Er að skapast hér minnihlutaræði?

Mannréttindaráð Reykjavíkur gladdi mjög hina sanntrúuðu Vantrúar-menn með nýrri reglugerð er varðar aðkomu presta að skólastarfi barna.

Nú eru meðlimir Vantrúar að eigin sögn algjörlega trúlausir, en samt eru þeir trúaðri á sinn málsstað en margir kristnir menn.

Þeir í Vantrú þverneita því alfarið, að nokkur Guð sé til, það er þeirra staðfasta trú. Aftur á móti eru margir í hópi kristinna sem eru ekki eins vissir í sinni sök og meðlimir Vantrúar, enda ansi snúið að sanna nokkuð í þessum efnum, með óyggjandi hætti.

Ef gengið er útfrá því, að Guð sé til, þá eru til sennilegar skýringar til á aldalangri fjarveru hans frá mannheimum.

Hann rölti með Adam og Evu, samkvæmt hinni helgu bók, um Aldingarðinn og honum leið ágætlega í félagsskap kórónu sköpunarverksins. En þau óhlýðnuðust honum, átu af skilningstrénu. Það gerði Guði vitanlega gramt í geði, hann gaf þeim frelsi til að velja og hafna, en vonaðist vissulega  til þess að kórónur sköpunarverksins hlýddu betur hans fyrirmælum.

Svo sendi hann son sinn eingetinn, að sögn Biblíunnar, til þess að koma vitinu fyrir jarðarbúa, en þeir þökkuðu frelsaranum öll kraftaverkin og allan kærleikann með því að hæða hann, pína og að lokum var hann látinn þola hryllilegan dauðdaga á krossi.

Það er ósköp eðlilegt í ljósi ofangreinds, að Guð nenni lítt að skreppa til jarðar, eftir fyrri reynslu sína af mannfólkinu, en hann  vonast eflaust til þess,  að mannkynið fari nú að læra eitthvað af mistökunum.

Frelsið er jú mesta kærleiksverk Guðs, því það kennir okkur best og þroskar okkur á allan hátt.

Til þess að öðlast visku og þroska, þá dugir lítt að notast eingöngu við augu, eyru og holdlega skynjun, ásamt því að túlka forsendur eins og þær eru á hverjum tíma fyrir sig. Þróunin hefur orðið fyrir tilstilli manna, sem gáfu hugarfluginu lausan tauminn, notuðust við hugsjónir og hugsuðu út fyrir hinn þrönga ramma sem sumir notast eingöngu við.

Samkvæmt þröngum ramma og holdlegum skilningi er ekkert Guðlegt til, skynjunin er andlegs eðlis, en hún virkar prýðilega.

Trúarleg iðkun og bænagjörð hefur um aldir virkað sem hin besta sáluhjálp, Guð var það eina sem forfeður okkar gátu treyst á og trúin blés þeim baráttuanda í brjóst og gaf þeim von um betri tíð, ef ekki í jarðlífinu, þá í hinu næsta.

Rannsóknir hafa sýnt það, að trúuðum einstaklingum líður vel, trúin gefur lífsfyllingu og ekki veitir af henni um þessar mundir.

Þótt enginn Guð sé til, þá er það staðreynd, að kærleiksríkar hugsanir sem fylgja bænar og messuhaldi veita aukinn sálarfrið, börn eru næm og opin fyrir slíku og á erfiðum tímum sem þessum, þá væri óhætt að auka helgi og bænahald í skólum.

Þá segja hinir sanntrúuðu meðlimir Vantrúar, að þeim sé ákaflega illa við að börnum þeirra sé innrætt trú.

Sem fimm barna faðir, þá hef ég aldrei viljað ráða því, hverju börnin mín trúa. Börnin mín eru sjálfstæðir einstaklingar og þeim ber engin skylda til að tileinka sér mínar lífsskoðanir, en ég er skyldugur til að elska þau, sama hvaða leiðir þau velja. Og sú skylda er mér ákaflega ljúf, ég elska börnin mín heitar en allt í þessum heimi, þótt þau yrðu öll trúlaus og gallharðir sósíalistar.

Það er verið að ráðast á góðar hefðir að ástæðulausu. Ef ég hefði þá trú sem ég hef í dag, en væri alinn upp í landi þar sem trúleysi væri hefðin, kærleikurinn væri kenndur eftir öðrum leiðum, þá myndi ég aldrei amast við því. Það hefði engan tilgang að neyða minni trú upp á þjóðina, væri hún sátt við sína lífssýn.

Mannréttindaráðið sagði að fjöldi kvartanna hefði borist, en þær voru víst ekki nema 24 smkv. tölum sem ég sá á netinu. Kannski eru kvartanirnar fleiri, en þær eru greinilega ekki nógu margar til þess að rústa gömlum og fögrum siðum.

Vantrú er ekki fjöldahreyfing, flestir íslendingar eru ekkert á móti trúboði í skólum, Siðmennt er ekki fjöldahreyfing heldur.

Lýðræðishefðin gamla, þar sem stuðst er við vilja meirihlutans hefur reynst ágætlega, en hún er að sönnu ekki fullkomin.

En hún er þó mun betri heldur en sú hefð sem virðist vera að skapast, að láta lítinn minnihluta þjóðarinnar eyðileggja það sem mörgum er heilagt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vantrú talar ekki fyrir trúlausa á Íslandi. Ég er trúlaus og er ekki í vantrú, eins og allir vinir mínir. Við erum allir skráðir í þjóðkirkjuna, gaman af því, of latir til að skrá okkur úr henni síðan okkur var troðið í hana við fæðingu. Ég skal lofa þér Jón að það eru margfalt fleiri trúleysingjar skráðir í þjóðkirkjuna heldur en Vantrú.

Í hitt, það skiptir engu máli hversu margir kvörtuðu vegna trúboða í skóla, það er kannski hefð en það er samt rangt að hleypa prestum með sína trú á sinn "heilaga" sannleik og leyfa honum að tala við börn um trúarbrögð, ef einhver á rétt til að því miður "heilaþvo" börnin sín eru það foreldranir. Af hverju sjá þau ekki um þetta sjálf? Trúin getur ekki verið það mikilvæg fólki þegar börnin þeirra heyra bara almennilega um Jesús í skólanum. Annars hef ég haft sárarlitlar áhyggjur að mínum börnum þegar kemur af svona hlutum.

En ég er sammála þér í öllu öðru, um sálarfrið og kærleiksríkar hugsanir. Flottur pistill.

Jakob 14.12.2011 kl. 18:35

2 identicon

Takk fyrir þessar hugleiðingar Jón, þú vekur athygli á flestum hliðum þessa trúar- og vantrúarmáls, sem uppi er þessa dagana. 

Skýrir það út alveg lystilega!

Það sem virðist standa upp úr er það, að hinir vantrúuðu eru meiri vanstillingamenn þegar kemur að því að ræða þessi tilfinningamál, heldur en flestir trúmenn.

Mér finnst skjóta nokkuð skökku við, að maður sem lýsir sig trúlausan, skuli koma fram með miklu meiri sannfæringarhita heldur en hinn almenni trúmaður.

Er það ekki feilhögg að slíkt trúlaust fólk skuli tjá sig með svona miklum hita og ofsa, að ekki sé talað um ljótt orðbragð sem víða heyrist og sést, þegar málefnið er hreinlega ekki á þeirra áhugasviði?

Er málefnið svo fátæklegt að í stað raka komi fyrst og fremst ljótt tungutak og það sett á tilfallandi trúmenn.

Þetta eru mínar vangaveltur í samhengi við þinn pistil.

Sigurður Herlufsen 14.12.2011 kl. 22:47

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Jakob, ég er sammála þér að vissu leiti, en að vissu leiti ósammála. Hins vegar skil ég þína afstöðu mjög vel, það er ekkert óeðlilegt við það að vera trúlaus, sem betur fer erum við ekki öll eins.

Ég skil þína afstöðu svo vel, vegna þess að ég er mjög jarðbundinn að eðlisfari og mikil efahyggjumaður. Oft hef ég efast um að Guð sé til, en það er mjög sterk tilfinning í mínu hjarta, sem ég fæ ekki útskýrt, sem sannfærir mig um að Guð sé sannarlega til og ég finn alltaf fyrir góðum og fögrum tilfinningum þegar ég bið bænir og sit í messu.

Ég hef reyndar aldrei séð, hvorki Guð né Jesú, þetta er ákveðinn tilfinning sem erfitt er að útskýra. Ef ég hefði ekki þessa tilfinningu væri ég sennilega trúlaus, það er vonlaust að sanna tilvist Guðs og reyndar vonlaust að afsanna hana, þannig að þetta getur orðið ansi flókin rökræða, rökin eru öll huglæg og vonlaust að festa hendur á þeim.

Hinsvegar er það mín skoðun, að flestir eru þeirrar gerðar, að þá er vonlaust að heilaþvo. Þú varst alinn upp í kristnu þjóðfélagi eins og þú bendir á, ert í þjóðkirkjunni og varst eflaust fermdur.

En þú ert trúlaus, það segir okkur það, að sjálfstæður vilji mannsins verður alltaf ofan á, flestir láta ekki segja sér hvaða skoðanir þeir eiga að hafa.

En af einhverjum ástæðum, þá er til fólk sem hægt er að heilaþvo og það verður oft heilaþvegið, hvort sem kristin kemur þar nærri eður ei.

Þess vegna tel ég það betra, að þeir séu heilaþvegnir með góðum og fögrum siðum, heldur en einhverju sem gæti hugsanlega skaðað þá. Trúin bætir flesta, en sumir eru í eðlinu illir og þeir geta jafnvel misnotað kristna trú til að rétlæta illvirkin.

Þegar á heildina er litið, þá held að að öllum sé gott að tileinka sér boðskap kristinnar trúar, bænir skaða ekki börnin, svo ræður fólk vitanlega því, hvort það trúir öllu varðandi þá himnafeðga eður ei.

Jón Ríkharðsson, 14.12.2011 kl. 22:58

4 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

"Það hefði engan tilgang að neyða minni trú upp á þjóðina, væri hún sátt við sína lífssýn."
En nú er kristni alls ekki lífssýn allrar þjóðarinnar. Samt er henni otað upp á börn landsmanna.

Þú segist myndu styðja börnin þín þó þau yrðu gallharðir sósíalistar... en værirðu sáttur við að sósíalismi væri innrættur allt frá leikskólaaldri? Að börnin þín fengju að velja á milli þess að syngja Nallann með öllum hinum, dásama sósíalismann og fá djús og piparkökur hjá VG, eða sitja á bókasafninu - vegna stjórnmálaskoðana sinna? Værirðu sáttur við að vera kallaður öfgamaður og illmenni fyrir að vilja halda pólitískri innrætingu utan skólanna? 

Kvartanir eru mun fleiri en þessar 24. Það eru formlegar kvartanir til Mannréttindaráðs. Þarna eru ekki taldar með fjölmargar kvartanir foreldra við kennara og skólastjórnendur hvers skóla fyrir sig.



Síðan verð ég að segja að mér finnst sú trú heldur aum sem ekki lifir það af að börn séu ekki skikkuð til að taka hana. Börn í mörgum öðrum löndum eru ekki látin sitja undir trúboði á skólatíma, og ekki er kristnin útdauð þar. Foreldrar geta ennþá farið með börn í messur, Sunnudagaskólann, og látið þau lesa Biblíuna frá því þau vakna á morgnana þar til þau fara í skólann, og eftir skóla þar til þau sofna, allan daginn um helgar, á sumrin og í leyfum, þau geta meira að segja tekið Biblíuna með sér í skólann og lesið (ef frjáls lestur tíðkast enn í grunnskólum), beðið, og reynt að boða jafnöldrum sínum trú!

En í skólanum á að gæta hlutleysis og kenna staðreyndir, hvort sem er í pólitík eða trúmálum.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 14.12.2011 kl. 22:59

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Kristin trú er samofin okkar menningu Tinna, íslenskt þjóðfélag byggist upp á kristnum gildum.

Þú spyrð hvort ég væri sáttur við ef börnin mín fengju pólitíska innrætingu í skólanum.

Nei, ég væri ekki sáttur við það, en það er ekki það sama og sú trúarinnræting sem stunduð hefur verið í skólum landsins um árabil, en það er varla hægt að kalla það trúboð.

Börnin hafa fengið að fara í kirkju, taka að einhverju leiti þátt í bænahaldi, en stíf trúarleg innræting hefur ekki verið stunduð að neinu marki í grunnskólum og leikskólum.

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að skólabörn fái Nýja testamentið að gjöf, þau ráða svo hvort þau lesa það eða ekki, raunar held ég að fæst börn lesi það að einhverju gagni og enginn hefur verið að fylgja því neitt eftir heldur. 

Mér finnst þetta fallegir og góðir siðir sem börnunum eru kenndir, svo ráða þau hvort þau iðka trú eða ekki.

En ég hef bara gaman af því, ef einhver kallar mig öfgamann og illmenni, það skiptir mig engu máli. Ég er kominn á  miðjan aldur og nokkuð viss um mína kosti og galla, á meðan ég veld engum skaða og fjölskylda mín og vinir bera enn hlýjan hug til mín, þá varðar mig ekkert um hvað aðrir segja um mig.

Það sem þú ert eflaust að vísa til eru ummæli sem hafa verið höfð um vissa einstaklinga innan Vantrúar, en þeir hafa gefið tilefni til þess vegna gífuryrða þeira sem þeir hafa viðhaft. En ég hef enga sérstaka skoðun á þessum einstaklingum, sumir viðhafa grófan kjafthátt til þess að verja einhvern málsstað, svo geta þetta verið hin mestu ljúfmenni í sínu daglega lífi.

En við erum einfaldlega ósammála þessu með trúarragðakennsluna, ég tel að öll börn hafi gott af því að tileinka sér kristna hugsun, svo þegar þau verða fullorðin þá velja þau samkvæmt sínum smekk.

Jón Ríkharðsson, 15.12.2011 kl. 00:05

6 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Hver eru þessi "kristnu gildi" sem fólk er alltaf að tala um? Þetta orðalag gefur í skyn að þessi gildi séu séreinkenni kristninnar og finnist ekki hjá neinum nema þeim. Mig langar mikið að vita hver þú telur "kristin gildi" vera og hvort þau finnist ekki hjá öðrum en kristnum líka.


Það er ekkert að því að barn fái Nýja Testamentið, eða nokkra aðra bók, gefins. En hvers vegna er ekki hægt að dreifa þeim  utan skólatíma? Er ekki hægt að senda bækurnar með pósti - ef ekkert trúboð fylgir þeim?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 15.12.2011 kl. 17:48

7 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Nú er það einu sinni svo, að Lútherstrú er þjóðtrú á Íslandi, og hefur verið frá árinu 1550. Samt sem áður er trúfrelsi í landinu, og fólki er í sjálfsvald sett hvort það er í þjóðkirkjunni eða ekki. Fólk á þess að meira segja kost að ganga í önnur trúfélög hér starfandi. Vantrú er ekki eitt af þessum trúfélögum, en prédikar samt harðar en nokkurt annað sína skoðun. Enginn hér er ofsóttur fyrir sína trúarskoðun, eða ætti að minnsta kosti ekki að vera. Mér misbýður oft málflutningur Vantrúarmanna á hinum ýmsu vefmiðlum og bloggsíðum. Þeir ástunda það oft á tíðum (að mínu mati) að hæða fólk fyrir trú sína. Mér þykir það miður. Þeir mega hafa sína Vantrú í friði fyrir mér, og á móti vil ég fá að hafa mína trú; hvort sem hún er á Guð almáttugan, eða ljósastaurinn fyrir utan í friði.
Hvað dreifingu Nýja Testamentisins varðar, þá finnst mér allt í lagi að því sé dreift í Grunnskólum landsins. Þeir foreldrar sem ekki vilja slíkt heim til sín gætu þá einfaldlega afþakkað. Annað eins af skilaboðum fer víst á milli heimilis og skóla nú til dags að þetta væri ekki ofrausn.

Sigríður Jósefsdóttir, 15.12.2011 kl. 23:11

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þú kemur með ansi erfiða spurningu Tinna, en ég skal samt reyna að svara henni eftir bestu samvisku.

Öll trúarbrögð og flestar lífsskoðanir innihalda einhvern kærleiksboðskap ásamt góðum gildum.

Heimurinn þekkir lítið annað en trú, þannig að trúleysi er flestum framandi, en ég á gott með að skilja það sjónarmið þótt ég sé ekki sammála því. Það er ekki hægt að beita ísköldum rökum og trúa því á sama tíma að Guð sé til.

Kannski er þessi trúarlega skynjun sem ég hef misskilningur, en  trúin gerir mér gott og ég held að hún geri flestum gott, sérstaklega börnum. Trúarlegt uppeldi getur verið sterkur grunnur fyrir lífið þótt viðkomandi hafni trú á fullorðinsaldri.

Ég horfi fyrst og fremst á reynslu heimsins af mismunandi trúarbrögðum og kemst að raun um það, að mesti friðurinn ríkir þar sem kristin trú er stunduð og þar er líka meiri velmegun en í löndum þar sem Islamstrú er t.a.m. stunduð, þar virðist vera stöðugur ófriður og mening sem ég vildi ekki lifa og hrærast í, en til er mjög gott fólk sem býr í þessum löndum, ég er að tala um heildarmyndina eins og hún birtist mér.

Í löndum þar sem Búdda er dýrkaður, þar er ágætis ástand en þar ríkir grimmari stemming en í kristnu löndunum, án þess að Búddisminn boði það endilega, en Búddatrú boðar auðmýkt og kærleika á svipaðan hátt og Kristna trúin.

Því miður þekki ég ekkert land þar sem engin trúarleg gildi mynda grunn samfélagsins, þannig að æeg get ekki tjáð mig um hvernig trúleysi virkar í reynd, ég þekki það ekki, fyrir mér er óhugsandi að sjá heiminn án þess að Guð sé til.

Þetta með Nýja Testamentið, þá hafa börnin oft verið ánægð með að hitta Geir Jón svo dæmi sé tekið, hann er laginn við að spjalla við börn.

En ætli við höfum ekki bara ólíkar skoðanir á þessum málum, ég vil að trú sé hér ríkjandi og þú ekki. Þess vegna er erfitt fyrir okkur að rökræða þessi mál, en ég skil samt þína afstöðu, þótt ég vilji ekki að hún sé ráðandi afl í samfélaginu. Stundum er fólk ekki sammála, þanig er bara lífið.

Jón Ríkharðsson, 15.12.2011 kl. 23:38

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sammála þér Sigríður mín eins og alltaf, þú kemur með fín rök fyrir þínum málsstað og reyndar okkar.

Jón Ríkharðsson, 15.12.2011 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband