Já, það varð hrun.

Fáir eru eins meðvitaðir um þá staðreynd að fjármálakerfi heimsins hrundi fyrir örfáum árum og sjálfstæðismenn. Við vitum það einnig að enn er hrunið að verki og ekki sér fyrir endann á efnahagserfiðleikum okkar viðskiptaþjóða.

Þess vegna er nauðsynlegt að fara gætilega í loforðum fyrir kosningar, ríkissjóður skuldar of mikið og nauðsynlegt er að búa sig undir lítið fjárstreymi til landsins á næstu misserum.

Í ljósi síðustu skoðanakannana er mjög freistandi fyrir sjálfstæðismenn að taka undir loforðaflauminn um tugi prósenta niðurfellingu skulda. Mörg heimili eru ofurskuldsett og standa ekki undir greiðslum af lánum. Af þeim sökum fagnar fólk öllum hugmyndum um lækkun skulda.

En er raunhæft að lækka skuldir heimilanna án þess að það kosti ríkissjóð stórar upphæðir? 

Sannarlega langar okkur öll til að trúa því og lagðar hafa verið fram sannfærandi tillögur um að það sé hægt. En ekkert í þessum heimi er sjálfgefið, sama hversu tillögurnar eru sannfærandi þá geta komið upp ófyrirséð vandamál.

Góðir og hæfir verkfræðingar gera nákvæmar kostnaðar og verkáætlanir en þær standast ekki alltaf. Oftast kosta verk meira en talið var.

Helst eigum við ekki að taka neina áhættu heldur draga saman seglin og fara mjög varlega í fjármálum. En það er nauðsynlegt að hjálpa heimilum landsins eins vel og mögulegt er.

Þess vegna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að nýta skattkerfið til að auðvelda fólki að borga af lánum. Það er ekki mjög rausnarlegt en ábyrgt á óvissutímum. Þetta er loforð sem örugglega er hægt að standa við án þess að ríkissjóður verði settur í mikla hættu. Sjálfstæðisflokkurinn bætir svo um betur, hann kemur til móts við þann hóp sem skuldar ekkert og á ekki húsnæði. Þeim býðst að nýta afsláttinn til að safna fyrir íbúð. Slík leið er líka hagkvæm því hún hvetur til sparnaðar. 

Það þarf ekki að reikna út tillögur sjálfstæðismanna, þær eru einfaldar í framkvæmd og hægt að gera þær að veruleika strax eftir kosningar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband