Sunnudagur, 30. október 2011
Dagur án listar?
Í viðtali við Sirrý á Rás 2. í morgun, kvaðst Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Samtaka listamanna, ætla að lofa fólki að lifa ein dag án listar, þann 1. nóvember næstkomandi. Þetta mun vera gjörningur, sem á að sýna fólki fram á að það sé hryllileg tilvera, að lifa án listar.
Ef gengið er út frá þeirri skoðun, að list sé sköpun sem valdi hughrifum, þá er ómögulegt að lifa einn dag án listar. Lífið hefur að geyma fegurstu listaverk, sem hægt er að njóta allan ársins hring, án þess að finna til leiða.
Þeir sem eiga börn þekkja það vel, hversu stórkostleg listaverk börnin eru, þau eru fegursta sköpun heimsins.
Og fyrir foreldra að fylgjast með barni vaxa, frá því að það kemur úr móðurkviði og þar til barnið nær fullorðinsaldri, það veldur miklum og djúpum hughrifum sem engin manngerð list getur nálgast. Börnin hreyfa við okkur, þau geta verið krefjandi og erfið, indæl og ljúf og öll erum við sammála um, að lífið sé einskis virði án þeirra.
Það ber merki um andlega fátækt að sjá ekki listina í lífinu sjálfu.
Fjöllin, í mismunandi birtu, hafið í sinni margbreytilegu mynd, stundum brosir það ljúflega til mín og stundum er það skelfilega úfið og illvígt að sjá, það veldur alltaf ýmiskonar hughrifum.
Kolbrún hefur eflaust átt við manngerða list, en það geta allir lifað án hennar, ef þeir kunna að meta listaverk skaparans í sinni fjölbreytilegustu mynd.
Ekki er ætlunin að skammast út í manngerða list, vissulega er hún stórkostleg ef hún er vel gerð, en að sama skapi er hún hræðileg, ef listamanninn skortir auga og næmni fyrir því, hvað fólk þarf að finna út úr listinni.
Kolbrún benti líka á, að listageirinn væri að skapa jafnmikið í tekjum og sjávarútvegurinn. Það er óttaleg einföldun, þótt upphæðin sem hún nefnir sé ansi há og komist nálægt tölunum í sjávarútvegnum, þá er stór munur á. Sjávarútvegurinn kemur með nýtt fjármagn í landið, á meðan listageirinn, að mestu leiti, sópar til sín því fjármagni sem útflutningsgreinarnar skapa.
En list er góð, sé hún framkvæmd á réttan hátt. Listamaður má aldrei láta hrokann ná tökum á sér, hann má ekki ofmetnast.
Listamaðurinn þarf að vera eins og lítið barn, sem sýnir nýteiknaða mynd, feimið á svip og óöruggt með viðbrögðin við listinni. Barnið tekur við hrósinu og hrósið fær það til að vaxa, barnið fær hrósið því það hefur hreint hjarta.
Sannur listamaður þarf að viðhalda hreinu hjarta, annars verður list hans fölsk.
Listamenn auðga lífið, ekki er hægt að mótmæla því.
En þeir geta aldrei keppt við sjálfan höfund lífsins, hans list er fullkomin og allir listamenn mennskir, keppast við að endurgera hans list, með misjöfnum árangri.
Þess vegna er aldrei hægt að lifa eina einustu mínútu án listar, því listin er jú lífið sjálft og heimurinn allur.
Athugasemdir
Að lifa án listar í einn dag hlýtur að kalla á skilgreiningu á því hvað list er. Sjálfum finnst mér ég vera umvafinn list alla daga, þetta er spurning um viðhorf. Ef ég ætti að lifa án þeirrar listar, verð ég að loka mig af í skáp, en jafnvel þar gæti ég komið auga á list.
Ef Kolbrún á við þá list sem svokallaðir listamenn fremja, þá er ekkert vandmál að lifa án hennar, slíka list sæki ég sára sjaldan, enda þykir mér almættið vera mun fremra í listsköpun en þeir listamenn sem eru oftar en ekki á launum hjá þeim sem hafa engan áhuga á starfi þeirra.
Gunnar Heiðarsson, 30.10.2011 kl. 13:42
Hluti sem flokkast undir lístgrein er ekki list heldur aðrir þættir sem í raun er ekki list eru setti í þennan flokka svo þetta er of túlkun Kolbrúnar og ekki rétt með farið.
Kv. Sigrjón
Rauða Ljónið, 30.10.2011 kl. 15:29
Það sem fólk gerir ekki til að vekja athygli á sjálfu sér, ég segi nú ekki annað.
List verður aldrei útmáð né stöðvuð. Hún er í öllu eins og þú réttilega íjar að.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.10.2011 kl. 17:04
Þakka ykkur öllum kærlega fyrir innilitin, Gunnar, Sigurjón og nafni minn Steinar.
Ég svara ykkur öllum í einu kommenti, þegar ég er úti á sjó, því helvítis tölvan er svo hægvirk og hrekkjótt hérna um borð.
Við erum allir sammála um, að listin sé lífið sjálft og ég held að það sé sannleikurinn í þessu máli.
Ekki er verið að gera lítið úr listsköpun manna og kvenna, en listamenn mega aldrei tala af svona hroka eins og Kolbrún gerði.
Ég hef hitt og spjallað við nokra þekkta og virta listamenn. Það sem mér finnst einkenna þá fyrst og fremst, er falleg og barnsleg auðmýkt. Það er mjög gefandi og þroskandi að tala við þannig fólk, maður fer alltaf andlega ríkari af þeirra fundi.
En í listaheiminum eru margir kallaðir og fáir útvaldir eins og við vitum.
Jón Ríkharðsson, 30.10.2011 kl. 17:45
Kolbrún sagði að ef ekki væri til list væri ekki gaman að lifa, hvernig vitum við það ef list væri ekki til. Ef eitthvað sem ekki er til. væri ekki til, þá væri ekki gaman að lifa: Sama rökfærsla#! Þetta er bara bull!
Eyjólfur G Svavarsson, 31.10.2011 kl. 00:42
Það er rét hjá þér Eyjólfur minn, maður getur ekki saknað þess sem er ekki til.
En lífið er list, þannig að listin verður til, hvort sem listamenn eru til staðar eður ei.
Jón Ríkharðsson, 31.10.2011 kl. 00:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.