Fimmtudagur, 17. nóvember 2011
Það vantar kjark í íslenska pólitík.
Stjórnmálamenn nútímans, hvar í flokki sem þeir standa, gera lítið annað en að hlera stemminguna í þjóðfélaginu og finna út, hvað er best að leggja áherslu á til þess að gæla við eyru kjósenda og smala atkvæðum.
Með svona pólitík, þá er lítil von á breytingum.
Stjórnmálamenn eiga að vera leiðandi afl í umræðunni, berjast fyrir sínum skoðunum og stefnum og sýna fólki nýja vinkla á umræðunni, boða nýjar leiðir.
Það tekur oft tíma að valda hugarfarsbreytingu þjóða, stundum gengur það ekki upp. En það er samt skylda stjórnmálamanna, þrátt fyrir allt.
Skoðum umræðuna um styrkjamálin, hún er á algjörum villigötum.
Árin fyrir hrun einkenndust af taumlausri græðgi og peningar flóðu um allt. Stjórnmálamenn voru með her af fólki í kring um sig, sem að aflaði styrkja fyrir þá.
Sumum gekk vel og öðrum ekki eins vel.
Þeir sem höfðu öfluga fjáraflamenn eru nú úthrópaðir sem gjörspilltir einstaklingar og heimtað er að þeir segi af sér. Ekki kemur á óvart að flokkur sá sem mest fylgir tískustraumum, Samfylkingin, þvingaði ágæta, en atkvæðalitla konu til að segja af sér þingmensku. En hún fékk ágætt jobb í staðinn.
Staðreyndin er sú, að það hefur ekki heyrst af neinum frambjóðenda í prófkjöri sem neitaði styrkjum, enginn taldi sig vera kominn með of mikla styrki og að nú væri komið nóg, það voru allir að leitast við að fá sem mest.
Ef réttlætis væri gætt og þjóðin væri sjálfri sér samkvæm, þá ættu allir þingmenn að segja af sér sem þegið höfðu styrki. En slíkt er vitaskuld ekki í myndinni.
Því miður sýndu sjálfstæðismenn meðvirkni í þessari umræðu, jafnvel forystan líka.
Ef að grunur er um misbeitingu valds og mútuþægni, þá ber að kæra það strax. Ef það er erfitt að kæra slíkt, þá á þingið að gera það auðveldara.
En stjórnmálamenn eiga ekki að stjórnast af lýðskrumi og dægurmálum.
Þeir eiga að marka sér stefnu og standa og falla með henni. Það á enginn að vera í pólitík til að hafa þægilega innivinnu, pólitík á að vera blóð sviti og tár, tími sárra vonbrigða og stórra sigra.
Stjórnmálamenn eru eins og hver önnur söluvara, þeir selja sig út á ákveðna stefnu og þeir mega ekki, kjósenda sinna vegna hverfa frá henni.
Ef að hugarfarið breytist og stefnan hentar ekki lengur, þá ber stjórnmálamanni að víkja, hann var ekki kosinn út á geðþóttaákvörðun sína, heldur fyrir hvað hann stóð í sinni kosningabaráttu.
Athugasemdir
Prýðisgóður pistill hjá þér Jón, eins og oft áður. Stjórnmálamenn eiga að standa fast á sínu, en ekki láta stjórnast af skoðanakönnunum, eins og allt of margir þeirra gera. Staðreyndin er að þeir stjórnmálamenn, ekki hafa látið tískustrauma stjórna sér eru þeir sem upp úr standa.Sagan dæmir hina hart.
Vilhjálmur Eyþórsson, 17.11.2011 kl. 21:23
þakka þér fyrir Vilhjálmur.
Stjórnmálamenn verða, ef þeir ætla að heita stjórnmálamenn, að berjast fyrir sínum málum.
Þeir eiga að hafa trú á sinni stefnu og ekki hlusta á stemminguna í þjóðfélaginu.
Ef það er gert, þá er alveg eins gott að hafa einn til tvo sem kanna stemminguna og semja svo lög og reglur eftir því.
Jón Ríkharðsson, 17.11.2011 kl. 23:07
Þörf umræða Jón, sérstaklega núna þegar við höfum marga þingmenn sem fyllast eldimóði þegar rætt er um mál sem almenningur hefur sterkar skoðanir á. Þá klæðast þessir sömu þingmenn fötum réttlætissins og tala digurbarkalega máli meirihlutaálitsins. Skiptir þá engu þó þeir hafi áður verið á öndverðri skoðun og lofað hinu og þessu. Þessir sömu tækifærissinnar sjást svo ekki í ræðustól þegar erfiðar og óvinsælar ákvarðanir eru teknar. Eins og þú segir þá þurfa alvöru stjórnmálamenn að standa fast með skoðunum sínum og berjast fyrir þeim og jafnvel fall með þeim, trúi þeir á réttlæti málsins.
Hvað varðar styrkjamálin þá er sú umræða svo löðrandi í hræsni og eftirávisku að maður vill helst ekki koma nálægt henni. Það er einkennandi fyrir þessa sömu tækifærissinna að taka upp harða afstöðu á móti styrkjaþegum bara af því þeir sjá að almenningsálitið er mikið á móti styrkjum, jafnvel þó að þeir sjálfir hafi verið með alla anga úti í styrkja leit en ekki fengið þar sem þeim er ekki treyst. Það er hræsni stjórnmálamanna að hafa lítin eða engan lagaramma um hverjir mega fá og hve mikið frá hverjum og segja svo "löglegt en siðlaust" það reyna allir að fá eins mikið og hægt er, það er bara í náttúru stjórnmálamanna. Hér á að vera klár rammi og allir eiga að hafa sömu tækifæri til að fjármagna sítt framboð, ef það kemur ekki úr eigin vasa.
Bestu kveðjur á þig, vona að það fiskist vel því við þurfum svo sannarlega á því að halda nú á þessum síðustu og verstu.
Sveinn Úlfarsson 18.11.2011 kl. 11:59
Þakka þér fyrir Sveinn minn, ég get tekið undir hvert orð sem þú segir og ég hef engu við það að bæta.
Þú ert einn af þeim, sem eru sannir sjálfstæðismenn, inn að innstu hjartarótum, verst að þú skulir vera í útlöndum.
Jú, það fiskast vel.
Jón Ríkharðsson, 18.11.2011 kl. 21:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.