Myrkrahöfðingjarnir.

Eftir vel heppnaðan fund með sjálfstæðismönnum átti ég gott spjall við einn af þingmönnum flokksins.

Okkur bar saman um að við ættum gott innlegg í kosningabaráttuna, skýra stefnu í skuldaaðlögun fólks sem lágmarkaði kostnað ríkissjóðs eins mikið og mögulegt er. Við getum ekki boðið upp á kostnaðarsamar lausnir á meðan ríkissjóður skuldar mikið og óvissa ríkir í heimsbúskapnum.

Við vorum svolítið hissa á hversu lágt við skorum í skoðanakönnunum og þá benti þingmaðurinn mér á að ennþá væri til fólk sem kenndi Sjálfstæðisflokknum um hrunið og treysti honum ekki.

Það kemur á óvart að eftir allan þennan tíma og allar fyrirliggjandi upplýsingar skuli vera til fólk í upplýstu landi sem trúir á þessa dellu. Rannsóknarskýrslan skýrir ágætlega frá ástandinu sem ríkti í heiminum árin fyrir hrun og augljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn átti engan þátt í því. Mikið fjármagn safnaðist upp og leitaði ávöxtunar, ofurtraust ríkti á mörkuðum þannig að vextir voru mjög lágir. Svo komu ýmsar afleiður til sögunnar, undirmálslánum pakkað í vafninga osfrv., þetta var hættuleg blanda.

Heimurinn var heltekinn af græðgi og auðmenn stjórnuðu umræðunni á Íslandi, þeir áttu fjölmiðlanna. Ef einhver stjórnmálamaður hefði farið að setja bönkum stólinn fyrir dyrnar, þá hefði viðkomandi verið tekinn af lífi í öllum fjölmiðlum eins og skot.

Þetta eru staðreyndir málsins, en hvers vegna trúa margir því ennþá að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valdið hruninu?

Jú, myrkrahöfðingjarnir sem hafa hæst í netheimum. Ekki er verið að líkja þeim við djöfla, heldur var oft talað um ljós þekkingar og myrkur vanþekkingar til forna, það er ástæðan fyrir því að talað er um "að vera upplýstur".

Myrkrahöfðingjarnir forðast ljós þekkingar því það hentar ekki þeirra málsstað og of fáir nenna að kynna sér staðreyndir.

Í stað þess að trúa þeim sem forðast þekkinguna ætti fólk að lesa fyrsta bindi rannsóknarskýrslunnar bls. 58 og skoða nokkrar blaðsíður í viðbót. Svo er hægt að skoða ýmsar gamlar fréttir til að skilja stemminguna sem ríkti og rifja upp ástandið sem var árin fyrir hrun.

Ef ljósið er kveikt þá hverfur myrkrið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband