Þriðjudagur, 9. apríl 2013
Í Sjálfstæðisflokknum eru allir jafnir.
Frá upphafi hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið opinn lýðræðisflokkur og öllum frjáls innganga og þátttaka í störfum hans.
Og allir hafa jafna möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri ásamt því að komast til valda í flokknum.
Davíð Oddsson er besti rökstuðningurinn en hann er dæmi um mann sem vann sig upp á eigin verðleikum. Hann ólst upp á efnalitlu alþýðuheimili og ekki fékk hann mikla meðgjöf út í lífið, annað en góðar gáfur sem hann kunni að nýta rétt.
Í upphafi þótti hann hálfgerður sprelligosi og fyrstu skref hans í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins voru ekki létt. Það tók tíma að öðlast traust þingflokksins og ekki var einhugur um hann sem formann því margir studdu Þorstein Pálsson.
Framhaldið þekkja svo allir, en eru til fleiri dæmi um einstaklinga sem náðu sínu fram af festu og reisn?
Á landsfund flokksins árið 2003 mætti Guðmundur nokkur Halldórsson trillusjómaður vestan af fjörðum. Hann var með tillögu sem vitað var að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru andvígir og það sem meira var, hún var í andstöðu við LÍÚ en þau samtök eru að sögn þeirra sem þekkja ekki Sjálfstæðisflokkinn allsráðandi.
Guðmundur flutti tillögu sína í sjávarútvegsnefnd og hún var felld. En hljóp ekki út af fundinum vælandi í fjölmiðla út af illsku Sjálfstæðisflokksins og hann sagði sig heldur ekki úr flokknum.
Eins og sönnum vestfirðingi sæmir, gafst hann ekki upp heldur barðist fyrir sínum málsstað af yfirvegun og festu. Guðmundur bar upp tillögu sína fyrir framan landsfundinn allan, rökstuddi mál sitt með miklum þunga og fékk samþykki fyrir því sem hann bar upp.
Og hvernig tók nú Davíð því þegar trillukall að vestan hjólaði í LÍÚ og ráðherralið Sjálfstæðisflokksins?
Davíð skrapp í heimsókn til Guðmundar í beitningaskúrinn fyrir vestan og hafði gaman af.
Þegar fólk boðar sínar hugsjónir þá þarf að gera það með reisn og án þess að vera með nöldur og stagl.
Þeir sem ekki hafa náð sínu fram innan Sjálfstæðisflokksins og klofið sig úr honum með látum, þeir hafa aldrei náð eyrum þjóðarinnar.
Margir hafa sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og reynt að boða sínar hugsjónir á öðrum vettvangi. Engum hefur til þessa tekist að ná eyrum þjóðarinnar.
Það bendir til þess að ekki er flokknum um að kenna heldur er aðferðarfræðin röng.
Athugasemdir
Hvaða tillaga var þetta.
Hörður 9.4.2013 kl. 15:50
Um línuívilnun.
Jón Ríkharðsson, 9.4.2013 kl. 16:27
Sæll Jón Ríkharðsson og takk fyrir grein þína. Ein spurning. Ertu að að ræða um Guðmund Halldórsson frá Bolungarvík?
Jónas Bjarnason 9.4.2013 kl. 16:40
Sæll Jónas, það passar.
Jón Ríkharðsson, 9.4.2013 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.