Sjómenn eru alltaf í námunda við dauðann.

Þessi sorgarfrétt af banaslysinu um borð í Sigurbjörgu ÓF vekur mann til umhugsunar varðandi öryggismál sjómanna.

Vissulega má ekki gleyma því, að Slysavarnaskóli sjámanna hefur unnið frábært starf og ekki er vafi á, að hægt er að þakka þeim að stórum hluta þá staðreynd, að banaslysum á sjó hefur fækkað umtalsvert.

Ekki veit ég hvað olli dauða mannsins á Sigurbjörgu, en sannarlega sendi ég fjölskyldu hans mínar dýpstu og einlægustu samúðarkveðjur, sannarlega deili ég sorginni með þeim.

Svona fréttir hreyfa að sjálfsögðu við mér, því ég veit að dauðinn er alltaf nálægur okkur úti á sjó. Maður þarf stöðugt að vera á varðbergi, því hætturnar leynast víða.

Á niðurskurðartímum er það mikilvægt fyrir stjórnvöld að vita, að ekki má skera niður varðandi öryggismál sjómanna, það þarf frekar að bæta í, ef eitthvað er.

Þyrlumálin hafa ekki verið í nógu góðu standi, en þeir sem við þau mál starfa eru til fyrirmyndar.

Seint á síðasta ári þurftum við á aðstoð þyrlunnar að halda,það varð slys um borð en sem betur fer ekki lífshættulegt.

Það var tilkomumikið að sjá þyrluna koma, þeir voru eldsnöggir að hífa hinn slasaða um borð, jafnvel þótt það hafi verið leiðinda bræla.

En ég þekki líka eitt dæmi sem hefði getað endað illa.

Sjómaður fékk hjartaáfall um borð í togara og þyrlan var ekki tiltæk. Skipið þurfti að sigla með manninn til hafnar, í heila sex tíma.

Það var ekki stjórnvöldum að þakka, að maðurinn lifði.

Stjórnvöldum ver skýlaus skylda til að hafa þessi mál í lagi. Það þarf alltaf að vera tiltæk þyrla, því skip hætta ekki við að sökkva þegar þyrlan er í reglubundnu eftirliti og engin önnur til að leysa hana af hólmi.

Sem betur fer þá höfum við upplifað ár, þar sem ekkert banaslys var á sjó.

Við getum aldrei komið í veg fyrir banaslys á sjó, en það er nauðsynlegt að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að fækka þeim.

 


mbl.is Sjómaðurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband