Gegn hagsmunum verkalýðsins.

Vinstri flokkarnir voru stofnaðir með hagsmuni verkalýðsins að leiðarljósi, en þar sem vinstri mönnum eru ákaflega mislagðar hendur í flestu, þá hafa flokkarnir unnið gegn hagsmunum verkafólks frá upphafi.

Launakröfur umfram greiðslugetu fyrirtæki voru aðalsmerki vinstri manna auk langra og tíðra verkfalla sem skertu kjör hins almenna launamanns og ollu verðbólgu í leiðinni. 

Ég er af verkafólki kominn og ólst upp í tíð vinstri stjórna, þannig að ég gat ekki orðið annað en hægri maður.

Fullur bjartsýni trúði ég því, að þjóðin væri kominn með nóg af vinstri stjórnum, enda hafði þjóðin búið við ágæta hægri stefnu ansi lengi, reyndar þurfti Sjálfstæðisflokkurinn að taka tillit til samstarfsflokkanna, en í grundvallaraltriðum var nokkuð gott ástand á flestum sviðum.

Svo kom hrunið, vinstri flokkarnir lugu sig inn á þjóðina og þá var aftur farið að vinna gegn hagsmunum verkalýðsins.

Vinstri menn vilja ráða hvaða atvinnustarfsemi er stunduð og sú starfsemi sem þeim hugnast best, er ekki góð fyrir okkur í verkalýðsstétt.

Þrjár greinar eru mikilvægar burðarstoðir gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar, sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaþjónusta.

Ríkisstjórninni er ekki vel við stærstu sjávarútvegsfyrirtækin, því þau græða mjög mikið um þessar mundir. Við sem stundum verkamannavinnu á sjó höfum það nokkuð gott og verkafólk í landi fær umsamin laun og þessi fyrirtæki standa við gerða samninga.

Stjórnvöld vilja alls ekki fleiri álfyrirtæki og þeim er illa við þau sem fyrir eru. 

Álfyrirtækin borga líka sínu verkafólki umsamin laun, sem oftast eru þokkaleg miðað við verkamannalaun almennt og þar er staðið við gerða samninga.

Verkafólk í ferðamannaiðnaði fær oft lág laun og mörg fyrirtæki (að sögn Vilhjálms Birgissonar) standa illa við gerða samninga. Svört vinna er algeng í ferðamannaiðnaði og verkafólk sem þiggur svört laun árum saman glatar hluta réttinda þeirra sem fólk nýtur er þiggur uppgefin laun.

Varla þarf að nefna hvaða atvinnugrein af þessum þremur er í mestu uppáhaldi hjá ríkisstjórninni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

sammála, en eigum við þá að kjósa xD?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.7.2012 kl. 02:25

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Stutta svarið er "já", en mér finnst það þarfnast útskýringar.

Það er ekki hægt að horfa framhjá því, að alvarlegur trúnaðarbrestur átti sér stað á milli XD og þjóðarinnar í kjölfar hrunsins og það er fullkomlega eðlilegt.

Sjálfstæðisflokknum mistókst að öðlast traust kjósenda og því fór sem fór.

Traustið hvarf heldur ekki að ástæðulausu, sjálfstæðismenn gerðu mistök.

En ég hef rætt við forsytuna margoft og flesta þingmenn flokksins, ég er sannfærður um að flokkurinn hefur lært af mistökunum.

Ekki lýst mér á nýju framboðin, ekki vegna þess að þau vilji ekki gera vel, heldur hef ég aldreitrú á fólki sem byggir sínar hugsjónir að mestu leiti á reiði, reiðina er mér meinilla við og reyni að forðast hana eins og heitan eldinn.

Þess vegna hvet ég alla til að taka þátt í að byggja Sjálfstæðisflokkinn upp, þá sem aðhyllast hægri stefnu og frelsi. Vitanlega þurfa stjórnmálamenn aðhald og það skorti því miður í Sjálfstæðisflokknum á árunum fyrir hrun.

Jón Ríkharðsson, 29.7.2012 kl. 02:56

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sjávarútvegur og ferðaþjónusta munu vonandi áfram eflast, en þrátt fyrir að áliðnaðurinn sé vissulega stoð í efnahagslífinu er hvert starf þar alltof dýrt, sennilega koma fæst störf út úr álbræðslunum miðað við fjárfestingu af þessum þremur atvinnugreinum. Fyrir utan landraskið og mengunina sem af henni hlýst. Kæmi ekki á óvart ef það myndi koma í ljós að Prometheus, Oblivious, Game of Thrones og fleiri erlendar bíómyndir og þættir sem hafa verið tekin upp í íslenskri náttúru, séu á við eitt álver í tekjum og atvinnusköpun fyrir landið.

Furðulegt að á sama tíma og kvikmyndarisar í Bandaríkjunum keppast við að fá að taka upp stórmyndir í íslenskri náttúru skuli vera til menn sem vilja sökkva henni undir mengandi stóriðju.

Theódór Norðkvist, 29.7.2012 kl. 02:58

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Jón og Tjeodór, eg elska þetta land.

Stóriðja hefur reynst vel, en aðeins upp að vissu marki og greinilega eru ekki ragnarrök án hennar. Hitt er annað mál að mála núverandi stjórnvöld grílu-málingu, bara vegna þess að hún hefur ekki valið stóriðju, og er ég alveg hissa hversu vel hefur gengið eftir algert HRUN efnahags Íslands, að engin "stóriðja" sé að "bjarga" okkur nú Jón? Hvernig stendur á því í huga xD manns (ég segi xDmanns með vilja þvi að ég er xDinamik-kona sem er sjálfstæð).

Núverandi ríkisstjórn á skilið svo mikla gagnryni og hef ég bloggað margoft um það (eins og að SJS gaf utlenskum vogunarsjoðum skotleyfi á islensk heimili, Skyrslan vor 2011).

Hinsvegar á xD algerlega eftir að skýra sinn hlut, og þar með meina ég Rannsóknarskyrsku Alþingis (sem xD skipaði) og vill ekki tala um. Hafi forsetinn nokkru sinni náð mínu eyra, var það þegar hann baðst afsökunnar á hlut sínum í hrunverjadansinum.

NEED I SAY MORE?

Ég mun aldrei kjósa xD aftur , nema að þessi flokkur taki ábyrgð á sinni 18 ára stjórnartíð sem leiddi til hruns efnahagskerfis HEIMILA 'ISLANDS

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.7.2012 kl. 03:27

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Við verðum þá að vera sammála um að vera ósammála um stóriðjuna Theódór minn, það eru til rök bæði með og á móti henni, svo velur hver rök eftir smekk.

Jón Ríkharðsson, 29.7.2012 kl. 04:29

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ekki er ég svo sannfærðu um að það gangi svo vel um þessar mundir, en okkur gengur þokkalega Anna.

Vaðandi stóriðjuna, þá var AGS á því að uppbygging hennar væri mikilvæg fyrir okkur. Hagvöxturinn sem við búum við er tilkominn vegna einkaneyslu, atvinnustig hefur alltaf verið hátt á Íslandi, m.a. vegna krónunnar okkar, svo hafa fyrirtækin sem betur fer ekki gefist upp, en lítið af þessari velgengni er ríkisstjórninni að þakka, fiskeviðar hafa skilað drjúgum tekjum, makríllinn kom sér vel og vel heppnuð loðnuvertíð.

Rannsóknarskýrslan og fleiri heimildir segja, í stuttu máli, að árin fyrir hrun einkenndust af verkuleikafirringu og græðgi, óvíst er hvort nokkur stjórnmálaflokkur hafi getað komið í veg fyrir hrunið.

Sjálfstæðisflokkurinn gerði stór og alvarleg mistök með því að auka ríkisútgjöld um 380. ma. á sinni valdatíð, hann fjölgaði störfum í opinbera geiranum óhóflega mikið, það voru stór mistök hjá Ingibjörgu og Geir að þvælast um heiminn til að gefa bönkunum meðmæli, meðvirknin var of mikið og græðgin náði yfirhöndinni.

Sjálfstæðisflokkurinn axlar best ábyrgð með því að gera betur næst, fortíðinni er ekki hægt að breyta. Vitanlega þrufa forystumenn flokksins að ræða á opinskána hátt við kjósendur, svara erfiðum spurningum og gæta þess að fara ekki í vörn.

Stærstu mistökin voru þau, að ná ekki að viðhalda trausti þjóðarinnar, þingmenn okkar gleymdu stefnunni sem þeir voru kosnir út á og það má ekki gerast aftur.

Við þurfum að rifja upp stefnu Jóns Þorlákssonar og Ólafs Thors og gæta þess að víkja ekki frá henni. Stjórnmálamenn eiga að fara mjög gætilega með skattpeninga okkar og taka sem minnst af okkar tekjum í skatta, þannig vegna okkur best.

Jón Ríkharðsson, 29.7.2012 kl. 04:42

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég er sammála þér Jón, hagur launþega hefur alltaf skroppið saman þegar vinstriflokkar komast í stjórnarráðið og síðan lagast aftur að þeim gengnum þaðan út. Sú viðleitni að koma öllum niður á lægsta plan, í nafni jafnaðar, er skelfileg, vægast sagt. Þetta sannaðist vel í síðustu kjarasamningum, þegar félagarnir Villi og Gylfi komu sér saman um að allir skyldu fá sömu launahækkun og til grundvallar henni átti að láta getu verst stöddu fyrirtækjanna ráða. Þrátt fyrir það var fjöldi vel rekinna fyrirtækja, auk þeirra sem voru að hagnast á gengisleiðréttingunni, tilbúin til að greiða meira, en var meinað það. Kjarasamningar eiga að fara fram milli fyrirtækis og starfsmanna og á að liggja til grundvallar þeim viðræðum geta hvers fyrirtækis. Þannig gætu vel reknu fyrirtækin borgað hærri laun og fengið til sín hæfara starfsfólk. Hinn sem verr eru rekin yrðu þá að láta sér nægja það starfsfólk sem síður er talið gott til vinnu.

Hugleiðingar Theódórs um stóriðju eru réttmætar, en hann gleymir algerlega að þessi iðnaður gefur af sér fleiri störf en bara þeirra sem vinna beint hjá þessum fyrirtækjum. Hér upp á Grundartanga er tvö stóriðjufyrirtæki með samtals kringum 700 manns. Þar að auki eru 15 önnr fyrirtæki á svæðinu og öll nema eitt þjóna þessum tveimur stóriðjufyrirtækjum. Þar að auki hefur fjöldi fyrirtækja á Akranesi, í Borgarnesi og á Reykjavíkursvæðinu alla sína afkomu undir stóriðjunni á Grundartanga og þar á ofan er fjöldi fyrirtækja sem óbeint nýtur hennar. Hver sá fjöldi starfsmanna er sem hefur afkomu, bæði beint og óbeint, af stóriðjufyrirtækjunum á Grundartanga er erfitt að segja, en hann skiptir þúsundum.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að það var vegna stóriðjunnar sem raforkukerfi landsmanna var byggt upp og gert svo öruggt og gott fyrir landsmenn sem það er í dag. Meðan sú uppbygging stóð yfir, á níunda áratugnum, var Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notuð sem stuðpúði fyrir raforkukerfið. Þegar mikil notkun var hjá landsmönnum var lækkað á ofnum verksmiðjunnar og síðan þegar landsnotkun minnkaði aftur voru ofnarnir keyrðir á fullu. T.d. var nánast slökkt á ofnum verksmiðjunnar á aðfangadagskvöld, svo landsmenn gætu eldað sína steik af öryggi, en ofnarnir síðan keyrðir aftur upp að mat loknum og fólk sneri sér að pökkunum. Þeir sem muna hvernig ástandið var í raforkumálum landsins, allt fram undir lok áttunda áratugar síðustu aldar, geta þakkað stóriðjunni. Án hennar hefði þjóðin aldrei haft efni á né getu til að koma á svo öruggu raforkukerfi fyrir landið sem nú er.

Það er svo alltaf spurning hvenar nóg er komið af stóriðju og vel getur verið að þeim tímapunkti sé nú náð, þó vissulega eigi að klára það sem byrjað hefur verið á. Að alhæfa að stóriðjan sé slæm og skili litlu, er bull.

Anna, þú segist aldri ætla að kjósa xD aftur. Maður á aldrei að segja aldrei. Sjálfur hef ég ekki enn sett mitt x fyrir framan D, og hélt að það myndi aldrei verða. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Mér verður æ oftar hugsað til þess stafs þegar ég hugsa til næstu kosninga, ekki vegna góðrar frammistöðu þingmanna flokksins, þeir hafa lítið gert til að ná mínu atkvæði. Nei, það eru Steingrímur og Jóhanna sem eru bestu veiðimenn atkvæða fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dag. Það verður með öllum ráðum að koma þein tveim flokkum frá sem þau eru í forsvari fyrir og ef það þíðir að setja verður x fyrir frama D, verður svo að vera, það eru ekki aðrir kostir í boði, því miður.

Mér liði samt betur með að setja mitt x fyrir framan D, ef  flokkurinn tæki svolítið betur til hjá sér, losaði sig við þá sem hægt er að segja að séu mengaðir af hruninu og losaði sig að fulli við þá sem bera hug til ESB. Það er þar sem flokkurinn og reyndar allir flokkar og framboð, verða að hafa hreina stefnu. Það atriði mun vega mest hjá mér í næstu kosningum og útilokað að ég gefi flokki sem ég ekki treysti á því sviði, mitt atkvæði. Enn er ekki hægt að treysta Sjálfstæðisflokknum þar.

Gunnar Heiðarsson, 29.7.2012 kl. 08:23

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Pistill Jóns Ríkharðssonar, "Gegn hagsmunum verkalýðsins", er áhugaverð lesning, t.d. varðandi það, hverjum mismunandi atvinnugreinar veita vinnu.  Eiginleg stóriðja hófst með Íslenzka Álfélaginu, ISAL, í Straumsvík.  Félagið var stofnsett 1967, þegar hagkerfið var í miklum öldudal og atvinnuleysi var mikið og fór vaxandi, af því að sjávarútvegurinn gekk illa.  Viðreisnarstjórnin samdi við Alusuisse um að reisa álverið til að vinna bug á atvinnuleysinu og til að setja fleiri stoðir undir gjaldeyrisöflunina.  Þetta tókst vel.  Mikið vatn er síðan til sjávar runnið, og nú er svo komið, að áliðnaðurinn er hátækniiðnaður.  Með beztu fáanlegu tækni, sem íslenzkt fagfólk á fjölmörgum sviðum, stendur að baki, eru íslenzku álverin í fremstu röð varðandi litla losun koltvíildis (CO2) og annarra óæskilegra efna út í andrúmsloftið, og mengun sjávar frá álverum er nánast engin.  Fjölmargt verkafólk, iðnaðarmenn og tæknimenn af ýmsu tagi vinna í íslenzka áliðnaðinum.  Hann veitir þannig fjölbreytilegu fólki vinnu.

Undanfarin misseri hefur staðið yfir mikil viðbót við tæknilega innviði í Straumsvík og umbylting framleiðslutækja í Steypuskála ISAL, sem ákveðin var fyrir Hrun.  Þetta hefur létt undir byggingariðnaðinum hér á SV-landi og veitt fjölmörgu tæknifólki vinnu.  Atvinnuástandið hefur skiljanlega batnað, þegar verk upp á tæplega 1000 ársverk er í gangi. 

Það eru margir fúsir til að gera Sjálfstæðisflokkinn að blóraböggli fyrir Hrunið.  Niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis var þó ekki sú.  Siðleysi bankakerfisins var þar um að kenna.  Hvað gerum við til að hindra endurtekningu ?  Það væri að stinga hausnum í sandinn að neita sjálfum sér um að velja þann stjórnmálaflokk, sem manni þykir almennt gæfulegastur fyrir landið í Alþingiskosningum.  Það á að skipta bankakerfinu upp í innlánsstofnanir og fjárfestingarbanka og láta báða spila án ríkistryggingar.  Það er heilbrigðast og kemur í veg fyrir kerfishraun, þó að einstök fyrirtæki geti eftir sem áður hrunið.

Bjarni Jónsson, 29.7.2012 kl. 12:07

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þú kemur með mjög góða athugasemd að vanda Gunnar og setur hana fram í vel rökstuddu máli.

Það er rétt sem þú bendir á, varðandi Theódór, skoðanir hans eru vissulega réttmætar, en byggðar á huglægu mati og slíkt er erfitt að rökræða. Allt sem þú segir um álverin passar við það sem ég hef kynnt mér.

Svo varðandi Sjálfstæðisflokkinn, án þess að ég forðist að ræða einstaka þingmenn, þá er það erfitt fyrir mig af eðlilegum ástæðum.

Eftir hrun þá byrjaði ég fyrst að skipta mér af flokknum, af einhverju viti. Ég setti mig í sambandi við þingmenn og fyrrum ráðherra, átti langa og góða fundi með ansi mörgum í þesum hópi.

Ég náði trúnaði flestra og hef heyrt margt, sumt er trúnaðarmál og annað ekki. Ekkert bendir til þess að þetta fólk sé óheiðarlegt og þau hafa sagt við mig margoft, að þau iðrist sárlega að hafa ekki hagað sér öðruvísi, iðrunin er svo djúp að einn átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar við ræddum árin fyrir hrun. En þau eiga því miður erfitt með að koma iðruninni til skila, þjóðin virðist ekki treysta þessu fólki nema að það ræði af sömu hreinskilni og þau gerðu við mig og það er þá væntanlega þeirra að verða við því.

Eitt get ég þó fullvissað þig um Gunnar, varðandi ESB. Hafandi setið alla landsfundi flokksins síðan 2007, þá veit ég að það er útilokað að flokkurinn styðji inngöngu í sambandið.

Það eru örfáir í flokknum sem styðja inngöngu í ESB og þótt það verði einn til tveir í þingliðinu, þá er útilokað að þeim takist að breyta skoðun meirihlutans.

Annars er best fyrir þig og alla, sem vilja hægri stefnu, að beita sér innan flokksins, hafa áhrif á framboðslista og tjá sig á fundum. Kosturinn við flokkinn í dag er sá, að hin almenni flokksmaður er tilbúnari til að láta til sín taka og veita aðhald. Sem betur fer er leiðtogadýrkunin minni en hún var, það segja mér menn sem hafa verið virkir í flokknum frá því að Ólafur Thors var formaður.

Jón Ríkharðsson, 29.7.2012 kl. 13:07

10 identicon

Landsfundur Sjálfstæðismanna samþykkti að greiða ekki Icesave, meirihluti þingflokksins, samþykkti að greiða.

Landsfundur Sjálfstæðismanna samþykkti að afnema verðtrygginguna, og færa höfuðstól stökkbreytra lána heimilanna niður.Þingflokkurinn neitar að aðhafast nokkuð í málinu.

Er þetta ekki nægilegt, að það er ekki hægt að treysta þessum flokki.

Sem betur fer er flokkur fólksins komin til að vera, Hægri Grænir, og er hann kominn á fljúgandi siglingu.

Halldór Guðmundsson 29.7.2012 kl. 13:12

11 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég get sagt það sama við þig og Gunnar, Bjarni, að þú kemur með góða athugasemd byggða á staðreyndum.

Ég las æfisögu Benjamíns H.J Eiríkssonar og þar er vel lýst upphafi álvers á Íslandi. Það hefði aldrei tekist án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, vinstri flokkarnir voru alfarið á móti því. Þá var umhverfisvernd ekki komin í tísku hjá þeim, heldur töldu þeir fólki trú um að útlendir auðhringir myndu gleypa landið með húð og hári.

Raunin varð hinsvegar sú, að með tilkomu álversins þá kynntust verkamenn betri kjörum en þeir gátu látið sig dreyma um, margir sem byrjuðu í upphafi unnu þar á meðan heilsan leyfði, starfsmannavelta var mjög lítil og ég held að það sé eins í dag.

Einnig er það rétt sem þú segir varðandi rannsóknarskýrsluna, enda dettur engum upplýstum einstakling, sem fylgist með heimsfréttum að einhverju leiti, að trúa því að stjórnmálaflokkar hafi orsakað hrunið, slíkt er mikil firra.

Koma þarf í veg fyrir það með öllum ráðum, að bankar njóti ríkisábyrgðar, þar erum við líka sammála. Skattgreiðendur eiga ekki að borga fyrir afglöp einkafyrirtækja.

Einnig er það vel orðað hjá þér þegar þú talra um; "þann stjórnmálaflokk sem er gæfulegastur fyrir landið". Engum dettur í hug að halda að Sjálfstæðisflokkurinn sé fullkominn og það þarf ekki spádómsgáfu til að segja að flokkurinn eigi örugglega eftir að gera mistök.

En í ófullkomnu manngerðu samfélagi, þá er Sjálfstæðisflokkurinn albesti og raunar eini kosturinn sem við höfum, ef við viljum endurreisa okkur á ný.

Jón Ríkharðsson, 29.7.2012 kl. 13:19

12 identicon

Aðeins vitleysingar kjósa sjálfstæðisflokkinn, flokkinn sem rústaði íslandi, flokkinn sem er enn með sömu ræflana innanborðs..
Ertu nokkuð blindur og heyrnalaus Jón... svona fyrir utan það að vera ómenntaður :)

DoctorE 30.7.2012 kl. 11:02

13 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér DoctorE, þú hefur staðfest með þinni athugasemd að ég er á réttri braut.

Já og takk fyrir umhyggjuna, ég er ekki blindur en hef samt ekki nógu góða sjón. Það reddast þó ágætlega með gleraugunum þannig að ég þarf ekki að kvarta. Heyrnin er ágæt, en ég held að mér hafi tekist að skadda hana örlítið vegna hávaðans sem oft er úti á sjó, þegar hlerarnir skella upp þá kemur svaka högg, stundum fæ ég verk í hljóðhimnuna og það er örugglega ekki gott fyrir heyrnina.

En þetta háir mér ekkert, ég heyri ágætlega. Þetta með menntunina, það er rétt að ég hef ekki mikla skólamentun að baki, er eiginlega ómenntaður í þeim skilningi.

En sjónin virkar þokkalega, eins og ég gat um áðan og heyrnin líka. Þökk sé skólaskyldunni, ég lærði að lesa í barnaskóla og þá get ég nýtt mér þekkingu menntaðra manna sem hafa verið svo elskulegir að setja þekkingu sína á blað. Einnig gerir heyrnin það að verkum, að ég heyri ágætlega ýmislegt sem menntaðir menn hafa fram að færa, svo vingsar maður það besta úr eins og gengur, því ekki er allt jafn gagnlegt.

Þú ert hugulsamur DoctorE og manst alltaf eftir mér, það kann ég sannarlega að meta.

Jón Ríkharðsson, 30.7.2012 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband