Þriðjudagur, 7. ágúst 2012
Kjör sjómanna hafa versnað.
Fjölmiðlar hafa óskaplega gaman af að segja frá í hvert sinn sem einstakar áhafnir þéna vel. Að sjálfsögðu er það alltaf gleðilegt þegar vel fiskast, fyrir útgerðir, sjómenn og þjóðarbúið í heild og eining ber að gleðjast yfir háum launum flestra sjómanna um þessar mundir, en það er villandi að tala eingöngu um launin á þessum óvenjulegum tímum.
Kjör sjómanna versnuðu í síðustu kjarasamningum, skiptaprósentan lækkaði um rúmlega eitt prósent og auk þess lækka launin okkar ef útgerðir fjárfesta í nýjum skipum.
Það gleymist líka að ræða um laun sjómanna á bóluárunum, þá voru þau lág og vandræði að manna flotann. Svo lækkaði gengið umtalsvert eftir hrun og það hefur haldist lágt síðan. Þess vegna eru launin svona há og þau lækka um leið og gengið styrkist.
Ekki má heldur gleyma að á sama tíma og launin okkar hækka, þá hækkar verð á innfluttum varningi og afborganir af verðtryggðum lánum hækka líka.
Við sjómenn höfum góð laun núna, en enginn veit hversu lengi það varir, því kauphækkunin er ekki tilkomin vegna kjarabóta og ekki má gleyma því að tryggingin er innan við tvöhundruð þúsund á mánuði, margir eru á henni hluta úr ári og hásetar á trillum eru án kjarasamninga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.