Föstudagur, 10. febrúar 2012
Lokað á athugasemdir.
Sumir hafa kannski veitt því athygli, að ég hef ekkert bloggað í nokkra daga.
Ekki ætla ég að hætta að blogga, langt í frá, mér þykir það afskaplega gaman. Það er oftast lítið um að vera þegar ég er í landi, frúin að vinna og piltarnir þrír í skóla.
En ég er orðinn hundleiður á ýmsum sem setja inn heimskulegar athugasemdir, þannig að ég ætla að loka fyrir athugasemdir á þessu bloggi.
Þetta verður síðasta færslan í bili, sem hægt verður að rita athugasemdir við.
Ég vil ekki útiloka einn og leyfa öðrum að koma með athugasemdir, slíkt stríðir gegn minni skoðun varðandi málfrelsi. En margir eru þeir sem reglulega líta við og tjá sínar skoðanir á mínum skrifum, sem mér er farið að þykja vænt um, þetta fólk er ekki endilega sammála mér, heldur finnst mér það gott og heiðarlegt fólk, sem tjáir sig á málefnalegan hátt.
Ég verð þó að viðurkenna að á lengi hafði ég gaman af þessum apaköttum, en það er með þá eins og myndirnar um Bleika pardusinn, ég horfði mikið á þær á tímabili og hló mig máttlausan, svo hætti ég að hlægja því þetta voru alltaf sömu myndirnar.
Eins er það með athugasemdirnar, þegar það eru sömu frasarnir ár eftir ár og maður veit hver ritar athugasemd og hvað viðkomandi segir, þegar ég hef skrifað um ákveðin atriði, þá verður það leiðigjarnt og tilbreytingalaust til lengdar, þótt það hafi verið fyndið í upphafi.
Nú hvet ég þá sem hafa þörf fyrir að segja mig vera þröngsýnan, vitlausan, þræl þeirra sem í Valhöll starfa osfrv., til að tjá sig eins og þeir vilja og draga ekkert undan.
Ég hef aldrei tekið mark á vitleysingum, þannig að þeir geta ekki sært mig á neinn hátt, enda er ég ekki sár heldur finnst mér þetta tilbreytingalausar umræður og mér þykja þær leiðinglegar.
Ef einhver vildi vera svo vænn, þá hefur enginn sagt það ennþá að ég þiggi laun fyrir bloggið mitt og sé leigupenni Sjálfstlæðisflokksins, enginn hefur heldur haldið því fram að ég taki þátt í einhverskonar valdaplotti innan flokksins.
Það væri gaman á þessum tímamótum að lesa eitthvað almennilega krassandi um mig, flestir af þessum grunhyggnu þvörgurum sem líta hérna við og tjá sig eru svo máttlausir í sínum málflutningi að það hálfa væri nóg, emja eitthvað eins og; "þú ert svo fyndinn", "ég er að drepast úr hlátri" osfrv., það er ekkert bit í því, maður er oft í vandræðum með að svara svona aumingjalegri gagnrýni.
Nota svo tækifærið og rakka mig niður, ég loka fyrir athugasemdir næst þegar ég blogga.
Athugasemdir
Blogg er ekki blogg nema athugasemdir séu leyfðar. Þú ætlar s.s. að vera greinahöfundur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.2.2012 kl. 06:39
Hvað er meira gefandi en að rökræða við lessendur sína?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.2.2012 kl. 10:55
Það góða við bloggin þín Jón eru fjörugar umræður. En því miður hefur þú eins heima hollur og þú ert þinum flokki ekki náð að sannfæra okkur hin um að allt sé komið í lag. En sjóhetja eins og þú mátt ekki gefast upp þó móti blási. Einn góðarn veðurdag munu forystu menn Sjálfstæðisflokksins átta sig á því að afturgöngurnar eru bara eitt atkvæði hver. Skammdegið líður hjá núna eins og alltaf á landinu bláa
Ólafur Örn Jónsson, 10.2.2012 kl. 11:24
Að miklu leyr vil ég taka undir með Gunnari. Ég hef haft gagn og gaman af því að lesa bloggið þitt og stundum hef ég gaman af hinum ýmsu "fáránlegu"cathugasemdum sem hafa komið. Ég hef nú fengið nokkrar svolítið "kaldar" athugasemdir inn hjá mér en ég lít á þær sem hluta af "pakkanum" og sem betur fer er ég bara með það þykkan skráp að þær hafa engin áhryf á mig. Ég vona svo sannarlega að þú endurskoðir ákvörðin þína..................
Jóhann Elíasson, 10.2.2012 kl. 12:17
Gunnar, kannski er það rétt hjá þér, en margir taka ekki við athugasemdum á sínum bloggum.
Eflaust var kveikjan að þessari hugsun hjá mér sú, að ég nenni ekki að lesa athugasemdir frá sumum, mér finnst þær leiðinlegar og vitlausar, þótt ég hafi um tíma haft gaman af þeim.
Ég get varla hugsað mér að gera eins og sumir, að loka fyrir ákveðna aðila, því mér finnst það ekki í anda málfrelsis.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 12:18
Það er mjög gefandi að rökræða við fólk Sigurður og afskaplega þroskandi.
En það rökræðir ekki nokkur maður við suma af þeim sem setja inn athugasemdir, þeir hafa ekki þá greind til að bera, sem þarf til að rökræða.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 12:21
Sæll Jón.
Ég les oft blog skrif þín og finnst þau mjög góð, þó svo að við séum ekki alltaf sammála.
Mér finnst leiðinlegt ef að þú ætlar að loka á athugasemdir hér.
Bendi þér á að þú getur farið millileið eins og margir gera, þar á meðal ég, en það er að athugasemdir birtast ekki fyrr en þú hefur samþykkt þær.
Ég hef hleypt öllum athugasemdum í gegn og ekki gert neinn greinarmun á því hvort að málefnalega er skrifað með eða móti mínum skoðunum.
Ég hef á tveimur árrum aðeins hafnað birtingu á einni athugasemd og þó hún tæki undir skoðanir mínar þá var hún svo sóðalega skrifuð að hún var aðeins til vansæmdar fyrir viðkomandi og annars góðan málsstað líka.
Gunnlaugur Ingvarsson 10.2.2012 kl. 12:27
Óli minn, ég veit ekki hversu heimahollur ég er Sjálfstæðisflokknum. Það er margt að í honum, en hann er sá eini sem hefur getað stjórnað þokkalega til þessa.
Við lifum náttúrulega í meingölluðum heimi Óli minn, þannig að það er engin von um stjórnmálaflokk sem hefur enga galla.
Svo er það líka þannig, að það sem einum þykir mjög alvarlegur galli, það getur öðrum þótt vera góður kostur.
Ef ég nota sjálfan mig sem samanburð við Sjálfstæðisflokkinn, þá er ég meingallaður, en ég hef ýmsa góða kosti líka. Ég myndi aldrei geta sannfært hvorki sjálfan mig né aðra um, að allt væri í lagi hjá mér, en ég er engum til skaða.
Sama er með Sjálfstæðisflokkinn, það verður aldrei hægt að segja að allt sé í lagi þar á bæ, en hann er engum til skaða og hann gerir meira gagn en ógagn.
En ég get hinsvegar sagt á svipuðum nótum og Friðrik mikli sagði um mennina og hundinn, að því meir sem ég kynnist vinstri flokkunum og nýjum framboðum, því vænna þykir mér um Sjálfstæðisflokkinn minn, én hann verður aldrei fullkominn, það verður alltaf eitthvað sem þarf að laga.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 12:28
Ég er nú allur að mýkjast í þessari ákvörðun minni Jóhann minn, hér hafa komið athugasemdir frá mönnum sem ég met mikils og þú ert vissulega í þeim hópi.
Ætli ég endurskoði ekki þessa ákvörðun og leyfi athugasemdir áfram. Ég hef líka þokkalegan skráp, ég var bara orðinn leiður á þessu bulli sem tröllríður netinu yfirhöfuð.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 12:34
Ég skoða þetta sem þú segir Gunnlaugur, með opnum huga.
Oft hef ég haft gaman af góðum athugasemdum og gefandi samræðum, ætli ég láti einhverja apaketti nokkuð eyðileggja þá ánægju fyrir mér.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 12:37
Ég segi fyrir mitt leyti að ef þú lokar á athugasemdirnar, þá ert þú hægt og rólega að stimpla þig út sem alvöru bloggari.
Það þykir mér mjög miður því þú ert einn af þeim fáu sem ég les reglulega.
Ég les aldrei blogg sem hafa lokað fyrir athugasemdir því það, að mínu mati, vantar allan neista í þau.
Höfundur getur skrifað hvað sem er en neyðist aldrei til að bakka upp innihald pistilsins, oftar en ekki þá kemur ný sýn á pistilinn í athugasemdunum, þegar maður sér hvert höfundur er í raun að fara.
Vissulega átt þú rétt á þínu vali en í það minnsta verður þú einum lesandanum færri með þessari aðgerð.
Hafðu það samt sem best...
runar 10.2.2012 kl. 12:43
Heill og sæll Jón Sjóhundur æfinlega; sem og aðrir góðir gestir, þínir !
Um leið; og ég vil taka undir skynsamlegar ályktanir, þeirra : Gunnars Th. - Sigurðar og Ólafs Arnar, hér, að ofan, vil ég benda þér á, að með því að loka á athugasemdakerfi þitt, ertu að einangra þig, frá umræðu allri, Jón minn.
Bendi þér á; að til dæmis, með lokun athugas. kerfis síns, hjó Sveinn Rosenkrantz Pálsson (Sveinn hinn Ungi - Dæmigerði Moggabloggarinn - Doddi; eins og hann hefir kallað sig, oftlega), ágætur hugmyndafræðilegur andstæðingur okkar, á áhuga minn - sem margra annarra, til lesningar, á oft á tíðum, hinum ágætustu pistlum hans, hér á vef - og; sama gildir, um allmarga aðra svo sem, líka.
Svo; gætu þau Árni Matthíasson, og Soffía Haraldsdóttir, frammáfólk umsjónar, yfir blog.is, uppi í Hádegis móum, þar; suður við Rauðavatn, gefið sér enn frekari átyllu, til þess að setja blog gluggann, allra neðst, á síðu Mbl. vefjar, en það verður að viðurkennast, að mér hefir runnið í skap, hin seinni misserin, hversu þao Árni og Soffía eru tómlát, gagnvart þessu spjallsvæði okkar - þrátt fyrir; margföld skilaboð mín til þeirra, síðan ég hitti þau; persónulega, Snemmsumars, í fyrra, Jón minn.
Þannig að; þú skalt gaumgæfa betur, þessi orð mín, ekki síður en þeirra ágætu þremenninga, hér; fyrir ofan mig.
Þarna sérðu nú Jón minn; að alveg get ég sent þér skeyti vís, án þess að atyrða þig fyrir FLOKKS þjónkun þína, alkunna - þó svo; ég kysi gjarnan, að þú tækir að opna betur, þína ásjónu, fyrir þeim skemmdarverkum, sem flokka skriflin ÖLL, hafa unnið, á okkar samfélagi.
Vísa þar; til uppljóstrunar Lífeyrissjóða scandalanna, sem ég - ásamt fjölda annarra, höfðum raunar vitað um - OG SKRIFAÐ um, um langa hríð, eins og þér er kunnugt.
Ígrundaðu vel; þessa orðræðu mína, áður en lengra heldur, að nokkru, Jón minn.
Með beztu kveðjum; sem æfinlegast, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason 10.2.2012 kl. 12:45
e.s. Tek fram; að ég hefði átt að vera, nr. 4 - en lenti á símaspjalli, við einn bræðra minna, og seinkaði þar með, innkomu minnar athugasemdar.
ÓHH
Óskar Helgi Helgason 10.2.2012 kl. 12:47
Óskar minn Helgi, ég er nú endanlega hættur við þessa ákvörðun mína.
Athugasemdir verða opnar eftir sem áður, þið sem hvatt hafið mig til þess, náðuð að sannfæra mig.
Það er staðreynd, að meirihluti þeirra sem koma með athugasemdir er öndvegisfólk, þannig að ég hef þær opnar og öllum er frjálst að tjá sig eins og þeir vilja.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 13:44
Rúnar, ég hef fallið frá þessari ákvörðun minni, þannig að vonandi kemur þú áfram í heimsókn á síðuna mína.
Flest samskipti við þá sem koma í heimsókn og gera athugasemdir eru mjög góð, það er, eftir á að hyggja, ekki skynsamlegt að eyðileggja þessi góðu samskipti út af einhverjum apaköttum sem vita ekkert hvað þeir eru að segja.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 13:47
Flott hjá þér Jón, flott hjá þér að breyta stefnunni.
Að mínu mati er rödd sjómanna Íslands sjaldséður hvítur hrafn hér í bloggheimum og þeim má alls ekki fækka sökum illkvittnislegra athugasemda "kjána" sem aldrei hafa í saltan sjó migið.
Þetta segi ég sem starfsbróðir þinn.
Bestu kveðjur..
Rúnar
runar 10.2.2012 kl. 14:17
Til hamingju: Jón minn með að hætta við að loka á athugasemdir, en það er einmitt það sem má ekki gera eins og hefur komið fram hér fyrir ofan, þá er þetta ekki blogg lengur. En sem betur fer, þá eru nú fólkið jafn misjafnt og það er margt og þess vegna finnst einum það ágætt sem einn segir þegar öðrum finnst það ómögulegt, en það verðum við að taka með jafnaðargeði ef við ætlum að vera með, allir mega hafa sína skoðun þó svo að okkur finnist hún hundfúl!Oft er ég nú að bulla á blogginu um mál sem ég hef ekki hundsvit á og kann það að fara í pirrurnar á mörgum, en mér er bara alveg sam!, það fer sumt í pirrurnar á mér líka!! KV Bláskjár.
Eyjólfur G Svavarsson, 10.2.2012 kl. 16:07
Sæll minn góði félagi Jón Ragnar. Það gleður mitt lýðæðishjarta að þú skulir einmitt á þennan hátt hætta við að láta rugludallana eyðileggja fyrir okkur hinum (ekki rugludöllum ha ha) sem viljum rökræða við þig og fá að tjá okkur um þín sjónarhorn. "Einmitt á þennan hátt" segi ég, það er að hlusta á rök annara og hafa þann þroska og víðsýni til að skipta um skoðun byggt á rökræðu. Kveðjur frá Svíaríki.
Sveinn Úlfarsson 10.2.2012 kl. 17:30
Já Rúnar minn, ég verð að viðurkenna það, að stundum lætur maður skynsemi víkja fyrir tilfinningum, það gerist nú ekki oft hjá mér en brennur þó við stundum.
Þið sem að rituðuð athugasemdir við þetta blogg eruð allir skynsamir menn og það er gott af fá stundum lánaða dómgreind hjá öðrum.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 17:52
Þakka þér Eyjólfur minn, mér finnst ekkert fúlt við það að fólk hafi aðrar skoðanir en ég.
Margir af mínum uppáhalds lesendum, sem eru duglegir við að setja fram athugasemdir, eru mér ósammála um margt.
Það eru helst rugludallarnir sem geta farið í taugarnar á mér og þessir emjandi vælukjóar, en það er bara þroskandi að takast á við þá líka.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 17:54
Til hamingju Jón.
Þó þú sért frjálslyndur íhaldsmaður þá hefur þú þá góðu eiginleika að geta hlustað á aðra og tekið rökum og breytt skoðunum þínum og viðhorfum ef svo ber undir.
Það ber þess merki að þú ert þroskaður maður og okkur ber að fagna því að þú ætlir að hafa athugasemdarkerfið þitt opið, þó svo að þú getir auðvitað gert tæknilegar breytingar á því eins og ég benti þér á.
Gunnlaugur Ingvarsson 10.2.2012 kl. 17:55
Rétt minn góði vinur Sveinn Egill, við eigum að takst á við rugludallana og hafa gaman af því.
Ég mun eins og áður segir, halda áfram að hafa opið fyrir athugasemdir, það er nauðsynlegt að geta breytt um skoðun ef manni er bent á, að maður sé að gera rangt.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 17:56
Sæll Jón, ég tek undir með þeim sem hvatt hafa til að hafa opið fyrir athugasemdir. - Mér finnst samt allt í lagi að fólk ákveði á sínu heimabloggi, hvort að þeir t.d. hafi opið fyrir nafnleysingja með ómálefnalegar athugasemdir, jafnvel dónaskap. - Sjálf erum við að blogga undir nafni og oft á persónulegum nótum, og því mjög ójafn leikur að leggja sig svona á borðið gegn hettuklæddum einstaklingum. - Það að vera almennilegur og virða aðra, er ekki það sama og leyfa fólki að valta yfir sig óáreitt. Við verðum að fá leyfi til að setja okkar mörk.
Sjálfri finnst mér ég læra mjög mikið af því að skiptast á skoðunum, og fagna umræðu - hvort sem fólk er mér sammála eða ekki, en framsetningin skiptir svo sannarlega máli. Hver og ein/n þarf að huga að eigin farsæld og velferð, við berum ábyrgð á eigin heilsu - og ef að skítkastið er farið að hafa þau áhrif að okkur líður illa, þá ekki hika við að loka á viðkomandi bloggara. - Það er á okkar eigin ábyrgð hvernig við látum/leyfum fólki að koma fram við okkur.
Enda svo þetta innlegg á orðum úr Biblíunni:
"Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem gott er til uppbyggingar." Ef. 4.29
Jóhanna Magnúsdóttir, 10.2.2012 kl. 20:11
Þakka þér fyrir Gunnlaugur, ég tek alltaf vel við ábendingum og mér þykir ávallt mjög vænt um, þegar fólk sýnir mér þann vinskap að benda mér á, þegar ég veð í villu.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 21:50
Sæl Jóhanna mín.
Ég verð nú að viðurkenna það, að ég vorkenni fábjánum talsvert, sumir kalla það aumingjagæsku, þannig að ég vil ekki svekkja þessa ræfla með því að loka á þá. Þetta eru svo andskoti viðkvæm kvikindi, þeir ausa óhróðri yfir aðra en væla svo eins og stungnir grísir ef einhver andar á þá.
Sumir í þessum hópi eru það skynsamir að koma ekki fram undir nafni, því þá þyrftu þeir að standa fyrir því sem þeir segja, en þeir þora því aldrei.
Vesalingar eru hluti af mannkynsflórunni og okkur hinum ber að sýna þeim vinskap og umburðarlyndi, það verður svo launað á efsta degi.
Núna þurfa þessir apakettir ekkert að vera að stressa sig á að koma með svívirðingar á mína persónu, þeim er frjálst að gera það áfram, því ég hef, eins og áður greinir, ákveðið að hafa opið athugasemdakerfi fyrir alla flóru mannlífsins. Það er öllum frjálst að tjá sig á þessari síðu og ég spyr hvorki að greind, andlegu atgervi né heldur innræti viðkomandi.
Hjá mér og Guði eru allir jafnir.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 21:56
Flott hjá þér að hætta við að loka á athugasemdir. Ég les bloggið þitt þó ég skrifi ekki alltaf athugasemdir.
Lúðvík Júlíusson, 10.2.2012 kl. 21:58
Þakka þér fyrir Lúðvík, ég les líka oftast bloggið þitt og er glettilega oft sammála þér, þótt við séum ekki á sömu línu í pólitík.
En við viljum báðir afnema gjaldeyrishöftin og það er mikið þarfaverk sem vonandi verður farið í sem fyrst.
Jón Ríkharðsson, 10.2.2012 kl. 22:16
"Hjá mér og Guði eru allir jafnir." skrifar þú Jón minn, - en ekki hjá hverjum? -
Er þetta ekki full stórt upp í sig tekið að gera sig jafnan Guði? -
Setur þú aldrei menn á stall, t.d. fyrir það sem þeir gera, eða tekur undir það að hæðast að öðru fólki.
Ertu ekki nýbúinn að lofa grein Guðberg Bergssonar þar sem hann hæðist að bílskúrshljómsveitarmönnum og fleira fólki og einmitt að setja Guðberg á stall? -
Í öðru orðinu kallar þú fólk fábjána og apaketti og í næsta segir þú að fyrir þér séu allir séu jafnir? -
Finnst þér uppbyggilegt að nota þessi nöfn á manneskjur af holdi og blóði og hvernig flokkar þú fábjána og apaketti ef að allir eru jafnir? -
Verð að viðurkenna að ég skil ekkert í þér núna.
Við leitumst að sjálfsgöu við að fara ekki í manngreinarálit, virðum manninn og notum ekki háð eða níð. Það er eitt form sjálfsupphafningar (hroka) að gera lítið úr og hæðast öðru fólki eins og Guðbergur Bergsson gerir reyndar í grein sinni.
"Þakka þér Guð fyrir að ég er ekki eins og hinir" ... gæti hann verið að segja.
Jóhanna Magnúsdóttir, 11.2.2012 kl. 09:36
Ég skal með ánægju útskýra þetta betur hjá mér Jóhanna mín, ég sé að þú misskilur mig aðeins.
Þetta með að ég og Guð lítum svo á að allir séu jafnir er nú svona meira í gríni en alvöru, stundum finnst mér gaman að koma með sterkar samlíkingar. Vitanlega er ég ekki jafn Guði, en við eigum að stefna að því.
Þú þekkir Biblíuna, en Jesú sagði m.a.; "verið fullkomnir eins og faðir yðar á himnum", það er hægt að hártoga svona umræðu fram og til baka Jóhanna mín, en við þurfum þess ekki.
Sjálfur er ég stundum fábjáni, rugludallur og bölvaður apaköttur, slíka birtingamynd gef ég stundum af mér.
Þeir sem að ég kalla þessum nöfnum gefa slíka birtingamynd með sínum athugasemdum, en ég hef líka áður tekið það fram, að þeir hafi örugglega marga góða kosti til að bera, en í svona umræðum eru þeir óttalega klaufskir.
Maður kynnist fólki í bloggheimum á ákveðinn hátt og myndar sér skoðun á því.
Þú ert afskaplega pen kona, ekki mjög ólík minni ástkæru eiginkonu, en hún er afskaplega orðvör þessi elska.
Þegar við kynntumst fyrst, þá roðnaði hún stöðugt í öllum fjölskylduboðum, hún var logandi hrædd um að þessi grófi sjóari sem hún var að kynna fyrir fjölskyldu sinni, sem er ákaflega vel menntuð og pen, myndi stuða alla svo mikið, að okkur yrði aldrei framar boðið.
En það fór þannig með hana og hennar fjölskyldu, að þau komust að því að þessi grófi sjóari er ekki alslæmur, hún er ennþá gift mér og fjölskylda hennar er ekki búin að útiloka mig ennþá, tuttugu árum seinna.
Þeir sem að kalla fólk fífl og öðrum slíkum uppnefnum, án þess að rökstyðja það nokkuð frekar, það er ekki hægt að taka svoleiðis lið alvarlega. Ég get þó rökstutt ástæðuna fyrir því, að ég kalla þessa einstaklinga þessum nöfnum, en þeir kunna ekki að rökræða og geta það þess vegna ekki.
Svo er það staðreynd, að þessir einstaklingar eru ekki að kalla mig fífl eða öðrum nöfnum, þeir eru að lýsa sinni eigin reiði og sársauka vegna sinnar reynslu af lífinu. Þeim er ómögulegt að líta lífið rausæum augum og telja sig og jafnvel þjóð sína vera fórnarlömd einhverra ógnarafla.
Að þessu leiti eru þeir óttalegir kjánar, en einn sem tilheyrir þessum hópi er mjög klár í kollinum, afburðamaður á sviði tækni og mikill hagsleiksmaður. En hann er klaufi í rökræðum og hefur lítinn skilning á þjóðfélagsmálum.
Jón Ríkharðsson, 11.2.2012 kl. 11:46
Jóhanna mín, mig langar til að bæta aðeins við og rökstyðja mitt mál betur.
Við erum öll jöfn, en ólík og það er mjög gott.
Við notum hvert annað sem spegla, þannig þroskumst við og til þess að hægt sé að þroskast þá þurfum við að læra.
Þeir sem að ég kalla fábjána, rugludalla osfrv., eru nauðsynlegir vegna þess að þá sjáum við hvernig við eigum ekki að vera.
Lífið er hringrás, sumir rugludallar þroskast og þá koma aðrir í staðinn til að vera speglar fyrir aðra.
Rugludallarnir eru ekki fyrir neðan þá sem teljast ekki í þeirra hópi, heldur standa allir jafnfætis og við höfum möguleika til að læra hvert af öðru.
Það býr í mér rugludallur, eins og ég nefndi í síðustu athugasemd, en af því að ég veit af honum, þá tekst mér oftast að halda honum niðri, en það er mikil vinna.
Við erum öll jöfn, en sumum tekst að sá meiru en aðrir gera og þeir uppskera þá meira. Þeir sem að leggja mikið á sig til að þroska sig og skara framúr, vera fremstir meðal jafningja, þeir uppskera meiri virðingu en aðrir njóta, en samt eru þeir ekki endilega á stalli þótt sumir vilji setja þá þangað.
Það er hættulegt að setja fólk á stall, stórhættulegt fyrir þá sem eru settir á stall. Það er vegna þess að öll höfum við galla og vonbrigði fólks verða mikil þegar það uppgötvar að sá sem settur er á stallinn er ósköp venjuleg manneskja.
Og sá sem hefur verið á stallinum fellur þá af honum og það er mikið sjokk fyrir hann, að hafa vanist aðdánun annarra lengi og allt í einu er hann fyrirlitinn af þeim sem dýrkuðu hann.
Ég ætla nú að vona Jóhanna mín að mér hafi tekist að sannfæra þig um þá staðreynd, að fyrir mér eru allir jafnir.
Hrokann er mér meinilla við, hann læðist stundum aftan að mér en ég vona að mér takist að halda honum í skefjum sem lengst.
Jón Ríkharðsson, 11.2.2012 kl. 12:09
Kæri Jón Ríkharðsson.
Ég bið þig um að halda áfram að blogga, og leyfa allar misvitar athugasemdir. Það er nefnilega eina færa leiðin að samstöðu þessara þjóðar, að rökræða af heiðaleika öll sjónarmið.
Þú ert með sterka réttlætiskennd, og það er mikilvægast í samfélag-umræðunni. Ekki láta pólitísk svika-öfl kúga þig í tjáningarfrelsinu.
Þú átt þína innstu sannfæringu skuldlausa á þessari jörð, eins og allir aðrir, hvað sem hver segir.
Við þurfum sárlega á réttlætis-sjónarmiðum eins og þínum að halda í réttlætis/rökræðu-umræðunni.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.2.2012 kl. 17:12
Misvitrar átti það að vera...
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.2.2012 kl. 17:14
Takk fyrir ítarlegar útskýringar Jón, - þú ert góður maður.
Jóhanna Magnúsdóttir, 12.2.2012 kl. 10:21
Gott hjá þér Jón að hverfa frá því að loka fyrir athugasemdir
Benedikta E, 12.2.2012 kl. 13:54
Þarna sérðu Jón þú mátt ekki loka á athugasemdir þú hefur alltaf eitthvað gott fram að færa og fólk tekur því vel.
Mér lýst vel á ummæli Styrmis í Silfrinu og tek undir með honum og ef fleiri hlusta á karlinn og leyfa sér að horfa til framtíðar þá vonadi sjá menn að Davíð-ysminn og "ný frjálshyggjan" áttu ekki samleið með fólkinu í landinu.
Það að flokkur passi ekki við þennan eða hinn á ekki heima í þessu tilfelli. Þegar maður sýnir af sér spillingu og þú verður vitni að því þá er skylda okkar sem borgara að benda á það og hætta að fylgja persónunni. Annars berum við ábyrgð til jafns við gerandann. Því miður lét ég kúga mig til að hætta að deila á stefnu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar og verð að búa við þá skömm alla ævi.
Ólafur Örn Jónsson, 13.2.2012 kl. 14:29
Ég þakka ykkur öllum fyrir hlýleg orð í minn garð, Anna Sigríður, Jóhanna, Benedikta og Óli.
Núna er ég norður í Skagafirði að njóta þess að láta dóttur mín dekra við mig, ég fékk stutt leyfi til að kíkja í tölvuna hjá henni,en nú er kominn tími til að borða nýbakaða köku og eiga gott kvöld með dömunni.
Jón Ríkharðsson, 13.2.2012 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.