Hver er rót vandans?

Lítið hefur þokast í umræðunni um hvað miður fór í okkar ágæta samfélagi, þegar allt hrundi haustið 2008.

Að sönnu má segja, að gott sé að horfa til framtíðar og læra af mistökum fortíðar, en á meðan þjóðin er föst í hlekkjum blekkingarinnar, þá er lítil von um raunhæfa framtíðarsýn.

Gott og vel meinandi fólk, sem telur sig útbólgið af heilagri réttlætiskennd kemur hlaupandi niður í bæ og finnur djúpa samkennd hvert með öðru. Eftir innileg faðmlög þurrkar fólk tár af hvörmum og finnur að það hefur eignast bandamenn í hinni fölsku baráttu fyrir réttlæti.

Þá er farið að skammast yfir spillingunni sem ríkir í stjórnsýslunni og bankamenn eru úthúðaðir sem alverstu glæpamenn mannkynssögunnar, en það er holur hljómur í rödd þessa góða fólks.

Það er ekki leitað að rót vandans, heldur er allri sökinni varpað yfir á aðra.

Hvað er það sem almenningur, stjórnmálamenn og bankamenn eiga sameiginlegt?

Við erum öll menn, með okkar kosti og galla, en við eigum það sameiginlegt að vilja græða sem mest fyrir okkur sjálf.

Þessi fjandans græðgi er lævís bæði og lipur, hún heltekur háa jafnt sem lága og beitir hinum ýmsu blekkingum til þess að festast í sessi í hugum fólks. En hvað er til ráða?

Þjóðin öll þarf að sameinast um þau lífsgildi sem hún telur mikilvægust fyrir sig. Ef við viljum heiðarleik, þá þýðir ekki að kaupa svarta vinnu af því að hún er ódýrari. Ef það er gert, þá er slitinn hlekkur í keðju heiðarleikans og hún slitnar strax.

Við getum seint orðið nógu heiðarleg til þess að sómi hljótist af, hugarfar okkar er of sýkt af sjálfhverfum hugsunum. En með því að takast á við brestina, þá þokumst við í rétta átt.

Rót vandans er einfaldlega sú, að hver og einn hugsar um eigin hag óháð hagsmunum heildarinnar.

Á meðan mér gengur vel, þá er allt í lagi. Ef ég er ekki veikur, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur osfrv.

Við eigum að elska okkur sjálf fyrst og fremst, því þá getum við gefið af okkur. En kærleikurinn líður ekkert siðrof.

Þeir sem að heimta það, að stjórnmálamenn gangi fyrstir fram í ræktun heiðarleikans, eru að varpa eigin ábyrgð yfir á aðra.

En ef stór hópur fólks ákveður að rækta með sér heiðarleika og góðar dyggðir, þá er von til þess að fleiri bætist við og þá getum við sagt, að þjóðin eigi sér viðreisnar von.

En á meðan stöðugt er verið að benda á aðra, þá breytist ekkert. Í stað breytinga heldur áfram aldagömul hringrás góðæris og kreppu, reiðiöldur koma og fara, ekkert breytist.

Rót vandans er sjálfhverft hugarfar heimsins, við erum öll meira og minna bullandi sek og enginn getur skorast undan ábyrgð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ágætis grein hjá þér Jón.  Málið er bara að við maðurinn á götunni getur ekki ráðið því sem við viljum. Við kjósum okkur fólk til að fara með umboð okkar, og þetta fólk lofar okkur ákveðnum hlutum, sem það vill framkvæma.  Við veljum úr þá stefnu sem hljómar best fyrir okkur, og síðan komumst við að því að þau loforð sem gefinn voru eru oftast nær ekki framkvæmd, því það þarf samvinnu við annan flokk með aðrar áherslur.  Ég veit satt að segja ekki hvernig við getum komið á beinna lýðræði, þar sem hver og einn getur haft meira að segja um  þær stefnur sem markaðar eru. 

Þessi aðferð hefur runnið sitt skeið á enda.  Stjórnmálamenn hafa farið þannig að ráði sínu að þeir hafa glatað því sem mest er um vert, trausti umbjóðenda sinna.

Hvað getur tekið við veit ég ekki.  En einhverskonar allsherjar endurnýjun ráðandi afla hlýtur að verða að eíga sér stað.  Að til valda komist fólk sem er hinn vinnandi maður sem þekkir þjóðina og þarfir hennar.  Okkar stjórnmálaelíta hefur fyrir löngu komist langt burt frá manninum á götunni. 

Þetta er reyndar svona um allan heim og fólk er að vakna til meðvitundar um að það hafi verið nytsöm vinnudýr fyrir auðmenn og ráðamenn.  Þetta afl sem er að vakna mun ekki sofna svo auðveldlega aftur.   Vonandi ekki.  Því það gengur ekki endalaust að nokkrir safni auði og völdum og ráðstafi hjörðinni svo að sínum hentugleikum, meðan aðrir svelta og eiga ekki fyrir brýnustu nauðþurftum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.10.2011 kl. 13:51

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er rétt hjá þér Ásthildur mín, maðurinn á götunni er afskaplega vanmáttugur af því að hann er einn.

En ef að fjöldi fólks af götum landsins tekur sig saman, þá er hægt að breyta þessu öllu og færa til betri vegar, en við verðum að virða lög landsins og skuldbindingar okkar.

Ég nefndi þann möguleika í síðasta pistli, að almenningur stofnaði banka eða sparisjóð og tæki innistæður sínar út úr þeim bönkum sem hafa farið illa með fólk. Þá hefur fólk fengið sitt fram á löglegan hátt og bankarnir hafa ekkert svar við því.

En það að greiða ekki af lánum, það er ólöglegt og ólöglegar aðgerðir valda siðrofi í samfélaginu. Fólk skrifar undir lánasasmninga af fúsum og frjálsum vilja, lánakjör eru ósanngjörn, en við neyðumst líka til að sætta okkur við ósanngjörn lög á meðan þau eru í gildi.

Þetta leiðinda píslarvættishlutverk fer í taugarnar á mér, við erum engin fórnarlömb því við erum frjálst fólk í frjálsu ríki.

Skorturinn á samstöðu og sameiginlegum markmiðum er rót vandans og það er hvorki bankamönnum né pólitíkusum að kenna, við sitjum uppi með þá ábyrgð, hvort sem okkur líkar það betur eða ver.

Við höfum ekki verið nytsöm vinnudýr fyrir auðmenn, það vorum við sem sköpuðum þá.

Ef auðmenn versluðu eingöngu við hvern annan, þá væru þeir varla auðmen mikið lengur.

Jón Ríkharðsson, 27.10.2011 kl. 14:52

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Margt rétt þarna Jón.  Auðvita var almenningur margir hverjir gráðugir og ætluðu sér um of.  En þeir eiga samt ekki þá refsingu skilið sem þeir fengu þ.e. að missa jafnvel allt sitt.  Og það er góð hugmynd að stofna banka, spurningin er bara hver á að hengja bjölluna á köttinn, hver getur stofnað þennan banka og hvernig. Þó vitað sé að margir myndu glaðir færa sitt allt þangað, þó ekki væri nema af prinsipp ástæðum.  Það er nú einmitt málið,við hvert og eitt erum svo vanmáttug að díla við þær aðstæður sem við erum í.  Annað sem er að yfirburðastaða þeirra sem eiga hina bankana myndu gera allt sem í þeirra færi væri að setja fótinn fyrir slíka gjörð.  Ertu ekki sammála því. 

Ég veit til dæmis að ég var með í að stofna stjórnmálaflokk, við unnum flotta stefnuskrá og settum okkur góð og heiðarleg markmið.  Við komum líka fólki inn á þing, en þá byrjuðu vandræðin.  Fjórflokkurinn lagðist á eitt við að grafa undan flokknum.  Það var nú eitt, annað var að bæði trójuhestar annara flokka komu sér inn og við fengum líka nokkra svartaPétra til okkar sem við sáum ekki við, sem stórskemmdi fyrir flokknum.  Þó við séum búin að losa okkur við hákarlana, þá er á okkur smánarblettur sem við áttum aldrei sök á, sem var klíndur á flokkinn af formönnum fjórflokksins, sem notuðu sér ástandið og töluðu gegn betri vitund og tóku undir bæjarslúðrið, þar fremst í flokki Steingrímur, Ingibjörg Sólrún og Geir.   Þessi framkoma þeirra situr í sálinni minni og ég mun ekki gleyma því, og ekki ösla í drullugum polli eins og Geir orðaði það svo snyrtilega.

Nei minn kæri það er vandlega séð til þess að maðurinn á götunni komist ekki til áhrifa til eins eða neins.  Þannig er nú búið um hnútana og þessi forréttindahópur passar upp á hvor annan.  Það er eins gott að þið vel meinandi fólk og heiðarlegt gerið ykkur grein fyrir því að þetta fjórflofkkadæmi er á villigötum og mun aldrei enginn þeirra leiða þjóðina út úr kreppu eða misskiptingu.  Það er bara einfaldlega þannig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.10.2011 kl. 15:12

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ef við hugsum okkur það, að fjöldi fólks kæmi sér saman um að stofna nýjan banka eða sparisjóð, þá getum við gefið okkur að í hópnum sé fólk sem hefur menntun og þekkingu á rekstri fjármálafyrirtækja. Ef fjöldinn er mikill, þá geta bankarnir ekkert gert, það getur enginn barist gegn fjöldanum ef hann er nógu stór.

Þessi hugmynd er vel framkvæmanleg, en hún felur í sér einn stóran galla.

Með tímanum verða stjórnendur hins nýja fjármálafyrirtækis nákvæmlega eins og núverandi bankamenn, þeir færu að leita eftir meiri gróða fyrir sig og sína.

Við breytum engu nema að við stöndum saman um að breyta okkur sjálfum til betri vegar, rækta með okkur heiðarleika og góðar dyggðir.

Ég held að það sé lítill, jafnvel enginn munur á okkur og þeim sem stjórna fjármálakerfinu og sitja á þingi. Græðgin finnur sér alltaf leiðir í huga fólks, vegna þess að við erum svo sjálfhverf og illa meðvituð um okkur sjálf.

Ég fylgdist með stofnun Frjálslynda flokksins og þið höfðuð margt gott fram að færa, en þrátt fyrir það þá leystist allt upp í deilur og valdabaráttu á milli fólks.

Ekki efast ég um að allir hópar innan flokksins hafi verið prýðisgott og vel meinandi fólk, en völdin freista.

Eitthvað las ég líka um að Guðjón Arnar hafi verið orðinn óþarflega ráðríkur.

Græðgi í peninga og völd býr í öllum mönnum, svo er það spurning um siðferðisþrek, hvernig gengur að halda brestunum niðri, en á það reynir aldrei hjá flestum.

Hugsjónir allra flokka miða að því að skapa betra samfélag, en svo þegar í valdastóla er komið, þá reynir fyrst á þá.

Ekki er hægt að segja neitt til um, hvernig nýjir flokkar munu reynast, en ég efast um að þeir verði öðruvísi. Fjórflokurinn notar sömu aðferðir og eru við lýði í vestrænum löndum, þannig að hann er ekki alslæmur.

Jón Ríkharðsson, 27.10.2011 kl. 15:26

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þetta er sennilega alveg rétt hjá þér Jón með eðli okkar og bankann. En það mætti alveg reyna þessa hugmynd, þessi banki yrði vel rekinn allavega fyrst um sinn.  Það er reyndar til sparisjóður fyrir norðan sem hefur staðið allt af sér og er einstaklega heiðarlegur í sínum rekstri, það dugar samt ekki til að fleiri manns fari þangað. Ef til vill veit fólk ekki af tilvist hans. 

Hvað Guðjón Arnar varðar þá er það einfaldlega ekki rétt að hann hafi verið einráður.  Frekar má segja að hann hafi haft of mikið langlundargeð gagnvart skemmdarvörgum í flokknum því miður.  En hann er algjör öðlingur, þekki hann vel, enda er hann fermingarbróðir minn og við ólumst upp í sama þorpinu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.10.2011 kl. 16:01

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ekki efast ég um heilindi Guðjóns Arnars, ég hef spjallað við hann einu sinni eða tvisvar og hann ber með sér góðan þokka. Ég var eingöngu að vitna í blaðaskrif, en þau þurfa ekki að vera sönn.

Sparisjóðurinn fyrir norðan er örugglega mjög góður, en spurningin er hvort hann breytist ef hann fer að velta gríðarlegum upphæðum og verða vinsæll?

Það eru margir sem höndla illa miklar vinsældir.

Ég held að við komum alltaf að sama punktinum Ásthildur mín, það lagast ekkert fyrr en við tökum okkur sjálf í gegn, það þarf hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni allri til að eitthvað breytist, annars verðum við föst á sama stað.

Allir verða glaðir ef efnahagslífið verður viðunandi og atvinna næg, svo kemur reiðin fram um leið og kreppir að.

Þetta er gömul hringrás sem þarf að stöðva, ef okkur langar til að þroskast.

Jón Ríkharðsson, 27.10.2011 kl. 16:22

7 Smámynd: kallpungur

Einhverstaðar heyrði ég sagt að sá sem þekkti heiminn gæti talist vís, en sá sem þekkti sjálfan sig vitringur. Er þetta ekki alltaf punkturinn sem staðnæmst er við: Fyrst að taka til heima hjá sér áður en menn fara að benda á ruslið í annarra manna húsum? Annað er hræsni.

kallpungur, 27.10.2011 kl. 18:03

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er rétt Kallpungur, þess vegna eru fáir vitringar til, vegna þess að fólk þorir ekki að horfast í augu við sig eins og það er.

Það eru ansi margir, því miðru, sem ryðjast í annara hús og vilja taka til, en eru með allt í drasli heima hjá sér, góður punktur hjá þér og umhugsunarverður mjög.

Jón Ríkharðsson, 27.10.2011 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband