Nei, ég er ekki í framboði til alþingis.

Í afar sérstæðum deilum, sem ég er ekki lengur þátttakandi í þótt andstæðingur minn haldi ótrauður áfram, kom m.a. fram að ég væri væntanlegt þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlileg ályktun, þar sem ég hugðist fara í framboð og gaf það út á síðasta landsfundi, þar sem ég flutti tilkynningu þess efnis.

Ástæðan fyrir framboðinu er ekki sú að ég hafi svo mikla löngun til að setjast á þing, þvert á móti þá finnst mér það hræðileg tilhugsun. Umræðuhefðin á Íslandi er þess eðlis, að það þykir voða fínt að rangtúlka allt sem sagt er, til þess að gera fólk sem er á annarri skoðun eins tortryggilegt og mögulegt er. Ég hef fengið einn og einn í athugasemdarkerfið hjá mér, sem hefur þennan leiðinda kæk, en það sem heldur mér gangandi í blogginu eru þeir góðu gestir sem hafa sýnt mér mikla tryggð og ég hef myndað jafnvel góð vináttutengsl við suma þeirra. Það er mér mikils virði.

Ef ég væri á þingi, þá væri ég með heila stjórnmálaflokka sem myndu snúa út úr mínum orðum, auk þess að hafa fjölmiðla og alla hina virku í athugasemdum á móti mér líka. Mörgum þykir þetta eflaust ansi bratt, að segja þetta, en ég tala alltaf hreint út og stuða mína pólitísku andstæðinga ansi mikið af þeim sökum.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun var sú, að margir hvöttu mig til að taka þetta skref og eftir að þekktur þungavigtarmaður innan Sjálfstæðisflokksins ræddi við mig drjúga stund og sannfærði mig um, að ég gæti orðið til gagns, þá ákvað ég að slá til.

En ég fór óhefðbundnar leiðir í minni kosningabaráttu, sem hófst mjög snemma og hætti áður en prófkjörsbaráttan formlega hófst. Ég kynnti mínar áherslur helst á Facebook og þar sagði ég m.a. að ef ég næði kjöri, þá væri ég sá fyrsti sem yrði kosinn út á það að lofa helst engu öðru en niðurskurði í ríkisútgjöldum, mér er illa við fjáraustur í vasa heilbrigðs fólks en vill að sjálfsögðu hjálpa þeim sem geta ekki hjálpað sér sjálfir. Ég ólst upp við lítil efni og veit að blankheit gera engum illt, þau geta hvatt fólk til mikilla afreka eins og sagan hefur sýnt, ef metnaður er til staðar.

Svo ákvað ég að tryggja mig mjög vel, gegn öllum mögulegum hættum er geta steðjað að stjórnmálamönnum, ef þeim gengur vel. Ef svo færi að ég yrði vinsæll og jafnvel virtur, það veit enginn sína æfi fyrr en öll er, þá gæti sú hætta verið til staðar að ég færi að ofmetnast. 

Ég gaf m.a. skipstjóranum mínum eina skipun og hann tók henni mjög vel. Hann verður ansi reiður ef ég geri mistök, sem eðlilegt er, þá á ég það skilið. 

Ég skipaði honum að hringja í mig og hundskamma mig, ef ég færi að gleyma því sem ég var kosinn út á. Skipstjórinn var ekki sá eini, allir mínir vinir fengu þessi sömu fyrirmæli og þeir hefðu allir hlýtt þeim. Stjórnmálamenn verða að fá aðhald.

Satt að segja var ég orðinn ansi kvíðinn fyrir því að verða jafnvel kosinn, en ég beit á jaxlinn því maður þarf að klára þau verkefni sem byrjað er á. Ég myndi þá klára kjörtímabilið og sjá svo til, hvort umræðan hafi skánað að einhverju marki. En svo fékk ég gullið tækifæri, var kosinn formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins og þar sem ég hef engan metnað til að sitja á þingi eða verða ráðherra, þá kem ég til með að gera meira gagn á vettvangi verkalýðsráðsins.

Við sem veitum því forystu ætlum að finna efnilegt fólk, sem hefur áhuga, vilja og getu til að sitja í sveitastjórnum og á þingi. Við viljum byggja upp Sjálfstæðisflokkinn og hafa hann sem leiðandi afl til framtíðar.

Sumir hafa nefnt þann möguleika við mig, að ég gæti þá tekið þátt í prófkjöri eftir fjögur ár. Það er ólíklegt að ég nenni því.

Ég hef unnið mjög mikið alla tíð og verið í litlum samskiptum við þá sem ég elska mest. Ég skulda sjálfum mér og þeim meir tíma. Þess vegna er það á stefnuskránni hjá mér að minnka við mig vinnu, smátt og smátt til sextugs og þá geri ég ráð fyrir að hætta að mestu leiti að vinna ef ég hætti þá ekki alveg. Að sitja á þingi er sólahrings vinna, ef maður vill sinna sínum störfum af heilidum. Það gefst þá lítill tími fyrir fjölskyldu og vini.

Sjómennskan þýðir vissulega miklar fjarvistir, en það eru ágæt frí annað slagið. Ég er feginn því að þurfa ekki að sitja á þingi, þeir sem fórna sér í það vanþakkláta og erfiða starf eiga heiður skilinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Það eina sem virðist vera fyrirstaðan fyrir þingmennsku þinni er að þú nennir því ekki. Ég efast ekki um að þú yrðir góður þingmaður ef þú legðir þig fram, en því miður vilja krosstré bregðast sem önnur tré þegar út í slaginn er komið og menn missa sjónar á upphafstilgangi sínum. Um þetta eru því miður mýmörg dæmi í þinginu eins og við vitum bæði.

Fólk hefur setið og situr þarna, lon og don, og heldur að það sé að vinna fyrir sjálft sig, gleymir algerlega kjósendum, þeim sem komu þeim í þessa vinnu og virðast halda að þeir séu eitthvað prívatfyrirtæki, með sjálfstæða atvinnustarfsemi, sér og sínum til hagsbóta. Kjósendur gleymast alveg þar til líður að næstu kosningum þegar ný hrina af loforðum um gull og græna skóga hefst og kjósendur láta blekkjast aftur og aftur.   

Að nokkur óbrjálaður maður geti tekið þátt í þessu er ofar mínum skilningi, en sem betur fer eru þeir nokkrir sem láta sig hafa það, eru heiðarlegir og vinna vinnuna sína í þágu almennings, án þess að líta niður á hann.

Þess vegna óska ég þér til hamingju með þessa ákvörðun Jón, og vona að þú farir ekki að tapa glórunni í framtíðinni í þessum darraðadansi sem þingmennska er, til þess held ég að þú sért of góður maður.

Bergljót Gunnarsdóttir, 15.1.2013 kl. 14:16

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég get tekið undir það sem þú segir Bergljót, pólitíkin er því miður afskaplega ljót en hún á að vera göfug og falleg. Það eru margar ástæður fyrir því að mér hugnaðist þetta ekki. Satt að segja, þá tel ég mig hafa meiri áhrif í núverandi stöðu heldur en sem þingmaður.

Pólitíkin á að vera vettvangur sem fólk berst fyrir sínum hugsjónum og kynnir sínar áherslur, en í staðinn fer mestur tíminn í að rakka niður persónur.

Mér er meinilla við persónuníð, ég tel að þeir sem gefa kost á sér til alþingis geri það í góðri trú, sama hvort þeir eru til hægri eða vinstri. Svo þegar á þing er komið, þá eru hinir ýmsu hópar sem ná að hafa áhrif á skoðanir þingmanna og þeir sem eru sannfærandi ná oft að hafa mikil áhrif.

Mig langar mest, um þessar mundir, til að berjast fyrir bættri umræðuhefð á netinu. Það gengur ekki að venjulegt fólk, sem hefur sterkar skoðanir, þurfi að þola persónuníð frá ókunnugu fólki. Ég skil reiðina en það má ekki láta hana stjórna sér, því miður gera það of margir.

Jón Ríkharðsson, 15.1.2013 kl. 17:21

3 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Ég er sammála þér, en þetta með reiðina getur gengið svo út yfir allan þjófabálk að menn eru ekkert að svara neinu, heldur bara að snúa út úr því sem sagt er. Mér hafa verið lögð orð í munn á síðunni minni, orð sem ég myndi aldrei sóma míns vegna látið mér detta í hug, hvað þá viðhafa.

Að hafa stjórnmálaskoðanir hér á blogginu kallar á allskyns óþverra frá þessum "reiðu" mönnum, sem af einhverjum ástæðum hatast út í allt og alla bara ef viðkomandi bloggarari er flokksbundinn einhversstaðar og lætur það uppi.

Að mínu mati flokkast þetta undir botnlausa frekju og lýsir ákaflega lélegum karakter, þ.e. ef menn eru bara ekki snarbilaðir.

En að berjast fyrir mannsæmandi orðbragði og almennri kurteysi hér á blogginu, og svo sem annarsstaðar líka, er góður málstaður að berjast fyrir. Gangi þér vel.

Bergljót Gunnarsdóttir, 15.1.2013 kl. 18:14

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Já Bergljót, það er mikið af skrítnu fólki í netheimum. Ég hef aldrei hitt svona mikið af furðufuglum áður, svei mér þá.

Vitanlega á að virða stjórnmálaskoðanir fólks, það geri ég og hef alltaf gert. Ekki fer ég á síður pólitískra andstæðinga til að rakka niður þeirra skoðanir, ég virði þeirra rétt til að berjast fyrir þeim í friði. Hinsvegar svara ég fyrir mig, ef menn koma með athugasemdir á mína síðu. Annars er ég farinn að henda út verstu rugludöllunum, ég er hættur að nenna þessu þrasi.

Fátt leiðist mér meira en þras og þrætur, en rökræður geta verið skemmtilegar. Það er bara ekki margir sem kunna að rökræða.

Jón Ríkharðsson, 15.1.2013 kl. 19:06

5 Smámynd: Viggó Jörgensson

Sæll Jón.

Ef þú lætur Hilmar þennan trufla þig svona mikið.

Þá skaltu ekki fara út í virka stjórnmálaþátttöku, bara alls ekki.

Manstu eftir öllu því sem skrifað var um Davíð Oddsson á Eyjunni og hjá Agli Helgasyni.

Davíð væri orðinn auðmaður ef hann hefði farið í meiðyrðamál út því öllu.

En þegar ég fór að reyna að rökræða við Egil minn þá gat hann engu svarað.

Og lokaði á mig á þeirri forsendu að ég hafi ekki talað nægilega fallega um heilaga Jóhönnu og co.

Það voru samt hreinir barnasálmar miðað við það sem hann leyfði að sagt væri um Davíð o. fl. hægri menn.

Viggó Jörgensson, 15.1.2013 kl. 20:25

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sæll Viggó, hvorki Hilmar né aðrir trufla mig að ráði, ég held mínu striki.

Það er hárrétt sem þú segir varðandi Davíð, hann þurfti sannarlega að þola margar árásir og þarf enn og ég kannast við það sem þú segir um Eyjunna.

Ég tel mig í betri aðstöðu til að berjast fyrir Sjálfstæðisflokkinn utan þings, það tekur talsverðan tíma að læra þingstörfin og svo er þetta ansi mikil vinna og lítill tími til að sinna flokksstarfinu.

Ef ég hefði ekki verið kosinn formaður verkalýðsráðsins, þá hefði ég látið á þingmennskuna reyna og ekki gefist upp fyrir neinum,, allra síst hugsjúkum kennara. Hann er satt að segja ekkert sérstaklega beittur, en leiðinlegur er hann, mikil ósköp. Sá sem gefst upp fyrir leiðinlegu fólki, hann hefur ekki mikinn kjark til að berjast.

Þú sérð að ég er enn að blogga og alls ekki hættur.

Jón Ríkharðsson, 16.1.2013 kl. 00:54

7 Smámynd: Viggó Jörgensson

Baráttukveðjur til þín og allra bloggara.   

Viggó Jörgensson, 16.1.2013 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband