Sunnudagur, 15. janúar 2012
Hvernig eiga stjórnmálamenn að vera?
Þjóðin þarfnast stjórnmálamanna sem eru raunsæir og þora að segja sannleikann, þótt hann sé ekki alltaf góð beita á atkvæðaveiðum.
Flestir stjórnmálamenn notast við hundrað og þrjátíu ára gamalt trikk Otto Von Bismarck, en hann bjó til grunninn að þessu velferðarkerfi sem er að sliga heiminn. Það var vegna þess að á þessum tíma hafði alþýðan hlotið kosningarétt og járnkanslarinn vildi gjarna fá atkvæði sem flestra.
Hann lét þess getið við félaga sína, að hver sem gæti satt kjósendur sína með allskyns bitlingum, sá væri gulltryggur með atkvæði svo lengi sem hann hefði áhuga á að ástunda pólitík.
Þetta var rétt hjá Bismarkc, en hann sá ekki langt fram í tímann frekar en aðrir menn.
Ef við skoðum Ísland, þá er þessi þóknunarárátta stjórnmálamanna að setja allt á hliðina. Þjóðin hefur aldrei náð að framleiða nógu mikið til að standa undir þessu rándýra og letjandi kerfi sem margir dásama svo mikið. Það er ekki nóg að eyða, það þarf að afla fjárins og helst að eyða minna en eytt er, ef hægt er að komast af með það.
Sá stjórnmálamaður sem lofar því að skera niður allan óþarfa í opinberum rekstri og sleppa öllum bótum til þeirra sem eru heilbrigðir og hraustir, hann sýnir ábyrgð en verður hugsanlega ekki vinsæll hjá öllum.
Enda er sá stjórnmálamaður sem leitar eftir vinsældum vita gagnslaus. Menn ávinna sér vinsældir með heiðarleika og vinnusemi, ásamt því að vera sjálfum sér samkvæmir.
Vissulega er notalegt að fá nokkra þúsundkalla í barnabætur, vaxtabætur osfrv., en engu að síður óskynsamlegt.
Við búum í óstöðugu efnahagsumhverfi þar sem verð á hrávöru, fiski og áli skiptir okkur höfuðmáli.
Þess vegna þarf fólk að venja sig við enga ríkisaðstoð, ef elli eða örorka er ekki til staðar, sumir þurfa að basla mikið og aðrir minna. Þannig er lögmál lífsins og engin stjórnmálastefna getur breytt því.
Einnig er það hverjum manni hollt að þurfa að hafa fyrir hlutunum, þá verður verðmætamatið í takt við raunveruleikann. Við lærum að meta það sem við eigum, ef við þurfum að hafa fyrir því.
Lágir skattar er það albesta sem nokkur stjórnmálamaður getur veitt sinni þjóð. Þá eykst fjárhagslegt svigrúm fólks og í framhaldinu einkaneyslan sem eykur hinn margrómaða hagvöxt, en hagvöxtur bætir ímynd landsins á erlendum vettvangi.
Stjórnmálamenn eiga að vera grimmir við embættismenn og sjá til þess að þeir eyði ekki um efni fram.
Alvöru stjórnmálamenn eru ekki að ergja fólk með óþarfa reglugerðum, þeir treysta fólki vegna þess að sá sem hefur gott sjálfstraust á gott með að treysta öðrum.
Flestir eru heiðarlegir að upplagi og ábyrg stefna stjórnmálamanna eykur líkurnar á því, að þeir sem eru ístöðulitlir, en ekki beinlínis óheiðarlegir þroskast í rétta átt.
Í næstu kosningum ætti fólk helst ekki að kjósa þá sem lofa því að redda öllu, það eru ekki til nægir peningar til þess.
En stjórnmálamönnum ber skylda til, að sjá til þess að þeir sem eru ósjálfbjarga af einhverjum ástæðum líði ekki skort, einnig verða þeir að sjá til þess að löggæsla sé í viðunandi horfi til að vernda borgaranna fyrir glæpum.
Stjórnmálamenn eiga að ræða við þjóðina og hefja sig yfir dægurþras, þeir þurfa að temja sér visku og íhuga öll mál vel og vandlega.
Athugasemdir
Ég vil benda á Jón Bjarnason, hann er ekki að lofa neinu og stendur fastur fyrir, samt er hann einn af vinsælustu ráðherrunum. Það er vegna þess að í dag vill fólk ekki fagurgala lengur og svikinn loforð heldur festu og trúmennsku þó hún kunni að vera óvinsæl. Stjórnmálamenn ættu að íhuga þetta vandlega.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.1.2012 kl. 12:42
Heiðarleiki og siðferðisleg réttlætiskennd er númer 1, hvort sem það er í stjórnmálum eða öðru. Embættismanna-kerfið er ekki síður nauðsynlegt að manna með fólki sem ekki þjáist af siðblindu, peninga/valdagræðgi og eigingirni.
Þetta er mín skoðun.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.1.2012 kl. 15:11
Ég þakka ykkur báðum fyrir Ásthildur og Anna Sigríður, ég er sammála ykkur báðum.
Þið eruð sannkallaðar heiðurskonur með sterkar skoðanir á málunum, ég er kannski ekki alltaf 100% sammála ykkur en aldrei 100% ósammála.
Þið talið báðar af skynsemi og það er fyrir öllu, heiðarleiki og hreinskilni eru dýrmætir eðliskostir.
Jón Ríkharðsson, 15.1.2012 kl. 19:05
Stjórnmálamenn þurfa að vera hugrakkir, heiðarlegir og einlægir - og fylgja sinni sannfæringu. Ekki svona Ragnar Reykás eftir hvernig vindur blæs.
Jóhanna Magnúsdóttir, 15.1.2012 kl. 19:21
Takk fyrir hlý orð Jón.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.1.2012 kl. 19:32
Takk fyrir Jón.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.1.2012 kl. 22:55
Jóhanna er alveg með þetta: "Stjórnmálamenn þurfa að vera hugrakkir, heiðarlegir og einlægir - og fylgja sinni sannfæringu."
Þess vegna spyr ég, afhverju erum við með 63 kjörna þingmenn niður á Alþingi, sem hafa nákvæmlega EKKERT af þessu. ENGINN þeirra 63ja sem þar sitja. Skrifa og segi.
Dexter Morgan, 16.1.2012 kl. 00:02
jÓN ÞAÐ ER MÁLIÐ SVONA FÓLK ER VANDFUNDIÐ Í DAG. Dekster það er mikið til í því hjá þér, en ég held nú samt að það séu nú ekki alveg allir á þingi svo slæmir!
Eyjólfur G Svavarsson, 16.1.2012 kl. 02:38
Ég held jafnvel að við sjálf getum ýtt aðeins undir betra siðferði meðal ráðamanna, með því að gera eins og við börnin, hrósa þegar þeir gera vel, og skamma þegar þeir gera rangt. það hefur nefnilega komið í ljós að ráðamenn lesa blogg og umræður á netinu, og þegar umræður verða heitar þá komast þær líka í fréttirnar. Það hafa komið upp mál hér sem stjórnvöld hafa bakkað með vegna umræðunnar. Svo ef til vill ættum við fyrst að líta í eigin barn og spyrja; hvað get ég gert til að laga ástandið. Málið er nefnilega að ef einhver ráðherra eða þingmaður sýnir frumkvæði í einhverju taka pólitískir andstæðingar hann niður, með því að hrópa að hér sé á ferðinni populismi af verstu gerð. Ekki er það til að hvetja menn til að breyta samkvæmt sannfæringu sinni. Í þessu efni bendi ég á Jón Bjarnason aftur og enn. Hann er úthrópaður sem versti ráðherra ever, hafi framið lögbrot og ég veit ekki hvað. Meðan flestir ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa framið lögbrog á einn eða annan hátt, þá er þetta það sem samfylkinskir óvinir finna honum til foráttu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.1.2012 kl. 12:52
Ekkert að þakka Anna Sigríður og Ásthildur, ég er víst fæddur með þeim ósköpum að segja alltaf það sem mér finnst og það þakka mér ekki allir fyrir, enda hrósa ég ekki öllum.
Rétt Jóhanna mín.
Dexter, þú ert nú óþarflega svartsýnn þykir mér. Þau eru nú að reyna sitt besta greyjin á þingi, vitið er oft ekki reitt í þverpokunum, ég held að það sé ástæðan.
Eyjólfur minn, ég held að það sé til fullt af góðu og vel gerðu fólki sem mundi sóma sér vel á þingi. Það eru bara ekki margir sem nenna að standa í pólitísku vafstri.
Það er rétt sem þú segir Ásthildur mín, en mér finnst Jón ekki mjög hæfur sem ráðherra, en hann stendur með sjálfum sér og það er góður kostur. Það var óttalegur flumbrugangur hjá honum í kvótamálinu svo gengur honum afskaplega illa að tjá sig. En ég er sannfærður um að Jón Bjarnason er gegnheill og sannur í öllu sem hann gerir, hann þarf bara að róa sig niður og gefa sér tíma til að hugsa, ég held að hann sé ágætlega greindur að mörgu leiti.
Svo er það víst þannig, að mannkynið er ekki fullkomnara en það er og þegar fólk fær einhver völd þá er eins og það tapi allri skynsemi.
Ég er úti á sjó núna og helvítis tölvan um borð er svo andskoti hrekkjótt og seinvirk, þess vegna svara ég ykkur öllum í einni bendu og kannski eru einhverjar innsláttarvillur hjá mér, það verður þá bara að hafa það.
Jón Ríkharðsson, 16.1.2012 kl. 15:03
Jón ég er heldur ekkert hrifin af öllu sem Jón hefur gert. En eins og þú segir og ég vildi koma að er einmitt þetta að hann stendur með sannfæringu sinni og lætur ekki hótanir trufla sig, þess vegna var honum vikið frá af spillingarmeisturunum Jóhönnu og Steingrími. Mér er nú efst í huga í því sambandi þegar konum var bannað að selja heimabakaðar kökur. Sem betur fer var reglum breytt í því máli, enda algjörlega með endemum. Það má gera meira af því að leyfa fólki að selja heimagerðan mat og leyfa bændum til dæmis að selja meira beint af býli. En svona eru nú stjórnmálin í dag, rotin og spillt því miður.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.1.2012 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.