Fimmtudagur, 27. október 2011
Þróun hugarfarsins á að vera næsta skref.
Vissulega ber að fagna öllum tækniframförum á öllum sviðum, maðurinn á stöðugt að þróa nýja tækni, það kemur heiminum öllum til góða.
En á meðan heimurinn hefur gert kraftaverk í læknavísindum og á flestum sviðum tæknigreina, þá er hugarfarið enn það sama og það hefur verið, í aldanna rás.
Fyrr á öldum voru aðalsmenn og konungar sem stjórnuðu heiminum. Hinn almenni borgari hafði enga möguleika, nema að hann nyti velvildar hjá aðlinum. Sem betur fer tókst að breyta því og í dag er hinn vestræni heimur frjáls að öllu leiti, nema að hann er fastur í hlekkjum fortíðarhugsunar.
Þar sem að alþýðan var vön því, að þurfa að lúta yfiráðum aðalsins, þá hélt hún áfram af gömlum vana að kjósa yfirráð aðals sem hún bjó sjálf til. En það er huglægur undirlægjuháttur sem á enga stoð í raunveruleikanum.
Alþýðan neyðist ekki til að lúta yfirráðum markaðarins, hún er sjálf hluti af markaðnum.
Ef að fólki líkar ekki við framgöngu markaðsráðandi afla, þá hefur það möguleika á, að hætta að versla við þá sem því mislíkar við.
Í stað þess að notfæra sér möguleika frjáls markaðar, þá lætur heimurinn stjórnast af hugarfari fortíðar og telur sér trú um að það sé ekkert hægt að gera.
Í frjálsu hagkerfi er enginn neyddur til að borga uppsett verð og enginn neyddur til að versla við neinn. Það eru tækifæri fyrir alla til að hefja samkeppni og laða til sín viðskipti óánægðra viðskiptavina, en viðskiptavinirnir verða þá líka að vera tilbúnir til að beina sínum viðskiptum frá aðilum sem þeim mislíkar við.
Hverjir eru svo þessir auðmenn sem fólk er að ergja sig á?
Þeir eru ekki konungbornir og þeir eru ekki aðalsmenn, heldur dugmiklir einstaklingar af almúgaættum sem unnu sig upp í þá stöðu sem þeir eru í. Þeir eru ekkert betri eða verri en gengur og gerist.
Græðgi þeirra er sú sama og býr í öllum mönnum, en almúginn eflir græðgina hjá þeim, með því að borga uppsett það verð sem þeir setja upp.
Það er ekki til neitt sem heitir rétt eða rangt verð, heldur er verðmyndun samkomulag milli kaupenda og seljenda á markaði.
Það getur enginn selt fyrir verð sem enginn vill kaupa.
Frelsið er til staðar, en fólk vill ekki nota það.
Aldagömul hugsun og undirlægjuháttur stórs hluta heimsins kemur í veg fyrir að hann geti notið frjáls markaðar til fulls. Um leið og við slítum af okkur hlekkina og þróum hugarfarið í átt að frjálsum markaði nútímans, þá höfum við leyst eina hindrun af mörgum og varðað leið í átt til betra lífs.
Ríkið á ekki að skipta sér af hinum frjálsa markaði að öðru leiti en því, að sjá til þess að frjáls samkeppni sé fyrir hendi.
Fólk sem treystir á stjórnmálamenn dæmir sig sjálft til sárra vonbrigða, því stjórnmálamenn geta ekki einir og sér breytt heiminum.
Flestir þekkja þá gömlu speki sem segir að enginn geti breytt öðrum en sjálfum sér, maðurinn er ekki auðtamin skepna, sem betur fer.
Hvernig er þá hægt að ætlast til þess, að stjórnmálamenn, sem jafnvel eru afburðarmenn, geti breytt heiminum til góðs?
Lærum að þróa hugarfar okkar til betri vegar, þá mun okkur farnast vel um alla framtíð, því næstu kynslóðir munu taka okkar hugarfar í arf.
En hugarfarið verður að þróast með frelsi að leiðarljósi, þess vegna ber okkur að notast við frjálsa stefnu í stjórnmálum.
Boð og bönn breyta engu, varðandi hugarfarið. Fólk hélt áfram að drekka áfenga drykki, þrátt fyrir bann.
En með öflugum forvörnum og almennri hugarfarsbreytingu, þá minnkaði fólk áfengisneyslu sína, af fúsum og frjálsum vilja.
Það dugar heldur ekki að jafna fólk með lögum, við breytum ekki mannlegu eðli með boðum og bönnum.
En við getum sjálf breytt okkur, ef vilji er fyrir hendi.
Ef við þróum ekki okkar eigin hugarfar, þá breytist ekki neitt, þrátt fyrir nýja tækni og meiri lífsþægindi samfara henni.
Fólk sem á nóg að bíta og brenna, en upplifir hugarfarslegan skort, er í sömu stöðu hugarfarslega og fátæklingar fyrr á öldum.
Aldagamall undirlægjuháttur á ekki heima í vestrænu nútíma ríki, en samt eru margir sem vilja lofa honum að lifa, öllum til mikillar mæðu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.