Fimmtudagur, 29. desember 2011
Vanhugsað stjórnlagaráð.
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skipa hið svonefnda stjórnlagaráð til að fjalla um breytingar á stjórnarskránni er skýrt dæmi um óvandaða stjórnsýslu, því miður eitt af mörgum.
Því er hinsvegar ekki að neita, að í stjórnlagaráði sat fólk sem hafði einlægar og fagrar hugsjónir, þau voru sannarlega að gera sitt besta og lögðu sálir sínar í verkið, en það er ekki nóg.
Til þess að semja stjórnarskrá, þá þurfa þeir sem veljast til verksins að hafa afburðarþekingu á lögvísindum, margir ágætir lögrfræðingar yrðu sennilega ekki hæfir til verksins, því stjórnarskráin inniheldur æðstu lög landsins og dómstólar hafa stjórnarskrárákvæði gjarna til hliðsjónar þegar fjallað er um ýmis mál.
Haft er eftir lektor í lögfræði við Háskóla Íslands í Viðskiptalaðinu, að hann teldi ýmsa lögfræðilega annmarka vera á tillögum stjórnlagaráðsins og tekur hann nokkur dæmi máli sínu til stuðnings.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í ræðu sinni á þjóðhátíðardaginn að alíslensk stjórnarskrá væri vel til þess fallin að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar.
Ef Jóhanna hefur hugsað sér að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar með verkum sínum, þá hefur það mistekist hjá henni eins og flest sem hún tekur sér fyrir hendur.
Það er mjög undarlegt, í ljósi þess að ríkisstjórnin lofaði faglegri vinnubrögðum en tíðkast hefðu til þessa, að hún skyldi þá ganga á svig við dóm hæstaréttar varðandi kosningar til stjórnlagaþings og velja fólk til að gera tillögur um breytingar á æðstu lögum landsins, sem hefur lítið annað til að bera en góðan vilja til að gera vel.
Það á að gera miklar kröfur til þeirra sem fjalla eiga um stjórnarskrána, slíkir einstaklingar verða að hafa yfirburðaþekkingu á lögum, eins og ég benti á hér fyrir ofan.
Meðlimir stjórnlagaráðsins gerðu sitt besta, ábyrgðin er í höndum forsætisráðherra, því hún þráði ekkert heitar en breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.
Það er reyndar ekki sjálfgefið að Jóhanna hafi lesið stjórnarskrána og hafi hún gert það, þá skilur hún hana ekki.
Athugasemdir
Þessi endaleysa mun engan endi taka meðan þessi ríkisstjórn lifir og til að tryggja að dellan haldi áfram ætlar Hreyfingin að framlengja líf hennar. Atvinnulífið og fjármál heimilanna komast ekki á blað.
Ragnhildur Kolka, 29.12.2011 kl. 14:26
sú staðreynd að sjómönnum var gert erfitt fyrir með að taka þátt og kjósa í kosningunum til sjórnlagaþings og að stuðningsmönnum þess finnst það allt í lagi gerir mig einfaldlega andsnúinn því ferli sem er í gangi. Það skortir einfaldlega lýðræðislegt lögmæti.
Lúðvík Júlíusson, 29.12.2011 kl. 14:41
Sammála þér Ragnhildur.
Jón Ríkharðsson, 29.12.2011 kl. 17:33
Það er rétt sem þú bendir á Lúðvík, en ég kaus ekki sjálfur til stjórnlagaþings, mér fannst þetta óttaleg della.
Núverandi stjórnarskrá dugar ágætlega, en ég er ekki endilega að segja að ekki megi ræða breytingar á henni og jafnvel ræða það að koma með nýja stjórnarskrá.
En mér finnst þetta vera á verkssviði góðra fræðimanna í lögvísindum, stjórnarskráin þarf að vera hafin yfir allan vafa.
Jón Ríkharðsson, 29.12.2011 kl. 17:37
Þakka þér fyrir þessar hugleiðingar Jón. Það var aldrei við því að búast að för stjórnlagaráðs yrði merkileg. Í fyrsta lagi þá var hugmyndafræðin á bak við breytingar á stjórnarskrá í þjóðfélagi í upplausn röng. Í öðru lagi þá var aðferðarfræðin við mótun tillagna með þjóðfundum og stjórnlagaþingi röng. Í þriðja lagi þá var reynt að gera málið að pólitísku bitbeini fyrst of fremst til að þjóna skammtímahagsmunum Samfylkingarinnar. Við þetta bættist síðan sú óskammfeilni að virða ekki leikreglur lýðræðisins og taka ekki tillit til niðurstöðu Hæstaréttar með þeim afleiðingum að stjórnlagaráðið er stjórnskipulega ómarktækt.
Í Svíþjóð er nýlokið vinna við endurskoðun stjórnarskrár. Eftir langan undirbúning og víðtækt samráð við stjórnmálaflokka og aðra helstu áhrifaaðila í þjóðfélaginu fór svo að algjör sátt náðist um breytingar á sænsku stjórnarskránni. Þannig á að fara að. Það er hins vegar röng aðferð að ætla að efna til pólitísks óvinafagnaðar með endurskoðun stjórnarskrá eins og hugmyndafræði Þorvaldar Gylfasonar og nokkurra annarra stjórnlagaráðsmanna býður upp á, en þeir miða við alræði meiri hlutans og virðast ekki skynja að stjórnarskrá er fyrst og fremst vörn fyrir þann veika þann sem er minni máttar í samfélagi. Þannig að ekki verði gengið á rétt hans af meirihlutanum.
Jón Magnússon, 29.12.2011 kl. 23:03
Ég þakka þér innilega fyrir upplýsandi innlegg kæri vinur og nafni.
Dæmið sem þú nefndir varðandi Svíþjóð er ágætt dæmi um fagleg vinnubrögð.
Sú hugmynd að fá venjulegt fólk af götunni til að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá á örfáum mánuðum er vitanlega snargalin, þegar vitað er að lögspekingar taka sér lengri tima til verksins.
Þetta eitt og sér ætti að sýna fram á vanhæfni ríkisstjórnarinnar, svo er vitanlega hægt að nefna fleiri dæmi sem sanna vanhæfnina.
Jón Ríkharðsson, 29.12.2011 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.