Miðvikudagur, 9. janúar 2013
"Það er best að við skrifum söguna sjálfir".
Hinn vitri leiðtogi Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn þessi fleygu orð; "það er best að við skrifum söguna sjálfir". Hann þekkti þá áráttu andstæðinga okkar sjálfstæðismanna, að nota lygina til að sverta okkar ímynd.
Varla telst ég í hópi þekktustu talsmanna Sjálfstæðisflokksins, engu að síður hef ég ekki farið varhluta af lyginni sem beinist að persónum þeirra sem fylgja sjálfstæðisstefnunni. Þess vegna ákvað ég að segja mína sögu sjálfur. Að sönnu nær sannleikurinn ekki eyrum allra, en vonandi eru þeir fleiri sem vilja hann fremur en lygina.
Ég ólst ekki upp í pólitísku umhverfi, eina pólitíkin sem ég heyrði í æsku var hatur á "helvítis íhaldinu". Forfeður mínir voru allir sjómenn, verkamenn og bændur, faðir minn stundaði láglaunavinnu alla tíð. Ungur að árum kynntist ég Jóni Magnússyni, sem flestir þekkja deili á.
Árið 1986 tók hann þátt í prófkjöri og ég skráði mig í Sjálfstæðisflokkinn til að kjósa hann en hafði enga sérstaka hugsjón. Þó geri ég ráð fyrir að hafa alltaf verið hægri sinnaður í lífsskoðunum, ég hafði bara um margt annað að hugsa. Vitanlega varð ég var við jákvæða stemmingu þegar Davíð tók við, árið 1991 þannig að hann varð fljótt í miklum metum hjá mér. Ég hef verið mest á sjónum, frá unglingsaldri, þannig að ég hef ekki alltaf mætt í kjörklefann. Ég spáði aldrei neitt í þjóðfélagsmál á yngri árum og var alveg sama hvort ég kysi eður ei.
Svo varð ég reiður út í Sjálfstæðisflokkinn vegna framsalsins og kvótans, gekk í Frjálslynda flokkinn. Mér líkaði ekki stemmingin þar, hún var of neikvæð fyrir minn smekk þannig að ég gekk til liðs við Nýtt afl og var í stjórn þess um hríð. Svo þegar ákveðið var að sameinast Frjálslynda flokknum þá leist mér ekki á það.
Ég hitti vin minn, sem lengi hefur verið virkur í Sjálfstæðisflokknum. Hann bað mig að gefa flokknum tækifæri, ég gerði það og fór að mæta á fundi í Grafarvoginum. Mér líkaði stemmingin þar, hún var jákvæð og skemmtileg. Svo var ég tilnefndur í stjórnina þar og sat sem óvirkur stjórnarmaður til ársins 2008, þegar allt hrundi. Þá gerðist eitthvað innra með mér, það kviknaði neisti sem varð að miklu báli er logar enn.
Ég gat ekki skilið það, að Sjálfstæðisflokknum var kennt um allt sem miður fór. Mér fannst Samfylkingin koma mjög ódrengilega fram við sinn fyrrum samstarfsflokk. Svo fór ég að grúska og lesa mér til, um stjórnmálasögu lýðveldistímans.
Þá sá ég jú, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði oft gert mistök og stundum gleymt sinni stefnu. En það var áberandi hversu mikla yfirburði hann hafði og hefur alltaf haft yfir vinstri flokkanna. Ég sá að forystan var lömuð og fáir til að verja flokkinn. Þá ákvað ég að gera það sjálfur, byrjaði haustið 2009 og er enn að.
Vitanlega er þessi frásögn einföldun, því ég hef alltaf lesið talsvert og var fyrir löngu búinn að kynna mér stefnur allra flokka. Á tímabili var ég ekki viss hvort ég væri sjálfstæðis eða framsóknarmaður, en Sjálfstæðisflokkurinn hafði vinninginn. Pólitískur áhugi hefur vafalaust verið til staðar alla tíð, en ég hafði ekki séð ástæðu til að rækta hann fyrr en á þessum tíma.
Af ofangreindum sökum á ég bágt með að skilja suma sjálfskipaða vitringa bloggheima, sem trúa því að þeir geti þekkt mig og mína sögu án þess að hafa hitt mig augliti til auglitis. Þeir taka sg til og ljúga því, hvar í kapp við annan, að ég sé heilaþveginn af Valhöll og jafnvel taglhnýtingur sérhagsmuna. Aldrei, ekki í eitt einasta skipti, hafa þeir hrakið neitt af því sem ég hef sett fram.
Enda styðst ég við skotheldar heimildir og gæti þess að fara ekki með fleipur. Ég hef enga þörf fyrir að hafa rétt fyrir mér, ég vill þá stefnu sem virkar best fyrir þjóðina í heild. Sagan hefur sýnt það með óyggjandi hætti að það er sjálfstæðisstefnan. Í stað þess að reyna að ljúga upp á saklaust fólk, þá væri andstæðingum Sjálfstæðisflokksins nær að búa til betri stefnu, það væri þá í áttina að framför.
Og að lokum tek ég fram, enn og aftur, ég bókstaflega þoli ekki fólk sem lýgur upp á mig og þeir sem vilja sverta mína persónu skulu gera það á öðrum síðum.
Þessi síða á að hafa fallega áferð, þeir sem eru á öndverðum meiði við mig mega gjarna tjá sig. En þeir sem ástunda þann ljóta leik, að sverta persónur, þeir verða umsvifalaust útilokaðir frá þessari síðu og hreinræktaðar lygar líð ég ekki heldur.
Ég hef verið umburðarlyndur til þessa, en núna er það "no more mr. nice gay" við lygalaupa og þá sem ástunda persónuníð, ég vill ekki sjá svoleiðis lið í athugasemdarkerfinu.
Athugasemdir
Meinti hann ekki frekar það, að ef aðrir en Sjallar skrásettu söguna - þá gæti komið upp sú staða að atburðum yrði lýst á raunsæjan hátt og Sjallar kæmu þ.a.l. illa út sem vonlegt væri.
Bjarni kom strax þarna með þá teoríu að þeir Sjallar þyrftu að falsa söguna og berja fölsunina inní innbyggjara með handafli - sem þeir og gjörðu og gera allt til þessa dags.
þetta er miklu frekar svona sko.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.1.2013 kl. 12:58
Góð grein hjá þér að venju Jón Ragnar. Þú verður örugglega ekki í neinum vandræðum með að skrifa innlegg í sögu Sjálfstæðisflokksins með svona aðstoðarmann eins og Ómar Bjarka. Hann er sko með þetta allt á hreinu og hefur alltaf verið.!!!
Aðalbjörn Þór Kjartansson 9.1.2013 kl. 13:59
Góðan daginn Ómar Bjarki, þú ert sennilega ómeðvitað einn besti stuðningurinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þess vegna mun ég aldrei loka á þig.
Um leið og fólk les þínar athugasemdir, tja, þá er ólíklegt að það aðhyllist vinstri mennskuna.
Eigðu góðan dag vinur:)
Jón Ríkharðsson, 9.1.2013 kl. 14:54
Rétt Aðalbjörn, ég á marga góða bandamenn sem skrifa á svipuðum nótum og Ómar Bjarki, þeir sópa fylgi til Sjálfstæðisflokksins, algerlega ómeðvitað. Eiginlega vantar fleiri svona, Ómar er aldrei illskeyttur, hann má eiga það.
Jón Ríkharðsson, 9.1.2013 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.