Miðvikudagur, 26. október 2011
Þjóðin þarf á alvöru frjálshyggju að halda.
Margir amast mjög við þeirri góðu og mannúðlegu stefnu sem frjálshygjan boðar, en virða má því ágæta fólki það til vorkunnar, að fæstir í þeim hópi hafa lesið boðskap frjálshyggjunnar, þeir sem eitthvað hafa lesið um hana, hafa eflaust misskilið flest.
Ef vilji er til þess, að kynna sér frjálshyggjuna eins og hún raunverulega er, þá er got að lesa nýútkomna bók sem heitir "Peningar græðgi og Guð".
Sú ágæta bók leiðréttir allar rangfærslur sem komið hafa fram um frjálshyggjuna.
Frjálshyggja boðar ekki græðgi, heldur hafnar frjálshyggjan græðginni, því græðgin hefur slæm áhrif á þann gráðuga og einnig á umhverfi hans.
Ef frjálshyggjan fengi að virka rétt, þá væri staðan önnur en hún er í dag.
Frjáls markaður gerir ráð fyrir kaupendum og seljendum, en þessir tveir aðilar á markaði ákveða verð á vörum og þjónustu.
Á frjálsum markaði er ekki mögulegt að selja neitt, án þess að einhver vilji kaupa.
Fólk hefur ekki ennþá skilið þessa meginreglu frjáls markaðar, þess vegna hafa seljendur að mestu leiti stjórnað verðinu, því kaupendur þrá vörur þeirra svo heitt. Græðgin virðist vera þar á báða bóga.
Félagshyggja og jafnaðarstefna gætu hugsanlega gengið upp, ef til væri nógu mikið af vitrum stjórnmálamönnum sem hefðu skilning á þörfum þjóðarinnar.
En á meðan stjórnmálamenn eru af holdi og blóði, þá er lítil von til þess að hægt sé að finna sextíu og þrjá vitringa sem tilbúnir eru til að setjast á þing, í þrjúhundruð þúsund manna samfélagi.
Og þótt svo væri, þá er ekki víst að það yrði til góðs, ef litið er til framtíðar.
Ef þjóðin venst því, að stjórnmálamenn sjái vel fyrir hennar þörfum og hún þarf ekki að hafa fyrir hlutunum, þá er hætt við stöðnun.
Það eru einmitt mistökin sem þróa menn og þroska, það er lögmál lífsins.
Og segja má að einhver hluti jarðarbúa er ekki ginkeyptur fyrir mikilli visku, fólk hefur þörf fyrir að fara eigin leiðir.
Frjálshyggjan boðar frelsi til athafna og orða. Þeir sem halda að hún snúist um ríkidæmi og völd eru á rangri leið.
Engir þekktir auðmenn hafa verið í hópi helstu boðbera frjálsyggjunnar, enda er frjálshyggja ekki mjög góð fyrir auðmenn sem eru búnir að festa sig í sessi. Þeim þykir betra að eiga sinn markað út af fyrir sig, en slíkt er ekki í anda frjálshyggju.
Frjálshyggjan neyðir fólk til að hugsa, það er vissulega auðvelt að misstíga sig illa í frjálsu efnahagsumhverfi.
En kosturinn við það er sá, að sá sem misstígur sig illa einu sinni, gætir sín í framtíðinni.
Þjóðin þarf að endurmeta flest sín gildi upp á nýtt.
Viljum við refsa dugmiklu fólki og hygla þeim sem minna leggja á sig?
Nei, við þurfum að virða rétt fólks til að ráðstafa eigin fjármagni, með eins hóflegri skattlagningu og mögulegt er.
Færa má gild rök fyrir því, að öflugt eftirlitskerfi geti komið í veg fyrir glæpi, en þar sem hætta er á misnotkun og persónunjósnum, þá viljum við ekki efla möguleika hins opinbera til að hafa eftirlit með okkur.
Öflugt forvarnarstarf, kraftmikið efnahagslíf og jákvætt hugarfar getur líka minnkað glæpi umtalsvert, en engin þekkt aðferð er til, sem útrýmir glæpum.
Og að lokum, sú lífseiga lygi um frjálshyggjuna, að hún vilji aldraða og sjúka út á Guð og gaddinn, stenst enga skoðun.
Það vilja allir að öldruðum og sjúkum líði sem best, annað er mannvonska af verstu gerð, en illskan er víst þverpólitíkst afl eins og flestir mannanna lestir.
Athugasemdir
Þetta er gott hjá þér. Næst þarftu að skoða árin fyrir hrun og færa sönnur á að það hafi ekki verið neinni frjálshyggju að kenna ...
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.10.2011 kl. 18:00
Mér finnst hæpið að kenna frjálshyggjunni um nokkurn skapaðan hlut, þetta fer allt eftir því hvernig fólk fer með frelsið.
Við eigum að þekkja muninn á réttu og röngu og varast græðgina.
Það var græðgin sem kom okkur í þessa stöðu, sá vísir að frjálshyggju sem var hefur kannski ýtt undir hana, ég er ekki viss.
En í stað þess að kenna stjónrmálastefnu um, þá er hollara fyrir fólk að horfast í augu við eigin bresti og reyna að lagfæra þá.
Frjálshyggjan veitir okkur tækifæri til að skoða okkur eins og við erum, í frelsinu birtast allir okkar styrkleikar og veikleikar, berskjaldaðir.
Þess vegna er frjálshyggjan holl stefna, hún er ágætis spegill á okkur eins og við erum.
Jón Ríkharðsson, 26.10.2011 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.