Miðvikudagur, 2. nóvember 2011
Bandamenn reiðinnar.
Reiðin á sér nokkra trygga bandamenn á Íslandi sem fylgja henni í blindni.
Gjarna hlaupa þessir bandamenn reiðinnar niður á Austurvöll og gera þar ýmsan óskunda, í nafni þjóðarinnar.
Ekki er ætlunin að lítilsvirða þetta ágæta fólk, því í þessum hópi er vel meinandi og gott fólk, en reiðin gerir greindan mann sauðheimskan, eins og dæmin sanna.
Vissulega erum við íslendingar að súpa seiðið af afleiðingum fjármálakreppunnar sem reið yfir heiminn fyrir þremur árum, en reiðialdan setti allt á annan endann.
Það var reiðin sem kom þessari ríkisstjórn til valda. Frá árinu 1991 og fram að hruni, kom engum hugsandi einstakling til hugar að kjósa yfir sig vinstri stjórn, en hin trygglynda reiðinnar systir, heimskan, kemur ávallt í kjölfar systur sinnar og bregður sér í skynseminnar líki.
Það verður engin sögubók sem telur Jóhönnu eða Steingrím vera merkilega leiðtoga, en vissulega eru til einstaka sérvitringar hér á landi sem trúa að þau séu það.
Þeir sem að trúa því, að hægt hafi verið að koma í veg fyrir kreppu á Íslandi hafa afskaplega slaka dómgreind, svo ekki sé nú dýpra í árina tekið.
Íslenska þjóðin vildi veg og vanda útrásarvíkinga sem mestan, á árunum fyrir hrun, þannig að allar tilraunir hins opinbera til þess að hamla vexti fjármálakerfisins hefðu þýtt pólitískt sjálfmorð fyrir sitjandi ríkisstjórn þess tíma. Það fer enginn stjórnmálamaður í berhögg við eindreginn vilja þjóðar sinnar, nema að hann sé ákveðinn í að hætta í pólitík.
En bandamenn reiðinnar þykjast tala í nafni þjóðarinnar.
Sjálfur hef ég megnustu andúð á öllum þessum mótmælum. Skynsamlegra er að nýta orkuna til þess að finna lausnir sem virka.
Allar kreppur taka enda, en þær koma alltaf aftur, vegna þess að heimurinn er svo lengi að læra.
Heimurinn er heltekinn af græðgi, við hendum nýtilegum hlutum og við hendum miklum mat.
Með því að temja sér nægjusemi og nýtni, jákvætt hugarfar og kærleik, þá er hægt að endurreisa heiminn.
En með úreltum og gamaldags mótmælum, sem stjórnast af múgsefjun og reiði, þá halda bandamenn reiðinnar okkur föstum í viðjum fortíðar.
Hægt er að fullyrða að kreppan tekur enda og það kemur aftur góðæri og þensla. Síðan gleymir heimurinn sér í græðginni, eyðir um efni fram, ríkin fara í óeðlilega mikla peningaprentun og svo kemur aftur kreppa, mótmæli, múgsefjun osfrv.
Við komumst aldrei úr þessum vítahring öðruvísi en að sigrast á reiðinni.
Þeir bandamenn reiðinnar sem þykjast vera að berjast fyrir hinn almenna borgara, ættu að staldra aðeins við og nýta löngu gleymda dómgreind.
Þá myndu þeir sjá, að þeir hafa dýpkað kreppuna og fest hana í sessi. Hún hverfur um stund, en kemur alltaf aftur. Græðgin er nefnilega líka náskyld þeim hvimleiðu systrum, Reiði og Heimsku.
Athugasemdir
Ég myndi, af tvenni illu, heldur vilja ennþámeiri reiði en að Sjálfstæðisflokkurinn fengi völdin og héldi áfram að gefa það litla sem eftir er til vina og vandamanna, þó ekki væri hann einn um það fyrir hrun. Það væri nú meira stórslysið. Víst var og er fjármálakreppa um hinn vestræna heim, og full ásæða til að spara og fara vel með, enda ekki önnur völ fyrir hinn venjulega launþega, hvað þá gamla fólkið og aðra sem minna mega sín.
Það er alltaf látið eins og einhverjir ljótir karlar í útlandinu hafið valdið þessu öllu. Ég hef aldrei heyrt talað um að neinn þeirra sem sátu í ríkisstjórn á þeim tíma væri útlendingur, ekki einu sinni í aðra ættina, nema jú Geir blessaður Haarde, en hann var að sjálfsögðu dreginn fyrir landsdóm, án stórmótmæla, svona til klóra yfir það sem hægt var að klóra yfir með yfirklóri.
Jón Vídalín sagði forðum, "Reiðin væri eitt andskotans reiðarslag" og nokkuð til í því, en skapferli fólks er svo misjafnt að reiðin hlýtur að brjótast fram í flestum sem bíða eftir að eitthvað gerist í atvinnumálunum, svo maður tali ekki um þá sem eru að sökkva í skuldafenið.
Ef þú heldur Jón að allir sem eru og hafa verið að mótmæla séu sótsvartir af reiði, vegna einhverra skapgerðarbresta skjátlast þér. Sumir eru réttilega öskureiðir af því þeim er illilega misboðið af stjórnvöldum, sem ættu að hafa séð sóma sinn í að segja af sér fyrir löngu.
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 10:59
Þakka þér fyrir Bergljót.
Þú nefnir gjafir sjálfstæðismana til einkavina og ert þá væntanlega að vísa til einkavæðingar bankanna.
Ég er mjög óhress með að ríkisstjórnin sé ekki búin að rannsaka einkavæðinguna að fullu, en það stóð til. Það eina sem liggur fyrir varðandi það mál er að ríkið óttaðist að geta ekki selt bankanna á sínum tíma, erlendir aðilar sýndu ekki áhuga á að kaupa þá, svo birtust þeir Björgólfsfeðgar. Vitanlega er hægt að komast að ýmsum niðurstöðum, en hafi ferlið verið vafasamt eða ólöglegt, þá er líka við Ríkisendurskoðun að sakast, því sú stofnun lagði blessun sína yfir ferlið.
Rannsóknarskýrslan nefni að erlent ráðgajafarfyrirtæki hafi boðist til að hagræða niðurstöðum, en ekkert hefur komið fram sem staðfestir að því tilboði hafi verið tekið. Það eru margar spurningar sem eftir á að svara og sumum verður aldrei svarað til fulls.
Einkavæðing bankann er orðinn hlutur, við getum gert betur næst og lært að þeim mistökum sem gerð voru þá.
Ef stjórnartíð sjálfstæðismanna hefur verið svona slæm, eins og þú vilt meina, þá þurfum við líka að skoða erlend lánshæfismatsfyrirtæki, sem gáfu ríkinu hæstu einkunn sem og OECD, en sú stofnun gaf Íslandi einnig góða einkunn, svona að stærstum hluta, þótt þeir hafi gagnrýnt ýmislegt í efnahagsstjórninni, en ekkert ríki hefur víst fullkomna efnahagsstjórn.
Ísland naut virðaingar umheimsins meðan sjálfstæðismenn voru við völd, þanig að skoða mætti þá dómgreind eða forsendur erlendra matsaðila ýmissa.
Hægt er að finna fréttir frá árinu 1996, sem segja að hagvöxtur, atvinnuleysi og kaupmáttur hér á landi væri til fyrirmyndar. Bent hefur verið á af hagfræðingum að á árunum 1993-2000, hafi gegni krónunnar verið með besta móti, en þá voru sjálfstæðismenn við völd.
Þrátt fyrir mannlega breyskleika sjálfstæðismanna, þá staðfesta sögubækur það með óyggjandi hætti, bók Illuga Jökulssonar líka, en hann er ekki sjálfstæðismaður eins og þú veist, að best hefur gengið hér á landi þegar sjálfstæðismenn hafa verið við völd.
Ég varð sjálfstæðismaður eftir að ég kynnti mér söguna og stefnur allra flokka, ég vil helst borðfastar staðreyndir.
Reiðin er eðlileg, um það deilir enginn. Svo er það skynsemin sem beinir reiðinni í réttan farveg, réttur farvegur getur aldrei verið sá, að grýta alþingishúsið eða þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, það er villimennska.
Heimurinn allur tók þátt í sömu heimskunni, stjórnvöld allra ríkja voru sofandi á verðinum íslenski stjórnvöld líka.
En mér finnst það óraunhæft að ætlast til þess, að litla lýðveldið Ísland, geti sýnt meiri fyrirhyggju en þróðari efnahagsveldi heimsins, Bandaríkin eru líka í miklum vandræðum, Svissneskir bankar og Austurrískir lentu í vandræðum vegna ótryggra lána sem fóru til autantjaldsríkja.
Heimurinn er að súpa seyðið af heimskunni og græðginni, reiðin getur ekki komið í veg fyrir fyrrgreinda bresti.
Ég er sammála nafna mínum Vídalín, en ég hef sjálfur kynnst atvinnuleysi á eigin skinni, ég hef misst húsnæði og staðið uppi eignarlaus og atvinnulaus. Ég gætti þess að viðhalda bjartsýnu hugarfari og gæta mín á reiðinni.
Húsnæðis og atvinnumissi má vinna upp með tíð og tíma, reiðin flýtir ekki fyrir bata á því sviði. Heimurinn er meingallaður og honum verður aðeins breytt með kærleika og jákvæðni.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 12:23
Þegar talað er um eikavæðingu bankanna verður að greina á milli hvort átt er við sölu bankanna í byrjun aldarinnar, eða gjöf Steingríms á nýju bönkunum til einhverra óskilgreindra hrægamma. Þar er ólíku saman jafnað.
Kjartan Sigurgeirsson, 2.11.2011 kl. 12:44
Takk fyrir lesninguna,. Það er eflaust eitthvað gott í henni, en þessi umtalaða reiði svellur í mér við svona fyrirlestur frá staurblindum Sjálfstæðismanni.
Þar sem ég er að þínu ráði að reyna að hemja hana læt ég staðar numið hér, því frekari orðræður af þessum toga, skila engu nema enn frekari reiði.
Lifðu heill!
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 13:01
Sami grautur í annarri skál, það er allt og sumt Kjartan.
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 13:04
Þakka þér aftur fyrir Begljót, en leitt þykir mér ef þú segir mig staurblindan, án þess að rökstyðja það frekar.
Ef þú gætir bent mér á rangfærslur hjá mér, þætti mér vænt um það.
En ef þú kýst að telja mig staurblindan, sjálfstæðismann, þá verður svo að vera, en ekki upplifi ég neina reiði af þeim sökum.
Álit annara og skoðanir þeirra á mér vekja engar sérstakar tilfinningar í mínu brjósti, ég virði skoðanir fólks.
Og ég óska þér einnig alls hins besta Bergljót mín, hafðu það sem best og Guð og gæfan fylgi þér.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 13:21
Þakka þér fyrir Kjartan, ég held að það fari ekki á milli mála við hvaða einkavæðingu ég átti.
Ríkisstjórnin myndi aldrei leggja það til að rannsaka eigin verk, en það gerðu sjálfstæðismenn með Geir H. Haarde í fararbroddi.
Þá kom til sögunnar rannsóknarnefndin fræga, sem skilaði svo skýrslunni.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 13:23
Bergljót, nú er reiðin hjá þér aðeins að teppa þína ágætu dómgreind.
Það er grundvallarmunur á fyrri og síðari einkavæðingu bankanna.
Í fyrri einkavæðingu bankanna vissu allir hverjir keyptu, í síðari einkavæðingu fæst ekki upp gefið hverjir keyptu, en talið er að það séu erlendir vogunarsjóðir.
Fyrri einkavæðing var send til umsagnar hjá Ríkisendurskoðun, hin síðari hefur enga umræðu fengið, að frumkvæði ríkisstjórnarinnar.
Það er fullkomlega eðlilegt að fólk sé reitt út í Sjálfstæðisflokkinn, en að halda því fram að hann starfi eins og vinstri flokkarnir, það er argasti þvættingur sem á ekki við nein rök að styðjast.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 13:30
Þetta mun vera rétt hjá þér að öðru leyti en því að bankarnir voru í fyrra tilvikinu nánast gefnir og því varla hægt að tala um kaup, allavega kýs ég að kalla það gjöf.
Sú ríkisstjórn sem þá var, og þær sem á eftir fylgdur eru með þeim endemum að ég er í stjórnarandstöðu og stjórnarandstöðu andstöðu líka.
Ég vil fjórflokkinn dauðan að og ríkisstjórnin verði skipuð þverpólitískt af hlutlausum, til þess menntuðum sérfræðingum sem verða ráðnir til starfans. Þeir eru til nokkrir óspilltir ennþá að virðist
Hitt er orðið svo mikið og víða ruglað eiginhagsmunabrölt að ég treysti engum núorðið, en það er að mínu viti eitthvað það versta sem getur gerst í lýðræðisríki að stjórnendurnir missi stjónina, ja, hvað á ég að segja, niður um sig? Því fyrr sem þeir verða sendir heim, því betra.
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 14:09
Svo er ég endanlega hætt, enda búin að fá ágætis útrás.
Bergljót Gunnarsdóttir, 2.11.2011 kl. 14:10
Málið er Jón minn að reiðin á sér ekki bandamenn. Það eru flokkarnir - ráðamenn - sem eiga sér bandamenn, og reiðin kemur af vonleysi um að geta breytt neinu. Fólk horfir upp á óréttlætið árum saman, og alltaf versnar það. Í dag er hrokinn og valdagræðgin í hæstu hæðum, og þetta fólk hefur jafnvel gert Sjálfstæðisflokkinn að skaðlausri borðdömu og er þá mikið sagt.
En reiðin er eðlilegt framhald af neyð og þrönsýni þeirra sem fara með völdin, og einnig að það er að renna upp fyrir fólki að "fjórflokkurinn" stendur saman eins og lím til að verja þrönga hagsmuni alþingismanna, þó sumir þurfi að vera í stjórnaranstöðu, og hinir við kjötkatlana, bara ef það svissast svona af og til. En ekkert breytist, sérstaklega ekki þegar hinn almenni maður á gólfinu sér ekki hvað er að gerast og heldur alltaf að sínir menn séu englar af himnum sendir.
Það þarf að fara að opna augun og vinna að raunverulegu lýðræði litla mannsins á götunni. Þannig er það bara.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.11.2011 kl. 14:18
Það eru gömul sannindi og ný Bergljót, að valdið spilir og mikið vald gjörspillir.
Þess vegna er ég ekkert sannfærður um að við fáum betri stjórnendur eftir þeiri leið sem þú nefnir.
Höfuðkosturinn sem ég sé við sjálfstæðismenn er sá, að sjálfstæðisstefnan boðar frelsi, þanig að þeir eru ekki eins stjórnlyndir og vinstri flokkarnir eru.
Ég hef lengi talið beint lýðræði farsælast, því þá verður minna um tortryggni og þras, vonandi minnkar þá reiðin líka.
Maðurinn er svo sjálfhverf skepna og illa meðvituð um sjálfa sig, þannig að ólíklegasta fólk getur gjörspillst á því að fá völd í hendur.
Það breytist ekkert fyrr en við förum öll í djúpa naflaskoðun og förum á yfirvegaðan hátt yfir öll mál.
Þjóðin þarf að læara alvöru samræður, án tilfinningasemi og sleggjudóma.
Ég er sannfærður um að allir flokkar eru að vinna samkvæmt bestu samvisku og telja sig hafa réttu lausnirnar, óheiðarlegt og spillt fólk forðast vitanlega alla athygli.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 15:41
Ég gæti nú trúað, að þeirra verði nú mynnst sem merkilegra fulltrúa, en ekki á þann hátt sem nokkur sækist eftir trúi ég! að minnsta kosti ekki ef fram fer sem horfir!!
Eyjólfur G Svavarsson, 2.11.2011 kl. 15:47
Fólk getur haft mismunandi skoðanir á þessu eins og öðru Ásthildur mín.
Mér finst oft gaman að lesa hugmyndir fólks um mig, sumir halda að ég sé handbendi Valhallar í mínum skrifum, aðrir halda að ég sé staurblindur sjálfstæðismaður osfrv., en ég er hluti alþýðunnar, alinn upp í verkalýðssteétt og hef haldið mig þar alla tíð, alltaf þurft að vinna fyrir mínu.
Vitanlega er ég í sömu stöðu og allir, lánin mín hafa stökkbreysts, ég finn fyrir hærra matar og bensínverði, ég er í sömu stöðu og allir aðrir.
Ég hef hinsvegar annað hugarfar en margir hafa, ég þoli ekki reiðina, því hún hefur slæm áhrif á mig og þá sem í kring um mig eru.
Einnig horfi ég á hina svokölluðu búsáhaldabyltingu, eftir hana voru tekin viðtöl við þátttakendur hennar og skipuleggjendur í einu tölublaði Mannlífs.
Allir voru sammála um að hún hafi ekki skilað tilætluðum árangri, enda hefur hún ekki bætt nokkurn skapaðan hlut.
Það er þolinmæðin og skynsemin sem dugar best. Vitanlega verð ég reiður eins og aðrir og þá finn ég að dómgreindin bregst, ég segi margt sem ég hefði ekki átt að segja osfrv.
Í erfiðum aðstæðum höfum við alltaf val, reiðin er valkostur, en hvaða afleiðingar hefur hún haft?
Þeir sem velja reiðina, því fólk velur að láta hana stjórna sér, þeir segja og gera hluti sem þeir iðrast.
Ég er ekki að réttlæta eitt eða neitt, sjálfstæðismenn voru sofandi á verðinum, þeir höguðu sér eins og fífl með því að þvælast til útlanda og dásama vonlaust bankakerfi, þeir þöndu út ríkisbáknið og þeir hefðu átt að vanda sig betur í einkavæðingaferlinu.
Allt þetta hef ég margoft sagt, en jafnframt látið þess getið, að það geti allir gert mistök. Miðað við hugarfar og aðstæður þess tíma, þá virtust ákvarðanirnar vera réttar, en í dag sjáum við að þær voru rangar.
Það tekur enginn stjórnmálamaður meðvitað ranga ákvörðun, nema að hann vilji aldrei ná endurkjöri og vilji vera hataður og fyrirlitinn af þjóðinni um aldur og ævi.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 15:54
Það getur vel verið að einhver muni eftir þeim, en ég er ekki viss um að þau verði ofarlega á blaði Eyjólfur minn, hjá framtíðarborgurum þessarar þjóðar.
Jónas frá Hriflu, Einar Olgeirsson og fleiri sem voru umdeildir í gamla daga eru ekki ofarlega í huga nútímafólks, það muna fáir eftir þjóðnýtingu sósíalista í tíð stjórnar hinna vinnandi stétta á síðari hluta fjórða áratugs síðustu aldar, en þeir bönnuðu bjór, leyfðu sterk vín og settu á ýmis höft.
Sagan er sem betur fer fljót að gleymast, afkomendur okkar verða ekkert að tonnlast á nöfnum Jóhönnu eða Steingríms né öðrum nöfnum úr okkar samtímasögu.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 15:58
Þegar litið er yfir þessi skrif styngur hvað helst í augu að talað er um verðið á bönkunum í byrjun aldarinnar sem einhverja gjöf. En hvað er hátt verð og hvað er lágt verð? Ég hef vanist því að markaðurinn ráði verði og þar sem ekki bárust hærri boð í bankana er ekki hægt að segja að þeir hafi verið gefnir. Það má vel vera að hærra verð hefði fengist með því að bíða eitthvað með söluna, en hver átti að meta það hvenær tilboð væri nógu hátt til að ekki yrði talað um gjöf.
Svolítið hljómar umræðan um pólitískar skoðanir manna sem leggja hér orð í belg eins og tal um litarhætti fólks í USA, þar er bannað að tala um negra eða svertingja en það er allt í lagi að tala um hvítingja, ég hef einhvernveginn trú á að það þætti ekki fínt að þeir sem tala um staurblinda sjálfstæðismenn væru í svörum kallaðir staurblindir kommúnistar eða eitthvað í þá veruna
Kjartan Sigurgeirsson, 2.11.2011 kl. 16:17
Ég er sammála þér Kjartan, mér dytti aldrei í hug að koma með einhver uppnefni á fólk, en ég virði það við aðra, þótt þeir hafi þörf fyrir að uppnefna mig.
Ég hef minn standard og aðrir hafa sinn, mér finnst það lágkúrulegt að tala um staurblinda sjálfstæðismenn eða kommúnista staurblinda. Það hafa allir sínar skoðanir og mismunandi aðferðir til að tjá þær.
Það er rétt sem þú nefnir með verðmatið, það er ekkert til neitt sem heitir rétt eða rangt verðmat, en ég ákvað að vera ekkert að geta þess í mínu fyrsta svari, því þegar maður ræðir við fólk sem hefur sömu skoðanir og Bergljót, þá þýðir ekki að nefna svona hluti, þá lendir maður í óþarfa þrasi sem mér leiðist.
Bergljót er eflaust prýðiskona og ágætlega greind, en mér finnst hennar skoðanir lykta fremur af reiði en skynsemi, í þessum umræðum amk.
Ef lesin er skýrsla einkavæðinganefndarinnar, þá sést það glöggt að menn voru hræddir um að geta ekki selt bankanna.
Ástæðan fyrir lækkuðu verði til Samson feðga var sú, að þeir áttu ekki kost á að kynna sér allt sem sneri að rekstri bankanna, þannig að Samson menn settu þess vegna fram kröfu um að verðið yrði lækka, ðþað er langt síðan ég las skýrsluna, en þetta var nokkurn veginn á þennan veg.
Ástæða þess að Steingrúmur Ari sagði sig úr nefndinni var sú, að hann vildi horfa á hæsta tilboðið eingöngu á meðan hinir horfðu til fleiri þátta.
Á einum stað er haft eftir Steingrími Ara, að ef nefndin flýtti sér ekki að taka ákvörðun, gæti farið svo að væntanlegir kaupendur létu sig hverfa, ég man þetta ekki í smáatriðum, en skýrslan er aðgengileg á netinu, eins umsögn Ríkisendurskoðunar.
Kjartan minn, ég hef kynnt mér þessi mál þó það mikið, að ég hef ekki ástæðu til að gruna neinn um græsku.
Stundum nenni ég ekki þrasi, heldur kem með lágmarkssvör, svona fyrir kurteisissakir, því ég sýni öllum jafna virðingu, burtséð frá áliti þeirra á mér.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 16:58
Ein góð leið til að losna við þessar leiðu frænkur Reiði Heimsku og Græðgi er að byrja snemma að kenna rökhugsun og gagnrýna hugsun í grunnskólum landsins. Einnig mætti snemma byrja að kenna grunnatriði hagfræðinnar. Hinsvegar verður ekki losnað við þær algjörlega. Þeim verður aðeins haldið í skefjum.
Fyrst og fremst þarf að venja fólk ungt á sjálfsábyrgð. Það er eitt sem er nánast dautt fyrirbæri í nútímasamfélaginu. Það sést helst á því að alltaf þegar eitthvað fer úrskeiðis hleypur fólk upp til handa og fóta og heimtar að ríkið bjargi því. Þar með er ekki sagt, reyndar að ríkið eigi ekki að bera ábyrgð á þegnum sínum. Hinsvegar bera þegnarnir jafn mikla ábyrgð á Ríkinu, ef ekki meiri. Mér finnst það alltaf jafn fyndið þegar fólk er að væla yfir þinginu, hvað það séu miklir vitleysingar sem þar sitja og svo framvegis, þetta sama fólk kaus þetta þing. Næst ættu þau þá að skila auðu til að forðast það að fá alla þessa vitleysingja á þing. Fólk ætti að vera varasamt um hvað það óskar sér, það nefnilega fær það iðulega.
Frelsi er eitt erfiðasta hugtak siðfræðinnar. Hvað er frelsi? Hvernig á að beita því? Ríkið og stjórnmálamennirnir vilja stjórna en almenningur vill ráða eigin lífi. Hvar eiga mörk frelsisins að liggja? Hvað á ríkið að ráða um líf okkar og eignir? það eru eingin svör fyrir þessum spurningum sem hlotið hafa almenna viðurkenningu. Við sem viljum hlut almennings í frelsinu meiri og almennari viljum nefnilega að frelsinu fylgi jafnframt ábyrgð. Vandinn er sá að almenningur er oft tregur til að axla þá ábyrgð. Sú tregða orsakast ekki af eiginlegu ábyrgðarleysi heldur tilhneigingunni til að varpa ábyrgðinni á aðra þegar gleymst hefur að gera ráð fyrir verstu mögulegu útkomu athafna okkar. Þá meina ég verstu mögulegu útkomu vegna utanaðkomandi atburða, eins til dæmis hrun alþjóðlega fjármálakerfisins. Þegar atburðir eins og hrunið gerast á koma "Heimskan" og "Reiðin" skeiðandi inn á völlinn í allri sinni dýrð og teymir múginn áfram á asnaeyrunum í formi lýðskrumara og sölumanna töfralausna. Þetta vissu menn eins og Lenín, Stalín og Hitler. Haft er eftir Göbbels, ef mig minnir rétt: Ef menn segja sömu lygina nógu oft og lengi er hægt að selja hvað sem er. Einnig er sagt að múgurinn sé alltaf á sama gáfnastigi og sá heimskasti meðal þeirra. Eins er alltaf gott að hafa sökudólg. Sökudólgar eru fókus á reiði og gremju múgsins. Gyðingar hafa alltaf dugað mjög vel í gegn um tíðina sem öndvegis sökudólgar. Eins eru auðmenn ágætis sökudólgar (sumir jafnvel sekir um ýmislegt). Bestu sökudólgarnir eru þó alltaf þeir sem eru ósammála lýðskrumaranum eða sölumanni töfralausna.
þess vegna er alltaf best að nota viskustykkið og hugsa áður en maður framkvæmir, einnig er best að trúa varlega gylliboðum og töfralausnum. Og umfram allt að sleppa reiðinni ekki lausri án þess að fyrr en búið er hugsa um afleiðingarnar. Græðgin henni verður að eins haldið í skefjum með vitinu og siðseminni. Margur verður að aurum api eru ekki orðin tóm.
kallpungur, 2.11.2011 kl. 17:54
þakka þér Kallpungur, þú kemur með marga athyglisverða punkta eins og þín er von og vísa.
Þetta með frelsið, vitanlega eigum við öll að hafa frelsi og fólk þarf að læra að bera ábyrgð á eigin lífi.
Ef að einhver hagar sér heimskulegam þá neyðist viðkomandi til að axla ábyrgð á því.
Það er ekki sanngjarnt að láta fyrirhyggjusamt fólk blæða fyrir skussana.
Reyndar má segja að þeir tímar sem við nú lifum séu æði sérstæðir, þess vegna finnst mér, bara í þetta eina skipti, réttlætanlegt að ríkið hlaupi undir bagga með fólki, það var forsendubrestur og alavrlegt hrun.
En ríkið á aldrei aftur að koma fólki til hjálpar sem reisir sér hurðarás um öxl.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 20:27
Ég ætlaði nú aldrei að segja að ríkið ætti ekki að aðstoða borgarana undir neinum kringumstæðum. Hinsvegar er allt of ríkt í hugsunarhætti nútímans að ætla ríkinu að redda hlutunum. Ríkið á hinsvegar að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.
kallpungur, 2.11.2011 kl. 21:12
Það er rétt, ríkið á að hvetja fólk til sjálfshjálpar, það er besta hjálpin og sú varanlegasta.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 21:32
Afbragðsgóður pistill hjá þér, Jón eins og svo oft áður. Sömuleiðis má taka undir allt það, sem Kjartan hefur sagt. Bergljót er hins vegar staðfesting á því sem þú ert að segja, með hjali um „fjórflokkinn“ voðalega, illsku sjálfstæðismanna o.s.frv. En hún er fulltrúi fyrir stóran hóp. Gleymum því ekki að Jón G. Narr fékk 36% atkvæða í lýðræðislegum kosningum.
Vilhjálmur Eyþórsson, 2.11.2011 kl. 22:21
Þakka þér Vilhjálmur, sammála þér eins og alltaf.
Jón Ríkharðsson, 2.11.2011 kl. 22:49
Ég, fyrrverandi gallharður Sjálfstæðismaður og er líklega flokksbundin enn þann dag í dag, því eitt erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur er að reyna að segja mig úr flokknum. Það er búið að taka mig ca. 20 ár, með engum áragri. Ég er fædd inn í þennan flokk og hann var alltaf í vitund minni, öll uppvaxtarárin, sem það eina og rétta og sanna og ég efaðist aldrei um að svo væri.
Tildrög þess að ég gekk svo í flokkinn voru þau að Þorvaldur Garðar Kristjánsson sóttist eftir formannskjöri í Heimdalli og eitthvað voru menn hræddir um að hann næði ekki kosningu, þannig að það upphófst mikil smölum honum til brautargengis. Það var leitað til mín, sem var þó bara 15 ára og því ekki kjörgeng. Ég uppveðraðist öll við þetta og smalaði saman stórum hópi vinkvenna og við skráðum okkur í Heimdall, enginn spurði neinna spurninga og við fórum allar og kusum Þorvald, þó við hefðum aldrei séð hannn, né vissum nein deili á honum. Sem betur fer reyndist Þorvaldur heiðursmaður og svo sem allt í lagi að hafa haft áhrif á úrslit kosninganna með þessum hætti, þó svo kolólöglegt væri samkvæmt reglunum.
Ég hafði aldrei neinn áhuga á pólitík, enda var bara einn flokkur til í mínum huga og hann fullkominn, en ég vaknaði samt upp við vondan draum, í stjórnartíð Davíðs Oddssonar þegar mér fannst allt í einu kominn sjálfhverfur og hefnigjarn maður í fomannsstólinn, svo óaðlaðandi að það skelfdi mig.
Það var einhversstaðar þarna sem ég ákvað að segja mig úr flokknum, kynna mér stefnuskrá annarra flokka betur og velja það sem mér litist best á.
Niðurstaða mín í dag er sú, að enginn flokkur fyllir væntingar mínar um réttlátt og þrífandi samfélag, sem ynni fyrir kjósendur sína og það af heilindum. Mér sýnist nefnilega alliar flokksforystur því marki brenndar, að um leið og flokkarnir komast til valda er almenningur sem kom þeim þangað ekki lengur þess virði að hlusta á, og því síður er áhugi fyrir að hugsa um raunverulegan hag hans.
Þess vegna er ég reið í dag, sú reiði er réttlát og særir mig á engan hátt. Ég vil vera reið, og ekki láta einhverja hugarlullandi fyrrverandi samflokksmenn mína segja mér eitthvað annað. Það er líklega hluti af forrráðahyggju að leyfa fólki ekki að vera það sjálft og gera því upp skoðanir. Ég segi, meina og skrifa, að ég sé ekkert annað í stöðunni en utanþingsstjórn og hana sem fyrst.
Einn ykkar þriggja í #21 #22 og #23 kallar sig karlpung. Mér fyndist freistandi að spyrða ykkur alla saman undir þessu nafni, en til þess er ég of vel upp alin. "Gleymum því ekki að Jón Gnarr fékk 36% atkvæða í lýðræðislegum kosningum. Gæsalappirnar set ég bara öðru megin , því ég get ekki haft nafnið hans eftir eins og Vilhjálmur skrifar það. Þú ættir að leggja þetta á minnið Vilhjálmur, Gnarr er nafnið, Jón Gnarr.
Bergljót Gunnarsdóttir, 3.11.2011 kl. 00:08
Ég biðst afsökunar á innsláttar og minni háttar stafsetningarvillum, en tölvan er orðin gömul og lúin og skilar ekki öllu sem slegið er inn samkv. formúlunni.
Bergljót Gunnarsdóttir, 3.11.2011 kl. 00:12
Ég tæki það ekkert illa upp, þótt þú kallaðir mig kallpung Bergljót, ég fæ að heyra ýmis viðurnefni vegna minna stjórnmálaskoðanna.
Satt að segja þá hef ég gaman af heyra þessi viðurnefni og sérstaklega þótti mér vænt um, þegar fyrrum skipsfélagi minn fullyrti að þeir í Valhöll hefðu mig í vasanum og honum grunaði að ég fengi eitthvað greitt fyrir að skrifa um mínar stjórnmálaskoðanir.
Ég hef gaman af samsæriskenningum og sérstaklega þegar þær beinast að mér, því ég veit hversu fjarstæðukenndar þær eru.
En ég vil alls ekki banna þér að vera reið, allir hafa rétt á að vera eins og þeir vilja vera og fólk má alls ekki vera eins og hafa sömu skoðanirnar, þá verður heimurinn litlaus.
Ég skil þig betur en þú heldur, faðir minn hatast mjög út í Sjálfstæðisflokkinn og hann skilur ekki hvað klikaði í uppeldinu hjá honum, varðandi mig. Bræður mínir eru heldur ekki á sömu línu og ég.
Ég ólst upp við reiði út í valdsmenn, sérstaklega sjálfstæðismenn, þannig að ég á auðvelt með að skilja þetta sjónarmið.
En þó að ég geti skilið og virt önnur sjónarmið, þá er ég ekki sammála þeim.
Stjórnmálamenn hafa lokað sig of mikið af og þeir eru ekki nógu duglegir að tala mlliliðalaust við almenning. Mikilvægt er að allar stéttir samfélagsins nái að kynnast sjónarmiðum hvers annars og ræða saman á opinskáan hátt.
Ég held, án þess að ég þekki þig Bergljót, að þú sért góð og tilfinningarík kona, eflaust ertu ein af þeim sem mátt ekkert aumt sjá, þannig að ég tel að þeir sem að eigi þig fyrir vin séu mjög lánsamir einstaklingar, ég upplifi þig á þann hátt.
Þeir sem eru tilfinningaríkir verða gjarna reiðir ef réttlætiskennd þeirra er misboðið, en svo getur rétlætiskennd fólks verið mismunandi, fólk hefur svo ólíka sýn á málin, en það er kostur en ekki galli.
Það eru eflaust margar innsláttarvillurnar hjá mér núna, ég er úti á sjó og það er haugasjór og skipið veltur eins og korktappi, ég nenni ekki að leiðrétta villurnar, ég er orðinn leiður á að skrifa í þessum andskotans látum, en ég óska þér alls hins besta Bergljót mín, þegar ég segi svona, þá er það ekki kaldhæðni, því ég er með afbrigðum hreinskilinn og tala alltaf hreint út um alla hluti, þótt ég nenni ekki að skammast.
Jón Ríkharðsson, 3.11.2011 kl. 06:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.