Föstudagur, 16. desember 2011
Við þurfum að þjálfa með okkur samkennd.
Pressan birtir frásögn einstæðrar móður, en sú ágæta kona kveðst ekki hafa samúð með stallsystur sinni sem fékk ríflega fjárhagsaðstoð frá ónefndum einstaklingi sem hefur til að bera meiri kærleik heldur en við flest.
Sú sem hafði sambandi við Pressuna segir aðstæður sínar ekki góðar, en hún sé stolt og bein í baki og hún vill bera höfuðið hátt, henni þykir hin ósköp lítilfjörleg.
Þessi ágæta kona hefur margt gott til brunns að bera og það er gott að geta staðið stoltur og beinn í baki, þrátt fyrir ömurleg kjör.
En er þá rétt af henni að fordæma hina, sem augljóslega er ekki eins sterk?
Nei, við þurfum að rækta með okkur samkennd og læra að skilja hvert annað. Þeir sem eru sterkir og borið geta höfuðið hátt, þrátt fyrir mikla erfiðleika, eiga ekki að miklast af þeim eiginleikum, heldur að sýna auðmýkt og þakklæti fyrir góða eðliskosti. Þá getur viðkomandi orðið öðrum til fyrirmyndar.
Það er auðvelt að miklast yfir eigin styrk, vegna þess að margir gleyma einni augljósri staðreynd, við veljum okkur hvorki kosti né galla, við fáum þetta allt saman í vöggugjöf, algerlega óverðskuldað.
Stundum hafa fá orð djúpstæð áhrif á mann og þau gleymast aldrei. Þegar ég var nýkominn af unglingsskeiði, þá var ég mjög upptekinn af því, hversu flottur ég væri, en það er þekkt meðal ungs fólks, svo kemur þroskinn og þá sér maður gallana líka.
Þá sagði við mig gömul og Guðhrædd kona; "það sem þú ert, það er gjöf frá Guði til þín, það sem úr þér verður, það er gjöf frá þér til Guðs". Henni fannst ég óþarflega grobbinn með mig og það var sannarlega rétt mat hjá henni.
Hafi ég góða kosti, þá eru þeir ekki mér að þakka, en mér ber þá að nýta þá til góðs.
Einstæða móðirin á ekki að tala niður til konu sem á bágt. Stundum koma erfiðir tímar í okkar lífi, við brotnum niður og okkur finnst heimurinn vera að hruni kominn. Þá þurfum við stuðning og hjálp.
Það er mjög illa gert, að segja við þann sem er niðurbrotinn í hrikalegum aðstæðum, að hann eigi enga samúð skilda.
Öll eigum við rétt á samúð og skilningi, jákvæð hvatning virkar oft vel. Oft er gott að hlusta á viðkomandi og lofa honum að tjá sig, jafnvel falla tár ef þörf krefur, en slíkt er engin dauðasynd.
Svo þegar viðkomandi hefur fengið útrás fyrir tilfinningar sínar og við gerum ekkert nema að hlusta, þá vaknar von oft hjá þeim sorgmædda og hann finnur lausnir.
Við megum ekki dæma fólk hart og gera lítið úr tilfinningum þess.
Ef við erum sterk í dag, þá er sá möguleiki fyrir hendi, að við verðum jafnvel niðurbrotin og veik á morgun.
Hver vill þá láta segja að hann sé vesalingur og aumingi?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.