Fimmtudagur, 17. nóvember 2011
Eru sjómenn einir um að plata nýliða?
Mikil umræða hefur skapast um svokallaða "manndómsvígslu" til sjós og segja margir að nýliðar séu plataðir þar fram og til baka og þeir svívirtir og hæddir.
Það er mikið til í þessu, nýliðar fá oft svona mótttökur til sjós, en þetta er allt gert í gríni og enginn, eða þá mjög fáir, hefur borið varanlegan skaða af.
En grunnhyggni umræðunnar breytist lítt, nú heldur fólk að sjómenn séu einir um þetta.
Ég hef verið sjómaður mestalla tíð, en fyrir mörgum árum lagði ég stund á trésmíðanám, þannig að nokkur ár starfaði ég sem smiður.
Nýliðar í byggingavinnu eru sendir eftir hringvinkli, rishallaréttskeið, hæðarpunktum og negulnöglum. Í vinnuskúrum er líka notast við klámfenginn húmor og talsverða kaldhæðni.
Ég þekki ekki önnur störf en sjómennsku og trésmíði, en veit að rafvirkjar, píparar, málarar og aðrir iðnaðarmenn hafa sama húmorinn að þessu leiti.
Líklegt er að pervertar leynist líka í röðum iðnaðarmanna eins og í öðrum stéttum.
Nú hafa einstaklingar hér á landi, sem starfað hafa með börnum í kristilegu starfi verið kærðir fyrir kynferðislegt ofbeldi á börnum.
Eigum við þá að segja að allir sem starfi með börnum, séu þeir karlkyns, séu þá pervertar?
Þessi umræða má aldrei fara á þann veg, að fólk trúi því, að sjómenn upp til hópa ástundi klám og barnaníð, slíkt er ekki hægt að sætta sig við.
Ég mundi heldur ekki sætta mig við, að allir sem starfa með börnum hafi vafasamar kenndir í þeirra garð.
Það fer að koma tími á, að þjóðin fari að hugsa, annars kemst ekkert vit í neina umræðu.
Athugasemdir
Sæll Jón.Ég tek undir það,sem þú skrifar hér um.Því miður þá hefur umræða um kynlífsofbeldi,farið út í öfgar,sem veldur því að allar blíðuhótannir eru grunsamlegar.
Ég er viss um að allir nýliðar í hvaða starfi,sem er þurfa að verða fyrir hverskonar hrekkjum,að hálfu þeirra,sem eru sjóaðir í verki.
Ég var fyrir því,að"gefa kjölsvíninu" eða sendur upp í brú með skiptilykil til að"trekja togklukkuna",ofl.í þessum dúr.
Hvernig er það t.d. í menntaskólum,er ekki svokölluð"busavígsla" venja.Ekki eru gerðar athugasemdir við þær,þó að þær geta jafnvel jaðrað við ofbeldi.
Ingvi Rúnar Einarsson, 17.11.2011 kl. 18:10
Sæll Ingvi minn.
Það er ánægjulegt að fá þitt sjónarhorn á þessa umræðu, því þú ert sjómaður með mikla og langa reynslu.
Góður punktur hjá þér með busavígslu framhaldsskólanna.
Ég var líka plataður hægri vinstri, sendur fram og til baka eftir öllu mögulegu, sem var ekki til. Svo lugu þeir mig fullan og notuðu hvert tækifæri til að stríða mér. Þegar ég lærði betur inn á starfið og komst í hópinn, þá urðu þeir allir góðir vinir mínir.
Jón Ríkharðsson, 18.11.2011 kl. 00:19
Jón ég hef verið til sjós í nokkra áratugi en aldrei orðið vitni af svona framferði. Þetta er einstakt tilfelli og vona ég að fólk fari nú ekki .að alhæfa svona nokkuð upp á sjómenn, það er oft gantast og nýliðum strítt, en ekkert þessu líkt,fjarri því, bara meinlaus stríðni.
Eyjólfur G Svavarsson, 21.11.2011 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.