Mánudagur, 2. apríl 2012
Hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn?
Í upphafi vil ég taka það fram, að ég get ekki svarað fyrir þingmenn eða forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég hef talað fyrir því að forysta flokksins láti fara fram hreinskilið uppgjör og að kjósendum verði gefinn kostur á að mæta og spyrja erfiðra spurninga.
Þeir sem grunaðir eru um vafasama hluti eiga að svara fyrir sig sjálfir.
Saga mín í hinni pólitísku umræðu er stutt, styttri en margir lesendur mínir augljóslega halda, einnig tengsl mín við Sjálfstæðisflokkinn.
Ég skráði mig í flokkinn árið 1986, bæði vegna þess að mér leist ágætlega á að kjósa hann og einn góður vinur minn þurfti á atkvæði að halda í prófkjöri sem haldið var það ár.
Ég hef lítið tekið þátt í pólitískri umræðu í gegn um tíðina, en vitanlega haft skoðanir eins og flestir hafa. En ég var ekkert sérstaklega sanntrúaður sjálfstæðismaður, mér fannst ekkert mál að samþykkja það, að hinir flokkarnir gætu haft eitthvað gott til málanna að leggja. Ég var svona tiltölulega víðsýnn í skoðunum og er það reynda enn.
Það sem að fékk mig til að taka fullan þátt í umræðunni var raunverulega hrunið á haustmánuðum 2008.
Heibrigð skynsemi sagði mér að það væri einfaldlega rangt að hengja þetta allt á Sjálfstæðisflokkinn, hann var aldrei einn í ríkisstjórn, mér fannst umræðan hjá Samfylkingunni hafa falskan hljóm, þau voru jú í stjórn með sjálfstæðismönnum.
Þá sá ég það að sjálfstæðismenn gátu ekki varið sig. Ég hef aldrei þolað það, þegar ráðist er á fólk með ósanngjörnum hætti, þannig að ég byrjaði ótrauður að verja flokkinn á síðari hluta ársins 2009.
Það er gaman að því, þegar fólk heldur því fram, að ég láti forystuna og Valhöll mata mig á upplýsingum.
Ég þurfti að beita suma þingmenn flokksins hörðu, skömmu eftir hrun, til að fá þá til að sjá, að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki alslæmur, sjálfstraustið var í molum.
En nóg um það, ég er ekki að berjast fyrir einstaka þingmenn né heldur forystuna. Vissulega ver ég þá sem mér finnst ráðist á, með ósangjörnum hætti. Ég hef varið bæði Jóhönnu og Steingrím þegar mínir flokksfélagar hafa sakað þau um óheiðarleik og spillingu. Það á enginn skilið slíkar sakagiftir nema að undangenginn vandaðri rannsókn og dómi í framhaldi af henni.
En þegar ég kynnti mér sögu Sjálfstæðisflokksins og vark hans, bar það saman við sögur og verk hina flokkana, þá varð ég sannfærður um það, að enginn kæmist í hálfkvist við Sjálfstæðisflokkinn.
Sjálfstæðismenn hafa reyndar ekki staðið sig nógu vel í hagsstjórninni, en engu að síður mun betur en hinir flokkarnir sem í boði eru. Einnig hafa þeir verið klaufar í samskiptum við kjósendur sína, það er ansi stór galli.
Hinsvegar styð ég forystuna og alla flokksmenn í því, að styrkja grunn sjálfstæðisstefnunnar og fá hana til að blómstra.
Að lokum langar mig til að nefna eitt dæmi sem sýnir yfirburði sjálfstæðisstefnunnar í verki.
Á lýðveldistímanum hefur aldrei verið einn flokkur við völd, þótt það megi finna dæmi um það, en það var svo skammur tími í senn, þannig að slík dæmi eru ekki marktæk.
En fyrir daga lýðveldisins þá ríkti stjórn Íhaldsflokksins í okkur ár og JónÞorláksson var fjármálaráðherra í þeirri ríkisstjórn.
Segja má, í anda amerískra bíómynda, að Jón Þorláksson hafi verið sjálfstæðisstefnan. Hann var líka höfundur hennar, ásamt öðrum og hann vék ekkert frá þeirri stefnu.
Árið 1924 gerði þensla vart við sig í íslensku efnahagslífi. Í stað þess að auka ríkisútgjöld og gleðja kjósendur, þá skar hann niður ríkisútgjöld og greiddi niður skuldir. Flestir eru sammála um að Jón Þorláksson hafi unnið mikið afrek á þessum tíma, enda vann hann í anda sjálfstæðisstefnunnar.
Svo minnkaði þenslan og það kom samdráttur. Þá stuðlaði Jón að opinberum framkvæmdum, setti tímabundinn halla á ríkissjóð, til að halda uppi hagvexti í landinu.
Þetta er rétt fjármálastjórn, en því miður hafa sjálfstæðismenn ekki fylgt þessari góðu stefnu Jóns Þorlákssonar í hvívetna, en þeir sýndu vissulega lit með því að greiða niður skuldir.
Athugasemdir
Góðan dag Jón Ragnar.
Það er ekki stefnan sem er slæm, það eru alltaf einhverjir sem kunna ekki með hana að fara. Mér fannst vera svo hrokafullt andrúmsloft í kring um Davíð Oddson, þegar hann var við völd, að ég hætti þá að kjósa flokkinn. Einnig það að sjá sjávarþorpin um allt land leggjast í rúst vegna kvótabrasks. Var ekki nóg að banna sölu og leigu á kvóta, og framfylgja því? Og þeir sem ekki gátu veitt hann , áttu bara að skila honum. Er kvótakerfið svo slæmt í sjálfu sér, þarf ekki bara vandaðri meðhöndlun á því?
Kv. Jón
Jón Thorberg Friðþjófsson, 2.4.2012 kl. 17:24
Góðan dagi Jón Thorberg og þakka þér fyrir þitt innlegg.
Það er rétt hjá þér, með kvótabraskið,það fór út í öfgar.
Umræðan um fiskveiðimálin hefur líka farið út í öfgar, það er miklar og heitar tilfinningar í þessu og það er eðlilegt. Við íslendingar erum vanir því að fá að veiða og það er alltaf erfitt að horfast í augu við það, þegar eitthvað sem hefur verið leyft lengi fer allt í einu að vera bannað.
Það þarf að ræða þessi mál á öfgalausum nótum, en segja má að kvótaumræðan sé varla kominn á byrjunarstig, þótt hún hafi verið í gangi ansi lengi.
Mér er nákvæmlega sama hvað kerfið heitir, ég vil hámarka hagnaðinn af auðlindinni.
Við búum við ráðleggingar Hafró og það er farið eftir þeim í einu og öllu. Miðað við þær forsendur, þá er núverandi kerfi mjög gott. Sá rammi sem er byggður utan um fiskveiðarnar gerir ráð fyrir því, að ekki megi veiða meira magn en Hafró leggur til. Þá má segja að flotinn hafi verið of stór til að veiða svona lítið magn, einhverjir þurftu að fara úr greininni. í sjálfu sér var ekkert slæmt við það, að þeir sem að treystu sér til að vera áfram að veiða, myndu kaupa aðra út úr henni.
En fáránleikinn við kerfið var sá, að útgerðir sem áttu kvóta og voru í rekstri, voru að leigja kvóta og græða á því.
Til þess að hægt sé að auka nýliðun í greininni þá þurfum við að auka aflaheimildir, öðruvísi gengur dæmið ekki upp.
Útgerðir ganga mjög vel um þessar mundir, við sjómenn höfum prýðilegar tekjur. Það er ekki vegna þess að við fiskum svo mikið, heldur lækkaði gengið. Ef verð á mörkuðum lækkar, núna er verð á stórum þorski að lækka og orðið erfitt að selja hann út af ástandi í Grikklandi, Portúgal og Spáni. Svo ef gengið styrkist, sem er jákvætt fyrir heildina, þá verður reksturinn ansi erfiður hjá útgerðarfyrirtækjunum.
Kjarninn er sá, að til þess að fleiri geti komist í greinina, þá þarf að auka heimildir. Ég er ekki endilega viss um að aðferð Hafró sé rétt, vitanlega eiga stjórnvöld að leyfa Jóni Kristjánssyni að hafa eitthvað um þetta að segja, hann nýtur virðingar víða og Hafró getur ekki ætlast til þess, að öllu sé tekið sem heilögum sannleik sem sú ágæta stofnun segir.
Varðandi Davíð og hrokann sem þú talar um, þá get ég vel skilið hvað þú átt við. Því miður hefur vantað ákveðna lipurð og lagni í samskiptum stjórnmálamanna við kjósendur sína. Davíð virkar ansi ákveðinn og hann er það, en ósköp notalegur í viðkynningu. Ég held að hann sé dálítið misskilinn.
Stjórnmálamenn hafa atvinnu af því að kynna sér hin ýmsu mál og sjá þau með öðrum augum en hinn almenni kjósandi, en ekki er ég að segja að hinn almenni kjósandi geti ekki vitað betur en stjórnmálamaðurinn, þetta er svona ákveðið samspil sem myndast.
Stjórnmálamaðurinn er sannfærður um að hann þekki málið því hann hefur kynnt sér það til hlítar. Svo fer hann að útskýra það fyrir kjósandanum og kjósandinn annaðhvort skilur ekki hvað stjórnmálamaðurinn segir eða sér málið með öðrum augum en hann.
Ef að menn hafa ekki mikinn þroska samfara drjúgum skammti af auðmýkt, eins og títt er um stjórnmálamenn, þá getur pólitíkusinn farið ósjálfrátt að tala niður til kjósandans, engin vill láta tala niður til sín, þannig að kjósandinn verður sár.
Þú skilur eflaust hvað ég er að meina nafni, það vantar gagnkvæman skilning á milli stjórnmálamanna og kjósanda. Þótt það sé erfitt, þá verða stjórnmálamenn að gera ríkari kröfur til sín en aðrir gera, þeir verða að hlusta af þolinmæði og sýna ákveðna auðmýkt, þetta kallast einfaldlega að kunna vel inn á mannleg samskipti, þau eru full af allskyns tilfinningum og upplifunum sem erfitt er að útskýra í stuttu máli, en ég held að það séu flestir meðvitaðir um þetta sem ég er að segja.
Jón Ríkharðsson, 2.4.2012 kl. 17:58
Sæll Jón það er athyglivert að sjá hvernig niðurstaðan í þjóðarpúlsinum er núna fólk er búið að fá nóg af þessari vinstri helferðarstjórn hún fær ekki annan sjens, nýju framboðin fá engan hljómgrunn og eru um 5% markið sem þarf til að ná manni ínn Sjálfstæðisflokkurinn vinnur mikið á, ég er alveg sammála þér með það að það þyrfti að hreinsa til í flokknum það eru nokkrir tilteknir þingmenn sem ekki hafa alveg hreinan skjöld sem þyrftu að víkja þá myndi flokkurinn sópa til sín fylgi.
Kristján B Kristinsson 2.4.2012 kl. 19:45
Það var allt í lagi með kvóta kerfið, Það er bara eins og hvert annað stjórntæki sem má þróa og þroska ef skinsemi er höfð með. En það er þetta framsal, sem rústaði öllum möguleikum til sáttar og skapaði tortryggni.
En ef menn hættu að öskra og önduðu með nefinu og hver slakaði á sínum spotta, þá er ég viss um að flötur finnst á því máli sem sátt næst um. En það er svo með allt klúður sem stjórnvöld framleiða, það þarf hugrekki til að viðurkenna þau og ærlegheit til að lagfæra þau.
Innan allra flokka er ágætis fólk en ég varð ekki Sjálfstæðismaður fyrr en ég kynntist pólitíkinni á Nesi við Norðfjörð. Ég er því hægrimaður og meina að núna þurfum við afgerandi hægristjórn, slugs dugar ekki lengur. Hér uppi á Íslandi eru of margir flokkar og ofmargar stefnur innan Sjálfstæðisflokksins nú um mundir.
Of margir flokkar skapa bara meiri lygi. Einn flokkur við stjórn og skiptir ekki máli hvort hann er vinstri eða hægri, er betri kostur heldur enn samsuða tveggja eða þriggja aðila sem eru sammála um eitt og það er að sjóða saman graut úr mismunandi eitruðum efnum.
Samkvæmt sögunni þá lítur út fyrir að kommúnistar séu dæmdir til að hafa alltaf vitlaust fyrir sér. Á íslandi eru engir kratar eins og þekkst hafa á Skandinavíuskaganum og jökulruðningnum þar suð vestur af. Hér eru bara kommar og svo hálfkommar en Framsókn sem kynnir sig sem miðjuflokk fyrir kosningar, hann getur alveg eins verði orðin kommaflokkur eftir þær.
Hrólfur Þ Hraundal, 2.4.2012 kl. 23:21
Sammála þér Kristján, það þar að verða ákveðið uppgjör innan Sjálfstæðisflokksins. Ég á bágt með að taka undir það, að hreinsa þurfi til, sennilega vegna þes að ég er of tengdur þingliðinu. Þau eru öll ágætir vinir mínir og sum tiltölulega nánir vinir, þannig að ég er eiginlega óhæfur til að ræða það, eða réttara sagt ómarktækur.
Jón Ríkharðsson, 3.4.2012 kl. 00:09
Þetta er allt saman rétt sem þú segir Hrólfur, vinstri flokkarnir á Íslandi eru öðruvísi en t.d. í Svíþjóð.
Konan fór á ráðstefnu þangað fyrir tvem árum og ég fór með henni, svona til að veita henni selskap.
Ég skrapp niður einn daginn, settist í sófann við lobbýið og fékk mér kaffibolla. Það settist hjá mér eldri maður sem var sænskur og við hófum tal saman. Ekki leið á löngu þar til ég var farin að forvitnast um pólitíkina í Svíþjóð og spurði hann, hvernig það hefði gengið upp öll þessi ár að hafa sósíalista eða jafnaðarmenn við völd. Þetta var flottur kall, svona aristókrat og greinilega nokkuð vel stæður. Hann sagði að það væri rangt að segja að Svíþjóð væri sósíalistaríki, þetta var ansi greindur kall og fróður. Hann sagði að vissulega hefðu Svíar verið ansi ákafir í útgjöldum, en það væri góð sátt á milli kapitalismans og jafnaðarstefnunnar þar í landi. Hann sagði að það væri hægt að segja, að Svíþjóð byggði hagkerfið sitt á kapitalisma og velferðarkerfið á sósíalisma.
Þetta kom fram hjá honum, eftir að ég hafði sagt honum frá ástandinu á Íslandi og hvernig ríkisstjórnin hagaði sér. Augljóst var, að sænskir jafnaðarmenn sýndu þó talsvert meiri skynsemi en okkar jafnaðarmenn.
Jón Ríkharðsson, 3.4.2012 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.