Miðvikudagur, 23. maí 2012
"Nýja Ísland" boðar ekki gott.
Ég er þannig gerður, að fyrir mér eru allir menn jafnir og sýna ber öllum sömu virðingu, en þeim er boða "Nýtt Ísland" þykir í lagi að kalla fólk glæpahyski og spillingargosa, án þess að geta sannað sitt mál með fullnægjandi hætti.
Þeim finnst líka í lagi að rakka niður persónur ef þær tengjast Sjálfstæðisflokknum, en það er vitanlega argasta ranglæti, því allir eiga að njóta sömu virðingar eins og boðað er í siðmenntuðum ríkjum.
Boðberar "Nýja Íslands" vildu lögsækja Geir H. Haarde og helst fleiri ráðherra og mörgum í þesum hópi leið óskaplega vel þegar hann var færður fyrir rétt.
Mér leið illa, því ég sá mann, fullan af kvíða sem nýlega hefur gengið í gegn um mikla erfiðleika og þurft að takast á við þann harða dóm, að bera krabbamein í líkama sínum. Sami maður er þekktur af heiðarleik og vandvirkni í sínum störfum.
Mér hefði liðið jafnilla við að horfa upp á Jóhönnu eða Steingrím í sömu aðstæðum.
Reynt var að benda á, að hann hafi getað gert margt öðruvísi og ýmsar tillögur komu fram, en ekki tókst að sýna fram á að þessar aðgerðir hafi verið framkvæmdar allar í öðrum löndum og komið þar í veg fyrir hrun.
Vel getur verið að sumar aðgerðir aðrar hefðu dugað betur, en fáheyrt er að menn bregðist rétt við öllu í fordæmislausum aðstæðum, en viðurkennt er af flestum að Geir tók farsælar ákvarðanir í kjölfar hrunsins.
Geir var dæmdur saklaus og Landsdómur gekk sem betur fer í berhögg við dómsstól götunnar sem ætti að leggja niður hið fyrsta.
Þeir sem hæst boða nýtt Ísland eru flestir byltingarsinnaðir og vilja umbylta öllu á Íslandi. Þeir viðhafa málflutning sem byggður er á huglægu mati og sleggjudómum, í stað þess að leita staðreynda með yfirveguðum hætti.
Ég vil ekki búa á "Nýja Íslandi", en ég vil betrumbæta "Gamla Ísland", því í grunninn er það friðsælt og gott.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.