera stjórnmálamenn sem og margur almenningurinn þessu fólki enn mjög mikla virðingu / lotningu ... þeir eru td nokkrir á þingi í dag sem svo sannarlega eiga ekki að vera þar ... hvernig ætli "gömlum" hundi sé kennt að ganga "örna" sinna úti en ekki inni ? ekki hægt segja flestir ... hvað er svo niðurlagið í þessu hjá þér Jón minn .... láta "dautt" liggja ?
fæstir þessara manna áttu þennan risa "auð" skilið ... allavegana höfðu þeir ekki fyrir honum með svita og tárum eins og tíðkaðist heldur með "spákaupmennsku" sem skapar td enga atvinnu .... gleymum ekki góðu gildunum þar sem stofnendur fyrirtækja uxu með þeim og þekktu umhverfi þeirra sem og mátu framlag starfsfólks síns mikils, gættu hagsmuna allra sem sýndu þeim traust. Margir eru enn að, en basla við samkeppni við félög sem féllu í afskriftarsjóði bankans, eftir aðkomu nýrrar kynslóðar. (Ragmar Önundarson mbl 14.10.2011)
vissulega verðum við að horfa fram veginn ... en á meðan "horft" er upp til þessa "bubba" þá breitist lítið hér ... ég tel réttara að fáir víki fyrir fjöldanum .. það er mitt mat .. suma þekkjum af þeim og viljum svo sem ekki neitt illt ... en "manneskjan" verður að kunna sín mörk eða þekkja sín mörk ... eða lærum við aldrei ?
Jón Snæbjörnsson, 14.10.2011 kl. 13:50
Alltaf gott að heyra rödd skynseminar í þínum skrifum Jón. Meðalhófið og lítillæti voru og eru gjaldfallin gildi sem þarf að vinna til vegs aftur.
sveinn Úlfarsson 15.10.2011 kl. 11:31
Nafni minn Snæbjörnsson, þú spyrð mig um útskýringu á niðurlagi pistilsins, mér er það bæði ljúft og skylt að veita hana.
Það sem ég á við er einfaldlega það, að of margir eru fastir í reiði, biturð og afneitun. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.
Þetta á við um útrásarvíkinga, stjórnmálamenn og almenning.
Ef við viljum breyta einhverju, þá verðum við að byrja á okkur sjálfum. Við getum ekki breytt öðrum en með því að rækta með okkur jákvætt hugarfar og skerpa á dómgreindinni, þá getum við hugsanlega orðið fyirmyndir fyrir aðra.
Það skiptir mig t.a.m. engu máli hvernig þingmenn eða aðrir hugsa.
Ef við breytum okkar hugarfari og viðurkennum ekki græðgina og alla þá óábyrgu hegðun sem tíðkaðist á árunum fyrir hrun, þá er von um breytingar. Það er heiðarleikinn sem gildir og eins og þú bentir sjálfur á, þá er það öllum hollt að vinna fyrir sínu og yggja sín fyrirtæki upp, smátt og smátt, því það eflir verðmætamatið, sama gildir um alla.
Því meira sem við höfum fyrir lífinu því betur kunnum við að meta það.
Ég er ekki reiður út í nokkurn mann, samt tapaði ég nokkrum milljónum á hruninu. Ég tók áhættu og þurfti að axla ábyrgð á því.
Reiðin getur nýst tímabundið, sem orka í átök eða standa á sínum rétti, en við eigum að stjórna henni en ekki láta hana stjórna okkur.
Jón Ríkharðsson, 15.10.2011 kl. 13:03
Þakka þér fyrir Sveinn.
Amma mín sáluga hafði mikil áhrif á mig og hún kenndi mér margt.
Hún brýndi alltaf fyrir mér, að gera meiri kröfur á sjálfan mig en aðra, bera jafna virðingu fyrir öllum og forðast reiðina eins og heitan eldinn.
Við eigum að halda í gömlu gildin sem þú bendir á, þá verður farsæld hér á landi um ókomin ár.
Við verðum kannski ekki ríkasta þjóð í heimi, en okkur getur liðið vel og vellíðan er dýrmæt og ótakmörkuð auðlind.
Jón Ríkharðsson, 15.10.2011 kl. 13:08
já kæri Jón ..Ég trúi því að þakklæti sé lykillinn að hamingjusömu og nægjusömu lífi. Þakklæti kennir manni virðingu og auðmýkt, opnar augun fyrir dásemdum lífsins og færir okkur og öðrum í kring um okkur gleði og vellíðan. Ef það er eitthvað eitt sem þú getur gert í dag til breyta lífi þínu, þá er það að byrja á að vera þakklát/ur fyrir það sem þú hefur akkúrat núna.
Það er góður siður að venja sig á að hugsa um hvað maður er þakklátur fyrir þegar maður fer að sofa og svo strax þegar maður vaknar á morgnanna.
gangi okkur öllum vel nafni minn Ríkharðsson
Jón Snæbjörnsson, 16.10.2011 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.