Miðvikudagur, 23. maí 2012
Hverju er hægt að lofa og hvað er hægt að standa við?
Þegar líða tekur að kosningum, þá stökkva stórnmálamenn á kjósendur og lofa því, að þeir muni sjá til þess að opinberu fé verði varið til að létta þeim lífið á allan hátt.
Kjósendur eru svo meðvirkir, þeir eru glaðir með stjórnmálamenn sem lofa hærri barnabótum, húsaleigubótum og vitanlega vaxtabótum og ef stjórnmálamenn standa við eyðsluloforðin, þá eru þeir elskaðir af kjósendum sínum og þeir glöðustu setja myndir af þeim á náttborðið sitt.
Ég man eftir því, þegar vinstri stjórnin var við völd sem ríkti á undan Viðeyjarstjórninni, þá var um tíma ókeypis að leita sér læknisaðstoðar á heilsugæslustöðvum.
Einn góður og gegn framsóknarmaður sagði mér, að þetta væri ástæðan fyrir því að fólk ætti að kjósa Framsóknarflokkinn, frí heilbrigðisþjónusta.
En það var ekki lengi, enda hefur ríkissjóður mjög takmarkað fjármagn.
Ábygir stjórnmálamenn notast ekki við "ég býð og þú borgar" pólitík, heldur bera þeir virðingu fyrir peningum fólksins sem þeir starfa í umboði fyrir. Þeir fara gætilega í skattamálum og sýna borgurunum þá kurteisi og sjálfsögðu tillitssemi, að lofa þeim að ráðstafa peningunum sem þeir vinna sér inn, að eins miklu leiti og mögulegt er.
Ábyrgir stjórnmálamenn vita líka sem er, að styrkir til fólks sljóvga sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar, fólk verður háð greiðslum frá hinu opinbera, svo þegar kemur samdráttur og nauðsynlegt er að skera niður, þá lækka bæturnar eða jafnvel hverfa.
Heilbrigt fólk á ekki að fá styrki frá hinu opinbera, en nauðsynlegt er að greiða niður ýmsa þjónustu sem er óviðráðanlegt fyrir flesta að greiða úr eigin vasa.
Ábyrgir stjórnmálamenn vita að atvinna er besta lausnin til að skapa velferð og hún er líka varanleg. Með tímanum er hægt að skapa fyrirmyndarsamfélag á Íslandi, ef stjórnmálamenn sýna festu og ábyrgð, eyða eins litlu úr ríkissjóði og mögulegt er og þá stefnu má ekki svíkja þótt ríkissjóður verði svo stöndugur, að annað eins hefur aldrei sést.
Það er sama hversu há upphæð safnast í ríkissjóð, það er mjög auðvelt að eyða henni allri á skömum tíma, ef stjórnmálamenn hlaupa eftir kröfum hinna ýmsu hagsmunaaðila og þrýstihópa.
Það þarf að setja í lög, hörð viðurlög við því að svíkja út bætur, því við þurfum að geta séð fyrir þeim sem geta það ekki sjálfir og það er alvarlegur glæpur að þiggja óverðskuldaðar bætur, slíkt takmarkar tekjur þeirra sem eru raunverulega ósjálfbjarga.
Það er hægt að lofa því að spara eins mikið og mögulegt er, hafa skatta í algjöru lágmarki og lofa að standa ekki í vegi fyrir atvinuskapandi verkefnum í einkageiranum.
Það eru loforð sem auðvelt er að standa við, ekki þarf að afsaka sig með forsendubresti því alltaf eru forsendur fyrir ábyrga efnahagsstjórn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.