Þjóðin þarf öflugan Sjálfstæðisflokk.

Sjálfstæðisflokkurinn má muna fífil sinn fegri, hann hefur ekki góða ímynd hjá meginþorra þjóðarinnar. Kannski má segja að það sé ekki mjög sanngjarnt, því umræðan er ákaflega illvíg um þessar mundir, mikil dómharka í gangi og ýmiskonar þvættingur hefur fengið að festast í sessi.

Það er verkefni Sjálfstæðisflokksins að bæta úr því.

Það skiptir engu máli hvort ásakanir á hendur einstökum fulltrúum flokksins eru sannar eða lognar, þær eru til staðar og þær hverfa ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn skapaði þetta umhverfi með því að taka öllu þegjandi sem vinstri flokkarnir hafa sagt um verk hans og einstaka þingmenn. Þegar fólk ver sig ekki, þá endar með því að það verður barið niður og þá getur verið erfitt að standa upp, en ekki ómögulegt.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að efna til funda í kring um allt land, hvetja fólk til að tjá sig með hreinskilnum hætti og hlusta. Þetta verða erfiðir fundir, ef fólk lætur allt koma fram. Þeir sem þurfa að svara fyrir flokkinn þurfa að vera sterkir og með allt á hreinu, geta svarað öllum erfiðu spurningunum sem koma fram.

Ágætt væri að lesa rannsóknarskýrsluna nokkuð vel, hún útskýrir margt og getur leiðrétt margar rangfærslur í umræðunni, hún er ekki flokknum í óhag að öllu leiti.

Við sjálfstæðismenn verðum að kannast við þá staðreynd, að hagstjórnin hefur ekki gengið nógu vel í okkar tíð. Eyðslan var of mikil, ríkisstjórn sjálfstæðismanna jók þenslu á meðan Seðlabankinn leitaðist við að minnka hana. Við verðum að þora að horfast í augu við mistökin og læra af þeim.

Einnig er hægt að koma því á framfæri, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert margt mjög vel, þanig að hin langa valdatíð, frá árinu 1991 var ekki stanslaus hörmungarsaga eins og tíð núverandi ríkisstjórnar, raunar gerðu sjálfstæðismenn fleira rétt en rangt á meðan þessi ríkisstjórn gerir fleira rangt en rétt.

Svo þegar málin hafa verið gerð upp og flokkurinn lofað bót og betrun, þá þarf hann í auðmýkt, næstum því að grátbiðja þjóðina um tækifæri til að sanna sig, aðeins eitt tækifæri og ef það klúðrast, þá á hann ekki skilið að fá traust kjósenda á ný.

Sjálfstæðisflokkurinn á að lofa því, að viðhafa ábyrga fjármálastjórn. Það þarf að skera niður allan óþarfa og hið opinbera á að vera rekið með lágmarkstilkostnaði.

Öll opinber störf sem mögulegt er að vera án, þarf að leggja af eins fljótt og auðið er. Vitanlega er eki hægt að gera allt í einu, en flokkurinn þarf að setja sér skýr markmið, sem hann veit að hægt er að standa við.

Of mikill loforðaflaumur eyðileggur góðan ásetning, því kjósendur hafa fengið nóg af innihaldslausum loforðum.

Það þarf að segja þjóðinni hvað er raunhæft að gera, miðað við tekjur ríkissjóðs. Einnig þarf að lofa kjósendum því, að opna allt upp á gátt, varðandi fjármál og eyðslu ríkissins, þannig að ef upp koma kröfur um kostnaðarsöm verkefni, þá ber að útskýra með sannfærandi hætti, hvers vegna það er ekki hægt.

Ef stjórnmálamenn eru heiðarlegir og ræða við þjóðina með opinskáum hætti, þá öðlast þeir traust hjá kjósendum þessa lands.

Sjálfstæðisstefnan hefur alltaf dugað best og hún mun gera það áfram. Sjálfstæðisstefnan í sinni tærustu mynd slær í takti við hjarta hinnar íslensku þjóðar.

Ef við berjumst af öllu okkar afli, fyrir vexti og viðgangi sjálfstæðisstefnunnar og ef hún nær glæstum sigri í komandi kosningum, þá er hægt að fullyrða það, að þjóðinni mun vegna vel um ókomna tíð. Þ.e.a.s. ef sjálfstæðismenn gleyma ekki stefnunni sem þeir eru kosnir til að framfylgja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er 1. apríl eða ???. Sjálfstæðisflokkinn við völd, og ALLT verður æðislegt. Menn græða á daginn og grilla á kvöldin. Þetta verður bara eins og 2007. Æðislegt. En ég sé aðeins einn hægn þar á:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur, og mun alltaf verða, flokkur sem hyglir "innmúruðum", brýtur niður reglur og eftirlit (til að innmúraðir geti starfað við sín vafasömu viðskipti í friði). Einka-VINA-væðinginn keyrð í botn og allt mun enda eins og haustið 2008.

Þetta eru STAÐREYNDIR, ekki spádómar. En ég gæti svo sem vel trúað því að kjósendur séu svo mikil fífl að þeir muni koma Sjálfstæðisflokknum aftur að kjötkötlunum. Það væri það...

Brandari 3.4.2012 kl. 09:05

2 identicon

Ekki vera vondur við hann Jón, hann er ómenntaður og alles.. gæti tekið upp á fúkyrðum og svona ef menn dýrka ekki krossD og DO

DoctorE 3.4.2012 kl. 10:40

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Jæja Brandari, þú virðist hafa verið asskoti æstur þegar þú skrifaðir þessa athugasemd. Ekki er gott að tjá sig þegar maður er í uppnámi, en kannski hefur þú náð að róast eitthvað eftir að hafa tjáð þig svona hressilega.

Ef við göngum út frá þeiri staðreynd, að vinstri flokkarnir hafi mikinn hag af því, að sjálfstæðismenn komist helst aldrei til valda, þá er eitt atriði sem hlýtur að vekja mann til umhugsunar.

Þú talar um einkavinavæðingu og þú ert sannarlega ekki sá fyrsti.

Eftir að t.a.m. bankarnir voru einkavæddir, þá er búið að skrifa þrjár ítarlegar skýrslur um þá framkvæmd. Fyrst er það skýrsla Framkvæmdanefndar um einkavæðingu, svo skrifaði Ríkisendurskoðun skýrslu um sama mál og að lokum Rannsóknarnefnd alþingis.

Þessar þrjár skýrslur gefa ekki til kynna að það hafi verið staðið að málum með ólögmætum hætti. Allar skýrslurnar eru sammála um það, að örvænting hafi að miklu leiti ráðið för, menn óttuðust það, að ná ekki að selja bankanna fyrir kosningar. Útlendir bankar höfðu engan sérstakan áhuga á að kaupa, enda er Ísland ekki stór markaður.

Ef þú lest rannsóknarskýrsluna í rólegheitum, getur byrjað á bls. 58., þá kemstu að því, að það var ekki framkvæmdin við einkavæðinguna sem olli hruninu, ekki heldur neinn stjórnmálaflokkur. Það var ofurtraust á mörkuðum samfara gífurlegu magni af ódýru lánsfé. Vissulega spiluðu nýjar fjármálaafurðir stóra rullu og undirmálslánin í Bandaríkjunum.

Nú og ef þú hefur þolinmæði til að kynna þér málin, þá er hægt að benda þér á það, að sagan segir það með óyggjandi hætti, að mestu framfarir lýðveldistímans eru komnar til vegna aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Nýsköpunarstjórnin bjó til þetta góða velferðarkerfi sem við þekkjum, Viðreisnarstjórnin afnam höftin, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skapaði fyrirtækjum góð skilyrði, þannig að hagvöxtur varð meiri en hann hafði nokkru sinni veri, hann var mjög mikill fyrir einkavæðingu bankanna, kaupmáttur launa var líka góður áður en einkavæðingin fór fram, svo mætti lengi telja.

En vissulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert mikið af mistökum, en það stenst enginn flokkur íslenskur honum snúning.

Jón Ríkharðsson, 3.4.2012 kl. 10:45

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég hef aldrei verið vondur við neinn á þessari síðu DoctorE, en velkominn aftur.

Ágætur gestur minn, sem kallar sig Is hafði áhyggjur af þér, af því að þú mættir ekki þegar ég nefndi Guð og Davíð á jákvæðum nótum, en ég vissi að þú værir bara í tímabundnu hléi.

Minn kæri  DoctorE,  af hverju talar þú um að hann sé ómenntaður og ég þurfi að vera góður við hann af þeim sökum?

Ég hef enga menntun af viti, lærði jú húsasmíði fyrir mörgum árum, en sú menntun stígur mér ekkert til höfuðs, svona þér að segja.

Svona okkar á milli, þá hef ég aldrei komið inn fyrir dyr í neinum háskóla, hluta smíðanámsins tók ég reyndar í Fjölbrautaskóla Breiðholts, en það er nú varla mikið að grobba sig af, eða hvað finnst þér?

Ég hef nú verið háseti á fiskiskipum svona lengst af, þannig að ég get varla farið að tala niður til manna sökum menntunarskorts.

Jón Ríkharðsson, 3.4.2012 kl. 10:52

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Jón, ég sé að þú ert kominn á kortið. Ekki bara fyrir pólitíkina heldur trúmálin líka.

Reyndar er ég slæmur "meðherji" því að mínu mati á XD eftir að hreinsa til hjá sér. Veit ekki með Guð...

Er annars sammála pistlinum þínum. Vonandi hlustar flokkurinn.

Kolbrún Hilmars, 3.4.2012 kl. 17:20

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kolbrún Jón Ríkharðsson er hinn vænsti maður og góður.  En ég hef þekkt svo marga góða menn sem hafa verið í Sjálfstæðisflokknum og reynt að byggja hann upp innan frá með góðum fyrirætlunum.  En því miður þá villtist hann af leið eftir að Matthías Bjarnason missti tökin þannig að hann fór út í þá eyðimerkurgöngu sem hann er í í dag, vinavæðing, hroki, klíkuskapur, þannig að einungis klíkubræður fá frama í flokknum, það sést afar vel einmitt í mínu bæjarfélagi þar sem búið er að vefja um sig klíkubræðum og systrum og til að fá embætti þarf að hafa upp á vasann kort um aðild að klíkunni.  Því miður hefur þetta eyðilagt þennan flokk sem lengi var stétt með stétt og báknið burt og ég veit ekki hvað.  En svona er þetta bara.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.4.2012 kl. 22:53

7 identicon

HA hvað segirðu Jón,þarf þjóðin öflugan  Sjálfstæðisflokk.? Ef svo er Jón að þá, þarf að stofna nýjan alveg frá grunni.

Númi 3.4.2012 kl. 23:20

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Kolbrún mín.

Það verður hver og ein að skoða hug sinn vel, það skiptir máli hvað kosið er.

Svo þurfa líka sem flestir að taka þátt, ef breyta á einhverju varðandi Sjálfstæðisflokkinn.

Ég veit ekki hvort breyta þurfi endilega svo mkið til í framlínunni, fyrst þar að ræða málin og skoða hvað hæft er í öllu því sem verið hefur í umræðunni.

Allir þurfa að hreinsa til hjá sér reglulega, flokkar og fólk almennt, við erum í stöðugri þróun, en ég veit ekki með Guð.

Það er ansi snúið fyrir fólk að skilja Guð. Ef við göngum út frá því , að Guð sé fullkomin, þá getum við aldrei skilið hann því við erum ekki fullkomin sjálf.

Annars hef ég aldrei heyrt neina lýsingu á því, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að teljast fullkominn. Kannski er þetta einhver frasi þegar verið er að segja að það sé enginn fullkominn.

En hvað er þetta með DoctorE, er hann aftur kominn með flensu eða er eitthvað helvítis þunglyndi að hrjá drenginn?

Þú nefndir Guð og ég ákvað að bíða með að svara þér til að geta fylgst með viðbrögðum Doctore, hann er ekki vanur að láta sig vanta þegar minnst er á Guð og ég tala nú ekki um ef Sjálfstæðisflokkurinn er nefndur í sama innlegginu líka.

Jón Ríkharðsson, 4.4.2012 kl. 00:13

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ja, þú segir nokkuð Ásthildur mín. 

Ætli meginskýringin á þessu sem þú segir hafi ekki komið ágætlega fram þegar Hannes Hólmsteinn kom með hin frægu ummæli varðandi það, að sjálfstæðismenn vildu bara græða á daginn og grilla á kvöldin.

Það var náttúrulega snúið út úr þessu, það sem Hannes átti við var, að sjálfstæðismenn eru ekkert sérstaklega pólitískir. Þeir vilja helst hafa sterkan leiðtoga sem stjórnar og þá þurfa þeir ekki að standa í neinu.

Aftur á móti eru vinstri menn ægilega pólitískir og þeir þurfa allir að tjá sínar skoðanir osfrv., að mörgu leiti finnst mér það jákvætt og Sjálfstlæðisflokknum vantar raunverulega meiri átök um málefni og stefnur, en það er á réttri leið.

Á fundum eru ansi hörð skoðanaskipti, Bjarni og Ólöf eru stundum hundskömmuð, en slíkt þekktist varla hér áður fyrr, eftir því sem eldri sjálfstæðismenn hafa sagt mér.

Til þess að hægt sé að byggja Sjálfstæðisflokkinn upp og koma sjálfstæðisstefnunni að, þá þarf mikið af fólki sem sterkar skoðanir, en er þó sammála um sjálfstæðisstefnuna, og það á að takst á bæði við hvert annað og forystuna.

Þegar ég segi takast á, þá á ég við, að takast á um málefni á yfirveguðum nótum og sleppa persónulegum svíviðringum og árásum.. Þegar forystan gerir sér grein fyrir því, að hún er undir mikilli pressu og þarf að hafa mikið fyrir því að sannfæra kjósendur sína og grasrót flokksins, þá verður hún meira á tánum og minnkandi líkur á mistökum.

Ég hef heyrt og lesið um allt það slæma sem sagt hefur verið um Sjálfstæðisflokkinn, rætt það við menn sem þekkja vel til, innan flokksins, fyrrum ráðherra og formenn meðal annars. Þá fær maður skýrari sýn á málin.

Það fer enginn í pólitík til að fremja glæpi eða hygla sér og sínum. Það er mjög heimskulegt, vegna þess að það eru svo miklar líkur á að allt komist upp í svona litlu samfélagi.

Af einhverjum ástæðum hefur aldrei verið sannað neitt vafasamt upp á stjórnmálamenn hér á landi, ekki lögbrot, nema þá Árni Johnsen, en önnur dæmi þekki ég ekki.

Oftast eru þetta rætnar kjaftasögur sem öðlast sjálfstætt líf og breytast í heljarinnar samsæriskenningar.

Matthías Bjarnason var orðinn sáttur við Sjálfstæðisflokkinn síðast þegar ég vissi, ég þekki einn sem hefur talsvert samband við hann og sá maður er virkur í flokknum og framarlega í flokksstarfinu.

Jón Ríkharðsson, 4.4.2012 kl. 00:29

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Síðast þegar ég vissi var hann einn af stuðningsmönnum Frjálslyndaflokksins.  Ef þú átt við Styrmir, þá hefur hann líka gert sér dælt við Frjálslynda, mætt á fundi og slíkt.  En ég segi það alveg satt Jón minn, að fólk á borð við Guðmund Halldórs aflakló með meiru, hefur reynt að koma einhverri vitrænni skoðun inn hjá Sjálfstæðisflokknum og ekki haft erindi sem erfiði.  Á landsfundi var hann gerður ómerkingur.  Samt reynir hann áfram rétt eins og þú.  Sama er um Fleiri góða menn sem ég þekki.  Ef þér tekst að rjúfa þessa klíku 101 þá á Sjálfstæðisflokkurinn aftur möguleika, en eins og er þá tel ég litlar líkur á því.  Þú færð að róa meðan þú aflar, síðan verður þér hreinlega hent á haugana, þegar ekki er lengur not fyrir þig sem beitu fyrir almenning.  Má ég nokkuð benda þér á Gunnar Örlygsson og Jón Magnússon Þeim var kippt inn í flokkinn til að veikja Frjálslynda flokkinn, eftir að þeir töldu sig hafa það meira fylgi og öryggi, var þeim báðum hent út.  Ég er svo sem sammála því, ef menn hafa ekki meiri fylgispekt við þau öfl sem þeir vilja vinna með en þetta, þá er þeim ekki treystandi, þetta vissi líka Stalín og lét taka af lífi alla slíka froðusnakka.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2012 kl. 00:56

11 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það sem þarf að gera Ásthildur mín er fyrst og fremst að breyta umræðuhefðinni, hún er svo óskaplega rætin.

Þegar talað er um þessa þekktu íhaldssemi í Sjálfstæðisflokknum, þá setur fólk hana í samband við spillingu eða einhverskonar glæpaáráttu.

Ég er búinn að kynna mér þesi mál frá öllum hliðum, hlusta á margskonar sjónarmið með og á móti. Aðalvandamálið hjá mér er það, að mig skortir haldbærar heimildir.

Margir eldri sjálfstæðismenn hafa sagt mér frá landsfundi sem var haldinn fyrir ca. fjörtíu árum rúmum. Þar voru hagsmunahópar alveg brjálaðir út í forystuna, þeim fannst hún draga taum þeirra sem voru ekki í flokknum á kostnað þeirra. En það er vont fyrir mig að rökstyðja það því ég hef ekki fundið neitt skriflegt sem staðfestir þetta.

Reyndar kemur fram í bókinni "Valdatafl í Valdhöll, sem skrifuð var af tveim mönnum sem voru frekar hallir undir Geir Hallgrímsson og þá andstæðingar fylkingar Gunnars Thoroddsen, að margir úr hópi stuðningsmanna hans hafi verið ósáttir vegna þess að Gunnar veitti þeim ekki ýmsar stöður, sem þeir töldu sig eiga inni hjá honum eftir að hafa stutt hann með ráðum og dáð.Svo hef ég rætt við nokkra eldri menn, úr Gunnarsarminum og Geirsarminum og þeim ber ekki saman um ástæðurnar.

Á meðan allar þessar upphrópanir eru, þá er erfiðara að koma einhverju viti í umræðuna. Eru breytingar svo alltaf til góðs?

Ég ætla ekki að fara náið út í það, en um borð er ákveðin aðferð sem notuð hefur verið árum saman. Einum af áhöfninni finnst hún vittlaus og erfið, en þeir sem hafa verið lengur benda á rök máli sínu til stuðnings. Enginn vafi er á að rök hinna á móti þessum einum eru sannfærandi, þessi eini er þó ekki sáttur en hann beygir sig undir vilja meirihlutans.

Á þeim vinnustöðum sem ég hef verið á, skapast hefðir sem illmögulegt er að breyta og ekki einu sinni víst að það sé til góðs.

Sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn, þar hafa skapast hefðir og venjur sem falla ekki öllum í geð, en óvíst er hvort, þegar upp er staðið, sé nauðsynlegt að breyta þeim.

Annars ætla ég ekki að halda því fram að ég hafi rétta greiningu á ástandinu, en til þess að hægt sé að ræða þessi mál af viti er nauðsynlegt að milda allt orðalag og sýna eindreginn vilja til að komast að niðurstöðu sem flestir geta fellt sig við.

Þú nefnir Gunnar Örlygsson og Jón Magnússon, ég kannast við Gunnar, við vorum saman á togara fyrir rúmum tuttugu árum, Jón þekki ég aftur nokkuð vel.

Þeim var ekki kippt í Sjálfstæðisflokkinn, þeir voru óánægðir með Frjálslynda flokkinn og þeim fannst þeir ekki geta haft þau áhrif á flokkinn sem þeir vildu.

Gunnari fannst hann hafa færst of mikið til vinstri,mikill ágreiningur myndaðist á milli Jóns og Kristins Gunnarssonar, einnig var ágreiningur á milli Jóns og Guðjóns fyrrum formanns Frjálslynda flokksins.

Ég hef reyndar ekki rætt þetta mál neitt sérstaklega við nafna minn og ekki Gunnar heldur, en það er þó eitt sem þeir eiga sameiginlegt, þeir eru báðir ansi fastir á meiningunni og illmögulegt að fá þá í eitthvað sem er þeim á móti skapi.

Jón er mikill hugsjónamaður og hann berst fyrir sínum hugsjónum af fullum krafti, þess vegna hefur hann verið á þessu flokkaflakki.

Reyndar er það svo, að í Sjálfstæðisflokknum nýtur Jón Magnússon mikillar virðingar og á síðasta landsfundi tókst honum, ásamt fleirum, að koma með landsfundarályktun varðandi afám verðtryggingar. Ekki eru allir í framvarðarsveitini ánægðir með það, þeir telja að verðtrygging sé nauðsynleg. Ekki er hægt að fullyrða um neitt varðandi vafasöm sjónarmið í því efni, ætli það sé ekki frekar hægt að tala um mismunandi sýn.

Jón Ríkharðsson, 4.4.2012 kl. 08:42

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gunnar Örlygsson hélt góða ræðu á fundi í Grindvík og talaði þar mikið um vonir og væntingar með flokkinn okkar.  þessu var vel tekið og honum þakkað vel fyrir margar góðar ábendingar, það liðu bara nokkrir dagar þegar ljóst var að hann hafði gengið í Sjálfstæðisflokkinn og fann Frjálslyndum allt til foráttu.  Ég var á þessum fundi.  ÉG er ekki að segja að honum hafi ekki verið frjálst að skipta um flokk.  En þegar það gerist svona, þá vakna spurningar.  En það er reyndar rétt hjá þér að það er alltaf betra að ræða málin á kurteisum nótum.  Það gerir þú alltaf og hafðu þökk fyrir.  Og auðvitað eru margir þarna í flokknum til að láta gott af sér leiða.  Einn ættingi minn sem hefur mikið unnið með Sjálfstæðisflokknum, gengt þar trúnaðarstörfum sagði mér á viðkvæmu augnabliki að grasrótinn fengi ekki neinn hljómgrunn hjá forustunni.  Þar væri allt ákveðið af toppunum í flokknum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2012 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband