Það erum við sem sköpum þetta samfélag sem við lifum í.

Fólk hópast á mótmælafundi, þjóðfundi og allskyns samkomur og kemur sér saman um, að krefjast þess að stjórnmálamenn sýni heiðarleika. Svo ræðir fólk um hversu rotin pólitíkin er, um leið og menn koma inn fyrir dyr alþingis þá verða þeir gjörspilltir og rotnir í gegn, hætta að vera mennskir osfrv.

En í öllum múgæsingnum gleymist eitt mikilvægt atriði, stjórnmálamenn eru hluti af þjóðinni, þeir eru synir hennar og dætur, alveg sömu gerðar og fólkið sem hópast saman og finnur til mikillar samkenndar, vegna meintrar spillingar stjórnmálastéttarinnar.

Strax í æsku er okkur kennt að það sé flott að vera sniðugur, reyna að borga lítið og græða mikið. Þeim sem tekst það mjög vel njóta gjarna mikillar virðingar samborgara sinna. Það finnst mörgum upphefð í því að vera refur í viðskiptum, þess háttar fólk nýtur oftast mikillar virðingar samborgara sinna.

Og af því að stjórnmálamenn eru sömu gerðar og hinir, þá finnst þeim líka sniðugt, því þau eru alin upp við það, að sýna refskap, lofa hlutum sem þau vona að fólk gleymi osfrv., til þess að komast á þing. Það eru flestir tilbúnir að ganga ansi langt til að vernda sína hagsmuni og græða sem mest fyrir sig og sýna.

Það má segja að við öll og allir hagsmunahópar gerum rétt fyrir okkur sjálf en rangt fyrir heildina. Við þurfum að hugsa minna um okkar hagsmuni og taka tillit til annarra hagsmuna.

Við þurfum að rækta með okkur heiðarleika og virðingu fyrir öðrum. þótt það virki ægilega sniðugt að plata einhvern upp úr skónum í viðskiptum, þá má ekki gleyma því að þá er ekki verið að hugsa um hagsmuni þes sem er plataður.

Líklegt er að viðkomandi fatti plottið og verði frekar óhress, en hann hugsar með sér "bísness er jú bara bísness", svo reynir hann að hefna sín með því að plata einhvern annan.

Við erum öll ófullkomin, óheiðarleg og að einhverju leiti rotin, það er hluti af mannlegu eðli því öll hugsum við fyrst um okkar hagsmuni.

Við þurfum að íhuga þetta í hvert sinn er við dæmum aðra, erum við eitthvað betri sjálf?

Í gruninn erum við öll eins, hvort sem við vinnum í pólitík eða í öðrum störfum. Það er bara notalegra að hafa einhvern til að skammast út í, þá höldum við að það sé ekki svo mikið að hjá okkur. Stjórnmálamenn eru vitanlega prýðisgóð skotmörk, því þeir geta ekki svarað fyrir sig, þá kýs þá enginn.

Ef við viljum bætt samfélag sem samanstendur af heiðarleika og réttlæti, þá er ekki nóg að skammast út í stjórnmálamenn.

Við þurfum að taka allan pakkann, annars stöndum við áfram í sömu sporunum, enginn þroski. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband